Málsnúmer 2005005

Vakta málsnúmer

Bæjarstjórn - 238. fundur - 14.05.2020

Lagt fram erindi Almennu umhverfisþjónustunnar ehf. um heimild til efnistöku og malarvinnslu í námum sveitarfélagsins.

Bæjarstjórn þakkar fyrir erindið, sem snýr að efnistöku í Hrafná, Kolgrafafirði og Lambakróarholti, í Grafarlandi. Fram var lögð greinargerð skipulags- og byggingarfulltrúa um námumálin. Með minnisblaðinu eru myndir og gögn af þeim námum sem eru nú til skoðunar.

Náma í Hrafná
Ekki er fyrir hendi leyfi til efnistöku í Hrafná, en í minnisblaðinu kom fram að í vetur hefur verið í undirbúningi umsókn um framkvæmdaleyfi, af hálfu Grundarfjarðarbæjar til nýtingar efnis úr námu E-4 í gildandi aðalskipulagi(merkt E-14 í aðalskipulagstillögu Grundarfjarðarbæjar), árfarvegur Hrafnár, í Hrafnkelsstaðabotni, Kolgrafafirði. Bærinn fékk ráðgjafa til að útbúa nýtingaráætlun fyrir efnistökuna, en skipulags- og byggingarfulltrúi heldur utan um verkið, eins og fram kemur í minnisblaði hans. Nýtingaráætlun ásamt frekari gögnum verður lögð fram með umsókn bæjarins um framkvæmdaleyfi til efnistöku í námunni, til skipulags- og umhverfisnefndar, þegar gögn verða fullbúin. Að fengnu framkvæmdaleyfi til efnistöku, mun bærinn setja skilmála um umgengni við námuna og væntir þess að þá verði efnistaka möguleg.

Náma í Lambakróarholti
Þar liggur fyrir framkvæmdaleyfi bæjarins, sem landeiganda, til efnistöku úr námunni, frá því í lok árs 2019. Heimildin er til töku á um 140.000 m3 af efni, á um 29.000 m2 svæði námunnar. Um 70.000 m3 af klapparefni úr námunni munu fara í brimvörn og fyllingarefni vegna lengingar sem nú stendur yfir á Norðurgarði. Í umsókn bæjarins um framkvæmdaleyfi í nóvember 2019 sagði síðan „Að auki er á næstu árum þörf á um 70.000 m3 klapparefnis í aðrar framkvæmdir, m.a. vegna hafnarframkvæmda við Miðgarð.“ Þessir 70.000 m3 eru því til ráðstöfunar.

Bæjarstjórn felur skipulags- og byggingarfulltrúa að fara yfir og meta hve mikil þörf hafnarinnar og bæjarfélagsins er á næstu árum, til efnis úr námunni, m.a. með samráði við hafnarstjóra, og að leggja fram tillögu um nýtingu efnis úr námunni til annarra framkvæmda, svo unnt sé að svara erindi Almennu umhverfisþjónustunnar ehf.

Samþykkt samhljóða.

Bæjarstjórn - 245. fundur - 14.01.2021

Lögð fyrir erindi Almennu umhverfisþjónustunnar ehf. frá 28. mars 2020 þar sem óskað er eftir samningi til fimm ára til að vinna efni til steypugerðar og annarra nota úr námu í Lambakróarholti, og erindi dags. 5. maí 2020 um að fá að taka efni úr námu í Hrafnsá. Báðar námurnar eru í landi í eigu bæjarins. Erindin voru áður tekin fyrir á fundi bæjarstjórnar í maí 2020, en þá lá einnig fyrir umsögn skipulags- og byggingarfulltrúa um þau. Bæjarstjórn fól á þeim fundi skipulags- og byggingarfulltrúa að fara yfir og meta hve mikil þörf hafnarinnar og bæjarfélagsins er á næstu árum, til efnis úr námunni, m.a. með samráði við hafnarstjóra, og að leggja fram tillögu um nýtingu efnis úr námunni til annarra framkvæmda á vegum bæjarins, svo unnt sé að svara erindi Almennu umhverfisþjónustunnar ehf.

