Kæru íbúar!
 
Að kvöldi þessa óvenjulega dags eru fá orð eftir. Gríðarstór verkefni eru framundan hjá okkur öllum. Við tökumst nú á við það erfiða verk, að breyta út af vana. Að yfirgefa hefðir og inngróna hegðun, eins og það hvernig við eigum samskipti hvert við annað, daglega, án þess að veita því eftirtekt. Sumu er auðvelt að breyta, eins og því að kaupa ekki lengur nammi úr nammibarnum. Annað er þungbærara, eins og það að mega ekki fá ástvini sína í heimsókn, á gamals aldri. Og skilja kannski ekki, eða muna, af hverju það er. Eða það að vera veikur.
 
Það er krefjandi að takast á við breytingar. Að skipuleggja uppstokkun á daglegu lífi, hvert fyrir sig, en líka í sameiningu, sem samfélag. Þetta verður flókið, en okkur mun takast það. Af því að viðfangsefnið er brýnt. Viðfangsefnið snýst um líf og heilsu og velferð fólks. Okkar sjálfra og okkar nánustu. Okkar allra. Það getur eiginlega ekki orðið brýnna. Þess vegna sýnum við viðfangsefninu fullkomna virðingu. Tökum því ekki af sinnuleysi eða léttúð.
 
Stjórnendur hjá Grundarfjarðarbæ hafa unnið að því að undanförnu að skipuleggja starfsemina með tilliti til þess sem er í vændum - sem við vitum þó ekki allskostar hvað er. Við vitum sumt. Annað vitum við alls ekki. Og við verðum að þora að segja það. Það hafa síðustu vikur kennt okkur. Hver dagur er lærdómur. Ákvörðun í dag, byggir á forsendum sem breytast jafnvel á morgun - og þá þarf að taka nýja ákvörðun. Og breyta aftur. Miklu skiptir að við greinum aðalatriðin, það sem er brýnast að gera og mikilvægast að sinna, hverju sinni. Aukaatriðin mega bíða. Það eru mögulega verkefni sem okkur fannst liggja mikið á að leysa í síðustu viku, en í næstu viku verða þau fullkomlega minniháttar og við leggjum þau til hliðar. Hversu hratt við lærum og hversu vel við vinnum saman, mun ráða úrslitum.
 
Ég veit að Grundfirðingar standa saman, þegar á reynir. Ég veit að við hjálpumst að á þessum óvenjulegu tímum.
 
Ef það er ein spurning, af mörgum, sem mér finnst mikilvægt að við svörum, þá er það þessi:
 
Þegar þessu vandasama tímabili lýkur - því að það mun taka enda! - þegar smit hverfur, sjúkir hafa læknast og venjulega lífið okkar tekur við; hvernig viljum við þá minnast þessa tímabils, þegar við lítum um öxl? Hvað gerðum við vel - hvað hjálpaði okkur mest - hvað gerði gæfumuninn, þegar upp var staðið?
 
Svörin við þessu eiga að vera leiðarljósið okkar þegar við tökumst á við það sem er framundan.
 
Björg
 
 
Mynd: Tómas Freyr Kristjánsson.