245. fundur 14. janúar 2021 kl. 16:30 - 20:21 í Samkomuhúsi Grundarfjarðar
Nefndarmenn
  • Jósef Ó. Kjartansson (JÓK) forseti bæjarstjórnar
  • Hinrik Konráðsson (HK)
  • Unnur Þóra Sigurðardóttir (UÞS)
  • Sævör Þorvarðardóttir (SÞ)
  • Rósa Guðmundsdóttir (RG)
  • Garðar Svansson (GS)
  • Bjarni Sigurbjörnsson (BS)
Starfsmenn
  • Björg Ágústsdóttir (BÁ) bæjarstjóri
  • Sigurlaug R. Sævarsdóttir (SRS) skrifstofustjóri
Fundargerð ritaði: Sigurlaug R. Sævarsdóttir skrifstofustjóri
Dagskrá
Forseti setti fund og gengið var til dagskrár.

1.Minnispunktar bæjarstjóra

Málsnúmer 1808018Vakta málsnúmer

Bæjarstjóri fór yfir minnispunkta sína. Hún sagði m.a. frá ýmsum fundum í desember og janúar, m.a. frá umræðum á Landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga þann 18. desember sl. sem forseti bæjarstjórnar og bæjarstjóri sátu. Þingið fór fram í fjarfundi, í fyrsta skipti. Til umfjöllunar þar var m.a. tillaga tiltekinna sveitarfélaga um eflingu sveitarstjórnarstigsins með þeirri breytingu að lagt var til að hafnað yrði lögfestingu ákvæðis um lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga.
Bæjarstjóri sagði frá vinnu við undirbúning fjögurra sveitarfélaga á Snæfellsnesi að stofnun sameiginlegs skipulags- og byggingarfulltrúaembættis sem er í gangi. Hún sagði frá því að fulltrúar sveitarfélaganna á Snæfellsnesi hefðu óskað eftir og fengið fund með forstjóra RARIK, þann 4. janúar sl., eftir rafmagnsleysi á svæðinu að kvöldi sunnudagsins 3. janúar. Rætt hefði verið um ástæður og úrbætur, um varaafl, og m.a. hefðu sveitarfélögin lagt til úrbætur á upplýsingagjöf þegar rof verður á afhendingu rafmagns.
Hún sagði frá því að Svæðisgarðurinn Snæfellsnes hefur fengið 15 millj. kr. á fjárlögum ársins 2021, til uppbyggingar. Og Sögumiðstöðin hlýtur styrk úr Uppbyggingarsjóði Vesturlands til uppbyggingar samfélagsmiðstöðvar.
Bæjarstjóri sagði frá samskiptum við Vegagerðina vegna breytinga á hraðamörkum í þéttbýlinu, en ekki hafa borist svör við fyrirspurn bæjarstjóra um umsögn Vegagerðarinnar um ákvörðun bæjarstjórnar frá nóvember 2019 um 30 km hámarkshraða á Grundargötu, sbr. breytingu á umferðarlögum.

2.Störf bæjarstjórnar á kjörtímabilinu - Umræða

Málsnúmer 1808012Vakta málsnúmer

Forseti sagði frá fundi með framkvæmdastjóra og þremur stjórnendum hjá Veitum ohf., sem haldinn var í gær, 13. janúar. Fundinn sátu þrír bæjarfulltrúar, bæjarstjóri, skipulags- og byggingarfulltrúi og verkstjóri áhaldahúss. Tilgangur fundar var að fara yfir framkvæmd mála í vatnsveitunni, fyrirhugaðar framkvæmdir og viðhald, heyra af áformum bæjarins um framkvæmdir og uppbyggingu almennt í bænum. Rætt var þar um veitumál, vatns- og hitaveitumál og um tækifæri í orkuskiptum á köldum svæðum.

Allir tóku til máls.

Bæjarstjóri sagði frá því að hún hafi átt fund með fulltrúum UMFG vegna notkunar á húsnæðinu að Borgarbraut 18 fyrir rafíþróttir, sem UMFG hyggst bjóða uppá, en á bæjarráðsfundi 21. desember sl. var samþykkt að bjóða UMFG húsnæðið undir þessa starfsemi.


3.Atvinnumál - Umræða

Málsnúmer 1808013Vakta málsnúmer

Rætt með lið nr. 2 á fundinum.

4.Bæjarráð - 562

Málsnúmer 2012001FVakta málsnúmer

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða fundargerð 562. fundar bæjarráðs.
  • Bæjarráð - 562 Ragnheiður Agnarsdóttir, mannauðsráðgjafi, sat fundinn undir þessum lið.

    Í kjarasamningum Sambands íslenskra sveitarfélaga sem gerðir voru á árinu 2020 var gert tímamótasamkomulag um styttingu vinnutíma starfsfólks. Markmið styttingar vinnutímans er að bæta lífskjör og auðvelda samræmi á milli vinnu og einkalífs. Styttingin hefur einnig það að markmiði að bæta vinnustaðamenningu og auka skilvirkni og þjónustu. Hún byggir á gagnkvæmum sveigjanleika og getur þannig stuðlað að bættum lífskjörum. Lagt var upp með að styttingin myndi hvorki skerða þjónustu né fela í sér kostnaðarauka fyrir viðkomandi sveitarfélag.

