238. fundur 14. maí 2020 kl. 16:00 - 20:16 í Samkomuhúsi Grundarfjarðar
Nefndarmenn
  • Jósef Ó. Kjartansson (JÓK) forseti bæjarstjórnar
  • Hinrik Konráðsson (HK)
  • Unnur Þóra Sigurðardóttir (UÞS)
  • Sævör Þorvarðardóttir (SÞ)
  • Rósa Guðmundsdóttir (RG)
  • Garðar Svansson (GS)
  • Bjarni Sigurbjörnsson (BS)
  • Björg Ágústsdóttir (BÁ) bæjarstjóri
  • Sigurlaug R. Sævarsdóttir (SRS) skrifstofustjóri
Fundargerð ritaði: Sigurlaug R. Sævarsdóttir skrifstofustjóri
Dagskrá
Forseti sett fund og gengið var til dagskrár.

1.Ársreikningur 2019 - Fyrri umræða

Málsnúmer 2005015Vakta málsnúmer

Jónas Gestur Jónasson, lögg. endurskoðandi og Marinó Mortensen, frá Deloitte, sátu fundinn gegnum fjarfundarbúnað undir þessum lið. Þeir fóru yfir helstu tölur í ársreikningi 2019 við fyrri umræðu í bæjarstjórn.

Allir tóku til máls.

Rekstrartekjur samstæðunnar námu 1.170 millj. kr., en áætlun gerði ráð fyrir 1.200 millj. kr., Rekstrartekjur vegna A-hluta námu 996 millj. kr. en áætlun gerði ráð fyrir 1.030 millj. kr.

Rekstrarniðurstaða samkvæmt samanteknum ársreikningi A og B hluta var jákvæð um 83,3 millj. kr., en rekstarafkoma A hluta var jákvæð um 24,8 millj. kr. Fjárhagsáætlun með viðauka gerði ráð fyrir 64,2 millj. kr. jákvæðri niðurstöðu. Rekstrarafkoma ársins er 19,1 millj. kr betri en áætlun gerði ráð fyrir.

Heildarskuldir og skuldbindingar sveitarfélagsins námu 1.705,5 millj. kr. og skuldaviðmið 113,21% en var 113,13% árið áður.

Eigið fé sveitarfélagsins samkvæmt samanteknum ársreikningi var 933,1 millj. kr. í árslok 2019 og eiginfjárhlutfall var 34,81% en var 31,29% árið áður.

Veltufé frá rekstri í samanteknum ársreikningi var 76,5 millj. kr. og handbært fé í árslok 19,4 millj. kr., en var 107,6 millj. kr. árið áður.

Samþykkt samhljóða að vísa ársreikningi 2019 til síðari umræðu í bæjarstjórn.

2.Minnispunktar bæjarstjóra

Málsnúmer 1808018Vakta málsnúmer

Bæjarstjóri fór yfir mál í vinnslu og fundi sem hún hefur setið.

Hún sagði m.a. frá fundi með landeigendum Kirkjufells og hönnuðum hjá Landslagi - arkitektastofu, vegna hönnunar á svæðinu. Bæjarstjóri sagði frá því að skipulags- og byggingarfulltrúi ynni nú þrjá daga vikulega í stað eins áður. Hún ræddi verklegar framkvæmdir, orkuskipti o.fl. Sótt hefur verið um styrki í Styrkvegasjóð og fleiri sjóði.

Rætt var um fyrirkomulag hátíða framundan. Bæjarstjóri sagði jafnframt frá fundum sem haldnir hafa verið með forstöðumönnum, sem er viðbragðsteymi sveitarfélagsins.


3.Störf bæjarstjórnar á kjörtímabilinu - Umræða

Málsnúmer 1808012Vakta málsnúmer

Forseti vakti athygli á fundi með fulltrúum ferðaþjónustu og þjónustu, sem auglýstur hefur verið á vef bæjarins og fram fer á morgun. Fundurinn byggir m.a. á samtali bæjarstjórnar við fulltrúa ferðaþjónustufyrirtækja, sem fram fóru seinnihlutann í apríl sl.

4.Atvinnumál - Umræða

Málsnúmer 1808013Vakta málsnúmer

Forseti vakti athygli á því að bærinn auglýsir nú allt að fimmtán ný sumarstörf fyrir ungt fólk. Tryggt verður að ungmenni á framhaldsskóla- og háskólastigi fái störf í a.m.k. 2 mánuði í sumar. Bærinn fékk samþykki fyrir 15 sumarstörfum fyrir námsmenn, með lögheimili í sveitarfélaginu, 18 ára og eldri. Bærinn mun tryggja að 17 ára námsmenn eigi kost á því sama.

Kostnaður fyrir bæinn verður lagður fyrir þegar ljóst er hvernig raðast í störfin. Reiknað er með að heildarkostnaður bæjarins, á móti framlagi Vinnumálastofnunar, verði að lágmarki 141 þús. kr. á mánuði fyrir hvert starf, en styrkurinn nær til 2ja mánaða starfs.

Bæjarvefur hefur tekið miklum breytingum, m.a. með hliðsjón af samtali við fulltrúa fyrirtækja í apríl sl. Upplýsingar sem höfða til ferðafólks hafa verið settar inn og pólsk og ensk útgáfa hafa verið endurbættar.

