Bæring Cecilsson ljósmyndari (1923-2002)
Bæring Cecilsson ljósmyndari (1923-2002)

Í sumar hófst átak við að skanna ljósmyndir Bærings Cecilssonar. Í fyrra var keyptur mjög öflugur og góður skanni til verksins og eru það ljósmyndafilmurnar sjálfar sem nú eru skannaðar.

Bæring Cecilsson (1923-2002) var fæddur að Búðum í Eyrarsveit, við norðanvert Kirkjufell. Bæring tók ógrynni ljósmynda af náttúru og mannlífi í Eyarsveit og víðar. Síðar tók hann einnig kvikmyndir.  Ásamt því að vera áhugaljósmyndari starfaði Bæring sem fréttaljósmyndari fyrir Sjónvarpið og ýmis dagblöð. 

Bæring var gerður að heiðursborgara Grundarfjarðar árið 1997. Eftir andlát hans færðu skyldmenni hans Grundarfjarðarbæ myndasafn hans til varðveislu og vinnslu.

Við ætlum næstu vikurnar að deila og njóta lítils brots af myndum Bærings og köllum það "Sjöu vikunnar" - ein mynd fyrir hvern dag, settar saman í vikuskammt. Ekki er ólíklegt að einhverjar myndirnar hafi sést áður, en góður hluti af myndasafni Bærings hefur verið skannaður. Mikið er þó enn eftir og er ætlunin að vinna markvisst að því að koma myndunum á stafrænt form og til opinberrar geymslu. Ætlunin er að nýta upplýsingakerfið sarpur.is til þeirrar geymslu og miðlunar. Efni á eldri vef Bæringsstofu mun þá færast þangað yfir. 

Á meðan unnið er að þessu, er hér hlekkur á myndasafnið "Sjöa vikunnar". Sjö myndir bætast við vikulega eitthvað fram á haust/vetur. Smellið á myndirnar og þá birtist viðeigandi texti.

Njótið!  -  Sjöa vikunnar

Hér á vef bæjarins er líka að finna umfjöllun um Bæringsstofu, sem leiðir inná hlekki á fleiri myndir Bærings