    Grundarfjarðarbær kom á fót vinnutímanefnd með fulltrúum stofnana bæjarins. Í framhaldinu fór af stað vinna á stofnunum, gerðar voru tillögur að útfærslu og fyrirkomulagi, kosið um þær og þær sendar stjórnendum til umræðu.

    Mikill áhugi var á því meðal starfsfólks að ná fram 36 klst. virkri vinnuviku, þ.e. að stytta vinnuvikuna um allt að 4 klst. á viku. Í þeirri útfærslu felst að starfsfólk afsali sér forræði yfir matar- og kaffitímum, en því séu eftir sem áður tryggð nauðsynleg neysluhlé. Einnig var meirihluti starfsfólks áhugasamur um að safna styttingunni upp í lengri tíma, t.d. innan mánaðar.

    Bæjarráð þakkar það góða starf sem starfsfólk og stjórnendur hafa unnið á síðustu vikum, til að kanna möguleikann á því að útfæra fulla styttingu vinnuvikunnar, án þess að það leiði til kostnaðarauka eða þjónustuskerðingar.

    Að teknu tilliti til þeirra fjölmörgu sjónarmiða sem komið hafa fram í samtali um styttingu vinnuvikunnar, leggur bæjarráð til að frá 1. janúar 2021 verði vinnutími starfsfólks Grundarfjarðarbæjar fyrir 100% starf styttur um 30 mínútur á dag eða 2,5 klst. á viku og að mögulegt sé að safna þeirri styttingu upp innan mánaðar. Starfsfólki sé áfram tryggt 20 mínútna kaffihlé á dag og að það sé á forræði starfsfólks. Virkur vinnutími starfsfólks í 100% starfi verður því 36 klst. á viku. Nánari útfærsla á vinnutímastyttingu sé í höndum starfsfólks og stjórnenda á hverri starfsstöð fyrir sig og taki mið af þeim tillögum sem liggja fyrir og kosið hefur verið um á flestum starfsstöðvum.

    Bæjarráð telur að þessi viðmið um útfærslu séu mikilvægt fyrsta skref í þá átt að ná fram markmiðum samkomulagsins um styttingu vinnuvikunnar. Mikilvægt er að tryggja jafnræði á sama tíma og hver vinnustaður hefur frelsi til útfærslu á styttingu í nærumhverfi sínu, líkt og samkomulagið gerir ráð fyrir.

    Fyrirkomulag þetta skal endurmetið í maí 2021 með tilliti til markmiða, þ.e. að fyrirkomulagið hafi jákvæð áhrif á vinnumenningu, starfsánægju starfsfólks og leiði ekki til kostnaðarauka fyrir sveitarfélagið eða þjónustuskerðingar fyrir íbúa. Verði þeim markmiðum náð á öllum vinnustöðum Grundarfjarðarbæjar, myndast forsendur til þess að ganga lengra í útfærslu á styttingu vinnudagsins, t.d. með því að gera neysluhlé að fullu sveigjanleg og að þau verði á forræði vinnuveitenda.

    Samþykkt samhljóða.
  • Bæjarráð - 562 Dvalar- og hjúkrunarheimilið Fellaskjól hefur ákveðið að hækka verð á matarskömmtum sem seldir eru út til eldri borgara, úr 850 kr. í 1.000 kr. skammtinn frá 1. janúar 2021, en gjaldið hefur verið óbreytt síðan árið 2012.

    Bæjarráði þykir hækkun á matarskömmtum koma heldur seint fram, þar sem búið er að samþykkja fjárhagsáætlun næsta árs.

    Lagt er til að Grundarfjarðarbær selji eldri borgurum matarskammtinn á 900 kr. og niðurgreiði hvern matarskammt þar með um 100 kr. Áætluð niðurgreiðsla á matarskömmtum fyrir eldri borgara er um 200-300 þús. kr. á árinu 2021 og yrði annar kostnaður lækkaður á móti.

    Samþykkt samhljóða.
  • Bæjarráð - 562 Ungmennafélag Grundarfjarðar (UMFG) hefur óskað eftir því við Grundarfjarðarbæ að fá aðgang að húsnæði þar sem hægt væri að þjálfa og æfa rafíþróttir. Mikið hefur verið leitað að húsnæði og var fyrst talið að kjallari að Grundargötu 30 væri besti kosturinn. Eftir skoðun á loftræstingu og neyðarútgöngum kom í ljós að húsnæðið hentar ekki.

    Eftir skoðun á öðru húsnæði bæjarins var talið að húsnæði félagsmiðstöðvar, að Borgarbraut 18, myndi henta vel fyrir rafíþróttir og annað húsnæði fundið fyrir félagsmiðstöð. Íþrótta- og æskulýðsnefnd, bæjarstjóri, formaður bæjarráðs og forstöðumaður félagsmiðstöðvar hafa farið yfir málið með skólastjóra grunnskólans, en grunnskólinn getur hýst félagsmiðstöð, til reynslu á vorönn. Skólastjóri grunnskólans og forstöðumaður félagsmiðstöðvar munu í byrjun árs 2021 gera með sér frekara samkomulag. Að reynslutíma liðnum yrði framhaldið ákveðið.

