Málsnúmer 1808033

Vakta málsnúmer

Skólanefnd - 144. fundur - 11.09.2018

Leikskólastjóri var boðin velkomin til fundar.
Hún gerði grein fyrir starfsemi skólans, sbr. áður senda minnispunkta. Nú í haust eru 45 börn í leikskólanum.
Anna minntist á að reglur bæjarins um styrki til starfsmanna í leik- og grunnskóla sem stunda fjarnám við leikskólakennaraskor og kennaraskor KHÍ, séu orðnar úreltar og mætti endurskoða. Hún sagði frá því að hún hefði hug á að vinna með hugmyndafræði "Uppeldi til ábyrgðar".
Anna gerði grein fyrir móttökuáætlun nýrra starfsmanna. Umræða var um framlagningu sakavottorða í tengslum við ráðningar.
Farið var lauslega yfir stöðu húsnæðismála og framkvæmda sem nú standa yfir í skólanum.
Á næsta fundi mun Anna gera grein fyrir námsferð starfsfólks til Finnlands.

Anna vék af fundi í lok þessa liðar.

Gestir

  • Anna Rafnsdóttir leikskólastjóri

Skólanefnd - 146. fundur - 04.02.2019

Leikskólastjóri og fulltrúar foreldra og starfsfólks voru boðnar velkomnar á fundinn.
Fyrir fundinum lágu ýmis gögn frá leikskólastjóra.

Leikskólastjóri sagði frá helstu þáttum í starfsemi skólans, m.a. hvað varðar starfsmannamál, fjölda nemenda o.fl. Hún sagði að ný námsskrá væri að verða tilbúin og sagði frá breytingum á dvalarsamningi o.fl. vegna persónuverndarlaga.
Matráðar voru á námskeiði í síðustu viku, og fyrir dyrum stendur skyndihjálparnámskeið fyrir starfsfólk. Verið er að skipuleggja námskeið fyrir deildarstjóra. Starfsdagur verður í maí hjá Leikskóla og Eldhömrum - ætlunin er að fara í kynnisferð á leikskólana í Borgarbyggð.
Rætt var um að inntökureglur bæjarins fyrir Leikskólann Sólvelli verði jafnframt látnar ná yfir Eldhamra.
Leikskólastjóri lagði fram drög að starfsreglum um sérkennslu, sem skilgreina fjóra flokka til grundvallar sérkennslustundum. Nefndin fagnaði framlögðum drögum leikskólastjóra og mun taka þær til afgreiðslu síðar.
Rætt um sumarleyfi í leikskólanum og um Dag leikskólans 6. febrúar nk.
Leikskólastjóra var þökkuð greinargóð yfirferð og gögn.

Gestir

  • Anna Rafnsdóttir leikskólastjóri
  • Bryndís Guðmundsdóttir fulltrúi foreldraráðs
  • Elísabet Kristín Atladóttir fulltrúi starfsfólks

Skólanefnd - 148. fundur - 13.05.2019

Anna Rafnsdóttir leikskólastjóri sat fundinn undir þessum lið.

Leikskólastjóri gerði grein fyrir starfi leikskólans. Fyrir lágu minnispunktar hennar og ýmis tilheyrandi gögn.
Meðal þess sem fram kom í máli Önnu var eftirfarandi:
- Nemendur í leikskólanum eru nú 47, en mun fækka í haust þegar 18 börn fara í leikskóladeildina Eldhamra.
- Síðustu aðlögun þessa skólaárs er að ljúka. Aðlögun fer nú fram þannig að tekin eru nokkur börn í einu, í staðinn fyrir eitt og eitt. Næsta aðlögun er í september.
- Leikskólastjóri hefur sótt um að leikskólinn verði heilsueflandi leikskóli, en það er verkefni á vegum Landlæknisembættisins. Markmið þess er að vinna betur með heilbrigði og velferð. Undirbúningur er farinn af stað.
- Sameiginlegt námskeið fyrir stjórnendur leik- og grunnskóla á Snæfellsnesi var haldið í vor.
- Leikskólinn undirbýr nú þátttöku í "Uppeldi til ábyrgðar".
- Starfsfólk heimsótti leikskólana í Borgarnesi í liðinni viku og kynnti sér starfið þar.
- Rædd ýmis atriði sem snerta mannauðsmál og rekstur.

Farið var yfir tillögu að skóladagatali, en skólastjórar leik- og grunnskóla hafa samræmt skóladagatöl skólanna. Til frekari umræðu í skólanefnd.


Skólanefnd - 149. fundur - 29.05.2019

Skóladagatal lagt fram, óbreytt frá síðasta fundi. Starfsdagar eru fimm skólaárið ágúst 2019-júlí 2020.
Skóladagatal leikskólans 2019-2020 samþykkt samhljóða.

