240. fundur 06. júlí 2020 kl. 17:45 - 18:46 í Ráðhúsi Grundarfjarðar
Nefndarmenn
 • Jósef Ó. Kjartansson (JÓK) forseti bæjarstjórnar
 • Hinrik Konráðsson (HK)
 • Unnur Þóra Sigurðardóttir (UÞS)
 • Sævör Þorvarðardóttir (SÞ)
 • Rósa Guðmundsdóttir (RG)
 • Garðar Svansson (GS)
 • Bjarni Sigurbjörnsson (BS)
 • Björg Ágústsdóttir (BÁ) bæjarstjóri
Fundargerð ritaði: Björg Ágústsdóttir bæjarstjóri
Dagskrá
Forseti setti fund og bauð fundarfólk velkomið.
Fundurinn er aukafundur vegna staðfestingar aðalskipulagstillögu sem unnið hefur verið að.

1.Athugasemdir við aðalskipulagstillögu des-jan. 2020

Málsnúmer 2002016Vakta málsnúmer

Fyrir fundinum lágu athugasemdir sex aðila sem bárust á auglýsingatíma aðalskipulagstillögu. Gögnin lágu einnig fyrir undir lið 6.1. á 236. fundi bæjarstjórnar, þann 12. mars sl.
Afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar á athugasemdum, og tillögu að umsögn bæjarstjórnar um athugasemdirnar, er að finna í bókun 218. fundar nefndarinnar, sem er dagskrárliður nr. 2 á þessum fundi. Vísað er til þeirrar afgreiðslu.

2.Skipulags- og umhverfisnefnd - 218

Málsnúmer 2007001FVakta málsnúmer

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar og vísar jafnframt til dagskrárliðar 4 á þessum fundi.
 • Tillaga að Aðalskipulagi Grundarfjarðar 2019-2039, ásamt umhverfisskýrslu, var auglýst samkvæmt 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 7. gr. laga um umhverfismat áætlana nr. 105/2006, þann 4. desember 2019. Athugasemdafrestur rann út þann 22. janúar 2020.
  Eftirtaldir aðilar gerðu athugasemdir við framlagða aðalskipulagstillögu og/eða umhverfisskýrslu:

  1.Ásta B. Pétursdóttir og Nicolai Jónasson, f.h. Berserkseyrar Ytri, dags. jan. 2020

  2.Gaukur Garðarsson f.h. jarðareigenda Mýrarhúsa, dags. 21.1.2020

  3.Heiðar Þór Bjarnason f.h. Hesteigendafélags Grundarfjarðar, dags. 22.1.2020

  4.Hugrún Elísdóttir og Katrín Elísdóttir, Grundargötu 6, dags 22.1.2020

  5.Ólafur Tryggvason f.h. reiðveganefndar Hestamannafélagsins Snæfellings, dags. 9.1.2020.

  6.Unnsteinn Guðmundsson, dags. 20.1.2020.
  Skipulags- og umhverfisnefnd - 218 Í samræmi við 1. mgr. 32. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 1. mgr. 9. gr. laga um umhverfismat áætlana nr. 105/2006 hefur skipulags- og umhverfisnefnd farið yfir framkomnar athugasemdir sem voru áður til umræðu á fundi nefndarinnar 19. febrúar 2020. Hér á eftir er gerð grein fyrir efni athugasemda og sett fram svör skipulags- og umhverfisnefndar við þeim.

  1.Jarðamörk Berserkseyrar og Berserkseyrar Ytri

  Gerð er athugasemd við að Berserkseyri Ytri sé sýnd sem hluti jarðarinnar Berserkseyri þar sem jarðirnar séu aðskildar jarðir í eigu óskyldra aðila og með aðskilin jarðarnúmer. Bent er á að í gildi er deiliskipulag fyrir jörðina Berserkseyri Ytri þar sem full aðgreining er skilgreind milli fyrrnefndra jarða.