    Bæjarráð felst á ofangreint fyrirkomulag, að Borgarbraut 18 standi UMFG til boða fyrir rafíþróttir og að félagsmiðstöð verði flutt í grunnskólann til reynslu.

    Samþykkt samhljóða.

5.Skólanefnd - 155

Málsnúmer 2010002FVakta málsnúmer

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða fundargerð 155. fundar skólanefndar.
  • Fyrir liggur samantekt leikskólastjóra um starfið.

    Gestir fjarfundar undir þessum lið eru:

    Anna Rafnsdóttir leikskólastjóri
    María Rún Eyþórsdóttir fulltrúi starfsmanna
    Rut Rúnarsdóttir fulltrúi foreldra

    Skólanefnd - 155 Formaður bauð gesti velkomna á fundinn.

    Eftirfarandi atriði er að finna í samantekt leikskólastjóra, sem lá fyrir fundinum:

    Það sem af er skólaári hefur starfið gengið vel. Aðlögun nýrra nemenda hefur verið í fullum gangi í haust, síðustu aðlaganir verða eftir áramótin, alla vega ein er skipulögð í janúar.

    Skólaárið hefur verið litað af Covid takmörkunum eins allt samfélagið og er það farið að taka verulega á starfsfólk. Það þarf aukinn mannskap til að opna og loka því nú mega foreldrar ekki koma inn í leikskólann. Mikil áhersla er á sótthreinsun á snertiflötum og persónulegt hreinlæti. Foreldrar eru með grímur þegar þeir koma með börnin og sækja þau, en eins og áður sagði þá er tekið á móti börnunum við útidyrnar. Starfsfólk notar einnig grímur, á morgnana þegar verið er að taka á móti og þegar það fer út af sínum deildum. Ein deild getur farið í fataherbergið í einu. Drekadeild og Ugludeild sem nota sama salerni þurfa að vera ein deild í einu. Starfsfólk er stanslaust á tánum, um hvort verið sé að gera „rétt“ eða „nóg“. Takmarkanir eru á fjölda starfsfólks á kaffistofu og nýta þarf önnur herbergi ef kaffistofan er fullsetin. Við erum stanslaust með hugann við Covid og sóttvarnir,
    sem hafa aukið álag á starfsfólk mjög mikið.

    Nemendur skólans eru nú 46, á Drekadeild eru 16 nemendur (3 og 4 ára), á Ugludeild eru 16 nemendur (18 mán til 2 ára) og á Músadeild eru 14 nemendur (1 árs).
    Starfsmenn eru 22 í 18,03 stöðugildum. Af þeim eru 2 starfsmenn í grunnnámi í leikskólakennarafræðum, 1 starfsmaður í framhaldsnámi í menntunarfræði leikskóla (sem gefur leikskólakennaratitil að námi loknu) og 1 starfsmaður í uppeldis ? og menntunarfræðum. Leikskólastjóri stefnir að því að skrifa lokaritgerð til M.Ed gráðu í námi sem hún hefur stundað í stjórnun menntastofnana. Leikskólastjóri telur mikilvægt að fjölga leikskólakennurum, því lögum samkvæmt eigi leikskólakennarar að vera að lágmarki 2/3 af fjölda starfsmanna, en séu í dag eingöngu leikskólastjóri og aðstoðarleikskólastjóri.

    Föstudaginn 18. september sl. var sameiginlegur starfsdagur hjá leik- og grunnskóla og Eldhömrum. Uppeldi til ábyrgðarnámskeið, sem vera átti á síðustu vorönn, var haldið í haust og tókst vel. Nokkur teymi eru í leikskólanum sem hafa það hlutverk að halda utan um og leiða starfið í því sem við viljum leggja áherslu á, annað er uppeldi til ábyrgðarteymi sem mun vinna að því að innleiða stefnuna inn í daglegt skólastarf. Hitt teymið er heilsueflandi teymi sem ákveður hvaða efnisþætti er unnið með í innleiðingu á því efni.

    Kerfisveggur var settur upp sl. sumar sem aðskilur deildir í nýrri hluta leikskólans. Mikill munur er á hljóðvist og starfsaðstæðum, að sögn leikskólastjóra, og engin truflun á milli deilda. Starfsfólk talar um að því finnist minni glymjandi í rýmunum því veggurinn dempar það vel. Einnig var settur upp nýr dótaskúr á lóð leikskólans í sumar og sá gamli var fjarlægður. Það er mikill munur að geta nýtt þennan skúr fyrir báða garðana, yngri og eldri deild, og er ánægja með hann.

    Stjórnendur voru á góðu stjórnendanámskeiði í lok ágúst sl., sem er einn liður í umbótaáætlun, sbr. vinnustaðagreiningu frá 2018, til að efla stjórnendur í starfi.

    Starfshópur leikskólans um styttingu vinnuvikunnar hefur skilað frá sér sínum tillögum, einn starfsmaður á leikskólanum er líka í vinnuhópi á vegum bæjarins. Stytting vinnuvikunnar á að hefjast 1. janúar 2021.