Skipulags- og byggingarfulltrúi hefur haft efnisnámur og efnisþörf bæjarins, hafnar o.fl. til skoðunar. Í júlí 2020 fundaði hann með eiganda Almennu umhverfisþjónustunnar ehf. um málið. Hann hefur rætt við hafnarstjóra og verkstjóra áhaldahúss um framkvæmdir og fyrirkomulag efnistöku á vegum bæjar og hafnar. Grundarfjarðarbær hafði áður sett af stað vinnu við að sækja um leyfi og vinna tilheyrandi efnistökuáætlun vegna Hrafnsár í Kolgrafafirði.
Skipulags- og byggingarfulltrúi fékk ráðgjafarfyrirtækið Alta til að skoða með sér og taka saman upplýsingar um efnistökumál í sveitarfélaginu, sem hafa svo verið teknar saman í minnisblað fyrir bæjarstjórn.

Um þessa vinnu voru lögð fyrir fundinn þrjú minnisblöð, annars vegar um stöðu efnis í efnisnámu í Lambakróarholti, dags. 14.01.2021 og hinsvegar almennt um efnisnám í Grundarfjarðarbæ - stöðu mála og tillögu að næstu skrefum, dags. 14.01.2020. Auk þess var lagt fram minnisblað úr þeirri vinnu sem fram hefur farið vegna efnistökuáætlunar úr Hrafnsá og mikils framburðar úr Hrafnsánni, sem m.a. hefur áhrif á skotsvæði og brú yfir Hrafnsá.
Í minnisblaði um Lambakróarholtið kemur m.a. fram að:
Lambakróarholtið er afar mikilvægt sem grjótnáma fyrir Grundarfjarðarbæ, vegna nálægðar þess við bæinn og höfnina, þar sem nýta þarf grjótið til brimvarna. Náman er því bænum einkar hagkvæm í alla staði. Vinnslu á efni úr grjótnámunni í Lambakróarholti vegna yfirstandandi framkvæmda við lengingu Norðurgarðsins er að ljúka. Áður en lenging Norðurgarðsins hófst, voru 140.000 m3 af klöpp í Lambakróarholtsnámu sem efnistökuleyfi var fyrir. Reiknað var með að vinna um 70.000 m3 af efni úr námunni í lengingu Norðurgarðsins og að 70.000 m3 til viðbótar yrðu síðan nýttir í hafnarframkvæmdir á næstu árum eða áratugum. Við lengingu Norðurgarðs hafa nú verið teknir 42.200 m3 af föstu bergi, sem samsvarar 54.851 m3 af lausu bergi. Skipting efnisins í námunni hefur verið þannig:
- 36.790 m3 af kjarna (þ.e. fínna efni en grjóti, sem verður til við vinnslu), þ.e. um 67%.
- 18.060 m3 af grjóti, þ.e. um 33%.
Samkvæmt þessu eru um 97.800 m3 eftir af núverandi efnistökusvæði þegar efnistöku er lokið í Norðurgarðinn. Sé miðað við þá nýtingu sem fengist hefur úr námunni má ætla að um 40.000 m3 fáist til viðbótar af (stóru) grjóti úr námunni.
Af sprengdu efni er enn til í námunni stórt grjót sem mun fara í fyrirstöðugarðinn. Annað efni er búið, þ.e. allur sprengdur kjarni.
Efnið í námunni er bænum gríðarlega mikilvægt til framtíðar. Öll vinnsla og nýting þess þyrfti að miða að því að vinna eins stórt grjót og mögulegt er að ná úr námunni. Brotið efni sem ekki nýtist sem grjót, er síðan hægt að nýta í annað, sbr. frekari ákvörðun þar um. Því þyrfti ávallt að sprengja efnið í námunni þannig að tryggt sé að hægt verði að ná öllu stóru grjóti sem eftir er. Önnur vinnsla og not af efni tækju mið af því.