  Svör skipulags- og umhverfisnefndar:

  Nefndin áréttar að í aðalskipulagsvinnunni hefur verið byggt á þeirri staðreynd, sem nefndinni er kunn, að um er að ræða tvær sjálfstæðar jarðir.

  Í aðalskipulagi er ekki tekin afstaða til jarðamarka, en þau eru gjarnan sýnd á skýringarkortum með aðalskipulagi. Þau hafa hins vegar ekki lögformlegt gildi líkt og hinir eiginlegu skipulagsuppdrættir - þéttbýlisuppdráttur og sveitarfélagsuppdráttur.

  Í auglýstri aðalskipulagstillögu Grundarfjarðarbæjar voru jarðamörk sýnd til skýringar á korti á bls. 126 í tillögunni sem sýnir jarðamörk úr verkefninu Nytjaland en Þjóðskrá Íslands hefur haldið utan um þann gagnagrunn síðan árið 2006. Í aðalskipulagstillögunni er tekið fram að aðalskipulagið tekur ekki til jarðamarka, heldur eru þau til skýringar, enda kemur fram hjá Þjóðskrá sá fyrirvari á gögnunum að þau sé ekki hægt að nota „sem eignamarkalínur í lagalegum skilningi“. Vegna skorts á öðrum gögnum um jarðamörk voru þau samt sem áður birt sem skýringarkort. Við myndatexta á bls. 126 verður bætt skýringu sem áréttar að kortið sýnir ekki eignamarkalínur í lagalegum skilningi.

  2.Þegar deiliskipulagt svæði í landi Berserkseyrar Ytri

  Gerð er athugasemd við að ekki sé fjallað um Berserkseyri Ytri í aðalskipulagstillögunni og þau þrjú hús sem eru samþykkt þar skv. deiliskipulagi.

  Svör skipulags- og umhverfisnefndar:

  Í gildandi deiliskipulagi fyrir Berserkseyri Ytri, sbr. skipulagsvefsjá á vef Skipulagsstofnunar, er heimilt að reisa þrjú stök frístundahús innan deiliskipulagssvæðis, en sú heimild fellur innan þess sem almennt er heimilt á landbúnaðarsvæðum (þ.e. allt að 5 frístundahús) og því er svæðið ekki tilgreint í kafla 4.5 um frístundabyggðarsvæði.

  3.Hótel í landi Skerðingsstaða við Lárvaðal

  Gerðar eru athugasemdir við að landbúnaðarsvæði sé breytt í verslunar- og þjónustusvæði og þar gert ráð fyrir byggingu allt að 100 herbergja hótels og fimm stakstæðra gistihúsa. Tilgreind eru eftirfarandi rök fyrir athugasemdinni:
  ?Ósamræmi við önnur markmið aðalskipulagstillögunnar, s.s. þau sem varða vistkerfi, lífríki, búsvæði, fuglalíf, líffræðilega fjölbreytni, fjarlægð bygginga frá vatni, land, gróður, verndun strandlengju, þróun miðbæjarkjarna þéttbýlis og umhverfisvæna byggðarþróun.

  -Hætta á alvarlegu umhverfisslysi sem hefur áhrif á nærliggjandi lífríki.

  -Mikilvægi Lárvaðals sem eina vatnið í Grundarfirði með villtum og sjálfbærum stofni lax og silungs og sem stærsta stöðuvatn í sveitafélaginu með mikið af farfuglum sem eigi varpstæði við vatnið.

  -Neikvæð áhrif á frístundahús og útivist við Lárvaðal.

  -Ósamræmi við viðmið í umhverfisskýrslu, s.s. tengd landsskipulagsstefnu, fuglalífi, menningar- og náttúruarfleifð sem hefur sérstakt alþjóðlegt gildi,

  -Ósamræmi við markmið skipulagslaga.

  -Skortur á rökstuðningi fyrir tillögunni m.t.t.hagsmuna byggðarlagsins og þess svæðis sem breytingin mun hafa áhrif á.