Skólanefnd - 150. fundur - 09.10.2019

Anna Rafnsdóttir skólastjóri Leikskólans Sólvalla mætti á fundinn.
Ennfremur Ragnheiður Dröfn Benidiktsdóttir, áheyrnarfulltrúi af hálfu foreldra.
Fyrir fundinum lá greinargerð leikskólastjóra þar sem hún gerði grein fyrir starfsemi skólans. Leikskólastjóri sagði frá helstu þáttum í starfsemi skólans, m.a. hvað varðar starfsmannamál, fjölda nemenda o.fl.
Nú eru 35 börn á aldrinum 1-5 ára í skólanum, en 5-6 ára börn eru á leikskóladeildinni Eldhömrum, sem starfar í tengslum við grunnskólann.

Leikskólastjóri sagði frá undirbúningsskrefum að því að gerast heilsueflandi leikskóli. Hún sagði frá aukinni áherslu á útikennslu, þar sem farið er með elstu börnin í leiðangra í umhverfi skólans og það rannsakað út frá mismunandi sjónarhornum.

Rætt var um drög að reglum um sérkennslu og stuðning. Samþykkt að leita álits skólastjóra grunnskóla á þeim drögum og taka þau til afgreiðslu á næsta fundi nefndarinnar.

Rætt var um reglur um styrki til starfsfólks sem er í kennaranámi, en reglurnar eru í endurskoðun.

Skólastjóri viðraði hugmynd um þriggja deilda leikskóla í stað tveggja. Nú eru 1-5 ára börn í skólanum, í stað 2-6 ára áður, og þroskamunur væri meiri í þeim hópi. Þrjár deildir gæfu kost á að hafa yngstu börnin alveg sér og skapa meira næði fyrir starfsemina. Til þess þyrfti að setja upp vegg í stóra miðrýminu og stúka það af.
Rætt var um starfsemi og þróun til framtíðar, m.t.t. fjölda barna og fleira.

Skólastjóri sagði frá því að mikil ánægja væri með framkvæmdir sumarsins, við lóð og endurbætur húsnæðis. Hún sagði frá vel heppnuðu skólamálaþingi allra skóla á Snæfellsnesi, sem haldið var 2. október sl.

Leikskólastjóra var þökkuð greinargóð yfirferð og gögn.
Gestunum var þakkað fyrir komuna.

Skólanefnd - 151. fundur - 16.12.2019

Anna Rafnsdóttir skólastjóri Leikskólans Sólvalla mætti á fundinn.
Ennfremur Rut Rúnarsdóttir, áheyrnarfulltrúi af hálfu foreldra og var hún boðin velkomin á sinn fyrsta fund.

Fyrir fundinum lá greinargerð leikskólastjóra þar sem hún gerði grein fyrir starfsemi skólans. Leikskólastjóri sagði frá helstu þáttum í starfsemi skólans, m.a. hvað varðar starfsmannamál, fjölda nemenda o.fl. Hún sagði frá undirbúningi og innleiðingu á hugmyndafræði "Uppeldi til ábyrgðar", sem leikskólinn, Eldhamrar og grunnskólinn munu taka upp.
Uppeldi til ábyrgðar hefur það markmið að ýta undir sjálfstjórn og ábyrgðarkennd barna. Aðferðin styður einnig við starfsfólk í starfi sínu og hjálpar þeim að móta stefnu í samskipta- og agamálum.

Ennfremur var rætt um minnispunkta starfshóps um leikskólalóð, sbr. lið 2 á þessum fundi.

Gestir

  • Anna Rafnsdóttir leikskólastjóri
  • Rut Rúnarsdóttir fulltrúi foreldra

Skólanefnd - 153. fundur - 25.05.2020

Gestir fundarins undir þessum lið voru þær Anna Rafnsdóttir leikskólastjóri, María Rún Eyþórsdóttir fulltrúi starfsfólks og Karítas Eiðsdóttir, fulltrúi foreldra.

Anna, María Rún og Karítas voru boðnar velkomnar á fundinn.

Fyrir lágu gögn frá leikskólastjóra; greinargerð um starfsemina, drög leikskólastjóra að skóladagatali og vinnuskjal leikskólastjóra og bæjarstjóra að umbótastarfi, sem alltaf er í gangi.

Nemendur leikskólans eru nú 46, en fjögur börn voru að byrja í leikskólanum. Starfsfólk er í um 17 stöðugildum, einn starfsmaður er að koma til baka úr fæðingarorlofi. Um 17 börn eru í árgangi 2019, sem koma flest inn á þessu ári, en 10 börn fara úr leikskólanum og yfir á leikskóladeildina Eldhamra.

