494. fundur 26. janúar 2017 kl. 16:30 - 19:38 í Ráðhúsi Grundarfjarðar
Nefndarmenn
  • Hinrik Konráðsson (HK) formaður
  • Jósef Ó. Kjartansson (JÓK)
  • Eyþór Garðarsson (EG)
  • Þorsteinn Steinsson (ÞS)
Fundargerð ritaði: Þorsteinn Steinsson Bæjarstjóri
Dagskrá

1.Lausafjárstaða

Málsnúmer 1501066Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar.

2.Samkomuhús Grundarfjarðar

Málsnúmer 1606013Vakta málsnúmer

Lagt fram tilboð frá Nýherja í hátalara og hljóðkerfi fyrir samkomuhúsið. Tilboðsverð er 729.492 kr. með vsk.

Bæjarráð samþykkir samhljóða fyrirliggjandi tilboð.

Jafnframt rætt um nauðsynlegar viðhaldsframkvæmdir og lagfæringar í samkomuhúsinu.
Bæjarráð leggur til að byggingafulltrúi og forstöðumaður fasteigna vinni viðhaldsáætlun fyrir húsið og raði verkefnum upp í forgangsröð. Jafnframt skulu þeir vinna kostnaðaráætlun fyrir viðhaldsáætlunina.
Miðað skal við að þessu verki verði lokið eigi síðar en í lok febrúar og verði áætlanirnar þá lagðar fyrir bæjaráð.

3.Mennta-og menningarmálaráðuneytið - Óskað eftir tilnefningu í skólanefnd Fjölbrautaskóla Snæfellinga

Málsnúmer 1701025Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf Menntamálaráðuneytisins frá 11. janúr sl., þar sem óskað er tilnefningar Grundarfjarðarbæjar, Helgafellssveitar, Snæfellsbæjar og Stykkishólms á fulltrúum í skólanefnd Fjölbrautaskóla Snæfellinga. Sveitarfélögin eiga að tilnefna tvo aðalfulltrúa og tvo til vara.
Bæjarráð leggur til að leitað verði eftir því hvort núverandi fulltrúar, séu tilbúnir að vera áfram. Núverandi aðalfulltrúar eru Björg Ágústsdóttir og Hilmar Már Arason og til vara Eyþór Benediktsson og Sigurborg Kr. Hannesdóttir. Bæjarstjóra falið að kanna hug hinna sveitarfélaganna.

4.Lögreglu- og almannavarnarmál

Málsnúmer 1504040Vakta málsnúmer

Lögð fram tillaga sveitarstjórnar Dalabyggðar frá 17. janúar sl., þar sem sveitarstjórnin hvetur til þess að almannavarnarnefndir á Vesturlandi verði sameinaðar í eina nefnd undir stjórn lögreglustjórans á Vesturlandi.
Bæjarráð Grundarfjarðar vísar til samþykktar sinnar frá 3. des. 2015, þar sem bæjarráð ályktaði um það að skynsamlegt væri að skoða fyrirkomulag almannavarna á Vesturlandi, hugsanlega þannig að ein almannavarnarnefnd verði á öllu Vesturlandi.
Bæjarráð hvetur einnig til þess að lokið verði við almannavarnaráætlun fyrir Snæfellsnes.

Jafnframt voru ræddar áherslur bæjaryfirvalda um að ráðinn verði lögreglumaður til starfa í Grundarfirði.
Bæjarráð ítrekar óskir sínar um það að auglýst verði eftir lögreglumanni til starfa í Grundarfirði. Mikilvægt er að nauðsynleg og sjálfsögð þjónusta sem þessi sé til staðar í sveitarfélaginu.
Stjórnvöld lögreglumála eru hvött til þess að leita leiða til lausnar á þessu mikilvæga öryggismáli.

5.Ísland ljóstengt

Málsnúmer 1701005Vakta málsnúmer

Gerð grein fyrir því að umsókn Grundarfjarðar í A-hluta umsóknarferlis um styrk úr Fjarskiptasjóði, vegna ljósleiðaravæðingar, hefur verið tekin gild. Unnið er að frágangi umsóknar í B-hluta umsóknarinnar, en þeim hluta umsóknar á að skila inn eigi síðar en 1. febrúar nk. Annars vegar er sótt um að ljósleiðaravæða útsveitina og hins vegar um að ljóleiðaravæða framsveitina.
Bæjarráð hvetur til þess að lokið verði við gerð B-hluta umsóknar er taki mið af því að unnt verði að ljósleiðaravæða dreifbýlið árið 2017 fáist nægjanlegir styrkir frá Fjarskiptasjóði.