  Svör skipulags- og umhverfisnefndar:

  Á bls. 122 í auglýstri aðalskipulagstillögu kemur fram að unnið sé að deiliskipulagi fyrir verslunar- og þjónustusvæði í landi Skerðingsstaða sem og umhverfismati þess. Ennfremur að sett séu skipulagsákvæði um að byggingar falli vel að landslagi, þ.m.t. Kirkjufelli, og gerð krafa um sjónrænt áhrifamat í þeim tilgangi. Einnig eru ákvæði um að staðinn verði vörður um lífríki, tekið verði tillit til fornleifa og að aðgengi almennings meðfram vatnsbakka Lárvaðals verði tryggt. Ennfremur er ákvæði um að gerð verði grein fyrir fyrirkomulagi fráveitu og umhverfisáhrifum þess og að um að áhrif bygginga og fyrirhugaðrar starfsemi Lárós verði metin og þau lágmörkuð. Þegar deiliskipulagstillaga og umhverfismat hennar liggur fyrir, í samræmi við framangreint, mun skipulags- og umhverfisnefnd fjalla að nýju um áformin á grundvelli nánari útfærslu og upplýsinga um áhrif á umhverfi og samfélag.

  4.Reiðleið í kringum Kirkjufell

  Gerð er athugasemd við að ekki sé gert ráð fyrir reiðleið í kringum Kirkjufell þar sem hún hefur verið notuð og er enn mikið farin.

  Svör skipulags- og umhverfisnefndar:

  Aðalskipulag skilgreinir meginreiðleiðir (stofnleiðir) sem liggja í gegnum sveitarfélagið og yfir í önnur sveitarfélög, en ekki styttri reiðleiðir innan sveitar. Í fyrra/gildandi aðalskipulagi var ekki skilgreind reiðleið í kringum Kirkjufell, enda telst hún innansveitarleið en ekki meginreiðleið. Til samræmis við þá línu verði reiðleið um Bárarháls (sbr. aths. nr. 5) í auglýstri tillögu, felld út og sett inn stefna um að Grundarfjarðarbær hvetji til að landeigendur og hestamannafélög sameinist um skipulag innansveitarreiðleiða.


  5.Lega reiðvegar um Bárarháls og austanvert Eyrarfjall

  Gerð er athugasemd við fyrirhugaða legu reiðvegar um Bárarháls og um austanvert Eyrarfjall. Bent er á að í eldra skipulagi lá reiðvegur um gamla þjóðleið við Hjarðarból og er farið fram á að sú leið fái að halda sér en tekið er fram að ekki sé gerð krafa um að fara gegnum afgirt svæði við sumarhúsasvæði. Fram kemur að reiðveganefnd Snæfellings er til í að vinna að gerð leiðar fram hjá sumarhúsasvæðinu en telur það vondan kost að fara niður að þjóðvegi með allri sinni auknu umferð.

  Tilgreind eru eftirfarandi rök fyrir athugasemdinni:

  -Við mótun aðalskipulagstillögunnar var teiknuð upp reiðleið á gömlu þjóðleiðinni yfir Bárarháls sunnanverðan en sú leið var tekin út.

  -Eitt af hlutverkum aðalskipulags er að vera með réttar upplýsingar um notkun lands og staðreyndir um leiðir um það svo sem eins og reiðleiðir.

  -Reiðveganefnd Landssambands hestamannafélaga hvetur hestamenn til að vinna að því að reiðleiðir séu inni á aðalskipulagi og er þessi leið ein af reiðleiðum í sveitafélaginu og því eðlilegt að hún sé merkt inn.

  Svör skipulags- og umhverfisnefndar:

  Vísað er til svars að við aths. nr. 4 hvað varðar reiðleiðir sem ekki teljast meginleiðir. Til samræmis við þá línu verður reiðleið yfir Bárarháls tekin út. Hvorug leiðanna er í fyrra/gildandi aðalskipulagi. Meginreiðleið framhjá Hjarðarbóli var færð, frá fyrra/gildandi aðalskipulagi, niður að þjóðvegi þar sem um meginleið er að ræða sem gera má ráð fyrir að sé tæk til reiðvegagerðar og styrkhæf hjá Vegagerðinni. Legan kemur ekki í veg fyrir að skilgreind verði innansveitarleið fram hjá meginreiðleið.

