Hallveig Rúnarsdóttir sópran og Hrönn Þráinsdóttir píanóleikari munu koma fram á tónleikum á vegum Listvinafélags Grundarfjarðarkirkju fimmtudaginn 14.október kl.20.00. 

Á efnisskránni eru allar helstu perlur tónskáldsins ástsæla, Sigvalda Kaldalóns en þær stöllur komu fram á Kaldalónshátíð í sumar í Ísafjarðardjúpi á vegum Minningarsjóðs Sigvalda Kaldalóns þar sem haldið var upp á 75 ára afmæli á útgáfu af verkum tónskáldsins.

 

Hrönn Þráinsdóttir nam píanóleik hjá Erlu Stefánsdóttur við Tónmenntaskólann í Reykjavík og Jónasi Ingimundarsyni í Tónlistarskólanum í Reykjavík.

Hún fór til framhaldsnáms við Staatliche Hochschule für Musik í Freiburg og lauk þaðan diplóma kennaraprófi vorið 2004 og tók meðleik við ljóðasöng sem aukafag.

Kennarar hennar voru Dr.Tibor Szász og Hans-Peter Müller.

Að því loknu nam hún við ljóðasöngdeild Tónlistarháskólans í Stuttgart undir handleiðslu Cornelis Witthoefft og lauk sérhæfðu diplómanámi sumarið 2007

Hrönn hefur komið fram á tónleikum víða sem einleikari, meðleikari og við flutning kammertónlistar auk þess að hafa hljóðritað fyrir útvarp og leikið inn á geisladiska.

Hrönn hefur verið virk í flutningi nýrrar tónlistar m.a. á Myrkum Músíkdögum og með kammersveitinni Ísafold ásamt því að hafa frumflutt fjölda sönglaga.

Hún hefur verið virk í uppeldisstarfi ungra söngvara, verið tónlistarstjóri uppfærslna síðustu ára hjá óperudeild Söngskólans í Reykjavík þar sem fluttar hafa verið perlur óperubókmenntanna. Hún hefur einnig ferðast víða um land síðustu misseri og kynnt óperutónlist fyrir grunnskólabörnum í öllum landshlutum.

Hrönn er kennari við Söngskólann í Reykjavík og við Menntaskóla í tónlist, MÍT.

 

Hallveig Rúnarsdóttir hóf söngnám hjá Sigurði Demetz árið 1991. Hún lærði svo við Guildhall School of Music and Drama í London og útskrifaðist þaðan með láði sumarið 2001. 

 

Hallveig hefur sungið nokkur óperuhlutverk, flest hjá Íslensku Óperunni en einnig víðar. Meðal hlutverka hennar eru Donna Anna í Don Giovanni eftir Mozart, Michaëla í Carmen eftir Bizet, Fiordiligi í Così fan Tutte eftir Mozart, Gianetta í Ástardrykknum eftir Donizetti, Rödd af himnum í óperunni Don Carlo eftir Verdi og Echo í Ariadne auf Naxos eftir Richard Strauss. Árið 2016 frumflutti hún hlutverk stúlku í óperu Kristians Blak, Ljós í ljóði í Færeyjum og árið 2018 frumflutti hún hlutverk Gilitruttar í samnefndri óperu eftir Hildigunni Rúnarsdóttur. Í febrúar síðastliðnum frumflutti hún svo óperuna Traversing the Void eftir Hildigunni Rúnarsdóttur og Jo Truman í Hörpu.

 

Hún hefur komið fram sem einsöngvari víða um heim, hún hefur sungið sópranhlutverkið í mörgum helstu stórverkum tónbókmenntanna og hefur sungið margoft með Sinfóníuhljómsveit Íslands auk fjölda annarra hljómsveita bæði hér á landi og erlendis. Hallveig hefur sérstaklega verið virk í flutningi nýrrar tónlistar og hefur frumflutt mörg ný íslensk verk, t.d. á Listahátíð í Reykjavík og á Sumartónleikum í Skálholti, auk upptaka fyrir útvarp. Hallveig hefur og haldið fjölda einsöngstónleika á Íslandi og erlendis undanfarin ár þar sem hún hefur lagt áherslu á ljóðasöng.

 

Hallveig hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin sem söngkona ársins í sígildri-og samtímatónlist árið 2013 fyrir hlutverk sitt sem Michaëla í Carmen hjá Íslensku óperunni, og aftur árið 2018 fyrir hlutverk sitt sem Gilitrutt og söng sinn á Klassíkinni okkar með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Auk þess hlaut hún tilnefningu til sömu verðlauna árið 2014 fyrir söng sinn í Deutches Requiem eftir Brahms með Söngsveitinni Fílharmóníu, árið 2016 fyrir söng sinn í 3. Sinfóníu Góreckís með Sinfóníuhljómsveit Íslands og fyrir árið 2020 fyrir flutning sinn á aríum Mozarts með Sinfóníuhljómsveit Íslands.Hún var tilnefnd til Grímuverðlauna sem söngvari ársins árið 2014 fyrir Michaelu og einnig árið 2017 fyrir Donnu Önnu í Don Giovanni eftir W. A. Mozart. 

 

Hún er listrænn stjórnandi og stofnandi sönghópsins Cantoque Ensemble sem hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir flutning sinn á barokkverkum með upprunahljómsveitum, bæði hér á landi og erlendis. Hallveig gegnir auk þess stöðu aðstoðarskólastjóra Söngsskóla Sigurðar Demetz og kennir einnig við skólann.