    Sumarfrí 2021: Í haust kom fyrirspurn frá Rósu Guðmundsdóttur hjá G.Run. hf. sem hún sendi á skólastjóra leik- og grunnskóla (vegna Eldhamra), bæjarstjóra og formann skólanefndar. Spurt er hvort athuga megi hvort hægt sé að hefja sumarfrí leikskólans einni viku síðar en skóladagatal segir. Leikskólastjóri segist jákvæð fyrir því að seinka sumarleyfislokun um eina viku og að sumarfrí leikskólans verði frá 5. júlí til 10. ágúst 2021, starfsfólk mæti þá til vinnu mánudaginn 9. ágúst á starfsdag og leikskólinn opni þá 10. ágúst kl. 8:00. Ef lokun væri á þennan hátt þá væru búnir 24 dagar af sumarfríi starfsmanna en allir starfsmenn eiga 30 daga sumarfrí frá og með árinu 2021. Ef lokað væri frá föstudeginum 2. júlí og opnað aftur 10. ágúst þá væri lokað í 25 daga. Leikskólastjóri segir að hún og skólastjóri grunnskóla þurfi að komast að niðurstöðu með dagsetningar, en að þau séu jákvæð fyrir því.

    Leikskólastjóri fór yfir helstu áherslur skólans í starfsáætlun fyrir skólaárið 2020-2021. Þær eru settar niður til að gera starfið markvissara og sýnilegra.

    Bæjarstjóri og leikskólastjóri fóru yfir framkvæmdir ársins. Þær helstu voru uppsetning kerfisveggs auk þess sem unnar voru reyndarteikningar af húsnæði leikskólans, nýr dótaskúr á lóð, nýr gufuofn í eldhúsið og nýjar ofnalagnir í eldri hluta húsnæðisins.

    Á næsta ári eru áætlaðar 2 milljónir kr. í fjárfestingu í leikskólanum, m.a. í nýjan háf í eldhúsið, viðgerð á grindverki, auk þess sem eðlilegu viðhaldi verði sinnt.

    --

    Formaður þakkaði leikskólastjóra fyrir góða yfirferð. Hann færði sömuleiðis þakkir til starfsfólks og foreldra fyrir sitt framlag og gott samstarf á tímum Covid.

    Formaður lagði til að skólanefnd samþykki breytingu á starfsáætlun (skóladagatali) og að leikskólastjóra og grunnskólastjóra verði falið að útfæra sumarlokun leikskóla og Eldhamra, í samræmi við erindi G.Run.

    Samþykkt samhljóða.

    Önnu, Maríu Rún og Rut var þakkað fyrir komuna og þátttöku í fundinum.
    Bókun fundar Til máls tóku JÓK, GS, BÁ, HK og UÞS.
  • Skólanefnd - 155 Bæjarstjóri fór yfir fjárhagsáætlun 2021, sagði frá helstu rekstrarniðurstöðum, einkum fjárfestingum við stofnanir á sviði skólanefndar.

    Fyrirhugaðar eru áframhaldandi utanhússviðgerðir á grunnskóla, múrviðgerðir og gluggaskipti. Í næsta lið á undan var sagt frá fjárfestingum í leikskólanum.
    Hún sagði einnig frá áformum um endurbætur á gangstéttum/gönguleiðum, sem koma til framkvæmda á næsta ári.
  • Lagt fram til kynningar. Skólanefnd - 155
  • Skólanefnd - 155 Eitt af áhersluverkefnum Sóknaráætlunar Vesturlands snýst um Fjórðu iðnbyltinguna. Meginmarkmiðið með verkefninu er að framhaldsskólar á Vesturlandi geti aðlagað námsframboð sitt að þeim þáttum sem einkenna Fjórðu iðnbyltinguna. Verkefnið hefur m.a. styrkt alla framhaldsskólanna á Vesturlandi vegna verkefna sem þau hafa ráðist í til að efla námsframboð sitt.

    Í framlögðu erindi SSV kemur fram að Fjölbrautaskóli Snæfellinga hefur verið að undirbúa stofnun nýsköpunarbrautar og mun nýta þann styrk sem fæst úr verkefninu til kaupa á búnaði og endurmenntunar kennara þannig að hægt verði að bjóða upp á kennslu á nýrri námsbraut sem fyrst.

    Lagt fram til kynningar.


  • Lagt fram til kynningar.
    Skólanefnd - 155

6.Almenna umhverfisþjónustan - Erindi um efnisnámur

Málsnúmer 2005005Vakta málsnúmer

Lögð fyrir erindi Almennu umhverfisþjónustunnar ehf. frá 28. mars 2020 þar sem óskað er eftir samningi til fimm ára til að vinna efni til steypugerðar og annarra nota úr námu í Lambakróarholti, og erindi dags. 5. maí 2020 um að fá að taka efni úr námu í Hrafnsá. Báðar námurnar eru í landi í eigu bæjarins. Erindin voru áður tekin fyrir á fundi bæjarstjórnar í maí 2020, en þá lá einnig fyrir umsögn skipulags- og byggingarfulltrúa um þau. Bæjarstjórn fól á þeim fundi skipulags- og byggingarfulltrúa að fara yfir og meta hve mikil þörf hafnarinnar og bæjarfélagsins er á næstu árum, til efnis úr námunni, m.a. með samráði við hafnarstjóra, og að leggja fram tillögu um nýtingu efnis úr námunni til annarra framkvæmda á vegum bæjarins, svo unnt sé að svara erindi Almennu umhverfisþjónustunnar ehf.