  Björg Ágústsdóttir vék af fundi undir umræðum um athugasemdir sem lutu að reiðvegum.

  Framhald sjá næsta lið.
 • Framhald bókunar á svörum nefndar við athugasemdum er bárust vegna aðalskipulagstillögunnar. Skipulags- og umhverfisnefnd - 218 6.Gististaðir á íbúðarsvæðum

  Gerð er athugasemd við stefnu um gististaði á íbúðarsvæðum, sbr. kafla 6.3 og því mótmælt að gistimöguleikar í íbúðarbyggð séu auknir. Tilgreind eru eftirfarandi rök fyrir athugasemdinni:

  -Ósamræmi við framtíðarsýn um aðalskipulagstillögunnar um fjölskylduvænt samfélag þar sem hlúð er að íbúum, í umhverfi sem menntar og gleður, er gróðurríkt og vel skipulagt, friðsælt og snyrtilegt.

  -Ósamræmi við það meginmarkmið að aðstæður í Grundarfirði séu ákjósanlegar til búsetu, m.t.t. þess að „hugmyndin er að fylla bæjarfélagið af íbúðagistingu fyrir ferðamenn inn í íbúðarhverfi.“

  -Fjöldi gistimöguleika fyrir ferðamenn er kominn langt út fyrir það sem gæti talist eðlilegt, sbr. mynd á bls. 36 í aðalskipulagstillögunni þar sem sjá má að hlutfallslega eru flest gistileyfi á ÍB-1, fyrir utan miðsvæði og svæði þar sem atvinnustarfsemi fer fram.

  -Ef horft er eingöngu til húsa við Grundargötu 4-28 þá má ætla að um 12% íbúðanna séu nú þegar með leyfi til útleigu til ferðamanna og því ekki forsvaranlegt að auka þar í.

  -Meiri þörf er á aðgerðum til að gera Grundargötu að áhugaverðum stað til þess að búa á, fylla hana af lífi af íbúum sem hafa fasta búsetu, því þeim sé annt um götuna, fasteignir og nágranna.

  -Aukin ferðaþjónusta inn í hverfi leiðir til aukinnar umferðar sem þegar er allt of mikil sem og umferðarhraði.

  -Ferðamenn eru á ferðinni á öllum tímum sólarhrings sem dregur úr fari friðsæld.

  -Þegar er komið nóg af gistimöguleikum á íbúðarsvæðum.

  Svör skipulags- og umhverfisnefndar:

  Í aðalskipulagstillögunni er sett fram framtíðarsýn um að Grundarfjörður verði stöndugur þjónustukjarni miðsvæðis á Snæfellsnesi, sem byggir einkum á sjávarútvegi og ferðaþjónustu, auk þess að vera menntasetur (sbr. 3. kafla tillögunnar). Framtíðarsýnin byggir m.a. á því aðferðaþjónusta er orðin ein af meginstoðum íslensks efnahags og er talin búa yfir enn frekari vaxtarmöguleikum og geta stutt við stöðugleika í búsetu á landsbyggðinni. Svæðisskipulag Snæfellsness byggir m.a. á þeim forsendum. Í samræmi við þessa framtíðarsýn og forsendur er í nýju aðalskipulagi fyrir Grundarfjörð mörkuð stefna sem getur stutt við þróun ferðaþjónustu og tekur mið af þróun í greininni, þ.m.t. hvað varðar gistingu. Til að takast á við þróun gististaða í íbúðarbyggð þótti ástæða til að marka stefnu í aðalskipulagi um gististaði innan íbúðarsvæða sem miðar að því að draga sem mest úr neikvæðum áhrifum um leið og möguleiki væri til að nýta þau tækifæri sem ferðamannafjöldinn býður til að styrkja efnahagslíf bæjarins, sbr. greiningu á bls. 116-117 í tillögunni. Í þeim tilgangi voru í aðalskipulagstillögunni sett fram stefna sem gististaðir þurfa að samræmast og sem tryggja á frið í íbúðarhverfum og sem minnsta hagsmunaárekstra, sbr. bls. 120-121 í tillögunni. Mikil vinna var lögð í þennan þátt og er leitast við að fara bil beggja og telur nefndin því ekki ástæðu til að breyta aðalskipulagstillögunni að þessu leyti. Þegar reynsla er komin á þessa stefnu aðalskipulags verður hún endurskoðuð ef ástæða þykir til.

