Vísað er í fyrri umfjöllun skipulags- og umhverfisnefndar og bæjarstjórnar um miðbæjarreit, bæði um uppbyggingu á reitnum og síðan um aðalskipulagsbreytingu.
Haldnir voru fundir með íbúum til að kynna hugmyndir um uppbyggingu á miðbæjarreit; opinn fundur í samkomuhúsinu 2. apríl sl. og tveir fundir sérstaklega með eigendum húsa á nærliggjandi lóðum. Þriðji slíkur fundurinn er jafnframt fyrirhugaður.
Auglýst var skipulagslýsing og vinnslutillaga fyrir breytingu aðalskipulags, vegna miðbæjarreits, og var tillagan auglýst í Skipulagsgátt frá 15. til 24. apríl sl. Frestur til að gera athugasemdir/umsagnir rann út 24. apríl sl.
Alls bárust fimm umsagnir, frá Slökkviliði Grundarfjarðar, Minjastofnun Íslands, Veitum ohf., Heilbrigðiseftirliti Vesturlands og Vegagerðinni.
Umsagnir má sjá í framlagðri samantekt í fylgiskjali.
Einnig er lögð fram tillaga að breytingu á aðalskipulagi, sem lagt er til að auglýst verði í samræmi við 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Undir þessum lið eru einnig lagðar fram til kynningar tillögur að fyrirkomulagi gatnamóta og lóðarmarka miðbæjarreits, við Hrannarstíg og Grundargötu, sem tekur mið af nýbyggingu á miðbæjarreit. Thijs Kreukels samgönguverkfræðingur hjá VSB verkfræðistofu vann þar undirbúningsvinnu og var hann gestur fundarins undir þessum lið að hluta.
Lögð var fram í einu lagi skipulagslýsing og tillaga til kynningar á vinnslustigi um breytingu á Aðalskipulagi Grundarfjarðar 2019-2039.
Skipulagsfulltrúa falið að gera lítilsháttar breytingar á orðalagi, en að öðru leyti samþykkir nefndin að leggja til við bæjarstjórn að kynna lýsinguna og tillöguna í samræmi við 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.