Leikskólastjóri sagði frá því að hún hefði tekið starfsmannaviðtöl og að sérstök starfsmannakönnun hefði verið gerð, sem hefði komið afar vel út.
Leikskólastjóri sagði frá þrískiptingu starfseminnar, en þriðja deildin hefði verið formuð til að skipta 30 barna hópi yngri barna upp, m.a. til að skapa meiri ró og uppá hljóðvist að gera.
Mynduð hafa verið tvö teymi starfsfólks, til undirbúnings; annars vegar um verkefnið "Heilsueflandi leikskóli" sem Leikskólinn Sólvellir er farinn af stað með, og svo verkefnið "Uppeldi til ábyrgðar". Hún sagði frá námskeiðum fyrir stjórnendur, til að styrkja innra starf. Auk þess eru námskeið fyrirhuguð á komandi skólaári, t.d. í barnavernd, sem eru reglulega á dagskrá.

Leiskólastjóri sagði frá því að margvíslegur lærdómur hefði fengist út úr fyrirkomulagi skólastarfsins eins og það var útfært á Covid-tímabilinu, þ.e. þegar takmarkanir voru á skólastarfi, frá 16. mars til 4. maí sl. Starfsemi ugludeildar fór fram í samkomuhúsinu, sem tekið var undir leikskólann á þessu tímabili. Gríðarmikil vinna fór í aukaleg þrif á húsnæði, snertiflötum, leikföngum o.fl. Innkoma barna í leikskóla fór fram með aðstoð starfsfólks.
Í kringum 10 börn tóku hlé, mislangt, frá leikskólastarfinu á þessu tímabili, en uppúr páskum fóru þau meira að tínast inn.
Starfsemi leikskóla var haldið úti alla daga, fyrir öll börn sem vildu, á tímabilinu.

Bæjarstjóri og leikskólastjóri fóru yfir þær verklegu framkvæmdir sem eru á dagskrá þessa árs, í leikskólanum og umhverfi hans.
Hönnuður var fenginn til að vinna byggingarnefndarteikningu vegna skiptingar með færanlegum millivegg, sem skiptir nýrri hluta leikskólans í tvennt uppá starfsemina að gera. Nýr bakaraofn/eldunarofn var keyptur í vor og ofnalagnir í eldri hluta leikskólans verða endurnýjaðar í sumar. Gerðar voru endurbætur á leiktækjum fyrr í þessum mánuði, rennibraut og fleiru, og sumarstarfsfólk áhaldahúss hefur verið að þrífa leiktæki og umhverfi lóðar. Drenun á leikskólalóð sem unnin var í fyrra hefur haldið sér og pollar horfnir úr lóðinni.

Farið var yfir drög að skóladagatali, en skólastjórar leik- og grunnskóla samræma skóladagatöl skólanna.
Drögin voru samþykkt.

Skólastjóra og starfsfólki leikskólans voru færðar þakkir fyrir gott starf á krefjandi Covid-tímabili liðins vetrar.

Gestum fundarins var þökkuð koman.
Hér viku þær Anna og María Rún af fundinum.



Gestir

  • María Rún Eyþórsdóttir, fulltrúi starfsfólks
  • Karítas Eiðsdóttir, fulltrúi foreldra
  • Anna Rafnsdóttir, leikskólastjóri

Skólanefnd - 155. fundur - 14.12.2020

Fyrir liggur samantekt leikskólastjóra um starfið.

Gestir fjarfundar undir þessum lið eru:

Anna Rafnsdóttir leikskólastjóri
María Rún Eyþórsdóttir fulltrúi starfsmanna
Rut Rúnarsdóttir fulltrúi foreldra

Formaður bauð gesti velkomna á fundinn.

Eftirfarandi atriði er að finna í samantekt leikskólastjóra, sem lá fyrir fundinum:

Það sem af er skólaári hefur starfið gengið vel. Aðlögun nýrra nemenda hefur verið í fullum gangi í haust, síðustu aðlaganir verða eftir áramótin, alla vega ein er skipulögð í janúar.

Skólaárið hefur verið litað af Covid takmörkunum eins allt samfélagið og er það farið að taka verulega á starfsfólk. Það þarf aukinn mannskap til að opna og loka því nú mega foreldrar ekki koma inn í leikskólann. Mikil áhersla er á sótthreinsun á snertiflötum og persónulegt hreinlæti. Foreldrar eru með grímur þegar þeir koma með börnin og sækja þau, en eins og áður sagði þá er tekið á móti börnunum við útidyrnar. Starfsfólk notar einnig grímur, á morgnana þegar verið er að taka á móti og þegar það fer út af sínum deildum. Ein deild getur farið í fataherbergið í einu. Drekadeild og Ugludeild sem nota sama salerni þurfa að vera ein deild í einu. Starfsfólk er stanslaust á tánum, um hvort verið sé að gera „rétt“ eða „nóg“. Takmarkanir eru á fjölda starfsfólks á kaffistofu og nýta þarf önnur herbergi ef kaffistofan er fullsetin. Við erum stanslaust með hugann við Covid og sóttvarnir,
sem hafa aukið álag á starfsfólk mjög mikið.