Sveitarfélögin á Vesturlandi standa að Markaðsstofu Vesturlands, sem nú gengst fyrir miklu markaðsátaki til kynningar á svæðinu. Kynningarfundir voru haldnir í gær, en áætlað er að um miðjan júní verði nýr vefur og önnur markaðstæki tilbúin úr þeirri vinnu sem nú stendur yfir.

Bæjarstjóri hefur óskað eftir því að atvinnuráðgjafar SSV verði hér með viðveru örar. Í auglýsingu frá í gær er auglýst viðvera atvinnuráðgjafa, sem stefnt er að því að verði aðra hvora viku og nú í Sögumiðstöðinni. Alltaf er þess á milli hægt að fá samtöl við atvinnu- og menningarráðgjafa.

Stjórn Svæðisgarðsins Snæfellsness hefur fundað síðustu vikurnar og lagt á ráðin um stuðning við fyrirtæki á svæðinu, vegna áhrifa Covid-19. Í næstu viku verður opinn fundur á Snæfellsnesi á þeirra vegum.

Forseti sagði ánægjulegt hve mikið hefði verið að gera hjá Grundarfjarðarhöfn, við landanir að undanförnu.

5.Hafnarstjórn - 9

Málsnúmer 2002002FVakta málsnúmer

  • Hafnarstjórn - 9 Hafnarstjóri fór yfir stöðu framkvæmda og rætt var um næstu áfanga.

    Framkvæmdir við lengingu Norðurgarðs; keyrsla á görðum hefur gengið mjög vel, en rekstur stálþils hefur gengið erfiðlega vegna óhagstæðs veðurfars síðustu vikurnar.

    Framkvæmdir við gerð sjóvarnar á hafnarsvæði, austan við Nesveg, sem einnig er í gangi, hefur gengið vel.

    Ofangreindir áfangar halda áfram, í samræmi við gerða verksamninga.
    Næsti áfangi er þekja, lagnir og raforkuvirki á lengdum Norðurgarði; áætlaður tími útboðs er í maí nk.

    Vegna eðlis hafnarframkvæmdanna er lítið svigrúm til að breyta verkhraða, m.t.t. tekna og ástands í samfélaginu, sbr. m.a. lið nr. 3 á dagskrá fundarins.
  • Hafnarstjórn - 9 Vísað til umræðu um þennan lið undir lið 1. á dagskrá fundarins.

  • Hafnarstjórn - 9 Farið var yfir niðurstöður rekstrar og fjárfestinga árið 2019 og rekstrartölur fyrstu þrjá mánuði ársins 2020.

    Tekjur hafnarinnar árið 2019 voru rúmar 111 millj. kr., sem er vel yfir áætlun ársins. Gjöld eru rúmar 57 millj. kr., eða um 9 millj. kr. umfram áætlun og skýrist að mestu af auknum launakostnaði vegna meiri umsvifa hafnarinnar og viðhalds.
    Afkoma eftir afskriftir og fjármagnsliði er 46,5 millj. kr.
    Hafnarstjórn lýsir yfir ánægju með þessa niðurstöðu.

    Tekjur hafnarinnar fyrstu þrjá mánuði þessa árs eru nánast þær sömu og fyrstu þrjá mánuði ársins 2019. Það er ánægjulegt, þegar haft er í huga tíðarfar síðustu mánaða og ástandið í samfélaginu.

    Rætt var um stöðu og horfur, hvað varðar tekjur hafnarinnar 2020.
    Búast má við lækkun tekna hafnarinnar á yfirstandandi ári, einkum þá af skemmtiferðaskipum, vegna áhrifa Covid-19. Enn er þó mikil óvissa um þróun mála.
    Hafnarstjóri sagði frá því að nokkrar afbókanir hefðu þegar borist frá skipafélögum, en þær stæðu ekki í beinu sambandi við áhrif vegna Covid-19.

    Hafnarstjóri kynnti yfirlit um framkvæmdir, aðrar en lengingu Norðurgarðs, og viðhaldsverkefni sem brýn eru. Ástand þekju á Norðurgarði hefur farið hratt versnandi og er nú svo komið að viðgerð verður ekki slegið mikið lengur á frest. Farið yfir tölur um áætlaðan kostnað við endurbætur á þekju og á öðrum liðum, eins og t.d. þaki hafnarhúss sem er orðið brýnt að skipta um. Til nánari skoðunar og úrvinnslu hjá hafnarstjóra, tekið fyrir á næsta fundi hafnarstjórnar.


  • Hafnarstjórn - 9 Grundarfjarðarhöfn er skilgreind sóttvarnarhöfn og hefur tekið þátt í samráði við landlækni.
    Lagt fram til kynningar.
  • Hafnarstjórn - 9 Lagt fram til kynningar.
  • Hafnarstjórn - 9 Lagt fram til kynningar.
  • Hafnarstjórn - 9 Lagt fram til kynningar.
  • Hafnarstjórn - 9 Lagt fram til kynningar.
  • Hafnarstjórn - 9 Lagt fram til kynningar.
  • Hafnarstjórn - 9 Lagt fram til kynningar.

