Málsnúmer 2307006

Vakta málsnúmer

Bæjarráð - 607. fundur - 19.07.2023

Lagt er fram erindi með tölvupósti frá Jóhannesi Finni Halldórssyni, f.h. jarðareigenda Spjarar í Eyrarsveit, dags. 29. júní 2023, þar sem óskað er eftir því að sveitarfélagið smali ágangsfé úr landi Spjarar, sem sé skógræktarjörð.Lagt fram álit innviðaráðuneytisins í máli nr. IRN22050047 sem snerist um beiðni um smölun sveitarfélags á ágangsfé og minnisblað Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 3. febrúar 2023, um ágang búfjár.Í áliti innviðaráðuneytisins var eldra mál varðandi ágang búfjár tekið fyrir að nýju og fyrri leiðbeiningar ráðuneytisins um skyldur sveitarfélaga varðandi smölun á ágangsfé (útg. júní 2021) felldar úr gildi, í samræmi við álit umboðsmanns Alþingis (útg. október 2022). Minnisblað Sambandsins frá 3. febrúar sl. byggði ekki á þessu nýja áliti innviðaráðuneytis.Í áliti innviðaráðuneytisins er bent á að ekki sé samræmi í framkvæmd á milli ákvæða laga um búfjárhald og laga um afréttarmálefni, því í lögum um búfjárhald sé lausaganga búfjár skilgreind á þann veg að um sé að ræða lausagöngu þegar búfé gengur á annars manns lands í óleyfi og jafnframt að þörf sé á sérstakri friðun lands til að umgangur búfjár sé þar bannaður. Ákvæði laga um afréttamálefni kveði hins vegar á um að umgangur búfjár í annarra manna landi sé almennt bannaður. Því taldi ráðuneytið mikilvægt að ákvæði framangreindra laga yrðu endurskoðuð sem fyrst og sendi málið til matvælaráðuneytisins til að vekja athygli á þessu misræmi í lagaframkvæmd. Gerð leiðbeininga um ákvæði laga um afréttarmálefni var ennfremur vísað til matvælaráðuneytis.Í áliti innviðaráðuneytis sagði síðan að ákvarðanir um smölun á ágangsfé, og eftir atvikum ákvörðun um að leggja á kostnað vegna slíkrar smölunar á búfjáreiganda, séu stjórnvaldsákvarðanir í skilningi stjórnsýslulaga. Sveitarfélög þurfi því, við meðferð slíkra mála, að gæta að grundvallarreglum stjórnsýslulaga, svo sem að mál sé nægilega vel upplýst.Í álitinu kom einnig fram að það kynni þó „að vera heppilegt að mati ráðuneytisins, í ljósi þeirrar óvissu sem uppi er um framkvæmd umræddra ákvæða laga um afréttarmálefni, að sveitarfélög móti sér verklagsreglur um samræmda framkvæmd þessara mála, eftir atvikum með atbeina Sambands íslenskra sveitarfélaga.“Í umsögn viðkomandi sveitarfélags um það mál sem til skoðunar var í áliti innviðaráðuneytis, sem og í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga, kom fram að sveitarfélög landsins telji afar brýnt að fá skýrar leiðbeiningar með ákvæðum 31. og 33. gr. laga um afréttarmálefni.Á 919. fundi stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga fyrr á árinu samþykkti stjórnin að sambandið myndi eiga frumkvæði að því að koma á fundi milli fulltrúa innviðaráðuneytis, dómsmálaráðuneytis, matvælaráðuneytis, bændasamtakanna og Sambandsins, til þess að koma á samráðshópi um heildarendurskoðun á lögum um fjallskil, afréttarmálefni og tengdri löggjöf.Á fundi sem Samband íslenskra sveitarfélaga hélt um þetta viðfangsefni með fulltrúum sveitarfélaga þann 18. júlí sl. kom fram að löggjöf sé óljós og misvísandi, og úr því þurfi að bæta, og að fulltrúar Sambandsins muni eiga fund með matvælaráðuneytinu í ágústmánuði til að fara yfir þetta viðfangsefni.Bæjarráð telur brýnt að álit matvælaráðuneytisins komi fram í formi leiðbeinandi reglna, sem og að Alþingi hefji nú þegar endurskoðun á lögum um afréttarmálefni, fjallskil o.fl. til að eyða óboðlegri réttaróvissu við túlkun laga um búfjárhald og laga um afréttamálefni, fjallskil o.fl., er varðar skilgreiningar og leiðbeiningar á mikilvægum atriðum. Á það t.d. við um réttarstöðu aðila, hvernig standa skuli að fyrirkomulagi á smölun ágangsfjár, óvissu um ástand girðinga, skilgreiningu á ágangi búfjár, hvernig kostnaðarskipting skuli vera, hverjir teljist aðilar máls samkvæmt stjórnsýslulögum og fleiri veigamikil atriði þar sem gæta þarf að málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga, þ.m.t. um rannsóknarskyldu, meðalhóf, og andmælarétt. Samræmdar skilgreiningar á þessum mikilvægu atriðum þurfa að vera fyrirliggjandi og skýrar, áður en unnt er að taka afstöðu um viðbragð og verklag vegna smölunar ágangsfjár í sveitarfélaginu.

Bæjarráð áréttar, með hliðsjón af áliti innviðaráðuneytisins frá í júní sl., að hafa þurfi í huga ólíka stöðu landssvæða að því leytinu hvort afréttir séu í sveitarfélagi eða ekki, eins og hagar til á Snæfellsnesi. Í Eyrarsveit og á Snæfellsnesinu öllu eru einungis lönd í einkaeigu/heimalönd, auk takmarkaðra svæða sem nýlega voru skilgreind sem þjóðlendur, en engir afréttir.

Með vísan til framangreindrar réttaróvissu og til álits innviðaráðuneytisins frá í júní sl., um að viðhafa þurfi vandaða stjórnsýsluhætti við afgreiðslu slíkra mála, telur bæjarráð rétt að fresta afgreiðslu einstakra erinda um beiðni um smölun á ágangsfé þar til leiðbeinandi reglur ráðuneytis/ráðuneyta verði gefnar út eða þar til endurskoðun á lögum um afréttarmálefni, fjallskil o.fl. hefur farið fram. Verði töf á því eða skýrar bendingar komi fram um að einstök sveitarfélög verði að leysa úr óvissunni, án þess að lagagrunnur verði styrktur eða leiðbeiningar ráðuneytis komi fram, þá komi til greina að sveitarfélagið vinni eigin verklagsreglur. Er bæjarstjóra falið að fylgjast með niðurstöðu úr samtali Sambands íslenskra sveitarfélaga við ráðuneyti um þetta, sbr. framanritað.

Bæjarráð telur að ennfremur kunni að vera þörf á að ræða túlkun og mögulega endurskoðun fjallskilasamþykktar Snæfellsness við nágrannasveitarfélög og felur bæjarstjóra að taka það upp við fulltrúa nágrannasveitarfélaganna.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að vinna áfram að málinu í samræmi við umræður fundarins og framangreinda bókun.

Bæjarráð frestar afgreiðslu framlagðrar beiðni um smölun ágangsfjár og felur bæjarstjóra að svara bréfritara.