Málsnúmer 1810008

Vakta málsnúmer

Íþrótta- og tómstundanefnd - 86. fundur - 09.10.2018

Í erindisbréfi nefndarinnar segir að nefndin eigi að gera tillögur til bæjarstjórnar um markmið í málaflokkum sem undir nefndina heyra og hafa eftirlit með því að samþykkt markmið bæjarstjórnar í þessum málaflokkum nái fram að ganga.

Nefndin skilgreindi málaflokka og verkefni sem undir hana heyra og vann drög að markmiðum og verkefnum. Höfð var hliðsjón af stefnumörkun nefndarinnar fyrir árin 2015-2017 og fjölskyldustefnu Grundfirðinga.
Vinnu verður framhaldið á næsta fundi.

Íþrótta- og tómstundanefnd - 88. fundur - 07.02.2019



Áframhaldandi umræða var um markmið og verkefni nefndarinnar.
Undir þessum lið var m.a. rætt um forvarnir og var skólastjóri grunnskólans gestur undir þeim lið. Grunnskólinn mun taka undir boð forvarnafulltrúa FSN um að sameinast um að fá fyrirlesara í heimsókn, fyrir nemendur FSN og nemendur á unglingastigi grunnskólans.

Gestir

  • Sigurður Gísli Guðjónsson skólastjóri Grunnskólans

Íþrótta- og tómstundanefnd - 89. fundur - 12.03.2019

Unnið í skjali nefndarinnar um hlutverk, markmið og verkefni nefndarinnar. Nefndin mun vinna áfram í skjalinu milli funda. M.a. mun nefndin skoða nýleg drög að velferðarstefnu Vesturlands og taka úr henni ýmis atriði sem nefndin telur að samræmist markmiðum nefndarinnar.

Íþrótta- og æskulýðsnefnd stefnir að því að efna til heilsuviku á sama tíma og hreyfivika UMFÍ stendur yfir, þ.e. 27. maí til 2. júní. Ennfremur mun nefndin hvetja bæjarbúa til þátttöku í átaki ÍSÍ, "Hjólað í vinnuna", sem stendur yfir dagana 8. til 28. maí nk.

Bæjarstjóri mun leita eftir verkefnisstjóra til að halda utan um skipulagningu þessara viðburða.


Íþrótta- og tómstundanefnd - 90. fundur - 20.05.2019

Rætt um ýmis verkefni nefndarinnar.

Björg kynnti hugmynd sem Sævar Pálsson setti fram í erindi til hennar. Þar kynnti hann fordæmi úr öðru sveitarfélagi um tillöguvettvang sem gerir íbúum kleift að koma með tillögur að tómstundastarfi, útivistarstöðum, útivistarupplifun og menningarupplifun. Hugmyndir rata svo margar hverjar til raunverulegra framkvæmda.
Nefndin ræddi erindið og færir Sævari bestu þakkir fyrir. Nefndin mun útfæra þetta í starfi sínu. Til umræðu síðar.

Rætt um Þríhyrninginn.
Nefndin vísar í fyrri umræðu og bókanir sínar um Þríhyrninginn. Nefndin leggur til við bæjarstjórn að á komandi vetri fari fram undirbúningur fyrir uppbyggingu í Þríhyrningi, þannig að framkvæmdir geti hafist vorið 2020 á þeim grunni. Íbúum verði boðið að taka þátt í að móta hugmynd um fyrirkomulag svæðisins. Horft verði til eldri hugmynda um notkun Þríhyrningsins og þær nýttar eftir því sem við á. Nefndin minnir einnig á hugmynd í vinnslutillögu aðalskipulags um útikennslustofu í Þríhyrningi og leggur áherslu á að af þeim áformum verði.

Íþrótta- og tómstundanefnd - 91. fundur - 28.08.2019

Rætt um áherslur og verkefni á sviði nefndarinnar. Rætt um starf félagsmiðstöðvarinnar á komandi vetri.
Björg sagði frá vinnu sem er hafin við stefnumótun bæjarins og fundum sem haldnir verða í tengslum við það.
Íþrótta- og æskulýðsnefnd mun taka þátt í þeirri vinnu, en hefur jafnframt á dagskrá að ræða við forsvarsfólk í íþróttafélögum í vetur.


Íþrótta- og tómstundanefnd - 98. fundur - 21.10.2020

Rætt stuttlega um verkefni og hlutverk.
Nefndin stefnir að því að bjóða íþróttafélögum til samtals á nýju ári.

Íþrótta- og tómstundanefnd - 100. fundur - 16.02.2021

Rætt um fræðslumál fyrir ungt fólk.
Ragnheiður Dröfn sagði frá því að nýstofnað væri "Hinsegin Vesturland" sem hefur það að markmiði að fræða unglinga/ungt fólk út frá þeim útgangspunkti að vinna gegn fordómum og að ungt fólk eigi að "þora að vera það sjálft".

Einnig er vefurinnn otila.is (Hinsegin frá Ö til A) með margvíslegri fræðslu.

Rætt um þörf fyrir fræðslu og að vinna gegn fordómum.

--
Ragnheiður sagði frá starfi félagsmiðstöðvarinnar Eden, sem hún stýrir.

Til stendur að halda söngkeppnina SamVest (félagsmiðstöðvar á Vesturlandi) í Grundarfirði 15. apríl nk. Félagsmiðstöðvarnar í Grundarfirði og Stykkishólmi standa saman að þeim undirbúningi.

Nýir sófar eru komnir í sameiginlegt rými á unglingastigi í grunnskólanum. Rýmið er nú að hluta til nýtt fyrir starf félagsmiðstöðvarinnar.



Íþrótta- og tómstundanefnd - 102. fundur - 03.09.2021

Rætt um notkun íþróttavallar og ástandsúttekt á íþróttahúsi, utanhúss.
Rætt var um notkun íþróttavallarins. Nefndin telur það umhugsunarefni að völlurinn sé ekki nýttur meira fyrir æfingar og leiki, en raun er á.
Nefndin mun taka þetta upp við UMFG og tilheyrandi aðila.
Eins var rætt um hvort aðgengi barna og ungmenna, til æfinga á vellinum, sé opið - eins og æskilegt væri. Nefndin mun skoða þetta nánar.

Valgeir vék nú af fundi og var honum þakkað fyrir komuna.

Björg sagði frá því að í gær hafi borist skýrsla frá Eflu, verkfræðistofu, um mat á ástandi íþróttahússins, einkum utanhúss. Bæjarstjórn óskaði eftir úttektinni, einkum til að geta betur gert sér grein fyrir ástandi ytra byrðis hússins; klæðningu, þaki, gluggum, o.fl. sem kominn er tími á að endurbæta. Með úttektinni er bæjarstjórn betur í stakk búin að taka ákvörðun um heildstæðar viðgerðir sem þurfa að fara fram á húsinu. Skýrslan verður tekin fyrir í bæjarráði/bæjarstjórn í september.

Að loknum þessum dagskrárlið vék Ragnheiður Dröfn af fundi, en Signý tók formlega sæti hennar.