6.Bæjarráð - 544

Málsnúmer 2003003FVakta málsnúmer

  • 6.1 2001004 Lausafjárstaða
    Bæjarráð - 544 Lagt fram yfirlit yfir lausafjárstöðu.
  • 6.2 2002001 Greitt útsvar 2020
    Bæjarráð - 544 Lagt fram yfirlit yfir greitt úrsvar jan.-febr. 2020 og jan.-mars 2020. Skv. yfirlitinu eru útsvarsgreiðslur 1,9% lægri á fyrstu þremur mánuðum ársins í ár miðað við árið á undan.
  • Bæjarráð - 544 Lagt fram minnisblað Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV) um stöðu atvinnumála í Grundarfirði vegna Covid-19 ásamt drögum að Hagvísi Vesturlands sem SSV gefur út.
  • Bæjarráð - 544 Verkstjóri áhaldahúss og umsjónarmaður fasteigna sátu fundinn undir þessum lið.

    Rætt um helstu skilaboð sem fram komu á fundum með fulltrúum fyrirtækja í ferðaþjónustu í síðustu viku. Jafnframt lagðar fram til kynningar hugleiðingar um stöðuna sem Marteinn Njálsson sendi í tölvupósti í framhaldi af fundinum.

    Bæjarstjóri sagði frá fundum og vinnu stjórnar Svæðisgarðsins Snæfellsness.

    Rætt um viðbragðsáætlun vegna Covid-19 og þörf á breytingum á fjárhagsáætlun 2020 hvað varðar fjárfestingar.

    Verkstjóri áhaldahúss kom inn á fundinn sem gestur.

    Farið yfir verkefni áhaldahúss, götur, umhirðu opinna svæða og grassvæða. Jafnframt rætt um mögulega uppsetningu frisby golfvallar.

    Farið yfir ástand gangstétta og framlagða greinargerð áhaldahúss um þær gangstéttar sem verst eru farnar. Verkstjóri áhaldahúss mun vinna áætlun vegna gangstéttaviðgerða, sem verði tekin fyrir á næsta fundi bæjarráðs.

    Verkstjóri áhaldahúss yfirgaf fundinn og var honum þakkað fyrir komuna.

    Umsjónarmaður fasteigna kom inn á fundinn sem gestur.

    Farið var yfir ýmsar framkvæmdir eignasjóðs.

    Rætt um vaðlaug, sem þörf er á að lagfæra með dúkklæðningu.

    Rætt um tjaldsvæði og viðhald þess. Þörf er á að setja fjármagn í að endurbæta rafmagn, hreinlætisaðstöðu/vatnsaðstöðu ferðavagna og veginn að tjaldsvæði og í gegnum það.

    Umsjónarmaður fasteigna yfirgaf fundinn og var honum þakkað fyrir komuna.
  • Bæjarráð - 544 Lögð fram fjárfestingaáætlun ársins 2020 og ræddar tillögur að breytingum og áherslum, í framhaldi af umræðum í lið 4. Einnig lögð fram kostnaðaráætlun vegna framkvæmda á tjaldsvæði og við vaðlaug, og auk þess yfirlit yfir ástand gangstétta vorið 2020. Jafnframt lagt fram vinnuskjal vegna áætlaðra breytinga á fjárhagsáætlun 2020 vegna áhrifa Covid-19.

    Rætt um tekjur og mögulegt tekjutap bæjar- og hafnarsjóðs árið 2020, sbr. gögn og umræðu undir lið 3 á dagskrá. Bæjarráð mun fylgjast með framvindu mála, tölum um atvinnuleysi og leggja mat á hver áhrifin verði á tekjur sveitarfélagsins. Bæjarráð mun jafnframt fylgjast náið með útgjöldum ársins og hvetur forstöðumenn til árvekni í útgjöldum.

    Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að gerður verði viðauki við fjárhagsáætlun þar sem aukið sé fé í sundlaug vegna vaðlaugar, tjaldsvæði og opin svæði vegna frisby golfvallar. Auk þess verði bætt við fjármagni til lagfæringar á gangstéttum.

    Samþykkt samhljóða.
  • Bæjarráð - 544 Lagt fram erindi Fastafls ehf. sem óskar eftir 50% afslætti af gatnagerðargjöldum á báðum lóðum sem fyrirtækið hefur fengið úthlutað, að Ölkelduvegi 29 og 31.

    Með tilliti til þess efnahagslega ástands sem rekja má til Covid-19, þá telur bæjarráð mikilvægt að ýta sem hægt er undir húsbyggingar. Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að gerð verði breyting á skilmálum/vinnureglum um úthlutun lóða með tímabundnum afslætti gatnagerðargjalda, sem samþykkt var á fundi bæjarstjórnar í febrúar sl., þess efnis að aðilum, sem hyggjast byggja og selja íbúðarhúsnæði á almennum markaði, sé gert kleyft að sækja um fleiri en eina lóð með 50% afslætti.

    Samþykkt samhljóða.
    Bókun fundar Bæjarstjórn samþykkir eftirfarandi breytingu á skilmálum vegna gatnagerðargjalda, lið 3, frá febrúar sl.

