Grundarfjörður, 1. apríl 2020
Grundarfjörður, 1. apríl 2020

Kæru íbúar!

Í dag voru 12 manns í sóttkví í Grundarfirði, en voru 16 í gær. Alls eru 327 í sóttkví á öllu Vesturlandi, svipað og í gær. Alls voru 32 smit á Vesturlandi, sem er óbreytt staða alls staðar. Sjá nánar á Facebook-síðu lögreglunnar á Vesturlandi.

Smitrakning er samfélagsmál

Í fyrradag var kynnt nýtt smáforrit eða app sem heitir Rakning C-19. Hægt er að sækja það hér: https://www.covid.is/app/is

Forritið hjálpar til við að greina ferðir einstaklinga og rekja saman við ferðir annarra þegar upp kemur smit eða grunur um smit. Appið er bæði fyrir Android og iOS tæki og er opið öllum. Yfir 90.000 manns höfðu sótt forritið í dag, skv. því sem landlæknir sagði á daglegum fréttafundi.  

Ég tel að við þurfum ekkert að óttast að "stóri bróðir" liggi í að spæja um hvar við dveljum eða hve lengi, út frá svona kortlagningu ferða okkar. Hins vegar getur þetta app hjálpað okkur við að hjálpa öðrum - að forðast smit og veikindi.

Rauði krossinn hringir í eldri íbúa

Eldra fólk og þau sem hafa undirliggjandi sjúkdóma eru í aukinni áhættu vegna Covid-19. Því fólki hefur verið ráðlagt að fara sérstaklega varlega, jafnvel halda sig frá mannmörgum stöðum. Við vitum til þess að eldra fólk er sumt hvert hætt að fara í búð eða eftir öðrum nauðsynjum og fær aðstoð ættingja til þess.

Flest erum við félagsverur og hluti af daglegri næringu okkar eru einfaldir hlutir eins og að fara í leikfimi eða á kóræfingu, fá ættingja og vini í kaffisopa, hitta fólk í búðinni og eiga yfirhöfuð samfélag með öðru fólki. Það tekur á þegar þetta er ekki lengur dagleg rútína. Við þurfum að minna okkur á að þetta er tímabundið ástand, en það er líka mikilvægt að við leggjum okkur fram um að auka á annars konar samskipti meðan þetta ástand varir.

Rauða kross deildin okkar í Grundarfirði hefur nú um helgina haft samband við talsverðan fjölda af eldri íbúum bæjarins. Hún Sævör Þorvarðardóttir er formaður deildarinnar og hefur sjálf verið að hringja og heyra hljóðið í íbúum. Fleiri fulltrúar deildarinnar munu svo taka þátt í hringingum á næstunni. 

Eins og fram kom í auglýsingu þann 27. mars sl. hefur Rauði krossinn boðið fram aðstoð við ná í aðföng fyrir þau sem ekki komast eða treysta sér til þess. Þá er hringt í hjálparsímann 1717 - líka fyrir okkur hér í Grundarfirði. Í samtölum Rauða kross deildarinnar við eldri íbúa er sagt frá þessari aðstoð sem stendur til boða, auk þess sem almennt er verið að hlusta eftir því hvort fólk vanhagi um eitthvað.

Þetta er samvinnuverkefni deildarinnar og Grundarfjarðarbæjar, auk þess sem Félag eldri borgara hefur aðkomu, en þann 16. mars sl. áttum við fund um þetta málefni með félagasamtökum í bænum.

Á næstunni verður hringt í fleiri og eins og Sævör hefur nefnt í símtölunum, þá er í boði að fá símhringingu aftur, frá fulltrúum Rauða kross deildarinnar.

Ég er mjög þakklát Rauða kross deildinni fyrir þetta framtak, en ég veit líka til þess að fleiri hafa lagt sig fram um að auka á samskipti við eldri íbúa bæjarins, sem er þakkarvert.

Upplýsingar til þeirra sem nota ekki netið

Það er gott að muna að það eru ekki allir íbúar sem nota tölvur og netið. Í símtölum Rauða krossins er sérstaklega spurt hvort fólk vanti frekari upplýsingar. Ég hef beðið Rauða krossinn um að vekja athygli á að við getum, á bæjarskrifstofunni, sent þeim sem þess óska allar þær auglýsingar og pistla sem birtast á vef Grundarfjarðarbæjar, sem tengjast þjónustu bæjarins og þeim aðstæðum sem við búum nú við vegna veirunnar.

Ef þið vitið um íbúa sem ekki nota netið og myndu vilja fá útprentað efni af vef bæjarins sent í pósti, ca. tvisvar í viku, þá megið þið endilega hafa samband í gegnum grundarfjordur@grundarfjordur.is eða í síma bæjarskrifstofu 430 8500 (10-14 virka daga) og láta okkur vita.

Og þá er það næsta mál sem er að verða fastur liður á laugardagskvöldi: Helgi Björns og stofutónleikarnir :-)  

 

Björg