Bæjarstjórn telur í ljósi ofangreinds, að ekki sé mögulegt að verða við erindi Almennu umhverfisþjónustunnar um að gera fastan samning til fimm ára um efnistöku til steypugerðar og annarra nota, úr námunni í Lambakróarholti.

Í minnisblaðinu segir einnig, að samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum sé efni í steypu, malbik og klæðningu í sveitarfélaginu af skornum skammti. Í því ljósi er lagt til að það efni í Lambakróarholtsnámu sem til fellur sem kjarni, verði einvörðungu nýtt þar sem þess er helst þörf og það verðlagt sem slíkt. Ákvörðun um notkun kjarnans byggi á niðurstöðum á efnisgreiningum og í kjölfarið mati á því hvar efnisins sé helst þörf, m.a. á grunni greiningar á þörf og efnisgreiningum á öðrum námum, sbr. úttekt sem skipulags- og byggingarfulltrúa hefur verið falið að vinna.

Efni í öðrum námum en í Lambakróarholtsnámu sé þá nýtt í framkvæmdir þar sem það best hentar, s.s. í stíga, vegi, húsgrunna o.fl. eftir atvikum. Mögulega hentar efni í öðrum námum líka í steypu, malbik og/eða klæðningu, en afla þarf yfirsýnar um það. Ávallt sé miðað að því að nýta efni skv. niðurstöðum á efnisgreiningu, til þeirra framkvæmda sem hagkvæmast er, þannig að t.d. stærsta og verðmætasta grjótið sé ekki tekið til niðurbrots og notkunar í annað en hafnargerð og sjóvarnir, efni til steypugerðar sé ekki tekið til nota þar sem annað og verðminna efni dugar, o.s.frv.

Bæjarstjórn tekur undir tillögu skipulags- og byggingarfulltrúa um að áður en ákvörðun er tekin um notkun á kjarnanum úr Lambakróarholtsnámunni, þá sé sannreynt með greiningum á efnisgæðum, til hvers kjarninn hentar best og sérfræðiálit fengið frá aðila sem sérhæfir sig í mati á efnisgæðum og notum á efni m.t.t. þessa. Þetta yrði hluti þeirrar heildarúttektar sem skipulags- og byggingarfulltrúa hefur verið falið að vinna. Í úttektinni verði þeirri spurningu einnig svarað hvaða efniskröfur eru gerðar um efni til nota s.s. í steypu, malbik, klæðningu, undirlag í stíga, vegi, efni í húsgrunna og annað sem þörf er á að nýta efni í. Skipulags- og byggingarfulltrúa er falið að ljúka þessari skoðun og útfæra niðurstöðu til bæjarstjórnar.
Fyrir liggur nú þegar ákvörðun um að efnisgreina efni úr námu í Hrafnsánni í tengslum við framkvæmdaleyfisumsókn bæjarins.