    3.
    Mögulegur fjöldi lóða
    Einstaklingi (hjón eða sambúðaraðilar talin saman) og lögaðila er heimilt að sækja um eina byggingarlóð/byggingarframkvæmd (þ.e. eitt einbýlishús, eitt parhús (2 íbúðir), eitt raðhús/ fjölbýlishús) sem afsláttur nær til.

    Við bætist:
    "Aðilum sem hyggjast byggja og selja íbúðarhúsnæði á almennum markaði, er þó heimilt að sækja um fleiri en eina lóð sem afsláttur nær til."

    Samþykkt samhljóða.
  • Bæjarráð - 544 Í samræmi við ákvörðun bæjarstjórnar í lok ársins 2019 var auglýst eftir umsóknum um rafhleðslustöð sem bærinn fékk að gjöf.

    Ein umsókn barst um rafhleðslustöðuna, frá Bjargarsteini - mathúsi.

    Bæjarráð samþykkir samhljóða að úthluta Bjargarsteini rafhleðslustöðinni til uppsetningar og felur bæjarstjóra að gera samning þar að lútandi í samræmi við umræður á fundinum.
  • Bæjarráð - 544 Lagt fram erindi Jóns Péturs Péturssonar varðandi skógræktarmál ásamt gögnum varðandi staðsetningu "græna trefilsins" svokallaða.

    Lagt til að fulltrúum Skógræktarfélagsins verði boðið á fund bæjarráðs í maí.

    Samþykkt samhljóða.
  • Bæjarráð - 544 Lagt fram erindi Golfklúbbsins Vestarrs, sem óskar eftir viðbótarframlagi frá Grundarfjarðarbæ vegna lægri framlaga fyrirtækja.

    Bæjarráð frestar afgreiðslu erindisins til næsta fundar bæjarráðs og óskar eftir því að kannað verði með sérstök úrræði Vinnumálastofnunar vegna sumarstarfa.

    Bæjarstjóra og skrifstofustjóra falið að skoða málið.

    Samþykkt samhljóða.
    Bókun fundar Forseti vísar í lið 21 á fundinum, um sumarstörf, en af viðbótarsumarstörfum er gert ráð fyrir starfi/störfum við golfvöllinn.

    Forseti leggur til að kostnaður bæjarins á móti framlagi Vinnumálastofnunar með viðkomandi starfi/störfum, greiðist af Grundarfjarðarbæ.

    Gengið verði frá nánari samningi um þetta milli bæjarins og Vestarrs.
  • Bæjarráð - 544 Lagt fram til kynningar minnisblað SSV frá fjarfundi stjórnar SSV með þingmönnum Norðvesturkjördæmis og framkvæmdastjórum sveitarfélaga á Vesturlandi, sem fór fram 14. apríl sl.
  • Bæjarráð - 544 Lagt fram til kynningar minnisblað frá fjarfundi um stöðu vinnumarkaðar á Vesturlandi sem haldinn var með fulltrúum Vinnumálastofnunar, Markaðsstofu Vesturlands og Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi þann 24. apríl sl.
  • Bæjarráð - 544 Lagðar fram til kynningar leiðbeiningar frá Samhæfingarstöð almannavarna fyrir grunnskóla, tónlistarskóla og leikskóla vegna Covid-19 eftir frá og með 4. maí.

  • Bæjarráð - 544 Lagt fram svarbréf Umhverfisstofnunar varðandi endurvinnsluhlutfall heimilisúrgangs í sveitarfélaginu vegna leiðréttingar á áður gefnum upplýsingum.

  • Bæjarráð - 544 Lögð fram til kynningar ársskýrsla Bókasafns Grundarfjarðar 2019.

    Bæjarráð þakkar skilmerkilega og góða skýrslu.
  • Bæjarráð - 544 Lögð fram til kynningar ýmis gögn frá Vesturlandsstofu ehf. til samstarfsaðila Markaðsstofu Vesturlands.

  • Bæjarráð - 544 Lögð fram til kynningar samantekt Meðbyrs ehf. varðandi árangur stóra plokkdagsins 25. apríl sl., þar sem tugir tonna af rusli voru týnd á landinu öllu.

    Bæjarráð þakkar Grundfirðingum fyrir góða þátttöku í átakinu.
  • Bæjarráð - 544 Lagt fram til kynningar ársuppgjör Listvinafélags Grundarfjarðarkirkju vegna ársins 2019.

7.Menningarnefnd - 26

Málsnúmer 2003004FVakta málsnúmer

  • 7.1 1801048 Sögumiðstöðin
    Menningarnefnd - 26 Farið yfir mögulega starfsemi í Sögumiðstöð nú í sumar, en ljóst er að landslagið hefur mikið breyst hvað varðar ferðaþjónustu, vegna áhrifa af Covid-19.

    Ljóst er að erlendir ferðamenn munu ekki verða margir á komandi sumri/hausti. Íslendingar verða að líkindum stór hluti gesta á svæðinu, þó það muni ráðast af veðri og öðrum þáttum, hvert þeir muni sækja í sínum ferðalögum. Bæjarstjóri sagði að starfsemi í upplýsingamiðstöð muni þurfa að taka mið af því.

    Fyrirhugaður er fundur/fundir bæjarfulltrúa með fulltrúum fyrirtækja í ferðaþjónustu, eftir páskana. Þar verður m.a. komið inná þessi atriði.

