Mynd: Tómas Freyr Kristjánsson
Mynd: Tómas Freyr Kristjánsson

Kæru íbúar!

Eitt nýtt smit greindist skv. upplýsingum nú seint í kvöld og eru nú níu manns smitaðir. Hinsvegar fækkaði fólki í sóttkví umtalsvert eftir því sem leið á daginn og niðurstöður úr sýnatökum bárust. Þegar þetta er skrifað uppúr kl. 23:00 á miðvikudegi eru einungis 12 eftir í sóttkví. 

Alls hafa verið tekin tæplega 200 einkennasýni (PCR) og hraðpróf hjá heilsugæslustöðinni okkar, frá sunnudagskvöldi til miðvikudags. 

Leikskólinn 

Starfsmenn leikskólans sem voru í sóttkví eru nú lausir úr henni. Allnokkrir starfsmenn eru þó í svokallaðri smitgát en eiga möguleika á að losna úr henni í fyrramálið. 

Seinnipartinn áttum við leikskólastjóri fund með sóttvarnalækni og hjúkrunarfræðingi HVE. Staðan var metin þannig, að stefnt er að því að leikskólinn opni á morgun, fimmtudag 11. nóvember, kl. 10:00. 

Ef niðurstöður í kvöld úr sýnatökum dagsins eða smitgátarstaða starfsmanna breyta þessari stöðu, þá endurmetum við áform um opnun í fyrramálið og látum ykkur strax vita. Þetta er mikilvægur fyrirvari, en við viljum samt leyfa okkur að miða við að hægt sé að opna.  

Hér er bréf leikskólastjóra til foreldra, á pólsku. 

UPPFÆRSLA KL. 10:00 FIMMTUDAG: LEIKSKÓLINN VERÐUR LOKAÐUR Í DAG. 

Mikilvægt að skrá forföll barna í Karellen

Í bréfi leikskólastjóra til foreldra kom fram beiðni um að skrá forföll barna í Karellen, leikskólakerfið. Þetta hjálpar mikið til við skipulagningu starfsins, nú þegar það eru ekki allir starfsmenn komnir til starfa. Foreldrar hafa einnig fengið frekari skilaboð um aðrar ráðstafanir leikskólans. 

Aðstoð við aðföng 

Minnt er á tilkynningingu frá Grundarfjarðardeild Rauða krossins um að hægt er að fá aðstoð frá félögum deildarinnar við að ná í nauðsynjar, eins og mat og lyf, ef fólk kemst ekki sjálft. Hafa má samband við Sævöru formann deildarinnar í síma 869-5628. 

Förum í sýnatöku 

Munum að ef upp koma einkenni bæði hjá börnum og fullorðnum þá skal hafa samband við heilsugæslustöðina í Grundarfirði (s. 432 1350) eða fara inná heilsuvera.is og bóka tíma í sýnatöku. 

Upplýsingar og sóttvarnir 

Verum dugleg að afla okkur upplýsinga og snjallt er að skoða vefinn covid.is sem er stútfullur af upplýsingum og er að auki á ellefu öðrum tungumálum! Þar er líka mjög gott netspjall þar sem hægt er að senda inn spurningar og fá svör.  

Það er einfalt og áhrifaríkt að spritta og þvo hendur og nota grímuna!  - Forðumst margmenni! - Tökum á þessu saman. Við kunnum þetta og getum. Staðan er áfram viðkvæm. 

Björg, bæjarstjóri