Skipulags- og byggingarfulltrúi hefur haft efnisnámur og efnisþörf bæjarins, hafnar o.fl. til skoðunar. Í júlí 2020 fundaði hann með eiganda Almennu umhverfisþjónustunnar ehf. um málið. Hann hefur rætt við hafnarstjóra og verkstjóra áhaldahúss um framkvæmdir og fyrirkomulag efnistöku á vegum bæjar og hafnar. Grundarfjarðarbær hafði áður sett af stað vinnu við að sækja um leyfi og vinna tilheyrandi efnistökuáætlun vegna Hrafnsár í Kolgrafafirði.
Skipulags- og byggingarfulltrúi fékk ráðgjafarfyrirtækið Alta til að skoða með sér og taka saman upplýsingar um efnistökumál í sveitarfélaginu, sem hafa svo verið teknar saman í minnisblað fyrir bæjarstjórn.

Um þessa vinnu voru lögð fyrir fundinn þrjú minnisblöð, annars vegar um stöðu efnis í efnisnámu í Lambakróarholti, dags. 14.01.2021 og hinsvegar almennt um efnisnám í Grundarfjarðarbæ - stöðu mála og tillögu að næstu skrefum, dags. 14.01.2020. Auk þess var lagt fram minnisblað úr þeirri vinnu sem fram hefur farið vegna efnistökuáætlunar úr Hrafnsá og mikils framburðar úr Hrafnsánni, sem m.a. hefur áhrif á skotsvæði og brú yfir Hrafnsá.
Í minnisblaði um Lambakróarholtið kemur m.a. fram að:
Lambakróarholtið er afar mikilvægt sem grjótnáma fyrir Grundarfjarðarbæ, vegna nálægðar þess við bæinn og höfnina, þar sem nýta þarf grjótið til brimvarna. Náman er því bænum einkar hagkvæm í alla staði. Vinnslu á efni úr grjótnámunni í Lambakróarholti vegna yfirstandandi framkvæmda við lengingu Norðurgarðsins er að ljúka. Áður en lenging Norðurgarðsins hófst, voru 140.000 m3 af klöpp í Lambakróarholtsnámu sem efnistökuleyfi var fyrir. Reiknað var með að vinna um 70.000 m3 af efni úr námunni í lengingu Norðurgarðsins og að 70.000 m3 til viðbótar yrðu síðan nýttir í hafnarframkvæmdir á næstu árum eða áratugum. Við lengingu Norðurgarðs hafa nú verið teknir 42.200 m3 af föstu bergi, sem samsvarar 54.851 m3 af lausu bergi. Skipting efnisins í námunni hefur verið þannig:
- 36.790 m3 af kjarna (þ.e. fínna efni en grjóti, sem verður til við vinnslu), þ.e. um 67%.
- 18.060 m3 af grjóti, þ.e. um 33%.
Samkvæmt þessu eru um 97.800 m3 eftir af núverandi efnistökusvæði þegar efnistöku er lokið í Norðurgarðinn. Sé miðað við þá nýtingu sem fengist hefur úr námunni má ætla að um 40.000 m3 fáist til viðbótar af (stóru) grjóti úr námunni.
Af sprengdu efni er enn til í námunni stórt grjót sem mun fara í fyrirstöðugarðinn. Annað efni er búið, þ.e. allur sprengdur kjarni.
Efnið í námunni er bænum gríðarlega mikilvægt til framtíðar. Öll vinnsla og nýting þess þyrfti að miða að því að vinna eins stórt grjót og mögulegt er að ná úr námunni. Brotið efni sem ekki nýtist sem grjót, er síðan hægt að nýta í annað, sbr. frekari ákvörðun þar um. Því þyrfti ávallt að sprengja efnið í námunni þannig að tryggt sé að hægt verði að ná öllu stóru grjóti sem eftir er. Önnur vinnsla og not af efni tækju mið af því.

Bæjarstjórn telur í ljósi ofangreinds, að ekki sé mögulegt að verða við erindi Almennu umhverfisþjónustunnar um að gera fastan samning til fimm ára um efnistöku til steypugerðar og annarra nota, úr námunni í Lambakróarholti.

Í minnisblaðinu segir einnig, að samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum sé efni í steypu, malbik og klæðningu í sveitarfélaginu af skornum skammti. Í því ljósi er lagt til að það efni í Lambakróarholtsnámu sem til fellur sem kjarni, verði einvörðungu nýtt þar sem þess er helst þörf og það verðlagt sem slíkt. Ákvörðun um notkun kjarnans byggi á niðurstöðum á efnisgreiningum og í kjölfarið mati á því hvar efnisins sé helst þörf, m.a. á grunni greiningar á þörf og efnisgreiningum á öðrum námum, sbr. úttekt sem skipulags- og byggingarfulltrúa hefur verið falið að vinna.

