Málsnúmer 2207001F

Vakta málsnúmer

Bæjarstjórn - 263. fundur - 13.09.2022

Fundargerð til kynningar - þar sem bæjarráð hafði fullnaðarumboð í sumar.
  • Bæjarráð - 590 Lagt fram yfirlit yfir lausafjárstöðu.
  • Bæjarráð - 590 Lagt fram yfirlit yfir greitt útsvar janúar-júní 2022.

    Skv. yfirlitinu hefur greitt útsvar hækkað um 11,2% miðað við sama tímabil í fyrra.
  • .3 2207015 Launaáætlun 2022
    Bæjarráð - 590 Lagt fram yfirlit yfir stöðu á útgreiddum launum og launaáætlun.

    Bæjarstjóri fór yfir niðurbrot launaáætlunar og raunlauna eftir deildum.

    Raunlaun eru undir áætlun.


  • Bæjarráð - 590 Bæjarráð samþykkir samhljóða fundargerð 237. fundar skipulags- og umhverfisnefndar.
  • .5 2207002F Skólanefnd - 163
    Bæjarráð - 590 Bæjarráð samþykkir samhljóða fundargerð 163. fundar skólanefndar.
  • .6 2206003F Hafnarstjórn - 1
    Bæjarráð - 590
  • Ólafur Ólafsson, íþrótta- og tómstundafulltrúi, sat fundinn undir þessum lið og var hann boðinn velkominn.

    Bæjarráð - 590 Ólafur fór yfir helstu viðfangsefni á verksviði íþrótta- og tómstundafulltrúa, en stofnað var til þessarar nýju stöðu í ágúst 2021 og tók Ólafur til starfa í nóvember sl. Starfið er enn í mótun og verður það áfram, a.m.k. næsta árið.

    Ólafur sagði að mestur tími hafi farið í að læra á sundlaugina og allt sem henni fylgir, kynnast fólki og mynda tengsl við bæjarbúa, skóla og félagasamtök. Starfsmannamál hafa verið tímafrek eins og víða um landið og hefur mikill tími farið í að leita eftir starfsfólki og manna störf til að geta haldið úti þjónustu. Á næstunni verður ný íþrótta- og tómstundanefnd bæjarins kölluð saman til fyrsta fundar. Ennfremur verður leitað eftir fulltrúum í ungmenna- og öldungaráð á næstunni.

    Viðhald og framkvæmdir:
    Ólafur sagði frá helstu framkvæmdum og viðhaldsverkefnum í sundlaug og íþróttahúsi. Ýmsar endurbætur hafa verið gerðar í baðklefum og á aðstöðu þar, á lögnum og í lagnakjallara, afgreiðslan var tekin í gegn að hluta og þarf að ljúka því verki í haust/vetur. Í stúku íþróttahúss voru útveggir málaðir, geymslur endurskipulagðar o.fl. Gengið hefur verið í að laga atriði sem gerðar voru athugasemdir við í úttekt eldvarnaeftirlits.

    Frumhönnun anddyris íþróttahúss:
    Snemma í vor fór fram vinna með arkitekt að því að frumhanna nýtt anddyri við íþróttahúsið. Byggingarfulltrúi heldur utan um þá vinnu f.h. bæjarins, en íþrótta- og tómstundafulltrúi kemur að því verkefni. Fram fór gróf þarfagreining og hafa hugmyndir verið í mótun. Þörf er á að auka rými fyrir gesti hússins, bæta starfsmanna- og vaktaðstöðu, salernismál o.fl. Tengja þarf vinnuna við ýmsa aðra þætti, s.s. fyrirhuguð orkuskipti fyrir íþróttahús/sundlaug/grunnskóla, hugmyndir um endurgerð gufubaðsaðstöðu, þarfir tjaldsvæðis o.fl.

    Tómstundastarf:
    Undir íþrótta- og tómstundafulltrúa heyra tómstundir barna og ungmenna, og eldri íbúa að hluta, og sagði Ólafur frá því helsta.

    Hann sagði frá starfi í félagsmiðstöð unglinga sl. vetur, frá starfsmannamálum, ferðalögum og fræðslu. Félagsmiðstöðin hefur haft aðstöðu í miðrými grunnskólans og til boða hefur verið að nýta annað húsnæði eftir þörfum og óskum, s.s. íþróttahús, rými í tónlistarskóla, heimilisfræðistofu, Sögumiðstöð, samkomuhús o.fl.