Nemendur skólans eru nú 46, á Drekadeild eru 16 nemendur (3 og 4 ára), á Ugludeild eru 16 nemendur (18 mán til 2 ára) og á Músadeild eru 14 nemendur (1 árs).
Starfsmenn eru 22 í 18,03 stöðugildum. Af þeim eru 2 starfsmenn í grunnnámi í leikskólakennarafræðum, 1 starfsmaður í framhaldsnámi í menntunarfræði leikskóla (sem gefur leikskólakennaratitil að námi loknu) og 1 starfsmaður í uppeldis ? og menntunarfræðum. Leikskólastjóri stefnir að því að skrifa lokaritgerð til M.Ed gráðu í námi sem hún hefur stundað í stjórnun menntastofnana. Leikskólastjóri telur mikilvægt að fjölga leikskólakennurum, því lögum samkvæmt eigi leikskólakennarar að vera að lágmarki 2/3 af fjölda starfsmanna, en séu í dag eingöngu leikskólastjóri og aðstoðarleikskólastjóri.

Föstudaginn 18. september sl. var sameiginlegur starfsdagur hjá leik- og grunnskóla og Eldhömrum. Uppeldi til ábyrgðarnámskeið, sem vera átti á síðustu vorönn, var haldið í haust og tókst vel. Nokkur teymi eru í leikskólanum sem hafa það hlutverk að halda utan um og leiða starfið í því sem við viljum leggja áherslu á, annað er uppeldi til ábyrgðarteymi sem mun vinna að því að innleiða stefnuna inn í daglegt skólastarf. Hitt teymið er heilsueflandi teymi sem ákveður hvaða efnisþætti er unnið með í innleiðingu á því efni.

Kerfisveggur var settur upp sl. sumar sem aðskilur deildir í nýrri hluta leikskólans. Mikill munur er á hljóðvist og starfsaðstæðum, að sögn leikskólastjóra, og engin truflun á milli deilda. Starfsfólk talar um að því finnist minni glymjandi í rýmunum því veggurinn dempar það vel. Einnig var settur upp nýr dótaskúr á lóð leikskólans í sumar og sá gamli var fjarlægður. Það er mikill munur að geta nýtt þennan skúr fyrir báða garðana, yngri og eldri deild, og er ánægja með hann.

Stjórnendur voru á góðu stjórnendanámskeiði í lok ágúst sl., sem er einn liður í umbótaáætlun, sbr. vinnustaðagreiningu frá 2018, til að efla stjórnendur í starfi.

Starfshópur leikskólans um styttingu vinnuvikunnar hefur skilað frá sér sínum tillögum, einn starfsmaður á leikskólanum er líka í vinnuhópi á vegum bæjarins. Stytting vinnuvikunnar á að hefjast 1. janúar 2021.

Sumarfrí 2021: Í haust kom fyrirspurn frá Rósu Guðmundsdóttur hjá G.Run. hf. sem hún sendi á skólastjóra leik- og grunnskóla (vegna Eldhamra), bæjarstjóra og formann skólanefndar. Spurt er hvort athuga megi hvort hægt sé að hefja sumarfrí leikskólans einni viku síðar en skóladagatal segir. Leikskólastjóri segist jákvæð fyrir því að seinka sumarleyfislokun um eina viku og að sumarfrí leikskólans verði frá 5. júlí til 10. ágúst 2021, starfsfólk mæti þá til vinnu mánudaginn 9. ágúst á starfsdag og leikskólinn opni þá 10. ágúst kl. 8:00. Ef lokun væri á þennan hátt þá væru búnir 24 dagar af sumarfríi starfsmanna en allir starfsmenn eiga 30 daga sumarfrí frá og með árinu 2021. Ef lokað væri frá föstudeginum 2. júlí og opnað aftur 10. ágúst þá væri lokað í 25 daga. Leikskólastjóri segir að hún og skólastjóri grunnskóla þurfi að komast að niðurstöðu með dagsetningar, en að þau séu jákvæð fyrir því.

Leikskólastjóri fór yfir helstu áherslur skólans í starfsáætlun fyrir skólaárið 2020-2021. Þær eru settar niður til að gera starfið markvissara og sýnilegra.

Bæjarstjóri og leikskólastjóri fóru yfir framkvæmdir ársins. Þær helstu voru uppsetning kerfisveggs auk þess sem unnar voru reyndarteikningar af húsnæði leikskólans, nýr dótaskúr á lóð, nýr gufuofn í eldhúsið og nýjar ofnalagnir í eldri hluta húsnæðisins.

Á næsta ári eru áætlaðar 2 milljónir kr. í fjárfestingu í leikskólanum, m.a. í nýjan háf í eldhúsið, viðgerð á grindverki, auk þess sem eðlilegu viðhaldi verði sinnt.