Efni í öðrum námum en í Lambakróarholtsnámu sé þá nýtt í framkvæmdir þar sem það best hentar, s.s. í stíga, vegi, húsgrunna o.fl. eftir atvikum. Mögulega hentar efni í öðrum námum líka í steypu, malbik og/eða klæðningu, en afla þarf yfirsýnar um það. Ávallt sé miðað að því að nýta efni skv. niðurstöðum á efnisgreiningu, til þeirra framkvæmda sem hagkvæmast er, þannig að t.d. stærsta og verðmætasta grjótið sé ekki tekið til niðurbrots og notkunar í annað en hafnargerð og sjóvarnir, efni til steypugerðar sé ekki tekið til nota þar sem annað og verðminna efni dugar, o.s.frv.

Bæjarstjórn tekur undir tillögu skipulags- og byggingarfulltrúa um að áður en ákvörðun er tekin um notkun á kjarnanum úr Lambakróarholtsnámunni, þá sé sannreynt með greiningum á efnisgæðum, til hvers kjarninn hentar best og sérfræðiálit fengið frá aðila sem sérhæfir sig í mati á efnisgæðum og notum á efni m.t.t. þessa. Þetta yrði hluti þeirrar heildarúttektar sem skipulags- og byggingarfulltrúa hefur verið falið að vinna. Í úttektinni verði þeirri spurningu einnig svarað hvaða efniskröfur eru gerðar um efni til nota s.s. í steypu, malbik, klæðningu, undirlag í stíga, vegi, efni í húsgrunna og annað sem þörf er á að nýta efni í. Skipulags- og byggingarfulltrúa er falið að ljúka þessari skoðun og útfæra niðurstöðu til bæjarstjórnar.
Fyrir liggur nú þegar ákvörðun um að efnisgreina efni úr námu í Hrafnsánni í tengslum við framkvæmdaleyfisumsókn bæjarins.

Ennfremur var lagt fram minnisblað um efnisnám í Grundarfjarðarbæ - staða mála og tillaga að næstu skrefum, dags. 14.01.2020. Eftirfarandi kemur þar fram:
"Rætt hefur verið um mikilvægi þess að hafa yfirlit um hvers konar efni væri í tilteknum námum í Grundarfjarðarbæ og til hvers það væri helst nýtanlegt, til að tryggja að vel sé farið með efni, einkum og sérílagi það efni sem lítið framboð er af og nýta þarf til sérstakra nota, sem annað efni getur ekki komið í staðinn fyrir. Það skiptir líka miklu máli fyrir hagkvæmni framkvæmda að hægt sé að ná í "rétta" efnið, sem næst notkunarstað. Almennt séð þyrfti að huga að því að nota aldrei betra efni en þarf til tiltekinna framkvæmda. Besta eða "rétta" efnið þarf að vera tiltækt í þau verk þar sem þess er nauðsynlega þörf og þar sem það er virkilega verðmætt.
Í Aðalskipulagi Grundarfjarðarbæjar 2019-2029 liggur fyrir yfirlit um helstu námur í sveitarfélaginu og hversu mikið efni væri mögulega hægt að taka úr þeim. Hins vegar liggur ekki fyrir greinargott yfirlit um það hvers konar efni er að finna í hverri námu og þá til hvers konar nota það kann að henta best. Ekki liggur heldur fyrir gróft yfirlit um það hve mikil fyrirhuguð efnisþörf er á svæðinu í heild, né hvers konar efni þörf er á. Þá er verið að horfa til efnis t.d. í steypu, malbik, klæðningu, sem undirlag í vegi, í stíga, húsgrunna, hafnarframkvæmdir, sjóvörn o.fl., en fram hefur komið ósk um það að fá að nýta efni úr Lambakróarholtsnámu í steypu, malbik og klæðningu. Spurningin í því sambandi er m.a. sú hvar annars staðar væri hægt að ná í nothæft efni í nægilegu magni til þeirra þarfa á næstu árum, ef ekki úr Lambakróarholtsnámu, sem halda þarf áfram að nýta sem grjótnámu og hvort sömu kröfur eru gerðar til efnisgæða í steypu, malbik og klæðningu. Fjölbreytt jarðfræði Snæfellsness, gerir það að verkum að berg er mjög fjölbreytilegt hvað varðar tegund sem byggist á efnasamsetningu þess. [...] Verið er að vinna yfirlit um efnisþörf fyrir helstu framkvæmdir Grundarfjarðarbæjar og hvers konar efni muni þurfa til þeirra. Gert er ráð fyrir því að yfirlitið muni liggja fyrir um næstu mánaðamót."