    Ólafur og Björg sögðu frá því að Grundarfjarðarbær hafi á dögunum fengið 2 milljónir króna í styrk frá Barnamenningarsjóði til listastarfs með börnum í sumar og haust.

    Sumarnámskeið barna stóðu í þrjár vikur í júní og síðari hlutinn verður í ágúst, í eina og hálfa viku. Þau eru fyrir börn fædd 2010-2016. Eglé Sipaviciute er umsjónarmaður námskeiðsins og þemað í ár er listsköpun og leikir. Yfir 20 börn tóku þátt í júníhutanum. Í ágúst eiga Eldhamra-börnin kost á að taka þátt í námskeiðinu og þá munum við þurfa fleiri aðstoðarmenn.

    Kofasmiðja, smíðanámskeið fyrir börn, var haldið í tvær vikur í júní, undir stjórn Togga, Thors Kolbeinssonar. Um 13 krakkar úr 4.-6. bekk sóttu námskeiðið, sem haldið var á svæðinu innan girðingar gömlu spennistöðvarinnar efst við Borgarbraut.

    Í ágústmánuði verður „vegglistanámskeið“, þar sem Dagný Rut Kjartansdóttir mun leiða börn og ungmenni í myndlistartengdri dagskrá. Dagný er nýútskrifuð sem myndlistarkennari og tekur til starfa í grunnskólanum í ágúst nk. Ætlunin er að fara í skapandi vinnu við að gera vegglistaverk víða í bænum og verður þetta kynnt á allra næstu dögum.

    Valdís Ásgeirsdóttir er umsjónarmaður vinnuskóla bæjarins og lýkur vinnunni á morgun, eftir fimm vikna törn. Alls hafa um 14 krakkar úr 7. til 10. bekk verið í vinnuskólanum og hefur gengið mjög vel. Krakkarnir hafa unnið vel í að þrífa og gróðurhreinsa opin svæði í bænum ásamt því að fá ýmsa fræðslu. Þau hafa sótt námskeið í vinnuvernd en forvarnafulltrúi VÍS kom með góðan fræðslufund fyrir þau og sláttugengið, eldri unglingana í sumarstörfum hjá bænum. Krakkarnir fengu fræðslu um brunavarnir hjá slökkviliðsstjóra, um umhverfismál í víðu samhengi frá verkefnisstjóra Umhverfisvottunar Snæfellsness, þau fóru í vinnuheimsókn á golfvöllinn og „vinnustaðaheimsókn“ á höfnina og fylgdust þar með löndun úr Hring SH og hafnarstjóri sagði frá ferli fisksins úr hafi og á markaði.

    Ólafur kemur ennfremur að tómstundastarfi eldri borgara, en mikill og vaxandi kraftur er í starfinu. Bærinn hefur aðkomu að heilsueflingu 60 ára og eldri og hefur Ólafur verið í samskiptum við Ágústu og Rut þjálfara, sem og fulltrúa Félags eldri borgara vegna starfsins. Félagsstarf með eldri íbúum, Rauða kross deildinni og fleirum hefur tengingu við bæinn. Olga Aðalsteins hefur haldið utan um starf í Sögumiðstöðinni og undirbúið „miðvikudags-hittinga“ í Sögumiðstöðinni og verið tengiliður við félögin um starfið.

    Félög og samtök:
    Íþrótta- og tómstundafulltrúi hefur einnig átt fund með flestum íþróttafélögum í bænum. Hann telur mikilvægt að fara í vinnu við að gera samning við helstu félögin í bænum og að beiðni bæjarstjórnar sl. vetur vann hann að undirbúningi samnings við UMFG með formanni/stjórn félagsins. Bæjarráð ræddi um að gott væri að ljúka þeirri samningsgerð samhliða fjárhagsáætlunarvinnu í haust og aðra samninga í framhaldi af því.

    Barnvænt sveitarfélag
    Íþrótta- og tómstundafulltrúi er umsjónaraðili og tengiliður vegna fyrirhugaðrar vinnu bæjarins við að gerast barnvænt sveitarfélag, en skrifað var undir samning um það í mars sl. Ólafur hefur sótt fræðslu og undirbúningsfundi. Ljúka þarf sem fyrst við að skipa ungmennaráð bæjarins, en úr því koma fulltrúar barna og ungmenna inn í stýrihóp verkefnis um barnvænt sveitarfélag. Fara þarf á fullt í verkefninu í haust og verður fyrsta viðfangsefnið fræðsla um réttindi barna sem allir starfsmenn sveitarfélagsins þurfa að fá.

