101. fundur 07. júní 2021 kl. 20:00 - 22:45 í Sögumiðstöðinni
Nefndarmenn
  • Bjarni Georg Einarsson (BGE) formaður
  • Ragnheiður Dröfn Benidiktsdóttir (RDB)
  • Ingibjörg Eyrún Bergvinsdóttir (IEB)
Starfsmenn
  • Björg Ágústsdóttir (BÁ) bæjarstjóri
Fundargerð ritaði: Björg Ágústsdóttir bæjarstjóri
Dagskrá
Formaður setti fund og bauð fundarmenn velkomna.

1.Samskipti og kynning íþróttafélaga hjá íþr. og æskulýðsnefnd

Málsnúmer 1810006Vakta málsnúmer

Boðað hafði verið til sameiginlegs umræðufundar með fulltrúum allra íþrótta- og æskulýðsfélaga í bænum.

Skátafélagið Örninn gat ekki sent fulltrúa, en Aðalsteinn Þorvaldsson hafði fyrir fundinn sent nefndinni góða punkta um starfsemina.

Hesteigendafélag Grundarfjarðar hafði sömuleiðis tilkynnt að það gæti ekki sent fulltrúa á fundinn, en nefndin mun hitta fulltrúa félagsins síðar.


Fyrir fundinn var lagt upp með eftirfarandi útgangspunkta:

- Hvað er efst á baugi hjá hverju félagi; helstu verkefni, breytingar og nýjungar.
- Barnastarfið
- Hvað brennur helst á og hverjar eru helstu áskoranir í félagsstarfinu og starfsemi félagsins.
- Tækifæri til frekara samstarfs eða nýjunga, félögunum og íbúum (einkum börnum) til hagsbóta.


Fulltrúar hvers félags kynntu starfsemina.

UMFG
Vefur félagsins er: https://umfg.weebly.com/

Sirrý og Gunnar kynntu starfið, en starf UMFG er fyrst og fremst barna- og unglingastarf. Meistaraflokkar í körfu og blaki eru reknir sem sér deildir undir UMFG.

Í vor og sumar verða í boði rafíþróttir - örnámskeið, fótbolti, sund og frjálsar.

Klifurdeild var stofnuð innan UMFG og er Klifurhúsið í samstarfi með það. Nú er verið að vinna að því að klifur sé undir ÍSÍ og þegar fram líða stundir gætu Grundfirðingar átt keppendur í klifri, sem keppnisgrein á mótum.

Rafíþróttir eru nýjar í starfsemi UMFG, fyrsta rafíþróttadeildin á Vesturlandi. Mikil vinna hefur verið lögð í undirbúninginn, en rafíþróttir eru reknar sem sérstök deild, með sér stjórnunarteymi. Rafíþróttir fengu aðstöðu að Borgarbraut 18, í samstarfi við Grundarfjarðarbæ. Ljósleiðaratenging var nauðsynleg vegna starfseminnar. Félagið fékk Arnar Hólm til ráðgjafar, en hann er fræðslufulltrúi Rafíþróttasambands Íslands.

Í vor var boðið uppá örnámskeið í rafíþróttum fyrir krakka. Þjálfari er Loftur Árni Björgvinsson, framhaldsskólakennari. Hann hefur sótt námskeið í rafíþróttum. Hugsunin er að rafíþróttir geti verið fyrir 3. bekk og uppí 10. bekk. Fast utanumhald er um rafíþróttirnar, gert ráð fyrir hreyfingu inní rafíþróttatímum, og reynt að virkja foreldra með í starfinu.

Gert er ráð fyrir samstarfi við Fjölbrautaskóla Snæfellinga, sem býður uppá rafíþróttaáfanga í skólanum.

Á héraðsþingi HSH í vor komu fulltrúar annarra félaga að skoða aðstöðu UMFG. Í haust mun upplýsingafulltrúi Rafíþróttasambandsins koma og halda kynningarfund, fyrir foreldra og aðra.

Sirrý og Gunnar buðu nefndarfólki sérstaklega í heimsókn að Borgarbraut 16, til að fá kynningu á rafíþróttastarfsemi og aðstöðu. Þau sögðu að aðstaðan byði uppá ýmsa möguleika. Einn þeirra væri t.d. að hafa tölvunámskeið fyrir eldri borgara.

Félagið ákvað í fyrra að hafa árlega uppskeruhátíð sína á 17. júní. Þann dag eru einnig Grundar- og Kvernárhlaup fyrir alla aldurshópa í umsjón UMFG, sem og sundmót fyrir börn og unglinga.

Ætlunin er að fjölga örmótum í frjálsum. Ætlunin er að halda mót til að vígja nýja atrennubraut fyrir spjótkast. Vilji er einnig til þess að endurvekja Steinþórsmót á íþróttavellinum.


----

Skotfélag Snæfellsness

Félagið er sjálfstætt íþróttafélag sem starfar undir merkjum HSH og ÍSÍ. Félagið hefur aðstöðu á Hrafnkelsstaðabotni í Kolgrafafirði, en landið er í eigu Grundarfjarðarbæjar.
Vefur félagsins er www.skotgrund.is

Jón Pétur rakti starfsemi félagsins og vitnaði m.a. í félagsfund sem haldinn var skömmu eftir hrunið, en þá voru 19 manns í félaginu. Í dag eru félagsmenn tæplega 200 talsins, af þeim eru um 100 úr Grundarfirði svo yfir 10% íbúa eru í félaginu - sem hlýtur að teljast gott. Yfir 50 félagsmenn eru úr nágrannasveitarfélögunum og aðrir eru vítt og breitt um landið. Stórir draumar voru þá um uppbyggingu starfseminnar og þrátt fyrir að margir hafi talið óraunhæft að framkvæma þá, hafi félagsmenn í vaxandi félagi byggt upp frábæra aðstöðu. Að baki liggi mikil vinna og óeigingjarnt starf félagsmanna.

