Við Kirkjufellsfoss að kvöldi 18. apríl 2020.
Við Kirkjufellsfoss að kvöldi 18. apríl 2020.

Kæru íbúar!

Í 6 daga hafa ekki greinst ný smit á Vesturlandi. Samtals hafa 40 greinst smitaðir, en 10 eru nú í einangrun, sem þýðir að 30 hafa fengið bata. Í sóttkví á Vesturlandi öllu eru nú 32, þar af 3 hjá okkur. Sjá nánar á Facebook-síðu lögreglunnar á Vesturlandi

Hætta á hópsýkingum

Þrátt fyrir jákvæðar fréttir, þá telur sóttvarnalæknir að staðbundnar hópsýkingar geti auðveldlega komið upp. Mjög erfitt geti verið að eiga við slíkt og við sjáum t.d. það sem Vestfirðingar hafa verið að glíma við að undanförnu, á Ísafirði og í Bolungarvík. Við þurfum því öll að vera á varðbergi og ekki slaka á. Áfram er hætta á að sýkingar blossi upp og enn eru heilar tvær vikur í 4. maí. 

Fréttir berast nú frá Singapúr um aðra bylgju kórónufaraldurs, en skuggaleg aukning hefur orðið þar í fjölda smita. Ástæðuna má rekja til hópsýkingar hjá farandverkamönnum sem búa við þröngan kost. Útbreiðslan sýnir hve erfitt getur verið að ráða við málin þegar sýkingar fara af stað og hve dýrkeypt það getur verið að þurfa að byrja baráttuna uppá nýtt. 

Aðgerðir til stuðnings atvinnulífi

Þann 7. apríl sl. samþykkti bæjarstjórn tilteknar aðgerðir til stuðnings atvinnulífi vegna áhrifa Covid-19. Meðal þeirra er frestun á greiðslu fasteignagjalda í C-flokki hjá gjaldendum sem hafa orðið fyrir verulegu tekjutapi vegna áhrifa Covid-19. Hér eru nánari leiðbeiningar um það. 

Samþykkt var að fara í sérstakar aðgerðir eða verkefni til að styðja við frekari markaðssetningu svæðisins og undirbúning þess að taka á móti ferðafólki, bæði til skemmri tíma og lengri, og styðja við menningu. Ætlunin er að gera þetta með ráðstöfunum í fjárhagsáætlun bæjarins 2020 og með því að leita eftir samvinnu fyrir fyrirtæki og félagasamtök. 

Þann 7. apríl sl. samþykkti bæjarstjórn jafnframt að bjóða fulltrúum fyrirtækja til samtals um stöðu mála, horfur og frekari aðgerðir, vegna ástandsins af völdum Covid-19. Í dag áttu bæjarstjórn, formaður menningarnefndar og bæjarstjóri fyrsta fundinn með fulltrúum nokkurra fyrirtækja í ferðaþjónustu. Miðvikudaginn 22. apríl nk. er fulltrúum fleiri fyrirtækja í ferðaþjónustu boðið að taka þátt í samtali á öðrum fjarfundi, sem nánar er auglýstur hér. Það er mikilvægt fyrir bæjarstjórn að geta átt þessi samtöl, bæði til að heyra beint frá rekstraraðilum hvernig þau meta stöðuna og til upplýsingaöflunar vegna aðgerða bæjarstjórnar. 

Og yfir í menninguna … 

Leshópurinn Köttur úti í mýri heldur áfram upplestri sem streymt er yfir á Fellaskjól og í dag var það Lilja Magnúsdóttir sem sá um lesturinn. Hér má hlusta. 

Í sjónvarpi RÚV í gær var á dagskrá þátturinn Úti. Hann er í umsjón útivistarfólksins Brynhildar Ólafsdóttur úr Grundarfirði og Róberts Marshall. Í seinni hluta þáttarins klifu þau ásamt góðum ferðafélögum Örninn eða Tröllkarl, eins og tindurinn er líka nefndur. Örninn er einn af mögnuðum tindum í Snæfellsnesfjallgarðinum og blasir við úr Grundarfirði, tignarlegur ásýndar. Ég mæli með þessum þætti - úsýnið er óviðjafnanlegt. Hér má einnig sjá umfjöllun og myndir. 

Björg