    Ólafi var að lokum þakkað fyrir komuna og góðar upplýsingar, og vék hann hér af fundi.
  • Lagt fram til kynningar bréf Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga (EFS) dags. 22. júní 2022 vegna ársreiknings 2021. Bréfið er staðlað bréf sem sent var til 43 sveitarfélaga vegna fjárhagslegra viðmiða.

    Jafnframt lögð fram samantekt frá Deloitte, endurskoðendum bæjarins, sem sýnir stöðu fjárhagslegra viðmiða bæjarins.

    Bæjarráð - 590 Samkvæmt samantektinni uppfyllir Grundarfjarðarbær öll viðmið fyrir samstæðu A- og B-hluta og flest viðmið vegna A-hluta.

    Frávik vegna A-hlutans eru þrjú:
    - A-hlutinn er undir viðmiðum hvað varðar framlegð sem hlutfall af tekjum, sem var 9,61% árið 2021 en ætti ekki að vera undir 10%.
    - Samanlögð rekstrarniðurstaða A-hluta á síðustu þremur árum ætti að vera yfir núllinu, en er neikvæð um rúmar 5,6 millj. kr.
    - Veltufé frá rekstri sem hlutfall á móti afborgunum lána og skuldbindinga A-hluta ætti að vera 1, en er 0,6.

    Ofangreint verður haft til hliðsjónar í vinnu við fjárhagsáætlun á komandi hausti.

  • Bæjarráð - 590 Ákvörðun um að taka lán í samræmi við fjárhagsáætlun ársins hjá Lánasjóði sveitarfélaga. Lánið verði tryggt með veði í tekjum sveitarfélagsins:

    Bæjarráð Grundarfjarðarbæjar samþykkir hér með á bæjarráðsfundi, í umboði bæjarstjórnar, að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga að fjárhæð allt að kr. 160.000.000,- til allt að 13 ára.
    Bæjarráð Grundarfjarðarbæjar samþykkir að til tryggingar láninu (höfuðstól auk vaxta, dráttarvaxta og kostnaðar), standi tekjur sveitarfélagsins, sbr. heimild í 2. mgr. 68. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, nánar tiltekið útsvarstekjur bæjarins og framlög til sveitarfélagsins úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.
    Er lánið tekið til fjármögnunar á framkvæmdum ársins og endurfjármögnunar á eldri lánum sem tekin voru upphaflega vegna framkvæmda í sveitarfélaginu sem felur í sér að vera verkefni sem hefur almenna efnahagslega þýðingu, sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006.
    Jafnframt er Björgu Ágústsdóttur, bæjarstjóra, veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess f.h. Grundarfjarðarbæjar að undirrita lánssamning við Lánasjóð sveitarfélaga sbr. framangreint, sem og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast lántöku þessari, þ.m.t. beiðni um útborgun láns.

    Samþykkt samhljóða.
  • Lögð fram tillaga um starfsreglur um sérkennslu og stuðning, til afgreiðslu bæjarráðs, ásamt minnispunktum um vinnu sem farið hefur fram hjá skólastjórnendum með Ásgarði, skólaráðgjöf, síðustu mánuði.

    Tillagan var tekin til afgreiðslu á 163. fundi skólanefndar þann 4. júlí sl. og voru reglurnar samþykktar af skólanefnd.
    Bæjarráð - 590 Starfsreglur um stuðning og sérkennslu samþykktar samhljóða.

  • .11 2207023 Skólastefna
    Gerð er tillaga um að hefja vinnu við endurskoðun skólastefnu Grundarfjarðarbæjar, en núverandi skólastefna er frá árinu 2014.
    Sett verði ný menntastefna sem taki til allra skólastiga sem rekstur og starfsemi bæjarins nær til. Byggt verði m.a. á þeirri vinnu sem fram hefur farið með leikskólanum undanfarna mánuði.

    Bæjarráð - 590 Bæjarstjóra verði falið að undirbúa þessa vinnu og leita eftir verðtilboðum.

    Samþykkt samhljóða.
  • Lögð fram beiðni frá Hörpu Dögg Bergmann Heiðarsdóttur um styrk vegna ferðar með landsliðshóp til að keppa fyrir Íslands hönd á Norðurlandamóti í hestaíþróttum. Mótið verður haldið á Álandseyjum 9.-14. ágúst nk.
    Bæjarráð - 590 Bæjarráð veitir Hörpu Dögg styrk sem nemur flugfargjaldi vegna tveggja utanlandsferða í tengslum við landsliðsverkefni í hestaíþróttum, samtals að fjárhæð 90.000 kr.