  7.Gönguleið og lóð við Ölkelduveg

  Settar eru fram tvær tillögur að breytingum á aðalskipulagstillögunni:

  -Gönguleið frá ölkeldunni í suðaustur verði eingöngu milli Ölkelduvegar 21 og Ölkelduvegur 23 og sunnan við lóð 17, þar sem efri leið er ófær vegna skógræktar.

  -Lóð, Ölkelduvegur 19, falli út en renni í staðinn að hluta undir göngustíg og lóð nr. 17 sem gæfi möguleika á plássi undir t.d. tveggja eða þriggja íbúða raðhús. Lóðin nr. 19 er óbyggileg að mati bréfritara og byggingarverktaka sem hefur skoðað hana.

  Svör skipulags- og umhverfisnefndar:

  Nefndin samþykkir að færa gönguleið niður fyrir Ölkelduveg 21 eins og lagt er til, enda er efri leið ófær eins og bent er á.

  Tillaga um skipulag lóða og íbúðarhúsa við Ölkelduveg rúmast innan þeirra marka sem aðalskipulagstillagan setur og er vísað til skoðunar á deiliskipulagsstigi.


  Með vísan í framangreind svör við athugasemdum sem bárust við auglýsta aðalskipulagstillögu og umhverfisskýrslu, samþykkir skipulags- og umhverfisnefnd að gerðar verði eftirfarandi lagfæringar á tillögunni:

  -Reiðleið yfir Bárarháls verði felld út þar sem ekki er um meginreiðleið/stofnleið að ræða, heldur innansveitarleið. Það er í samræmi við að ekki er tillaga um reiðleið í kringum Kirkjufell. Í stefnu um reiðleiðir á bls. 143 í auglýstri tillögu verði bætt inn texta um að Grundarfjarðarbær hvetji landeigendur og hestamannafélög til að sameinast um skipulag innansveitarreiðleiða.

  -Gönguleið í suðaustur frá ölkeldunni verði færð í samræmi við fram komna tillögu og tveimur gönguleiðum verði bætt við til að tengja innanbæjarleið við gönguleiðina ofan bæjar.

  Auk þess samþykkir nefndin eftirfarandi minniháttar breytingar frá auglýstri tillögu:

  -Tekið er út það skipulagsákvæði að lóðirnar að Fellasneið 5 og 12 á ÍB-3 verði felldar út sem byggingarlóðir. Lóðirnar eru innan skilgreinds íbúðarsvæðis og ákvörðun um lóðafyrirkomulag er ekki talin eiga við á aðalskipulagsstigi.

  -Í kafla 7.1 undir markmiði um að gatnakerfi í þéttbýlinu verði öruggt og þjóni öllum fararmátum, verði bætt inn eftirfarandi: „Á vegum Grundarfjarðarbæjar verða skilgreind tiltekin fráleggssvæði fyrir snjó, til að auðvelda snjómokstur innanbæjar, og yfirlit yfir þau birt á vef bæjarins, íbúum og verktökum til upplýsingar.“

  -Gerðar lítilsháttar lagfæringar á mörkum landnotkunarreits við Ölkelduveg og Hellnafell til samræmis við fyrirliggjandi lóðablöð/mæliblöð.