--

Formaður þakkaði leikskólastjóra fyrir góða yfirferð. Hann færði sömuleiðis þakkir til starfsfólks og foreldra fyrir sitt framlag og gott samstarf á tímum Covid.

Formaður lagði til að skólanefnd samþykki breytingu á starfsáætlun (skóladagatali) og að leikskólastjóra og grunnskólastjóra verði falið að útfæra sumarlokun leikskóla og Eldhamra, í samræmi við erindi G.Run.

Samþykkt samhljóða.

Önnu, Maríu Rún og Rut var þakkað fyrir komuna og þátttöku í fundinum.

Skólanefnd - 157. fundur - 08.06.2021

Skólanefnd naut leiðsagnar leikskólastjóra og skoðaði bæði húsnæði og lóð skólans.
Eftirfarandi eru helstu framkvæmdir 2018-2021:

- Viðbygging við leikskóla, anddyri og fatahengi stækkað, skipt um þak og komið í veg fyrir leka frá þaki, á eldri hluta húss, skipt um klæðningu á útveggjum eldri hlutans, 2018
- Kerfisloft og ný lýsing í eldri hluta, 2018-2019
- Skipt um glugga sem snúa út að Sólvöllum,
- Steypt stétt og hún stækkuð út í garðinn, sunnan megin 2018
- Byggður pallur við eldri hluta skólahúss, sem snýr út að götu (Sólvöllum), 2019
- Bílaplan og aðkoma malbikuð 2019
- Endurbætt dren í lóðinni, 2018-2019
- Nýr kofi/geymsluhús í garðinn, 2020
- Ofnakerfi endurnýjað að hluta í eldri hluta hússins, 2020
- Nýr milliveggur (kerfisveggur) til að skipta húsnæðinu og keyra 3ja deilda starf, reyndarteikningar, 2020
- Nýr og stærri gufuofn í eldhúsið, 2020
- Rennibraut endurnýjuð að hluta í yngri barna garði, 2021

Helstu framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru 2021:
- Innanhúss breytingar vegna deildatilfærslu, almennt viðhald
- Nýr háfur í eldhús
- Viðbótardrenun á einum stað á lóð og minniháttar frágangur/nýjar þökur á 2 blettum, mála kofann/leiktækjageymslu
- Endurnýjun girðingarnets suðurhluta (ekki hefur fengist verktaki, þrátt fyrir að leitað hafi verið tilboða með verðkönnun)
- Frekari lóðarframkvæmdir í skoðun

MINNISPUNKTAR LEIKSKÓLASTJÓRA

Fyrir fundinum lágu minnispunktar leikskólastjóra. Þar kom m.a. fram:

Í leikskólanum eru nú 49 nemendur og 21 starfsmaður í 17,65 stöðugildum.
Í haust fara 9 nemendur úr leikskóla á leikskóladeildina Eldhamra. Í ár eru komnir inn 2 nýir nemendur fæddir 2020, þrjú börn eiga eftir að bætast við í haust úr þeim árgangi.

Auglýst var eftir leikskólakennurum í vor og eftir umsókn var einn starfsmaður ráðinn sem lýkur leikskólakennaranámi í þessum mánuði. Hún hefur störf í júní.

Í apríl var haldið skyndihjálparnámskeið fyrir starfsfólk. Ekki voru þó teknar verklegar æfingar, þ.e. að blása og hnoða, það verður gert í haust þegar starfsmenn verða fullbólusettir.

Foreldrakönnun var gerð í mars sl. og kom hún vel út. Það sem helst mætti gera betur er að gera starfið sýnilegra, foreldrar taka eftir því að ýmislegt er gert, en eru ekki endilega vissir um hvað það er, eins og fram kom í svörum. Leikskólastjóri segir að ætlunin sé að bæta úr því og gera starfið sýnilegra. Hins vegar geti verið að minna aðgengi foreldra, vegna Covid, hafi líka haft áhrif á þessa upplifun foreldra/forráðamanna.

Starfsmannaviðtöl komu einnig vel út, starfsfólk óskar eftir tilteknum þáttum í fræðslu/símenntun, sem unnið er úr.

Þann 8. október nk. verður sameiginlegur starfsdagur leikskólanna á Snæfellsnesi þar sem fjallað verður um leik barna og hlutverk kennarans. Barnavernd verður einnig tekin fyrir núna á haustönn, eins og svo oft áður, en mikilvægt er að fá fræðslu um það.

Meirihluti starfsfólks er nú fullbólusettur.

Leikskólastjóri hefur óskað eftir því að "rótera" deildum á næsta skólaári. Drekadeild (árgangur 2017 og 2018) verður þar sem Músadeild hefur verið, Ugludeild (2019) verður þar sem Drekadeild hefur verið og Músadeild (2019 og 2020) verður þar sem Ugludeild hefur verið. Leikskólastjóri sagði þetta gert til að nýta húsnæði skólans sem best og starfsfólkið.