    Bæjarráð óskar Hörpu Dögg góðs gengis.

    Samþykkt samhljóða.

  • Lagður fram tölvupóstur sviðsstjóra Áfangastaða- & markaðssviðs Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi, dags. 30. júní sl., þar sem óskað er eftir tilnefningu áfangastaðafulltrúa hvers sveitarfélags á Vesturlandi.

    Bæjarstjóri hefur verið áfangastaðafulltrúi síðustu fjögur ár.

    Bæjarráð - 590 Lagt til að bæjarstjóri verði áfram áfangastaðafulltrúi fyrir hönd bæjarins.

    Samþykkt samhljóða.

  • Lagt fram bréf Umhverfisstofnunar dags. 23. júní sl. um kynningu á drögum að stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Þjóðgarðinn Snæfellsjökul, þar sem gefinn er kostur á að veita umsögn um væntanlega áætlun.

    Umsagnarfrestur er til 1. september nk.

    Bréfið hefur einnig verið lagt fram til kynningar í skipulags- og umhverfisnefnd.
    Bæjarráð - 590 Bæjarráð stefnir að því að afgreiða umsögn um drögin, að lokinni umfjöllun um áætlunina í skipulags- og umhverfisnefnd.

  • Lögð fram beiðni Samgöngustofu þar sem óskað er umsagnar bæjarstjórnar vegna umsóknar Vélsmiðju Grundarfjarðar ehf. um staðsetningu ökutækjaleigu, sbr. tölvupóst dags. 6. júlí 2022.

    Fyrir liggur álit skipulagsfulltrúa frá í gær. Þar kemur fram að umhverfis- og skipulagssvið geri ekki athugasemd við að starfsleyfi verði veitt fyrir rekstri ökutækjaleigu fyrir eitt ökutæki á lóð nr. 3 við Ártún enda sé starfsemin í samræmi við skilmála í gildandi deiliskipulagi.
    Bæjarráð - 590 Bæjarráð tekur undir álit skipulagsfulltrúa og gerir ekki athugasemd við staðsetningu fastrar starfsstöðvar ökutækjaleigu á umræddri lóð. Næg bílastæði og góð aðkoma er við Ártún 3, en þar er rekin vélsmiðja og bílaverkstæði. Rekstur ökutækjaleigu með einn bíl hefur ekki áhrif á aðliggjandi starfsemi. Bæjarráð veitir jákvæða umsögn um erindið.

    Samþykkt samhljóða.
  • Lögð fram til kynningar mánaðarleg skýrsla Þjóðskrár Íslands um Grundarfjarðarbæ, fyrir júlí 2022.

    Bæjarráð - 590
  • Bæjarráð - 590 Lagður fram til kynningar samningur vegna styrks úr Mannauðssjóði Samflots bæjarstarfsmanna. Styrkurinn er veittur til gerðar fræðsluáætlunar fyrir bæinn. Símenntun Vesturlands aðstoðar Grundarfjarðarbæ við gerð áætlunarinnar.

  • Lagt fram til kynningar minnisblað Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi um almenningssamgöngur á Snæfellsnesi ásamt vinnugögnum og tillögu frá VSÓ ráðgjöf, sem unnið hefur verið með.

    Bæjarráð - 590 Á vegum SSV fór fram skoðun á möguleikum þess að sameina akstur almenningssamgangna, skólaaksturs Fjölbrautaskóla Snæfellinga og tómstundaaksturs á svæðinu. VSÓ vann þá skoðun fyrir SSV í samvinnu við sveitarfélögin á Snæfellsnesi og FSN.

    Bæjarráð telur að hér sé um að ræða mjög jákvætt verkefni og felur bæjarstjóra að vinna áfram að því í samvinnu við nágrannasveitarfélögin og aðra samstarfsaðila.

    Bókun fundar Til máls tóku JÓK, GS og BÁ.
  • Bæjarráð - 590 Lögð fram til kynningar fundargerð 126. fundar stjórnar Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga (FSS) sem haldinn var 15. júní sl.