Í minnisblaðinu er lögð fram eftirfarandi tillaga:
- Lagt til að tekið verði saman gróft yfirlit um það hvers konar efni er til á svæðinu (aðallega þá innan Grundarfjarðarbæjar, til framkvæmda þar). - Í samræmi við fyrri bókun.
- Lagt til að Grundarfjarðarbær láti kanna efnisgæði í námum sem bærinn hefur yfir að ráða, þ.e. Lambakróarholtsnámunni og Hrafnsá, til að fá upplýsingar um hver helstu not af efninu í þessum námum geti verið. Þannig verði t.d. hægt að tryggja að ekki sé verið að nýta úrvalsefni, sem mögulega er í takmörkuðu magni í Grundarfjarðarbæ, í framkvæmdir þar sem mögulegt væri að nýta annað, ódýrara efni. - Í samræmi við fyrri bókun.
- Lagt til að Grundarfjarðarbær móti stefnu um notkun á efni úr námum bæjarins til að tryggja markviss not á efninu. Hún myndi byggja m.a. á niðurstöðum á greiningu efnisgæða.
- Lagt til að Grundarfjarðarbær komi sér upp gjaldskrá vegna sölu á efni úr námum sínum. Allmörg sveitarfélög hafa skoðað hvernig standa eigi að efnistöku og sölu á efni úr þeirra landi [...] Grundarfjarðarbær gæti leitað fyrirmynda hér um [...] Mikilvægt er að halda þessu sem einföldustu en þannig að ákvörðunartaka um sölu og not af efni sé ávallt gagnsæ og vel farið með auðlindir sveitarfélagsins.

Forseti leggur til að farið verði að þessari tillögu og skipulags- og byggingarfulltrúa falið að ljúka vinnu og útfæra með tillögu til bæjarstjórnar. Samþykkt samhljóða.

Í niðurlagi fyrrgreinds minnisblaðs um Lambakróarholtsnámu er að lokum lagt til að deiliskipulag iðnaðarsvæðisins verði endurskoðað og það stækkað þannig að það nái yfir báða landnotkunarreitina í heild, þ.e. I-1 og E-3. Bæjarstjórn samþykkir samhljóða að fela skipulags- og umhverfisnefnd að skoða skipulagið m.t.t. þessarar ábendingar.

Allir tóku til máls undir þessum lið.

7.Almenna umhverfisþjónustan - Fyrirspurn um geymslusvæði fyrir efni í Lambakróarholti

Málsnúmer 2101009Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi Almennu umhverfisþjónustunnar ehf., dags. 24. nóvember 2020, með ósk um að fá að geyma efni á námusvæðinu í Lambakróarholti.
Skipulags- og byggingarfulltrúi leggur fyrir bæjarstjórn minnisblað um skoðun sína á þessu efni, annars vegar minnisblað Alta um námusvæði í Lambakróarholti og hins vegar almennt um efnisnám í sveitarfélaginu, sbr. áður gerða umfjöllun undir lið nr. 6 á þessum fundi.
Fram hefur komið að nokkrir aðilar hafa sýnt áhuga á því að nýta námugólfið til að geyma og vinna efni.
Eins og námusvæðið er núna, þ.e. gamla námusvæðið og E-3 (sjá mynd 4, fullnýtt námusvæði, frágangssvæði og efnistökusvæði E-3), þá er fremur skýlt innan svæðisins og svæðið vel afmarkað með mönum. Við ákvörðun um frágang á efnistökusvæðinu, áfangaskiptingu hans og notkun á námugólfinu er nauðsynlegt að horfa til samtengingar þessara tveggja svæða.

Allir tóku til máls.

Bæjarstjórn tekur jákvætt í erindið, en tekur undir tillögu í minnisblaði frá byggingarfulltrúa þar sem segir:

Áður en ákvörðun er tekin varðandi leigu á svæði í námunni til efnisvinnslu eða geymslu, þá verði kortlagt hversu stórt svæði þessir aðilar munu þurfa. Einnig verði áætlað hversu umfangsmikil efnistaka í Lambakróarholti kann að vera og hve hratt hún muni ganga fyrir sig. Á grunni þess verði skoðað hvort og hversu stórt svæði verði hægt að leigja út í námunni, eftir því sem svigrúm skapast þar.

Bæjarstjórn felur skipulags og byggingarfulltrúa að ljúka þeirri skoðun og samþykkir erindi Almennu umhverfisþjónustunnar ehf. Bæjarstjórn felur skipulags- og byggingarfulltrúa umsjón málsins og umboð til útleigu á námusvæðinu, eftir því sem niðurstöður skoðunar gefa svigrúm til, með vísan til ofangreinds og til bókunar undir lið 6 á dagskrá fundarins.
Áður en unnt er að úthluta geymslusvæði í námunni þarf núverandi verktaki í lengingu Norðurgarðs að klára frágang í námunni og skila henni af sér.
Tillaga um gjaldtöku verði lögð fyrir bæjarstjórn til samþykktar.

8.Frá nefndasviði Alþingis - 354. mál til umsagnar

Málsnúmer 2012038Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar frumvarp til laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, 354. þingmál.

Bæjarstjóri sagði frá því að hún hefði gert athugasemd og óskað eftir lengri fresti til umsagnar, þar sem um stórt mál væri að ræða fyrir sveitarfélögin og fleiri. Veittur var frestur til 1. febrúar nk.

9.Frá nefndasviði Alþingis - 355. mál til umsagnar

Málsnúmer 2012039Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar frumvarp til laga um Barna- og fjölskyldustofu, 355. þingmál.

