21. fundur 03. september 2025 kl. 16:30 - 17:30 í Ráðhúsi Grundarfjarðar
Nefndarmenn
  • Arnar Kristjánsson (AK) varaformaður
  • Garðar Svansson (GS)
Starfsmenn
  • Hafsteinn Garðarsson (HG) hafnarstjóri
  • Sigurður Valur Ásbjarnarson (SVÁ) skipulagsfulltrúi
  • Fannar Þór Þorfinnsson (FÞÞ) byggingarfulltrúi
Fundargerð ritaði: Hafsteinn Garðarsson hafnarstjóri
Dagskrá
Boðað er til fundarins af hafnarstjóra, í samráði við skipulagsfulltrúa, sem einnig situr fundinn.

Eftirtöldum er að auki boðið að sitja fundinn og taka þátt í umræðum, þar sem fundargerð hafnarstjórnar mun koma til kynningar bæði í skipulags- og umhverfisnefnd og í bæjarstjórn.

Bjarni Sigurbjörnsson, formaður skipulags- og umhverfisnefndar
Jósef Ó. Kjartansson, forseti bæjarstjórnar

1.Norðurgarður D_Fyrirspurn fasteignasala 01.sept.2025

Málsnúmer 2509007Vakta málsnúmer

Sigurður Valur, Halldór og Halldóra sitja fundinn í fjarfundi.



Hafnarstjóri opnaði fundinn.



Fram kom að boðað sé til þessa aukafundar um skipulagsmál á Norðurgarði, þar sem borist hefði fyrirspurn frá fasteignasala um skipulagsskilmála á lóð D á Norðurgarði.



Fram kom að Björg Ágústsdóttir, formaður stjórnar og bæjarstjóri hafi lýst sig vanhæfa til þessa máls og voru ekki gerðar athugasemdir við það.

- Fram kom hjá hafnarstjóra að forsagan væri sú að dúkhúsinu sem stóð þarna undir saltgeymslu hefði verið fundinn staður í miklum fljótheitum á þessum stað, þar sem skipulag á þeirri lóð þar sem reisa átti húsið var kært. Húsið hefði hins vegar aldrei passað almennilega á þennan reit á hafnarsvæðinu og stæði í vegi fyrir þróun þess til framtíðar. Öryggismál og brunakröfur hefðu verið erfiðar og ljóst að horfa þyrfti sérstaklega til þessara mála við uppbyggingu á lóð D og þar með endurnýjun allrar hönnunar. Nokkuð er síðan dúkurinn fauk af húsinu og var ekki settur upp aftur.
- Einnig sé ljóst að taka þurfi upp deiliskipulag á Norðurgarðinum, skoða lóðarleigusamninga og stærðir.

Skipulagsfulltrúi reifaði aðkomu sína að málinu:

- Hann hefði fengið póst frá byggingarfulltrúa, þar sem byggingarfulltrúi hafði svarað fyrirspurn frá fasteignasala. Í framhaldi hefði hann rætt við hafnarstjóra um nauðsyn þess að kalla til þessa fundar með hafnarstjórn til að velta upp framtíð svæðisins.
- Saltgeymsluhúsið hefði skemmst og starfsemi sem þarna var lagt upp með, hefði horfið af hafnarsvæðinu.
- Nýtt hús og nýjar áherslur myndu koma upp hjá nýjum fasteignakaupanda, sem væntanlega gæfi sér að geta nýtt núverandi lóð og húsgrunn.
- Skipulagsmál hafnarinnar væru í miklum brennidepli og skipulag hafnarinnar að taka miklum stakkaskiptum.
- Skipakomur hefðu aukist og nú væri verið að endurskipuleggja hafnarsvæðið m.a. m.t.t. aðgengismála, þar sem skoða þyrfti sérstaklega skipakomur og ferðamenn þeim tengdum. Aðgengismálin væru flókin m.t.t. öryggis en þarna fara um 70 þús. farþegar á ári, samhliða löndunum.
- Vegagerðin hefur svo sett fram kröfur um a.m.k. 5 til 6 m fjarlægð frá grjótgarði að húsunum á Norðurgarði.
- Svæðið við og á lóð D er mikilvægt í þessu sambandi og ljóst m.t.t. framangreinds að lóð D þurfi að breyta og minnka til mikilla muna og þannig breyta lóðarréttindum. Hús á lóðinni verði því aldrei byggt í sömu mynd og það sem þar stóð áður. Hafnarstjórn þurfi því að tilkynna eiganda lóðar um breytingar á lóðarstærð, komi til uppbyggingar. Óvissa hvernig uppbyggingu yrði best hagað er mikil.


Í kjölfarið voru miklar umræður um fyrirkomulag til framtíðar, stöðu mála og óvissu þessu tengdu fyrir þann aðila sem hygðist kaupa. Sá yrði settur í erfiða stöðu. Fundarmenn voru sammála um mikilvægi þess að koma framangreindum sjónarmiðum á framfæri við fasteignasalann sem annast söluna til þess að tryggja upplýsta ákvörðun í söluferlinu.

Niðurstaða fundarins var sú að allir fundarmenn voru sammála um að ekki verði byggt hús á lóðinni í þeirri mynd sem nú er. Nauðsynlegt sé að huga að brunavörnum og aðgengi og öryggismálum tengdum þeim. Þeim skilaboðum þurfi að koma á framfæri.

Hafnarstjórn fól því Halldóri Jónssyni, lögmanni að koma þeim skilaboðum á framfæri við fasteignasöluna sem hafði samband við Grundarfjarðarbæ.

Gestir

  • Halldóra Hreggviðsdóttir, ráðgjafi Alta, í fjarfundi - mæting: 16:30
  • Bjarni Sigurbjörnsson, formaður skipulags- og umhverfisnefndar - mæting: 16:30
  • Jósef Ó. Kjartansson, forseti bæjarstjórnar - mæting: 16:30
  • Halldór Jónsson hrl., í fjarfundi - mæting: 16:30
Minnispunktar voru teknir saman fyrir hafnarstjórn af Halldóru Hreggviðsdóttur, Alta, yfirlesnir af Halldóri Jónssyni hrl.

Að loknum fundi sendi hafnarstjóri minnispunktana til allra fundarmanna til yfirferðar og staðfestingar.

Fundi slitið - kl. 17:30.