Lagt fram bréf Menntamálastofnunar þar sem fram kemur að stofnunin muni framkvæma ytra mat á leikskólum árið 2023, sbr. lög nr. 90/2008 um leikskóla og gildandi reglugerðir um mat og eftirlit.
Auglýst er eftir sveitarfélögum sem hafa áhuga á því að láta fara fram ytra mat á starfi leikskóla.
Í slíku mati felst að utanaðkomandi aðilar leggja mat á starfsemi viðkomandi leikskóla með hliðsjón af gildandi lögum, reglugerðum og aðalnámskrá. Það verður m.a. gert með því að skoða fyrirliggjandi gögn um starfsemi skóla, vettvangsathugunum, heimsóknum úttektaraðila og viðtölum við börn, starfsfólk leikskóla, foreldra og fulltrúa sveitarstjórnar, eins og segir í bréfi Menntamálastofnunar. Kostnaður vegna matsins greiðist úr ríkissjóði.
Umsóknir um ytra mat skulu berast Menntamálastofnun frá sveitarstjórnum fyrir 5. nóvember 2022.
Bæjarstjóri sagði frá því að Grundarfjarðarbær hefði á síðasta kjörtímabili sótt um að fá ytra mat á leikskóla, en ekki komist að.
Skólanefnd leggur til að sótt verði um úttekt nú, þar sem í niðurstöðum úttektar felist gagnlegar niðurstöður og upplýsingar sem gott og þarft sé að vinna með í faglegu starfi leikskólans, sem að mörgu leyti er á tímamótum.