Hugsað til vorsins (smellið á myndina til að stækka hana).
Hugsað til vorsins (smellið á myndina til að stækka hana).

 

Kæru íbúar!

Einstaklingum í sóttkví á Vesturlandi hefur fjölgað, eru nú 490 og þar af 39 hjá okkur, eins og í gær. Nokkur ný smit eru, en engin þeirra á Snæfellsnesi.

Það eru engin sérstök skilaboð í dag annað en þetta tvennt:

Í fyrsta lagi þakkir. Til allra þeirra sem eru að leggja sig fram um að aðlagast þeim breytingum sem nú er nauðsynlegt að gera, jafnvel þó þær séu óþægilegar og íþyngjandi. Einnig innilegar þakkir til þeirra sem fara langt út fyrir þægindaramma og venjur, til að láta samfélagið okkar halda sem bestum takti, þrátt fyrir allt - starfsfólkið okkar hjá Grundarfjarðarbæ, sem og aðrir. Og ekki síst hjartans þakkir til þeirra sem leggja á sig þetta litla, aukalega, til að gera hversdaginn ögn fallegri og betri, fyrir okkur öll.

Svo vil ég draga aftur fram spurninguna sem ég orðaði í fyrsta pistlinum mínum, skrifuðum af tilefni þessa veirufaraldurs, þann 13. mars sl. og var þannig:

"Ef það er ein spurning, af mörgum, sem mér finnst mikilvægt að við svörum, þá er það þessi:  

Þegar þessu vandasama tímabili lýkur - því að það mun taka enda! - þegar smit hverfur, sjúkir hafa læknast og venjulega lífið okkar tekur við; hvernig viljum við þá minnast þessa tímabils, þegar við lítum um öxl?
Hvað gerðum við vel - hvað hjálpaði okkur mest - hvað gerði gæfumuninn, þegar upp var staðið? 
Svörin við þessu eiga að vera leiðarljósið okkar þegar við tökumst á við það sem er framundan."
 
Björg