157. fundur 08. júní 2021 kl. 16:30 - 18:31 í Sögumiðstöðinni
Nefndarmenn
  • Garðar Svansson (GS) formaður
  • Freydís Bjarnadóttir (FB)
  • Ragnar Smári Guðmundsson (RSG)
  • Valdís Ásgeirsdóttir (VÁ)
  • Sólrún Guðjónsdóttir (SG)
    Aðalmaður: Ásthildur E. Erlingsdóttir (ÁEE)
Starfsmenn
  • Björg Ágústsdóttir (BÁ) bæjarstjóri
Fundargerð ritaði: Björg Ágústsdóttir bæjarstjóri
Dagskrá
Fundurinn hófst með heimsókn nefndarfólks í Leikskólann Sólvelli. Að því búnu var haldið í Sögumiðstöðina og fundað þar.

Formaður setti fundinn og bauð fundarfólk velkomið.

Anna Rafnsdóttir skólastjóri leikskólans sat fundinn undir þessum dagskrárlið.
Karítas Eiðsdóttir fulltrúi foreldra sat fundinn í Sögumiðstöðinni.

1.Málefni leikskólans

Málsnúmer 1808033Vakta málsnúmer

Skólanefnd naut leiðsagnar leikskólastjóra og skoðaði bæði húsnæði og lóð skólans.
Eftirfarandi eru helstu framkvæmdir 2018-2021:

- Viðbygging við leikskóla, anddyri og fatahengi stækkað, skipt um þak og komið í veg fyrir leka frá þaki, á eldri hluta húss, skipt um klæðningu á útveggjum eldri hlutans, 2018
- Kerfisloft og ný lýsing í eldri hluta, 2018-2019
- Skipt um glugga sem snúa út að Sólvöllum,
- Steypt stétt og hún stækkuð út í garðinn, sunnan megin 2018
- Byggður pallur við eldri hluta skólahúss, sem snýr út að götu (Sólvöllum), 2019
- Bílaplan og aðkoma malbikuð 2019
- Endurbætt dren í lóðinni, 2018-2019
- Nýr kofi/geymsluhús í garðinn, 2020
- Ofnakerfi endurnýjað að hluta í eldri hluta hússins, 2020
- Nýr milliveggur (kerfisveggur) til að skipta húsnæðinu og keyra 3ja deilda starf, reyndarteikningar, 2020
- Nýr og stærri gufuofn í eldhúsið, 2020
- Rennibraut endurnýjuð að hluta í yngri barna garði, 2021

Helstu framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru 2021:
- Innanhúss breytingar vegna deildatilfærslu, almennt viðhald
- Nýr háfur í eldhús
- Viðbótardrenun á einum stað á lóð og minniháttar frágangur/nýjar þökur á 2 blettum, mála kofann/leiktækjageymslu
- Endurnýjun girðingarnets suðurhluta (ekki hefur fengist verktaki, þrátt fyrir að leitað hafi verið tilboða með verðkönnun)
- Frekari lóðarframkvæmdir í skoðun

MINNISPUNKTAR LEIKSKÓLASTJÓRA

Fyrir fundinum lágu minnispunktar leikskólastjóra. Þar kom m.a. fram:

Í leikskólanum eru nú 49 nemendur og 21 starfsmaður í 17,65 stöðugildum.
Í haust fara 9 nemendur úr leikskóla á leikskóladeildina Eldhamra. Í ár eru komnir inn 2 nýir nemendur fæddir 2020, þrjú börn eiga eftir að bætast við í haust úr þeim árgangi.

Auglýst var eftir leikskólakennurum í vor og eftir umsókn var einn starfsmaður ráðinn sem lýkur leikskólakennaranámi í þessum mánuði. Hún hefur störf í júní.

Í apríl var haldið skyndihjálparnámskeið fyrir starfsfólk. Ekki voru þó teknar verklegar æfingar, þ.e. að blása og hnoða, það verður gert í haust þegar starfsmenn verða fullbólusettir.

Foreldrakönnun var gerð í mars sl. og kom hún vel út. Það sem helst mætti gera betur er að gera starfið sýnilegra, foreldrar taka eftir því að ýmislegt er gert, en eru ekki endilega vissir um hvað það er, eins og fram kom í svörum. Leikskólastjóri segir að ætlunin sé að bæta úr því og gera starfið sýnilegra. Hins vegar geti verið að minna aðgengi foreldra, vegna Covid, hafi líka haft áhrif á þessa upplifun foreldra/forráðamanna.

Starfsmannaviðtöl komu einnig vel út, starfsfólk óskar eftir tilteknum þáttum í fræðslu/símenntun, sem unnið er úr.

Þann 8. október nk. verður sameiginlegur starfsdagur leikskólanna á Snæfellsnesi þar sem fjallað verður um leik barna og hlutverk kennarans. Barnavernd verður einnig tekin fyrir núna á haustönn, eins og svo oft áður, en mikilvægt er að fá fræðslu um það.