6.Sameining sveitarfélaga, viðræður

Málsnúmer 1606001Vakta málsnúmer

Lagt fram minnisblað Atvinnuráðgjafar Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi dag. 10. janúar sl. Í minnisblaðinu eru raktir ýmsir þættir sem tengjast vinnu við sameiningu sveitarfélaga og byggja á Vegvísi sem Samband sveitarfélaga og Félagsmálaráðuneytið gáfu út 2004 og byggði á danskri fyrirmynd.
Í minnisblaðinu býður Atvinnuráðgjöfin fram krafta sína til þess að vinna greinargerð um kosti og galla hugsanlegrar sameiningar sveitarfélaganna Grundarfjarðarbæjar, Helgafellssveitar og Stykkishólmsbæjar.
Bæjarráð leggur til að boðað verði til fundar í samstarfsnefnd sveitarfélaganna um sameiningarmál, þar sem næstu skref verði ákveðin.

7.Íbúðamál

Málsnúmer 1701020Vakta málsnúmer

Fyrir fundinum lá yfirlit yfir íbúðir að Sæbóli 33 og 35, en eigandi íbúðanna hefur sagt leigjendunum upp leigunni. Áður var fjallað um þessi mál í bæjarstjórn 10. janúar sl. Frá þeim tíma hefur verið rætt við eiganda íbúðanna og leitað einhverra lausna. Á þeim fundi kom fram að núverandi eigandi hyggst selja eignirnar og losna frá málum. Engar haldbærar úrlausnir hafa fengist í viðkomandi máli gagnvart núverandi íbúum.
Bæjarráð leggur til að áfram verði fylgst með framvindu mála á þessum vettvangi.

8.Minjastofnun íslands - Skráning menningarminja

Málsnúmer 1701023Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf dags. 10. janúar sl., frá Minjastofnun Íslands. Í bréfinu er fjallað um skráningu menningarminja , fornleifa og húsa og mannvirkja og hvernig ber að skila slíkum gögnum til Minjastofnunar í samræmi við ákvæði í lögum nr. 80/2012.
Bæjarráð samþykkir að fela skipulags- og byggingafulltrúa að vinna að frágangi þessara mála í samvinnu við Minjastofnun.

9.FSN-Skólaakstur við Fjölbrautaskóla Snæfellinga vorönn 2016

Málsnúmer 1701024Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf frá Fjölbrautaskóla Snæfellinga dags. 11. janúar sl., þar sem farið er yfir uppgjör vegna skólaaksturs á vorönn 2016.

10.Aðalskipulag Grundarfjarðar

Málsnúmer 1510014Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar umsókn Grundarfjarðarbæjar dag. 19. janúar sl. í Skipulagssjóð um kostnaðarframlag vegna endurskoðunar aðalskipulags sveitarfélagsins. Miðað er við að sjóðurinn taki þátt í allt að helmingi kostnaðar við skipulagsvinnuna.

11.Vegagerðin, samgöngubætur

Málsnúmer 1612003Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf Vegagerðarinnar frá 20. des. sl., þar sem svarað er óskum Grundarfjarðarbæjar um ýmsar úrbætur í samgöngumálum í bæjarfélaginu sbr. bréf bæjarins dags. 1. nóv. sl.
Í því sambandi má nefna óskir um hraðavaraskilti við innkomu í bæinn, lagfæringar á hraðahindrunum á þjóðveginum sem liggur í gegnum þéttbýlið, nýjan þjóðveg inn í bæinn frá Gilós og niður á hafnarsvæði, umferðaröryggismál við Kirkjufellsfoss og Kolgrafarfjörð, girðingar með þjóðvegi, hafnarframkvæmdir og að lokum almenna þjónustu við snjómokstur og hálkueyðingu.
Bæjarráð leggur til að fulltrúar bæjarins kalli eftir fundi með vegamálastjóra til þess að fylgja þessum málum eftir.

12.Framtíð íslenskra sveitarfélaga, fundur

Málsnúmer 1701027Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf sambands ísl. sveitarfélaga frá 23. janúar sl., þar sem boðað er til samráðsfundar í Borgarnesi 6. febrúar nk. um stöðu og framtíð íslenskra sveitarfélaga.

13.Sjúkraþjálfun

Málsnúmer 1601015Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar auglýsing Heilbrigðisstofnunar Vesturlands, þar sem auglýst er eftir sjúkraþjálfara til starfa á heilsugæslustöðinni í Grundarfirði, þar hefur verið innréttuð vinnuaðstaða fyrir starfsemi sjúkraþjálfara.
Bæjaryfirvöld hafa leitað eftir því við HVE um nokkurt skeið að starfsemi af þessum toga sé starfrækt í Grundarfirði. Ánægjulegt er til þess að vita að nú hylli undir slíkt.

Fundi slitið - kl. 19:38.