Endurbætur hafa verið gerðar á salnum Bæringsstofu í Sögumiðstöðinni, Grundarfirði. 
Mynd: Olga S. …
Endurbætur hafa verið gerðar á salnum Bæringsstofu í Sögumiðstöðinni, Grundarfirði.
Mynd: Olga S. Aðalsteinsdóttir
Bæringsstofa var opnuð eftir gagngerar endurbætur, laugardaginn 23. október 2021. Um er að ræða einn áfanga af fleirum í endurbótum sem nú eiga sér stað í Sögumiðstöðinni.
Bæringsstofa er fjölnota samkomusalur, fyrir fundi, ráðstefnur, sýningar og fleira. Hann tekur rúmlega 40 manns í sæti. Þar eru geymdir ýmsir munir úr safni Bærings Cecilssonar, ljósmyndara, en salurinn ber nafn hans.
Inngangur í salinn var færður og opnast nú út í miðrými Sögumiðstöðvar. Nýtt áklæði hefur verið sett á stólana og nýir armar smíðaðir á þá. Salurinn var málaður og ný lýsing sett í loftið. Tölvuskápur og aðstaða fyrir fyrirlesara var endurbætt og tiltekt gerð í snúrum og lögnum. 
 
 
 
Ingi Hans Jónsson hefur haft umsjón með smíði og endurbótum og gerði hann grein fyrir þeim. Björg bæjarstjóri sagði frá þeirri starfsemi sem nú fer fram í húsinu. Margvíslegt félagsstarf hefur nú fengið inni í Sögumiðstöðinni og er ánægjulegt að sjá hve vel húsið er að verða nýtt.
 
 
Við þetta tækifæri færðu Unnsteinn Guðmundsson og börn hans Sögumiðstöðinni að gjöf fallegan uppstoppaðan hrafn sem Unnsteinn hafði sjálfur stoppað upp. Eru honum færðar innilegar þakkir fyrir gjöfina, en henni verður fundinn góður staður í húsinu.