  -Í landnotkunartöflu yfir efnistöku- og efnislosunarsvæði og á sveitarfélagsuppdrátt er bætt inn efnislosunarsvæði E13. Svæðið er inní fyrra aðalskipulagi, merkt E3, og er gömul náma á Hrafnkelsstaðabotni, í Kolgrafafirði. Svæðisins var getið í auglýstri aðalskipulagstillögu sem efnislosunarsvæði, í lista yfir breytingar frá fyrra aðalskipulagi, en fyrir mistök var það ekki á uppdrætti og í landnotkunartöflu. Svæðið hefur verið nýtt sem efnislosunarsvæði og stendur til að nota sem slíkt áfram. Sótt hefur verið um endurnýjun starfsleyfis fyrir efnislosunarsvæðið.

  -Efnistökusvæði E-13 og E-14 eru tekin út af sveitarfélagsuppdrætti þar sem í báðum tilvikum er um að ræða efnistöku úr framburði Hrafnár, en slík efnistaka fellur undir almenn ákvæði sem lýst er á bls. 102-103 í auglýstri tillögu, kafla 5.3, Markmið og leiðir: „Staðið verði vel að efnistöku“. Unnið er að nýtingaráætlun fyrir efnistöku úr Hrafná. Á grunni hennar verður stærð og umfang efnisnáms skilgreint og málsmeðferð hagað eins og lýst er í auglýstri aðalskipulagstillögu.3.Skipulags- og umhverfisnefnd - 219

Málsnúmer 2007002FVakta málsnúmer

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar og vísar jafnframt til dagskrárliðar 4 á þessum fundi.
 • Lokaafgreiðsla á tillögu að Aðalskipulagi Grundarfjarðar 2019-2039. Skipulags- og umhverfisnefnd - 219 Tillaga að Aðalskipulagi Grundarfjarðar 2019-2039, ásamt umhverfisskýrslu, var auglýst samkvæmt 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 7. gr. laga um umhverfismat áætlana nr. 105/2006, þann 4. desember 2019. Athugasemdafrestur rann út þann 22. janúar 2020. Sex aðilar gerðu athugasemdir við framlagða aðalskipulagstillögu og/eða umhverfisskýrslu.

  Í samræmi við 1. mgr. 32. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 1. mgr. 9. gr. laga um umhverfismat áætlana nr. 105/2006 fór skipulags- og umhverfisnefnd yfir framkomnar athugasemdir, á fundum sínum nr. 212 þann 19. febrúar sl. og 218 þann 1. júlí sl.
  Á síðarnefnda fundinum samþykkti nefndin að afgreiða athugasemdirnar og voru svör nefndarinnar við þeim bókuð í fundargerð 218. fundar. Á sama fundi samþykkti nefndin að gera þær breytingar á aðalskipulagstillögunni sem umsögn um athugasemdirnar leiddi af sér, auk minniháttar leiðréttinga annarra, sem gerð er grein fyrir í sérstöku minnisblaði sem fylgir gögnum málsins og sent verður Skipulagsstofnun.

  Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við bæjarstjórn að aðalskipulagstillagan, svo breytt, verði samþykkt og send Skipulagsstofnun til staðfestingar, sbr. 2. mgr. 32. gr. skipulagslaga og 1. mgr. 9. gr. laga um umhverfismat áætlana.

  Þeim aðilum er gerðu athugasemdir verði jafnframt send afgreiðsla og umsögn bæjarstjórnar um athugasemdir, niðurstaðan verði auglýst, sbr. 2. mgr. 32. gr. skipulagslaga og gögn verði kynnt viðeigandi aðilum í samræmi við 2. mgr. 9. gr. laga um umhverfismat áætlana, en í umhverfisskýrslu tillögunnar er gerð grein fyrir hvernig umhverfissjónarmið hafa verið felld inn í áætlunina og færð rök fyrir þeirri stefnu sem sett er fram.

  Samþykkt samhljóða.