Í minnispunktum leikskólastjóra kom einnig fram:

"Það er komið vor í mannskapinn og við lítum björtum augum fram á við. Þessi vetur hefur gengið vel og allir hjálpast að við að takast á við þær áskoranir sem við höfum staðið frammi fyrir, eins og allt þjóðfélagið. Það er léttleiki í hópnum og bjartsýni. Starfsfólk hefur staðið sig ofboðslega vel og ég er þakklát fyrir hvernig veturinn hefur gengið. Þessar síðustu vikur fyrir sumarfrí verða nýttar til að undirbúa næsta skólaár og njóta sumarsins."

Rætt var um atriði úr minnispunktum leikskólastjóra, m.a. um forritið Karellen og reynsluna af því.
Skólanefnd mun taka foreldrakönnun til frekari yfirferðar á fundi í haust, en könnunin og svör við henni eru ítarleg lesning.

FRAMKVÆMDIR OG ANNAÐ

Leikskólastjóri og bæjarstjóri sögðu einnig frá því að "Eigið eldvarnaeftirlit" Grundarfjarðarbæjar nær til innra starfs leikskólans, eins og annarra stofnana bæjarins. Um er að ræða forvarnaverkefni með VÍS.
Starfsfólk fékk "skrifborðsæfingu" (brunavarnir) með slökkviliðsstjóra og aðstoðarslökkviliðsstjóra fyrr á árinu. Eldvarnafulltrúar stofnunarinnar yfirfara gátlista mánaðarlega, og unnið er markvisst að því að auka fræðslu og gæta atriða sem snerta brunavarnir. Sjálfvirkt öryggisviðvörunarkerfi var sett upp í leikskólanum fyrir nokkrum árum.

SKÓLADAGATAL
Skóladagatal fyrir ágúst 2021-júlí 2022 liggur fyrir fundinum skv. tillögu leikskólastjóra. Gert er ráð fyrir fimm námskeiðs- og starfsdögum yfir skólaárið og eru þeir á sömu dögum og frídagar í grunnskóla. Gert er ráð fyrir lokun milli jóla og nýárs 2021, eins og verið hefur síðustu árin og 25 daga sumarlokun sumarið 2022.

Umræða varð í nefndinni um starfsdaga og sumarlokun, hve löng hún ætti að vera og hvort foreldrar ættu að hafa val um hluta af sumarleyfi, hvað það myndi þýða fjárhagslega fyrir leikskólann (sumarafleysingar), o.fl.

Hér vék Karítas af fundi og var henni þökkuð koman.

Að loknum umræðum um skóladagatal var fyrirliggjandi tillaga samþykkt.

Hér vék Anna Rafnsdóttir af fundi og var henni þökkuð koman og góðar upplýsingar.

Gestir

  • Anna Rafnsdóttir skólastjóri Leikskólans Sólvalla - mæting: 16:30
  • Karítas Eiðsdóttir fulltrúi foreldra - mæting: 17:00

Skólanefnd - 158. fundur - 05.10.2021

Eins og fram hefur komið (fundur bæjarráðs í ágúst sl.) hefur Anna leikskólastjóri sagt starfi sínu lausu og hætti hún störfum 30. september sl.
Skólanefnd þakkar Önnu fyrir gott samstarf á liðnum árum.

Starfið var auglýst og bárust tvær umsóknir. Annar umsækjandinn dró umsókn sína til baka.

Lögð voru fram umsóknargögn frá Heiðdísi Lind Kristinsdóttur, auk samantektar frá ráðgjafa Attentus, sem tók ásamt bæjarstjóra starfsviðtal við umsækjandann. Auk þess kom umsækjandi í dag í viðtal við formann bæjarráðs og formann skólanefndar. Gerð var grein fyrir þessum gögnum og viðtölum við umsækjandann, sem metinn er hæfur til starfsins út frá fyrirliggjandi kröfum.

Skólanefnd veitir jákvæða umsögn um umsækjandann skv. fyrirliggjandi gögnum og upplýsingum.

Skólanefnd - 159. fundur - 13.12.2021

Heiðdís Lind Kristinsdóttir leikskólastjóri kom á fundinn undir þessum lið. Ennfremur Ragnheiður Dröfn Benidiktsdóttir fulltrúi foreldra.
Formaður bauð þær velkomnar og Heiðdísi Lind, nýjan leikskólastjóra, velkomna á sinn fyrsta fund með skólanefnd.

