Lagt fram bréf Vegagerðarinnar frá 20. des. sl., þar sem svarað er óskum Grundarfjarðarbæjar um ýmsar úrbætur í samgöngumálum í bæjarfélaginu sbr. bréf bæjarins dags. 1. nóv. sl. Í því sambandi má nefna óskir um hraðavaraskilti við innkomu í bæinn, lagfæringar á hraðahindrunum á þjóðveginum sem liggur í gegnum þéttbýlið, nýjan þjóðveg inn í bæinn frá Gilós og niður á hafnarsvæði, umferðaröryggismál við Kirkjufellsfoss og Kolgrafarfjörð, girðingar með þjóðvegi, hafnarframkvæmdir og að lokum almenna þjónustu við snjómokstur og hálkueyðingu. Bæjarráð leggur til að fulltrúar bæjarins kalli eftir fundi með vegamálastjóra til þess að fylgja þessum málum eftir.
Bæjarráð bendir Vegagerðinni á mikilvægi þess að malarvegum í sveitarfélaginu sé vel við haldið. Nauðsynlegt er að bera ofan í þá reglulega og hefla. Vöntun á góðum ofaníburði og aðgerðir þar sem skafið er upp úr köntum mismunandi gott efni getur valdið því að vegirnir verði eitt drullusvað í bleytutíð.
Hér er sérstaklega tiltekinn vegurinn um framsveitina, sem meðhöndlaður var með slíkum hætti fyrir stuttu. Hann er algert drullusvað og illfær, þar sem efnið sem í hann hefur verið skafið úr köntum, er ótækt.
Bæjarráð mótmælir slíkum aðferðum og krefst þess að nothæft efni sé notað í vegina svo þeir vaðist ekki upp við minnstu bleytu. Óskað er aðgerða hið snarasta í þessum efnum af hendi Vegagerðarinnar.
Til máls tóku SGA og EG.
Bæjarstjóra falið að fylgja óskunum eftir.
Samþykkt samhljóða.