Bæjarstjóri sagði frá því að hún hefði gert athugasemd og óskað eftir lengri fresti til umsagnar, þar sem um stórt mál væri að ræða fyrir sveitarfélögin og fleiri. Veittur var frestur til 1. febrúar nk.

10.Frá nefndasviði Alþingis - 356. mál til umsagnar

Málsnúmer 2012040Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar frumvarp til laga um Gæða- og eftirlitsstofnun, 356 þingmál.

Bæjarstjóri sagði frá því að hún hefði gert athugasemd og óskað eftir lengri fresti til umsagnar, þar sem um stórt mál væri að ræða fyrir sveitarfélögin og fleiri. Veittur var frestur til 1. febrúar nk.

11.Frá nefndasviði Alþingis - Frumvarp til laga um kosningalög, 339. mál

Málsnúmer 2012042Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar frumvarp til kosningalaga, 339. þingmál.

12.Grundarfjarðarbær - stytting vinnuvikunnar skv. kjarasamningum

Málsnúmer 2009046Vakta málsnúmer

Lagðir fram til kynningar tölvupóstar frá formanni Starfsmannafélags Dala- og Snæfellsness (SDS) vegna styttingar vinnuvikunnar.

Allir tóku til máls.

13.Samband íslenskra sveitarfélaga - Nýsköpunardagurinn 21. janúar 2021

Málsnúmer 2101007Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar dagskrá Nýsköpunardags hins opinbera um áhrif Covid-19 á opinbera þjónustu og lærdóm til framtíðar, sem haldinn verður 21. janúar nk.

14.Félagsmálanefnd Snæfellinga - Fundargerð 189. fundar

Málsnúmer 2012026Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 189. fundar félagsmálanefndar Snæfellinga sem haldinn var 8. desember 2020.

15.Heilbrigðisnefnd Vesturlands - Fundargerð 164. fundar

Málsnúmer 2101002Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 164. fundar Heilbrigðisnefndar Vesturlands, sem haldinn var 15. desember 2020.

16.Skorradalshreppur - Afgreiðsla hreppsnefndar á fjárhagsáætlun og gjaldskrártillögu Heilbrigðiseftirlits Vesturlands fyrir árið 2021

Málsnúmer 2101006Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar ýmis gögn ásamt bréfum Skorradalshrepps sem hafnar fjárhagsáætlun og gjaldskrártillögu Heilbrigðiseftirlits Vesturlands vegna ársins 2021 og vísar til endurskoðunar heilbrigðisnefndar.

Bæjarstjóri sagði frá því að fyrirhugaður sé kynningar- og samráðsfundur HeV með fulltrúum sveitarfélaganna á Vesturlandi.

17.Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi - Samningur um Áfangastaðastofu

Málsnúmer 2101008Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar bréf Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi, dags. 4. janúar 2021, ásamt drögum að samstarfssamningi um áfangastaðastofu á starfssvæði Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi og fjárhagsáætlun Markaðsstofu Vesturlands fyrir árið 2021. Samkvæmt þessu er gert ráð fyrir að áfangastaðastofa taki við af Markaðsstofunni.

18.Hafnasamband Íslands - þinggerð 42. hafnasambandsþings

Málsnúmer 2012046Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar þinggerð 42. Hafnasambandsþings sem haldið var með fjarfundi þann 27. nóvember 2020. Hafnarstjóri og bæjarstjóri tóku þátt í þinginu.

19.Samband íslenskra sveitarfélaga - Fundargerð 892. fundar stjórnar sambandsins

Málsnúmer 2012029Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 892. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga sem haldinn var 11. desember 2020.

20.Samband íslenskra sveitarfélaga - Uppbyggingarteymi stöðuskýrsla 9

Málsnúmer 2012047Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar stöðuskýrsla nr. 9 frá teymi um uppbyggingu félags- og atvinnumála í kjölfar Covid-19.

21.Samband íslenskra sveitarfélaga - Lokaskýrsla um tilraunaverkefni um sérstakan húsnæðisstuðning

Málsnúmer 2012043Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar lokaskýrsla Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. í nóvember 2020, um tilraunaverkefni um sérstakan húsnæðisstuðning.

22.Geðhjálp - Ályktun stjórnar landssamtakanna Geðhjálpar vegna niðurgreiðslu sálfræðimeðferðar

Málsnúmer 2012041Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar ályktun stjórnar Landssamtakanna Geðhjálpar um niðurgreiðslu sálfræðimeðferðar.

23.Samtök grænkera á Íslandi - Áskorun varðandi framboð grænkerafæðis í skólum

Málsnúmer 2101001Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar áskorun Samtaka grænkera á Íslandi varðandi framboð grænkerafæðis í skólum.

24.Skipulagsstofnun - Tillaga að viðauka við Landsskipulagsstefnu 2015-2026 til kynningar

Málsnúmer 2011031Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar umsögn Grundarfjarðarbæjar, dags. 8. janúar 2021, til Skipulagsstofnunar vegna viðauka við Landsskipulagsstefnu 2015-2026 ásamt umhverfismati.
Fundargerð lesin upp og samþykkt.

Fundi slitið - kl. 20:21.