Leikskólastjóri fór yfir minnispunkta sína, sem lágu fyrir fundinum. Þar kom eftirfarandi fram:

- Þrír nýir nemendur eru nýbyrjaðir á músadeild. Heildarfjöldi nemenda er því 43.
- Þrír starfsmenn eru á leið í fæðingarorlof, ein fór í haust. Búið er að auglýsa eftir afleysingu.
- Covid hefur sett mikið strik í reikninginn undanfarnar vikur eins og þekkt er. Starfsfólk hefur gætt að sóttvörnum eins og hægt er og hefur staðið sig vel og á hrós skilið fyrir samstöðuna og sína vinnu.
- Starfsfólk vinnur að því að innleiða "markvissa málörvun" í starfið.
- Eftir áramót verður lögð áherslu á umhverfið innanhúss; hvernig hægt er að hafa það m.t.t barnanna; að dótið sé aðgengilegt, læsi sýnilegt í umhverfinu o.s.frv. Farið verður í þessa vinnu strax á starfsdegi 3. janúar.
- Eldhúsið hefur verið talsverð áskorun undanfarið þar sem erfitt verið hefur verið að manna stöðu matráðs. Nú hefur það hinsvegar verið leyst.
- Einnig hefur leikskólastjóri notið liðsinnis reynds leikskólastjóra/kennsluráðgjafa og hefur það reynst mjög vel. Til stóð að hún kæmi í heimsókn í nóvember, en ekkert varð úr því sökum Covid. Stefnt að því að hún verði hér 19. janúar og geti þá einnig átt samtal við starfsfólk og unnið með þeim. Leikskólastjóri segir mikilvægt og hollt að fá utanaðkomandi ráðgjöf reglubundið, þannig að sem best takist til við að byggja upp faglegt starf í leikskólanum.
- Til stendur að fá Ásgarð, ráðgjafarfyrirtæki, í samvinnu vegna endurskoðunar á sérkennslumálum o.fl. Rætt var um sérkennsluviðmið/reglur og verklag.
- Leikskólastjóri sagðist ánægð með þann stuðning sem hún hefur fengið frá bænum frá því að hún hóf störf, þar sem talsverðar áskoranir hafi blasað við í nýja starfinu.
- Jólaball barnanna verður haldið í vikunni og verður það utandyra líkt og í fyrra.
- Leikskólinn verður 45 ára í janúar og er verið að huga að afmæli, hvað skuli gera í tilefni dagsins - en það verður gert með fyrirvara um samkomutakmarkanir.

Rætt var um ýmis atriði og m.a. um Karellen, kennsluumsjónar- og samskiptakerfi fyrir leikskóla, en áður hafði komið fram á fundi nefndarinnar að leikskólastjórar teldur þörf á nokkrum umbótum á því.

Leikskólastjóra og fulltrúa foreldra var að lokum þakkað fyrir komuna og fyrir góðar umræður.

Gestir

  • Heiðdís Lind Kristinsdóttir, leikskólastjóri - mæting: 17:30
  • Ragnheiður Dröfn Benidiktsdóttir, fulltrúi foreldra - mæting: 17:30

Skólanefnd - 161. fundur - 05.04.2022

Gestir undir þessum dagskrárlið eru Heiðdís Lind Kristinsdóttir leikskólastjóri, Sigurborg Knarran Ólafsdóttir fulltrúi starfsfólks og Karítas Eiðsdóttir fulltrúi foreldra.

Leikskólastjóri lagði fram minnispunkta sína.
Einnig lá fyrir fundinum erindi leikskólastjóra um breytingu á skóladagatali, dags. 25. mars 2022, sem áður hafði verið samþykkt rafrænt af nefndarmönnum.

Leikskólastjóri fór yfir minnispunkta um starfsemi leikskólans.
Eftirfarandi kom fram í minnispunktum hennar:

Starfsmannamál og nemendur
Starfið í vetur hefur falið í sér heilmiklar áskoranir. Covid og veikindi hafa sett strik í reikninginn, auk þess sem þó nokkrir starfsmenn eru í leyfi og hefur þurft að fá starfsfólk í afleysingar. Mönnun eldhúss hefur reynst umtalsverð áskorun.

Nýr starfsmaður hefur störf í lok apríl og þá verður hægt að taka inn fjögur ný börn sem urðu/verða 12 mánaða í mars og apríl. Þá eru orðin ellefu börn á yngstu deildinni, músadeild. Þau hafa verið átta, en eitt barn færist nú yfir á ugludeild. Rýmið fyrir þau yngstu, sem búið var til með kerfisveggnum, hentar nú illa stærðarlega séð. Verið er að skoða fyrirkomulag og möguleika í rýminu.

Starfið
Í vetur hefur verið farið í íþróttahúsið og klifurhúsið þegar veður hefur leyft - og hefur það verið frábær viðbót við starfið. Elsta deildin hefur einnig verið að fara á bókasafnið undanfarið. Leikskólastjóri segir frábært að geta átt samstarf um þetta og að geta boðið upp á fjölbreytt starf.
Leikskólastjóri er farin að huga að næsta vetri, hvernig húsnæðið hentar og árgangar eru samsettir.