Meirihluti starfsfólks er nú fullbólusettur.

Leikskólastjóri hefur óskað eftir því að "rótera" deildum á næsta skólaári. Drekadeild (árgangur 2017 og 2018) verður þar sem Músadeild hefur verið, Ugludeild (2019) verður þar sem Drekadeild hefur verið og Músadeild (2019 og 2020) verður þar sem Ugludeild hefur verið. Leikskólastjóri sagði þetta gert til að nýta húsnæði skólans sem best og starfsfólkið.

Í minnispunktum leikskólastjóra kom einnig fram:

"Það er komið vor í mannskapinn og við lítum björtum augum fram á við. Þessi vetur hefur gengið vel og allir hjálpast að við að takast á við þær áskoranir sem við höfum staðið frammi fyrir, eins og allt þjóðfélagið. Það er léttleiki í hópnum og bjartsýni. Starfsfólk hefur staðið sig ofboðslega vel og ég er þakklát fyrir hvernig veturinn hefur gengið. Þessar síðustu vikur fyrir sumarfrí verða nýttar til að undirbúa næsta skólaár og njóta sumarsins."

Rætt var um atriði úr minnispunktum leikskólastjóra, m.a. um forritið Karellen og reynsluna af því.
Skólanefnd mun taka foreldrakönnun til frekari yfirferðar á fundi í haust, en könnunin og svör við henni eru ítarleg lesning.

FRAMKVÆMDIR OG ANNAÐ

Leikskólastjóri og bæjarstjóri sögðu einnig frá því að "Eigið eldvarnaeftirlit" Grundarfjarðarbæjar nær til innra starfs leikskólans, eins og annarra stofnana bæjarins. Um er að ræða forvarnaverkefni með VÍS.
Starfsfólk fékk "skrifborðsæfingu" (brunavarnir) með slökkviliðsstjóra og aðstoðarslökkviliðsstjóra fyrr á árinu. Eldvarnafulltrúar stofnunarinnar yfirfara gátlista mánaðarlega, og unnið er markvisst að því að auka fræðslu og gæta atriða sem snerta brunavarnir. Sjálfvirkt öryggisviðvörunarkerfi var sett upp í leikskólanum fyrir nokkrum árum.

SKÓLADAGATAL
Skóladagatal fyrir ágúst 2021-júlí 2022 liggur fyrir fundinum skv. tillögu leikskólastjóra. Gert er ráð fyrir fimm námskeiðs- og starfsdögum yfir skólaárið og eru þeir á sömu dögum og frídagar í grunnskóla. Gert er ráð fyrir lokun milli jóla og nýárs 2021, eins og verið hefur síðustu árin og 25 daga sumarlokun sumarið 2022.

Umræða varð í nefndinni um starfsdaga og sumarlokun, hve löng hún ætti að vera og hvort foreldrar ættu að hafa val um hluta af sumarleyfi, hvað það myndi þýða fjárhagslega fyrir leikskólann (sumarafleysingar), o.fl.

Hér vék Karítas af fundi og var henni þökkuð koman.

Að loknum umræðum um skóladagatal var fyrirliggjandi tillaga samþykkt.

Hér vék Anna Rafnsdóttir af fundi og var henni þökkuð koman og góðar upplýsingar.

Gestir

  • Anna Rafnsdóttir skólastjóri Leikskólans Sólvalla - mæting: 16:30
  • Karítas Eiðsdóttir fulltrúi foreldra - mæting: 17:00

2.Landvernd - Skólar á grænni grein

Málsnúmer 2105012Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar minnisblað verkefnisstjóra fyrir "Skólar á grænni grein" (Grænfánaverkefnið) sem rekið er af Landvernd hér á landi. Um 200 skólar á öllum skólastigum taka þátt í verkefninu hérlendis.

Í minnisblaðinu segir:
"Um er að ræða alþjóðlegt menntaverkefni fyrir skóla sem vilja virkja og valdefla nemendur til góðra verka í sjálfbærni- og umhverfismálum. Verkefnið er rekið alþjóðlega af samtökunum Foundation for Environmental Education (FEE) og taka um 50 milljónir nemenda í 68 löndum þátt."

Formaður sagði frá því að Ásthildur Erlingsdóttir hefði lokið setu sem aðalmaður í skólanefnd, en hún hefur flutt úr sveitarfélaginu. Ásthildi var þakkað fyrir áralanga setu í skólanefnd, m.a. sem formaður, og fyrir vel unnin störf á vettvangi skólamála í Grundarfirði.
Gengið var frá fundargerð að loknum fundi og hún send nefndarmönnum til rafrænnar samþykktar.
Næsti fundur nefndarinnar er áformaður í haust.

Fundi slitið - kl. 18:31.