    Menningarnefnd telur æskilegt að starfsemi í Sögumiðstöðinni í sumar miði að því að laða að fólk, heimafólk og gesti, með afþreyingu og viðburðum, eftir því sem hægt verður, yfir sumartímann.

  • Menningarnefnd - 26 Nefndin ræddi um tækifæri til að lífga upp á tilveruna, nú á tímum Covid, með menningu, list, afþreyingu og öðru.

    Rætt um skönnun ljósmynda, styrk Uppbyggingarsjóðs, ljósmyndun á tímum Covid-19, möguleika á streymistónleikum, listaverk í Torfabót, o.fl. Almenn umræða og hugmyndir settar á blað til úrvinnslu. Nefndarmenn munu bæta við hugmyndum í framhaldi af fundinum.

  • Lagður fram til kynningar tölvupóstur menningarfulltrúa SSV dags. 16. mars 2020 um menningarstarf á tímum Covid-19.

    Menningarnefnd - 26
  • Byggðasafn Snæfellinga og Hnappdæla fékk úthlutað Öndvegisstyrk úr safnasjóði 2020, til nýrrar sýningar í Norska húsinu.
    Forstöðumaður Byggðasafnsins hefur óskað eftir tilnefningum sveitarfélaganna á svæðinu á fulltrúum í samtal vegna undirbúnings að hönnun nýrrar aðalsýningar.
    Menningarnefnd - 26 Nefndin leggur til að Eygló Jónsdóttir formaður menningarnefndar verði fulltrúi Grundarfjarðarbæjar í þetta samtal.

  • Menningarnefnd - 26 Heilbrigðisráðuneytið gaf út viðmið um að bókasöfnum sé óheimilt að hafa opið og að snertilaus útlán væru heldur ekki heimil. Lagðar fram til kynningar leiðbeiningar um starfsemina.

  • Menningarnefnd - 26 Nefndin ræddi hugmyndir að verkefnum og felur bæjarstjóra að taka þær hugmyndir til skoðunar.

8.Skipulags- og umhverfisnefnd - 215

Málsnúmer 2003006FVakta málsnúmer

  • Lögð fram umsókn um byggingarleyfi vegna sólhýsis sem viðbygging við hús að Gröf - Innri.
    Skráningartafla mun berast.
    Skipulags- og umhverfisnefnd - 215 Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir erindið og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi að uppfylltum skilyrðum sbr. gr. 2.4.4. í byggingarreglugerð 112/2012 með síðari breytingum. Bókun fundar Til máls tóku JÓK og UÞS.

    Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar.
  • Lögð er fram umsókn vegna breytingar á glugga sem snýr út að Þríhyrningi. Skipulags- og umhverfisnefnd - 215 Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir erindið og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi að uppfylltum skilyrðum sbr. gr. 2.4.4. í byggingarreglugerð 112/2012 með síðari breytingum. Bókun fundar Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar.
  • Lögð er fram umsókn þar sem ætlunin er að skipta út gluggum á efri hæð. Skipulags- og umhverfisnefnd - 215 Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir erindið og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi að uppfylltum skilyrðum sbr. gr. 2.4.4. í byggingarreglugerð 112/2012 með síðari breytingum. Bókun fundar Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar.
  • Á 211. fundi skipulags- og umhverfisnefndar þann 28. janúar 2020 var tekin fyrir umsókn um byggingarleyfi vegna stækkunar á húsnæði Vélsmiðju Grundarfjarðar við Ártún, en sú framkvæmd samræmist ekki byggingarreit og krefst því óverulegrar deiliskipulagsbreytingar.
    Að ósk umsækjanda hefur Verkís unnið tillögu fyrir Grundarfjarðarbæ að óverulegri deiliskipulagsbreytingu, dagsett. 23. apríl 2020 sem felur í sér stækkun á byggingarreit.
    Skipulags- og umhverfisnefnd - 215 Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir óverulega deiliskipulagsbreytingu á iðnaðar- og athafnarsvæði vestan Kvernár, með vísan í 2. mgr 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að grenndarkynna fyrirhugaða breytingu. Bókun fundar Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar.
  • Lóðarhafi leggur fram fyrirspurn um fyrirhugaða niðursetningu á skjólbelti úr Strandavíði fyrir utan lóðarmörk norðanmegin sem snýr út að sjó. Skipulags- og umhverfisnefnd - 215 Skipulags- og umhverfisnefnd gerir ekki athugasemd við gerð skjólbeltis utan lóðarmarka neðan Sæbóls 16 en bendir á að eins og lóðarhafi tekur fram er fyrirhugaður göngustígur meðfram sjóvarnargarði og því nauðsynlegt að tryggja honum pláss. Nefndin bendir einnig á að skjólbeltið sé ávallt víkjandi ef þurfa þykir. Bókun fundar Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar.
  • Lagðar fram fyrirspurnir vegna lóða við Ölkelduveg 19 og Fellasneið 3 er varðar framtíðaruppbyggingu svæðisins. Skipulags- og umhverfisnefnd - 215 Skipulags- og umhverfisnefnd bendir á að í gildandi aðalskipulagi bæjarins, auk aðalskipulagstillögu, má finna það sem fyrir liggur um fyrirhugaða uppbyggingu íbúðarsvæðis í Grundarfirði.
    Nefndin felur skipulags- og byggingarfulltrúa að ræða við fyrirspyrjanda.
    Bókun fundar Til máls tóku JÓK, GS, UÞS, BÁ og RG.

