Kæru íbúar!

Eins og fram kom í frétt í morgun greindust átta manns með Covid-smit í Grundarfirði í gær. Í morgun voru 41 sem höfðu fengið úrskurð um sóttkví en fjölgaði þegar leið á daginn og voru 53 komnir í sóttkví um kvöldmatarleytið. 

Í dag voru teknir nokkrir tugir sýna hjá heilsugæslustöðinni okkar. Allmörg leikskólabörn og starfsmenn eru þar á meðal og eru nú í sóttkví. Þegar þetta er skrifað bíða margir enn eftir niðurstöðum dagsins. Börn af leikskólanum sem ekki komust að í skimun í dag hafa verið boðuð á morgun. 

Í kvöld heyrði ég í sóttvarnalækni HVE og fór yfir stöðuna með honum. Í framhaldi af því hittust bæjarfulltrúar á fjarfundi til að fara yfir stöðuna og upplýsingar dagsins, sömuleiðis fórum við saman yfir stöðu skólanna í kvöld, skólastjóri leik- og grunnskóla. 

Leikskólinn lokaður miðvikudag 10. nóvember

Miðað við stöðuna eins og hún var um kvöldmatarleytið og í samráði við sóttvarnalækni Heilbrigðisstofnunar Vesturlands, var ákveðið að leikskólinn verði lokaður á morgun, miðvikudag 10. nóvember. Foreldrar fengu skilaboð frá leikskólastjóra um það. 

Þar sem enn er beðið niðurstaðna dagsins, sem gefa mikilvæga sýn í umfang smita, er of snemmt að taka ákvörðun um starfsemi skólans lengra fram í tímann. Við tökum ákvörðun miðað við forsendur hverju sinni.  

Önnur starfsemi 

Grunnskólinn heldur óbreyttri starfsemi og íþróttir hjá UMFG halda sínu striki. 

Heitu pottarnir og sundlaug voru lokuð seinnipartinn, en sameiginlegir búningsklefar eru með íþróttahúsi. Heitu pottarnir verða líka lokaðir á morgun, miðvikudag. 

Molakaffi og meðlæti fellur niður í Sögumiðstöð miðvikudag 10. nóv. og handverkshópurinn tekur pásu í vikunni.

Vegna forfalla verður bókasafnið lokað miðvikudag 10. nóv., en opið á fimmtudag, að óbreyttu.

Aðstoð við aðföng 

Í tilkynningingu frá Grundarfjarðardeild Rauða krossins segir að fólk sem er í einangrun eða sóttkví geti fengið aðstoð frá félögum deildarinnar við að ná í nauðsynjar, eins og mat og lyf. Hafa má samband við Sævöru formann deildarinnar í síma 869-5628. Kærar þakkir til Rauða kross félaga.

Förum í sýnatöku 

Munum að ef upp koma einkenni bæði hjá börnum og fullorðnum þá skal hafa samband við heilsugæslustöðina í Grundarfirði (s. 432 1350) eða fara inná heilsuvera.is og bóka tíma í sýnatöku. 

Upplýsingar og sóttvarnir 

Vefurinn covid.is geymir fullt af upplýsingum og leiðbeiningum og þar er mjög gott netspjall þar sem hægt er að leggja upp spurningar. 

Hér eru svo upplýsingar um sýnatöku á pólsku og hér eru upplýsingar um sóttkví, einangrun, smitgát og sóttkví barna - á pólsku

Það er einfalt og áhrifaríkt að spritta og þvo hendur og nota grímuna!  - Tökum á þessu saman. Við kunnum þetta og getum. 

Þakkir og hlýjar kveðjur

Starfsfólk heilsugæslustöðvarinnar hefur staðið í ströngu síðustu daga. Ég vil þakka þeim og aðstoðarfólki þeirra fyrir skjót viðbrögð og fagmennsku. Dagnýju, Ernu og Þóri sóttvarnalækni ennfremur fyrir einstaklega góðar upplýsingar og ráðleggingar til mín og skólastjóranna síðustu daga. Við sendum hlýjar kveðjur til þeirra sem eru veik heima, með óskum um góðan bata. 

Björg, bæjarstjóri