Á félagssvæðinu er að finna riffilbraut, leirdúfuskotvöll og nýtt skothús félagsins. Búið er að fjármagna nýjar leirdúfukastvélar sem teknar voru í notkun í maí 2020.

Félagið er þegar farið að uppskera, því í félaginu er fjöldi fólks sem ekki hefur fundið sig í öðrum íþróttum en blómstrar í skotfiminni. Félagið á keppendur sem sækja ýmis mót, ekki síst konur.

Það sem helst stendur félagsstarfinu fyrir þrifum er að ekkert rafmagn er á svæðinu. Búið er að skoða ýmsa kosti og reyna að fá lausn mála. Kostnaður við að leggja rafmagnsstreng inn að svæðinu er langt á annan tug milljóna króna sem er langt umfram getu félagsins. Ekki er hægt að kynda húsnæði og halda hita á búnaði, raki veldur því að búnaður skemmist. Ljósavél er á svæðinu, en ekki allir treysta sér til að ræsa og stjórna henni. Frekari framkvæmdir og uppbygging eru í raun í bið vegna rafmagnsmálanna.

Jón Pétur sagði að skotfimi væri íþrótt sem yrði fyrir talsverðum fordómum. Orðspor íþróttarinnar væri hinsvegar að lagast, þar sem Íslendingar ættu nú orðið keppendur á alþjóðavísu og einstök félög væru með öflugt félagsstarf.

Félagið hefur áhuga á að vera með reglubundnar innanhússæfingar í skotfimi, þannig að hægt sé að stunda íþróttina yfir vetrartímann. Leitað hefur verið að hentugu húsnæði og m.a. er til skoðunar hvort þetta gæti verið í samkomuhúsinu.

----
Golfklúbburinn Vestarr

Félagið var stofnað 1995. Vefur þess er https://www.gvggolf.is/

Garðar ræddi um að nauðsynlegt væri að setja langtímastefnu um uppbyggingu íþróttamannvirkja og verkefna sem vinna mætti að á lengri tíma.

Hann ræddi um samning Vestarrs og Grundarfjarðarbæjar um slátt á grænum svæðum í bænum, sem hefði komið sér mjög vel fyrir félagið. Þannig hefði félagið getað fjármagnað kaup og endurnýjun á tækjum, sem nauðsynleg eru til að slá og viðhalda golfvallarsvæðinu. Æskilegt væri að bærinn myndi gera langtímasamninga um styrki, þannig að íþróttafélögin gætu nýtt þá samninga sem grunn í lántöku, sem dæmi, ef ráðast þyrfti í fjárfestingu við uppbyggingu aðstöðu.

Garðar sagði að félagið stæði nú frammi fyrir því að kaupa vökvunarbúnað fyrir völlinn. Endurnýja og stækka þyrfti félagshús. Hann taldi að það gæti verið góður kostur að bærinn myndi kaupa félagshús Vestarrs og gæfi síðan Skotfélaginu það hús. Skotfélagið vantaði félagshús og Vestarr vantaði stærra félagshús.

Hann ræddi um barna- og unglingastarf. Í fyrra voru haldin vinsæl námskeið, en í ár hefur ekki fengist neinn golfkennari fyrir slík námskeið. Ekki tókst heldur að ráða fólk í slátt og umhirðu, en Vestarr, með aðstoð Grundarfjarðarbæjar, leitaðist í vor við að ráða starfsmann gegnum Vinnumálastofnun, eins og gert var sumarið 2020.

Garðar þurfti að yfirgefa fundinn hér og var honum þakkað fyrir komuna.

---

Að loknum kynningum fór fram umræða um ýmis mál.

Rætt var um stefnumótun bæjarins um helstu málaflokka, sem m.a. tekur á íþróttamálum.

Rætt var um hugmynd sem áður hafði komið fram um létt fjölnotahús við íþróttavöllinn, sem myndi koma mörgum félögum til góða. Húsið myndi rúma geymslur og félagsaðstöðu.

Rætt var um langtíma samningsgerð á grunni styrkveitinga, um samstarf íþróttafélaga, um verkefni sem bæjarstjóri taldi að hentað gætu íþróttafélögum að sinna eða annast, gegn greiðslu frá bænum, eins og t.d. umsjón með hátíðarhöldum á þjóðhátíðardegi o.fl.

Rætt var um kynningu á öflugu félagsstarfi íþróttafélaganna og útfærslu á kynningum. Áhugi var á því hjá fundarfólki að koma á kynningu fyrir börnum og unglingum, á starfi íþróttafélaganna. Slíkar kynningar hafa áður verið útfærðar.

Samþykkt var að halda annan sameiginlegan umræðufund nefndarinnar og íþrótta- og æskulýðsfélaga, með haustinu.

Nefndarmenn þökkuðu gestunum fyrir þeirra góða framlag í þágu félaganna sinna, og fyrir fundarsetu og góðar umræður.

Gestir

  • Garðar Svansson formaður Golfkl. Vestarrs - mæting: 20:00
  • Jón Pétur Pétursson formaður Skotfélags Snæfellsness - mæting: 20:00
  • Sigríður G. Arnardóttir formaður UMFG - mæting: 20:00
  • Guðbrandur Gunnar Garðarsson stjórnarmaður í UMFG - mæting: 20:00
Fundarmönnum var þökkuð koman og góðar samræður.
Lokið var við fundargerð eftir fund og rafræns samþykkis aflað frá nefndarmönnum.

Fundi slitið - kl. 22:45.