    Lagt til að í skilmálum fyrir afslætti gatnagerðargjalda sé bætt við einni lóð, Fellasneið 7, og að í stað nr. 3 komi 5.

    Samþykkt samhljóða.
  • Lögð eru fram lóðarblöð til kynningar fyrir nefnd vegna endurnýjunar á útrunnum lóðarleigusamningum. Skipulags- og umhverfisnefnd - 215 Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir framlögð lóðarblöð unnin af Verkís fyrir eftirfarandi lóðir:
    Fellasneið 4, Fákafell 2, Fákafell 9, Eyrarvegur 3, Nesvegur 13, Hrannarstígur 5 og Hamrahlíð 4.
  • Rútuferðir ehf. sækja um endurnýjun á stöðuleyfi gáma við Sólvelli 5. Skipulags- og umhverfisnefnd - 215 Skipulags- og umhverfisnefnd frestar erindinu og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að fara í vettvangsskoðun við fyrsta tækifæri.
  • Lagt fram til afgreiðslu lóðarblað fyrir Sólvelli 6 unnið af Verkís 23. mars 2020. Skipulags- og umhverfisnefnd - 215 Skipulags- og umhverfisnefnd felur skipulags- og byggingarfulltrúa að kynna húsfélagi Sólvalla 6 framlögð drög að lóðarblaði.
  • 8.10 1902034 Stöðuleyfi
    Nefndin ræddi líkt og á 198. fundi nefndarinnar 15. febrúar 2019 um gáma án stöðuleyfis og lausamuni í þéttbýli Grundarfjarðar.
    Skipulags- og umhverfisnefnd - 215 Skipulags- og umhverfisnefnd felur skipulags- og byggingarfulltrúa að taka saman upplýsingar um gáma og lausamuni sem ekki eru með stöðuleyfi skv. gr. 2.6.1 í byggingarreglugerð nr. 112/2012.

    Bókun fundar Til máls tóku JÓK, GS, UÞS, HK, SÞ, BS og RG.
  • 8.11 2004020 Grund 2 - Hótel
    Lagt fram til kynningar teikningar af fyrirhugaðri byggingu hótels í landi Grundar ásamt tillögu Alta að málsmeðferð. Skipulags- og umhverfisnefnd - 215 Lagt fram til kynningar.
    Skipulags- og byggingarfulltrúa falið að ræða við framkvæmdaraðila.
  • Lagt fram til kynningar. Skipulags- og umhverfisnefnd - 215 Lagt fram til kynningar.
  • Fulltrúi skipulags- og umhverfisnefndar ásamt fulltrúa menningarnefndar áttu fund með listamanninum Liston vegna hugmynda um afmarkað svæði í Torfabót undir listaverk. Málið var einnig tekið fyrir á 201. fundi nefndarinnar þann 11. júlí 2019. Skipulags- og umhverfisnefnd - 215 Skipulags- og umhverfisnefnd tekur vel í erindið og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að afmarka svæði í Torfabót í samræmi við framkomnar óskir menningarnefndar.
    Nefndin leggur áherslu á við menningarnefnd að tryggt verði að svæðið verði ávallt snyrtilegt, öruggt og að listaverkin séu víkjandi ef til þess kæmi.

9.Viðbrögð Grundarfjarðarbæjar vegna Covid-19

Málsnúmer 2004003Vakta málsnúmer

Bæjarstjóri vísaði í fyrri umræður bæjarráðs og bæjarstjórnar um þennan lið.

Samantekið felast helstu aðgerðir bæjarstjórnar og viðbrögð vegna áhrifa af Covid-19, í eftirfarandi:

Ýmsar ráðstafanir í rekstri og framkvæmdum:
- Umbreyting á starfsemi og þjónustu, til aðlögunar að fyrirmælum stjórnvalda
- Skólar náðu að bjóða þjónustu alla daga fyrir öll börn og gekk mjög vel
- Sérstök áhersla á upplýsingagjöf og opnun á nýjum bæjarvef flýtt

Gjaldtaka:
- Fasteignagjöld - frestun gjalddaga, í takt við lög um breytingu á tekjustofnum sveitarfélaga og það sem önnur sveitarfélög hafa gert
- Þjónustugjöld - í samræmi við áður birta auglýsingu um fyrirkomulag gjaldtöku þjónustugjalda, þann 25. mars sl. hafa verið gerðar ýmsar tilslakanir á fyrirkomulagi þjónustu og þjónustugjalda.
- Breytingar gerðar á fyrirkomulagi innheimtu sveitarfélagsins

Viðspyrna fyrir atvinnulíf og samfélag:
Farið er í sérstakar aðgerðir og verkefni til að styðja við frekari markaðssetningu svæðisins og undirbúning þess að taka á móti ferðafólki, bæði til skemmri tíma og lengri og styðja við menningu, með ráðstöfunum í fjárhagsáætlun bæjarins 2020, einnig með því að leita eftir samvinnu fyrir fyrirtæki og félagasamtök.