Ennfremur var lagt fram minnisblað um efnisnám í Grundarfjarðarbæ - staða mála og tillaga að næstu skrefum, dags. 14.01.2020. Eftirfarandi kemur þar fram:
"Rætt hefur verið um mikilvægi þess að hafa yfirlit um hvers konar efni væri í tilteknum námum í Grundarfjarðarbæ og til hvers það væri helst nýtanlegt, til að tryggja að vel sé farið með efni, einkum og sérílagi það efni sem lítið framboð er af og nýta þarf til sérstakra nota, sem annað efni getur ekki komið í staðinn fyrir. Það skiptir líka miklu máli fyrir hagkvæmni framkvæmda að hægt sé að ná í "rétta" efnið, sem næst notkunarstað. Almennt séð þyrfti að huga að því að nota aldrei betra efni en þarf til tiltekinna framkvæmda. Besta eða "rétta" efnið þarf að vera tiltækt í þau verk þar sem þess er nauðsynlega þörf og þar sem það er virkilega verðmætt.
Í Aðalskipulagi Grundarfjarðarbæjar 2019-2029 liggur fyrir yfirlit um helstu námur í sveitarfélaginu og hversu mikið efni væri mögulega hægt að taka úr þeim. Hins vegar liggur ekki fyrir greinargott yfirlit um það hvers konar efni er að finna í hverri námu og þá til hvers konar nota það kann að henta best. Ekki liggur heldur fyrir gróft yfirlit um það hve mikil fyrirhuguð efnisþörf er á svæðinu í heild, né hvers konar efni þörf er á. Þá er verið að horfa til efnis t.d. í steypu, malbik, klæðningu, sem undirlag í vegi, í stíga, húsgrunna, hafnarframkvæmdir, sjóvörn o.fl., en fram hefur komið ósk um það að fá að nýta efni úr Lambakróarholtsnámu í steypu, malbik og klæðningu. Spurningin í því sambandi er m.a. sú hvar annars staðar væri hægt að ná í nothæft efni í nægilegu magni til þeirra þarfa á næstu árum, ef ekki úr Lambakróarholtsnámu, sem halda þarf áfram að nýta sem grjótnámu og hvort sömu kröfur eru gerðar til efnisgæða í steypu, malbik og klæðningu. Fjölbreytt jarðfræði Snæfellsness, gerir það að verkum að berg er mjög fjölbreytilegt hvað varðar tegund sem byggist á efnasamsetningu þess. [...] Verið er að vinna yfirlit um efnisþörf fyrir helstu framkvæmdir Grundarfjarðarbæjar og hvers konar efni muni þurfa til þeirra. Gert er ráð fyrir því að yfirlitið muni liggja fyrir um næstu mánaðamót."

Í minnisblaðinu er lögð fram eftirfarandi tillaga:
- Lagt til að tekið verði saman gróft yfirlit um það hvers konar efni er til á svæðinu (aðallega þá innan Grundarfjarðarbæjar, til framkvæmda þar). - Í samræmi við fyrri bókun.
- Lagt til að Grundarfjarðarbær láti kanna efnisgæði í námum sem bærinn hefur yfir að ráða, þ.e. Lambakróarholtsnámunni og Hrafnsá, til að fá upplýsingar um hver helstu not af efninu í þessum námum geti verið. Þannig verði t.d. hægt að tryggja að ekki sé verið að nýta úrvalsefni, sem mögulega er í takmörkuðu magni í Grundarfjarðarbæ, í framkvæmdir þar sem mögulegt væri að nýta annað, ódýrara efni. - Í samræmi við fyrri bókun.
- Lagt til að Grundarfjarðarbær móti stefnu um notkun á efni úr námum bæjarins til að tryggja markviss not á efninu. Hún myndi byggja m.a. á niðurstöðum á greiningu efnisgæða.
- Lagt til að Grundarfjarðarbær komi sér upp gjaldskrá vegna sölu á efni úr námum sínum. Allmörg sveitarfélög hafa skoðað hvernig standa eigi að efnistöku og sölu á efni úr þeirra landi [...] Grundarfjarðarbær gæti leitað fyrirmynda hér um [...] Mikilvægt er að halda þessu sem einföldustu en þannig að ákvörðunartaka um sölu og not af efni sé ávallt gagnsæ og vel farið með auðlindir sveitarfélagsins.

Forseti leggur til að farið verði að þessari tillögu og skipulags- og byggingarfulltrúa falið að ljúka vinnu og útfæra með tillögu til bæjarstjórnar. Samþykkt samhljóða.

Í niðurlagi fyrrgreinds minnisblaðs um Lambakróarholtsnámu er að lokum lagt til að deiliskipulag iðnaðarsvæðisins verði endurskoðað og það stækkað þannig að það nái yfir báða landnotkunarreitina í heild, þ.e. I-1 og E-3. Bæjarstjórn samþykkir samhljóða að fela skipulags- og umhverfisnefnd að skoða skipulagið m.t.t. þessarar ábendingar.

Allir tóku til máls undir þessum lið.