Faglegt starf og umbótavinna
Spennandi vinna er í gangi við að byggja upp faglegt starf leikskólans eftir ákveðnum gæðaviðmiðum, en þar hefur verið unnið með skólaráðgjöfum frá fyrirtækinu Ásgarði, sem sérhæfir sig í skólaráðgjöf. Starfsdagur leikskólans þann 18. mars sl. var mjög vel heppnaður, þar sem farið var yfir grunnþætti menntunar og var hafin vinna við deildarnámskrár. Mikil ánægja er með að hefja þá vinnu og með að efla enn frekar faglega starfið.

Leikskólastjóri gerði grein fyrir þeim verkefnum sem Ásgarður liðsinnir stjórnendum og starfsfólki nú með. Það eru verkefni sem felast í að rýna dagsskipulag skólastarfsins, en þá er starfið skoðað „tíma fyrir tíma“ yfir daginn. Fundið er út hvernig tíminn og mannauðurinn sé sem best nýttur í þágu skólastarfs barnanna. Út úr þeirri rýni vinnur starfsfólkið tillögur að mögulegum umbótum.
Einnig er verið að endurskoða starfslýsingar, skoða verklýsingar, vinna við starfsáætlun næsta skólaárs, endurskoða námsskrána, auk þess sem deildarnámskrár eru í vinnslu núna eins og áður sagði.
Einnig vinnur Ásgarður að því með stjórnendum að endurskoða fyrirkomulag og verklag sérkennslu og stuðnings. Sjá einnig næsta dagskrárlið.

Heimasíða leikskólans
Leikskólastjóri hefur lagt áherslu á að heimasíða leikskólans sé aðgengileg, snyrtileg og í sinni því hlutverki að vera handbók bæði foreldra og einnig starfsfólks: að öll þau gögn sem eiga að vera til séu aðgengileg þar inni. Í samráði við bæjarstjóra var ákveðið að fá tilboð og ganga til samnings við Stefnu um að setja upp nýjan vef fyrir leikskólann, og er hann í samræmi við vef bæjarins.
Heimasíðan er gluggi inn í skólastarfið, og mikilvægur ekki síst fyrir fólk sem er að flytja t.d. í sveitarfélagið.

Námsferð
Starfsfólks leikskólans fer í námsferð á Akueyri dagana 26. - 28. maí nk. og er skipulagning í gangi. Ætlunin er að skoða aðra leikskóla, fræðast og fá innblástur. Starfsdagur leikskólans verður 27. maí og óskaði leikskólastjóri eftir breytingu á skóladagatali þannig að starfsdagur í byrjun júní færist til 27. maí.
Vorgleði starfsmannafélags leikskólans verður einnig hluti af ferðinni þar sem starfsfólkið ætlar að gera sér dagamun og enda þennan vetur saman á gleðilegum nótum.

Leikskólakennarar
Á næstunni verður auglýst eftir starfsfólki fyrir næsta vetur, leikskólakennurum þá sérstaklega. Ánægjulegt er þó að það er að fjölga hjá okkur um einn leikskólakennara þegar Sigurborg útskrifast í vor og einnig er starfsfólk að ljúka fyrri áfanga í grunnnámi, sem er frábær þróun, segir leikskólastjóri.

Heiðdísi var þakkað fyrir yfirferðina.

Undir þessum dagskrárlið er einnig erindi leikskólastjóra frá 25. mars sl. þar sem hún óskar eftir að skólanefnd samþykki breytingu á skóladagatali, þannig að starfsdagur sem vera átti 3. júní 2022 verði 28. maí 2022. Með þeirri breytingu verður hægt að fara í endurmenntunar- og starfsmannaferð. Nefndarmenn höfðu áður samþykkt ósk leikskólastjóra rafrænt og er sú ákvörðun staðfest með bókun nú.

Gestir

  • Sigurborg Knarran Ólafsdóttir, fulltrúi starfsfólks - mæting: 17:00
  • Karítas Eiðsdóttir, fulltrúi foreldra - mæting: 17:00
  • Heiðdís Lind Kristinsdóttir leikskólastjóri - mæting: 17:00

Skólanefnd - 162. fundur - 27.04.2022

Heiðdís Lind Kristinsdóttir skólastjóri Leikskólans Sólvalla og Rut Rúnarsdóttir fulltrúi foreldra eru gestir undir þessum lið.

Tillaga að skóladagatali komandi skólaárs fyrir Leikskólann Sólvelli lagt fram.

Skólanefnd lýsti ánægju með fyrirhugaða námsferð starfsfólks leikskólans til útlanda á næsta ári.

Rætt um fjölda starfsdaga og fyrirkomulag, t.d. um jól.

Ákveðið að rýna betur í starfsdaga og samþykkt að ný skólanefnd afgreiði skóladagatalið á sínum fyrsta fundi.

Hér viku þær Heiðdís og Rut af fundi og var þeim þakkað fyrir komuna.