207. fundur 27. nóvember 2019 kl. 16:30 - 19:06 í Ráðhúsi Grundarfjarðar
Nefndarmenn
  • Unnur Þóra Sigurðardóttir (UÞS) formaður
  • Vignir Smári Maríasson (VSM)
  • Bjarni Sigurbjörnsson (BS)
  • Helena María Jónsdóttir (HMJ)
  • Lísa Ásgeirsdóttir (LÁ)
  • Jósef Ó. Kjartansson (JÓK)
  • Sigurður Valur Ásbjarnarson (SVÁ) skipulags- og byggingafulltrúi
  • Björg Ágústsdóttir (BÁ) bæjarstjóri
Fundargerð ritaði: Björg Ágústsdóttir bæjarstjóri
Dagskrá
Matthildur Kr. Elmarsdóttir, skipulagsráðgjafi hjá Alta, sat þennan fund í gegnum fjarsamband.

Formaður setti fund. Gengið var til dagskrár.

1.Aðalskipulag Grundarfjarðar 2019 - 2039

Málsnúmer 1805034Vakta málsnúmer

Lögð var fram umsögn Skipulagsstofnunar, dags. 18. nóvember 2019, um tillögu að Aðalskipulagi Grundarfjarðarbæjar 2019-2039, sbr. 3. mgr. 30. gr. skipulagslaga. Stofnunin hefur farið yfir aðalskipulagstillöguna sem samþykkt var af skipulags- og umhverfisnefnd og bæjarstjórn í september sl. og í framhaldi send Skipulagsstofnun til athugunar.
Skipulagsstofnun gerir ekki athugasemd við að tillagan verði auglýst skv. 31. gr. skipulagslaga þegar brugðist hefur verið við eftirfarandi atriðum. Svör skipulags- og umhverfisnefndar eru sett fram á eftir hverjum athugasemdarlið.

Efnisleg atriði:

- Tekin verði ákvörðun um staðsetningu dælustöðvar en í tillögunni kemur fram (á bls. 169) að ástæða sé til að endurskoða stefnu um staðsetningu hennar í Torfabót.

- Svör nefndar:
Í aðalskipulagstillögunni, kafla 7.4, er sett fram markmið um að fráveitumálum verði komið í gott horf og að gerð verði áætlun í fráveitumálum í samræmi við reglugerð um fráveitur og sorp. Þar er jafnframt sagt að í þéttbýlinu verði skólpi safnað saman með sniðræsum í eina dælustöð í Torfabót eða á austanverðu Framnesi, og dælt þaðan út frá stórstraumsfjöru. Heimilt verði að staðsetja dælustöðina á athafnasvæðinu í samræmi við útfærslu í deiliskipulagi.
Textanum verði breytt þannig að möguleg staðsetning er einskorðuð við Framnes en að í deiliskipulagi verði nákvæm staðsetning ákveðin. Dælustöð á athafnasvæði eða hafnarsvæði telst í samræmi við aðalskipulag. Texta á bls. 169 (sem er í forsenduhluta) verður einnig breytt m.t.t. þessa þannig að skýrt sé, að stefnt er að dælustöð á Framnesi sem verði staðsett nánar við deiliskipulagsgerð í samhengi við skipulag fyrir aðra uppbyggingu á svæðinu.


Lagfæringar á uppdráttum:

- Kortagrunnur verði lagfærður þannig að hann sýni staðhætti og landslagseinkenni.
- Skýr skil séu á milli þéttbýlisuppdráttar og sveitarfélagsuppdáttar.
- Númer landnotkunarreita á uppdráttum og í greinargerð verði samræmd.
- Stærðir allra landnotkunarreita komi fram landnotkunartöflum í skipulagsgreinargerð.
- Gerð verði grein fyrir landnotkunarafmörkun/staðsetningu efnistökusvæðis E-7 og E-13 á sveitarfélagsuppdrætti.

- Svör nefndar:
Uppdrættir verða lagfærðir í samræmi við ábendingar Skipulagsstofnunar.

Lagfæringar í skipulagsgreinargerð og umhverfisskýrslu:
- Fram komi stærð efnistökusvæða og efnismagn.
- Gera þarf nokkrar lagfæringar á númerum landnotkunarreita og samræma skýringarmynd yfir hafnarsvæði við þéttbýlisuppdrátt.
- Skýrt verði hvað átt er við með „upphaflega staðfestingu nýs aðalskipulags“ á bls. 10 í umhverfisskýrslu.

- Svör nefndar:
Varðandi stærð efnistökusvæða og efnismagn á þeim, þá liggja þær upplýsingar ekki fyrir og ekki þótti mögulegt að mæla stærð og áætla magn í hverri námu. M.a. vegna þessa annmarka á tiltækum gögnum er sett fram stefna um að gengið verði úr skugga um að allir efnistökustaðir hafi framkvæmdaleyfi og úthlutun leyfa verði bundin skilyrðum um magn, góða umgengni og vandaðan frágang námanna að efnistöku lokinni m.t.t. landslags. Gagnakröfur vegna framkvæmdaleyfisumsókna eru einnig skilgreindar og sett eru ákvæði um hámarksmagn á hverju svæði.

Skipulagsgreinargerð og umhverfisskýrsla verða að öðru leyti lagfærðar í samræmi við ábendingar Skipulagsstofnunar.

Nefndin samþykkir að gera eftirfarandi viðbótarbreytingu við tillöguna:

Nefndin samþykkir að færa efri mörk landbúnaðarsvæða úr 150 m í 200 m y.s., með hliðsjón af landslagi og staðháttum sem ríkjandi eru í Eyrarsveit, en land ofan þeirrar hæðarlínu er fjalllendi sem býður ekki upp á mannvirkjagerð. Eftir sem áður eru hefðbundin landbúnaðarnot heimil ofan 200 m. Með þessari breytingu næst m.a. samræmi við efri mörk landbúnaðarsvæða í aðalskipulagi Snæfellsbæjar. Áður ákveðnum línum, sbr. aðalskipulagstillögu sem nefndin fjallaði um 12.9.2019, verði þó haldið óbreyttum í kringum Kirkjufell, á Bárarhálsi, í Búlandshöfða og í Stöðinni. Ennfremur verði í aðalskipulagstillögunni fjallað um þann greinarmun sem er á milli landnotkunarákvæða/-flokka skv. skipulagsreglugerð og ákvæða um almannarétt um för um land skv. lögum um náttúruvernd og lögum um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.


Niðurstaða:

Skipulags- og umhverfisnefnd felur skipulagsráðgjafa að breyta skipulagsgögnum í samræmi við framangreind svör og tillögu um viðbótarbreytingu.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir að auglýsa aðalskipulagstillöguna svo breytta, sbr. 31. gr. skipulagslaga, ásamt umhverfisskýrslu tillögunnar, sbr. 7. gr. laga um umhverfismat áætlana.

Fundargerð lesin upp og samþykkt.

Fundi slitið - kl. 19:06.