Viðbætur eru gerðar í fjárhagsáætlun 2020 með flýtingu framkvæmda og viðbótarfjárframlögum á árinu, við:
- Tjaldsvæði, endurbætur
- Sundlaug, endurbætur og aukið viðhald
- Opin svæði, afþreying
- Gangstéttar, aukið fé í endurbætur
- Sumarstörf, framlag til fjölgunar starfa fyrir námsmenn
- Menningarmál, aukið rekstrarframlag til menningarmála og viðburða
- Gatnagerðargjöld, lengdur tími sem afsláttarkjör gilda, til 31. desember nk. í stað 31. ágúst

Samstarfsverkefni
Ýmiss konar samstarf á sviði atvinnumála, gegnum Svæðisgarðinn Snæfellsnes, Markaðsstofu Vesturlands og SSV-atvinnuráðgjöf.
Samtal við fulltrúa fyrirtækja í bænum; bæjarstjórn bauð fulltrúum fyrirtækja til samtals í fjarfundum um stöðu mála og horfur, vegna ástands af völdum Covid-19, og um frekari aðgerðir.

Annað:
Af hálfu bæjarins hefur verið ýtt á að haldbetri upplýsingar fáist frá RSK um útsvar til sveitarfélaga, til að hægt sé að meta áhrif tekjutaps í einstökum greinum, einkum ferðaþjónustu. Auk þess hefur bæjarstjóri leitað eftir samstarfi og betri upplýsingagjöf frá stofnunum, m.a. Vinnumálastofnun.

10.Fjárhagsáætlun 2020 - Viðauki 1

Málsnúmer 1909023Vakta málsnúmer

Lagður fram viðauki við fjárhagsáætlun 2020 - auknar fjárfestingar á árinu, vegna áhrifa Covid-19.

Til máls tóku JÓK og SRS.

Bæjarstjórn samþykkir tillögur bæjarráðs. Lagður er fram viðauki 1 við fjárhagsáætlun ársins, vegna framkvæmda á opnum svæðum, tjaldsvæði, endurbætur/viðhald sundlaugar og viðhalds gangstétta.

Jafnframt er lögð til viðbótarfjárveiting til fyrsta hluta orkuskiptaverkefnis í sundlaug, íþróttamannvirkjum og skólahúsnæði, mótframlag bæjarins vegna styrkveitingar til að leggja af olíukyndingu. Auk þess er rekstraraukning vegna framlags til menningarmála.

Alls er fjárfesting aukin um 20,6 millj. kr. og 1,2 millj. kr. aukning á rekstri.

Bæjarstjórn gengur út frá því að til viðbótar muni koma til tekjulækkun bæjarins, gegnum útsvar, jöfnunarsjóðsgreiðslur, þjónustutekjur og tekjur hafnarsjóðs, vegna áhrifa af Covid-19. Vegna óvissu um umfang þessara þátta, er að sinni ekki lögð fram tillaga um hvernig þessu tekjutapi verður mætt.

Bæjarstjórn ítrekar nauðsyn þess að RSK veiti sveitarfélögum haldbetri upplýsingar um sundurliðun útsvarsgreiðslna, m.a. eftir atvinnugreinum.

Viðauki 1 við fjárhagsáætlun 2020 samþykktur samhljóða.

11.Reglugerð um bann við hrognkelsaveiðum árið 2020

Málsnúmer 2005017Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar reglugerð atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis nr. 407/2020, frá 30. apríl sl., um bann við hrognkelsaveiðum árið 2020.
Reglugerðin tók gildi frá og með miðnætti aðfararnótt sunnudagsins 3. maí.

Til máls tóku JÓK og SÞ.

Tillaga að bókun bæjarstjórnar um málið:

„Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar vísar í reglugerð atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis nr. 407/2020, frá 30. apríl sl., um bann við hrognkelsaveiðum árið 2020.

Bæjarstjórn mótmælir ákvörðun sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem þar birtist, um stöðvun grásleppuveiða með svo skömmum fyrirvara.

Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar tekur undir með bæjarráði Akraness og bæjarstjórnum Stykkishólmsbæjar og Snæfellsbæjar, að ákvörðun þessi feli í sér óviðunandi misvægi milli landshluta hvað varðar grásleppuveiðar. Bæjarstjórn gerir þá kröfu að ráðherra endurskoði ákvörðun sína nú þegar, þannig að jafnræðis verði gætt.“

Samþykkt samhljóða.

12.Erindi um efnisnámur

Málsnúmer 2005005Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi Almennu umhverfisþjónustunnar ehf. um heimild til efnistöku og malarvinnslu í námum sveitarfélagsins.

Bæjarstjórn þakkar fyrir erindið, sem snýr að efnistöku í Hrafná, Kolgrafafirði og Lambakróarholti, í Grafarlandi. Fram var lögð greinargerð skipulags- og byggingarfulltrúa um námumálin. Með minnisblaðinu eru myndir og gögn af þeim námum sem eru nú til skoðunar.