4.Aðalskipulag Grundarfjarðar 2019 - 2039

Málsnúmer 1805034Vakta málsnúmer

Tillaga að Aðalskipulagi Grundarfjarðar 2019-2039, ásamt umhverfisskýrslu, var auglýst samkvæmt 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 7. gr. laga um umhverfismat áætlana nr. 105/2006, þann 4. desember 2019. Athugasemdafrestur rann út þann 22. janúar 2020.
Sex aðilar gerðu athugasemdir við framlagða aðalskipulagstillögu og/eða umhverfisskýrslu.

Í samræmi við 1. mgr. 32. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 1. mgr. 9. gr. laga um umhverfismat áætlana nr. 105/2006 fór skipulags- og umhverfisnefnd yfir framkomnar athugasemdir, á fundum sínum nr. 212 þann 19. febrúar sl. og 218 þann 1. júlí sl. Á síðarnefnda fundinum samþykkti nefndin að afgreiða athugasemdirnar og var umsögn nefndarinnar þar að lútandi bókuð í fundargerð 218. fundar. Á sama fundi samþykkti nefndin að gera þær breytingar á aðalskipulagstillögunni sem umsögn um athugasemdir leiddi af sér, auk minniháttar leiðréttinga annarra, sem gerð er grein fyrir í sérstöku minnisblaði sem fylgir gögnum málsins og sent verður Skipulagsstofnun með þessari afgreiðslu.

Á fundi sínum nr. 219, þann 6. júlí 2020, samþykkti skipulags- og umhverfisnefnd að leggja til við bæjarstjórn að samþykkja aðalskipulagstillöguna svo breytta og senda hana til Skipulagsstofnunar til staðfestingar, sbr. 2. mgr. 32. gr. skipulagslaga og 1. mgr. 9. gr. laga um umhverfismat áætlana. Jafnframt verði aðilum, sem gerðu athugasemdir við tillöguna, send afgreiðsla og umsögn bæjarstjórnar um athugasemdirnar og niðurstaðan auglýst, sbr. 2. mgr. 32. gr. skipulagslaga og gögn kynnt viðeigandi aðilum í samræmi við 2. mgr. 9. gr. laga um umhverfismat áætlana. Í umhverfisskýrslu tillögunnar er gerð grein fyrir hvernig umhverfissjónarmið hafa verið felld inn í áætlunina og færð rök fyrir þeirri stefnu sem sett er fram.

---
Allir fundarmenn tóku til máls.

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða og gerir að sinni, afgreiðslu og umsögn skipulags- og umhverfisnefndar, á athugasemdum sem bárust við aðalskipulagstillöguna.

Jafnframt samþykkir bæjarstjórn samhljóða að senda fyrirliggjandi tillögu að Aðalskipulagi Grundarfjarðar 2019-2039 ásamt umhverfisskýrslu, til Skipulagsstofnunar til staðfestingar, sbr. 2. mgr. 32. gr. skipulagslaga og 1. mgr. 9. gr. laga um umhverfismat áætlana.

Til skýringar á málsmeðferðarhraða, sbr. ákvæði 2. mgr. 32. gr. skipulagslaga, vill bæjarstjórn taka fram, að afgreiðsla þessi tafðist sökum heimsfaraldurs kórónuveiru og brýnna verkefna sem því fylgdu fyrir sveitarfélagið. Óskar bæjarstjórn eftir að Skipulagsstofnun taki tillit til þess við lokaafgreiðslu málsins.

Bæjarstjórn samþykkir ennfremur að senda þeim aðilum, sem gerðu athugasemdir við tillöguna, afgreiðslu og umsögn sína, að auglýsa niðurstöðuna, sbr. 2. mgr. 32. gr. skipulagslaga og að kynna viðeigandi aðilum gögn í samræmi við 2. mgr. 9. gr. laga um umhverfismat áætlana.

Samþykkt samhljóða.

Bæjarstjórn þakkar skipulags- og umhverfisnefnd og öllum þeim sem að gerð tillögunnar komu, fyrir vel unnið verk.

Fundargerð lesin og samþykkt.

Fundi slitið - kl. 18:46.