    Bæjarstjóri sagði frá umræðum í stjórn FSS um húsnæðismál Smiðjunnar í Ólafsvík.
  • Bæjarráð - 590 Lögð fram til kynningar fundargerð 176. fundar Heilbrigðisnefndar Vesturlands sem haldinn var 20. júní sl.
  • Bæjarráð - 590 Lagður fram til kynningar samningur við Tómas Frey Kristjánsson um ljósmyndun 2022.
  • Sambærilegur samningur hefur verið gerður við sama aðila síðustu árin.
    Bæjarráð - 590 Lagður fram til kynningar samningur við Bongó vegna afnota af Sögumiðstöð sumarið 2022.
  • Bæjarráð - 590 Lagt fram til kynningar bréf Logos um uppsögn Ríkiseigna á afnotum af ríkisjörðinni Hallbjarnareyri m.v. núverandi afmörkun jarðarinnar, eins og það er orðað í bréfi Ríkiseigna dags. 3. nóv. 2021.

    Framkvæmdasýslan Ríkiseignir er viðtakandi bréfsins frá Logos og afrit er sent bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar til kynningar.

  • Bæjarráð - 590 Lagður fram til kynningar ársreikningur UMFG vegna ársins 2021.
  • Bæjarráð - 590 Lögð fram til kynningar starfsskýrsla UMFG fyrir tímabilið maí 2021 - maí 2022.
  • Bæjarráð - 590 Lagðar fram til kynningar fundargerðir stjórnar SSV; 166. fundar sem haldinn var 26. janúar sl., 167. fundar sem haldinn var 2. mars sl. og 168. fundar sem haldinn var 1. júní sl.
  • Bæjarráð - 590 Lagður fram til kynningar ársreikningur Golfklúbbsins Vestarrs fyrir árin 2020-2021.

  • Bæjarráð - 590 Lögð fram til kynningar ársskýrsla Heilbrigðiseftirlits Vesturlands (HeV) fyrir árið 2021.
  • Bæjarráð - 590 Lögð fram til kynningar fundargerð aðalfundar Heilbrigðiseftirlits Vesturlands sem haldinn var 16. mars sl.
  • Bæjarráð - 590 Lagður fram til kynningar tölvupóstur 5. júlí 2022 frá Ferðamálastofu, þar sem kynntur er lengri umsóknarfrestur vegna umsókna um styrki í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða.

    Ákveðið hefur verið að flýta ferlinu við auglýsingu og úthlutun styrkja úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða vegna framkvæmda á árinu 2023.
    Einnig á að lengja þann frest sem umsækjendur hafa til að sækja um.
    Markmiðið með breytingunni er að auka svigrúm þeirra sem hyggjast sækja um styrki úr sjóðnum fyrir næsta ár og auðvelda þeim að undirbúa framkvæmdir í tíma.

    Fram kemur að stefnt er að því að auglýsa eftir umsóknum um styrki í sjóðinn í lok ágúst nk. og að frestur verði sex vikur í stað fjögurra áður, þ.e. umsóknarferlið nái fram í byrjun október.

  • Til kynningar Bæjarráð - 590 Lagt fram til kynningar bréf Hafnasambands Íslands dags 23. júní 2022 um boðun á hafnasambandsþing 2022. Þingið verður haldið 27. og 28. október nk. í Ólafsvík.
  • Bæjarráð - 590 Lagðar fram til kynningar fundargerðir stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, þ.e. 910. fundar sem haldinn var 20. maí sl. og 911. fundar sem haldinn var 23. júní sl.
  • Bæjarráð - 590 Lagt fram til kynningar bréf Sambands íslenskra sveitarfélaga dags. 5. júlí sl. þar sem tilkynntur er framboðsfrestur til formanns sambandsins.

    Breytingar voru gerðar á samþykktum sambandsins og verður formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga nú kjörinn með beinni rafrænni kosningu en ekki á landsþingi eins og tíðkast hefur.
    Framboðsfrestur til formannskjörs er til og með 15. júlí og kjörgengir eru aðal- og varamenn í sveitarstjórnum landsins.

    Rétt til þátttöku í formannskosningu eiga landsþingsfulltrúar og hefst kosningin 15. ágúst og stendur í tvær vikur. Úrslit skulu kynnt þegar þau liggja fyrir.
  • Bæjarráð - 590 Lögð fram til kynningar ársskýrsla Persónuverndar fyrir árið 2021.
  • Bæjarráð - 590 Lagður fram til kynningar ársreikningur Landskerfa bókasafna vegna ársins 2021, ásamt gildandi samþykktum og fundarboði um aðalfund, en hann var haldinn 29. júní sl.