Náma í Hrafná
Ekki er fyrir hendi leyfi til efnistöku í Hrafná, en í minnisblaðinu kom fram að í vetur hefur verið í undirbúningi umsókn um framkvæmdaleyfi, af hálfu Grundarfjarðarbæjar til nýtingar efnis úr námu E-4 í gildandi aðalskipulagi(merkt E-14 í aðalskipulagstillögu Grundarfjarðarbæjar), árfarvegur Hrafnár, í Hrafnkelsstaðabotni, Kolgrafafirði. Bærinn fékk ráðgjafa til að útbúa nýtingaráætlun fyrir efnistökuna, en skipulags- og byggingarfulltrúi heldur utan um verkið, eins og fram kemur í minnisblaði hans. Nýtingaráætlun ásamt frekari gögnum verður lögð fram með umsókn bæjarins um framkvæmdaleyfi til efnistöku í námunni, til skipulags- og umhverfisnefndar, þegar gögn verða fullbúin. Að fengnu framkvæmdaleyfi til efnistöku, mun bærinn setja skilmála um umgengni við námuna og væntir þess að þá verði efnistaka möguleg.

Náma í Lambakróarholti
Þar liggur fyrir framkvæmdaleyfi bæjarins, sem landeiganda, til efnistöku úr námunni, frá því í lok árs 2019. Heimildin er til töku á um 140.000 m3 af efni, á um 29.000 m2 svæði námunnar. Um 70.000 m3 af klapparefni úr námunni munu fara í brimvörn og fyllingarefni vegna lengingar sem nú stendur yfir á Norðurgarði. Í umsókn bæjarins um framkvæmdaleyfi í nóvember 2019 sagði síðan „Að auki er á næstu árum þörf á um 70.000 m3 klapparefnis í aðrar framkvæmdir, m.a. vegna hafnarframkvæmda við Miðgarð.“ Þessir 70.000 m3 eru því til ráðstöfunar.

Bæjarstjórn felur skipulags- og byggingarfulltrúa að fara yfir og meta hve mikil þörf hafnarinnar og bæjarfélagsins er á næstu árum, til efnis úr námunni, m.a. með samráði við hafnarstjóra, og að leggja fram tillögu um nýtingu efnis úr námunni til annarra framkvæmda, svo unnt sé að svara erindi Almennu umhverfisþjónustunnar ehf.

Samþykkt samhljóða.

13.Lánasjóður sveitarfélaga ohf. - Ákvörðun um að greiða ekki arð vegna 2019

Málsnúmer 2004010Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar bréf Lánasjóðs sveitarfélaga, dags. 7. apríl sl., þar sem sjóðurinn tilkynnir um frestun á útgreiðslu arðs vegna ársins 2019.

14.Umhverfisstofnun - Bráðabirgðaryfirlit fyrstu vatnaáætlunar fyrir Ísland

Málsnúmer 2002023Vakta málsnúmer

Lagður fram til kynningar tölvupóstur Umhverfisstofnunar, dags. 19. febrúar sl., þar sem stofnunin kynnir bráðabirgðayfirlit fyrstu vatnaáætlunar fyrir Ísland.

15.Breiðafjarðarnefnd - Fundargerð 177. fundar stjórnar

Málsnúmer 2004029Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 177. fundar Breiðafjarðarnefndar sem haldinn var 27. febrúar sl.

16.Breiðafjarðarnefnd - Framtíð Breiðafjarðar

Málsnúmer 2003051Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar bréf Breiðafjarðarnefndar, dags. 30. mars sl., með athugasemdum nefndarinnar vegna kynningarfundar um framtíð Breiðafjarðar og framgöngu, yfirlýsingar og stefnu nefndarinnar.

Allir tóku til máls.

17.Minjavörður Vesturlands - Átak í húsverndarmálum

Málsnúmer 2005016Vakta málsnúmer

Lagður fram til kynningar tölvupóstur Minjavarðar Vesturlands, dags. 11. maí sl., vegna átaks í húsverndarmálum. Minjavörður leitar eftir hugmyndum um verkefni.

Bæjarstjóra falið að afla frekari upplýsinga um átaksverkefnið.

Samþykkt samhljóða.

18.Samband íslenskra sveitafélaga - Fundargerð 881. fundar stjórnar

Málsnúmer 2004021Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 881. stjórnarfundar Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem haldinn var 24. apríl sl.

19.Samband íslenskra sveitafélaga - Fundargerð 882. fundar stjórnar

Málsnúmer 2005008Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 882. stjórnarfundar Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem haldinn var 29. apríl sl.

20.Samband íslenskra sveitafélaga - Fundargerð 883. fundar stjórnar

Málsnúmer 2005009Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 883. stjórnarfundar Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem haldinn var 8. maí sl.

21.Sumarstörf fyrir námsmenn - Átaksverkefni

Málsnúmer 2005018Vakta málsnúmer


Lögð fram til kynningar beiðni Grundarfjarðarbæjar um stuðning við sumarstörf fyrir námsmenn og svarbréf Vinnumálastofnunar. Bærinn fékk samþykkt fyrir 15 störfum fyrir námsmenn, 18 ára og eldri, í 2 mánuði.

Bæjarstjórn lýsir yfir ánægju með 15 úthlutuð störf.

Fundargerð lesin upp og samþykkt.

Fundi slitið - kl. 20:16.