Mynd Tómas Freyr Kristjánsson
Mynd Tómas Freyr Kristjánsson

Eftirfarandi upplýsingar eru fengnar frá sóttvarnalækni Heilbrigðisstofnunar Vesturlands og starfsfólki heilsugæslustöðvarinnar okkar nú í morgun:

Alls greindust átta manns með virkt Covid-smit í Grundarfirði í gær og tengjast þeir sama vinnustaðnum.  Tugir sýna voru teknir í gær og mikill fjöldi manns er skráður í sýnatöku í dag. Alls hafa 49 manns (uppfært kl. 12:30) fengið úrskurð um sóttkví, þar af ellefu börn á Leikskólanum Sólvöllum. Öll þau sem fá sóttkvíarúrskurð (foreldrar barna) fá sjálfkrafa send boð um að koma í sýnatöku (PCR) á fimmta degi.  Þangað til halda þau sig heima. 

Nokkur fjöldi fólks hefur fengið boð um að vera í smitgát vegna nálægðar við smitaðan einstakling. Smitgát þýðir að fólk má mæta í vinnu, en þarf að sýna sérstaka aðgát, t.d. ekki vera í nánum samskiptum við samstarfsfólk. Fólki í smitgát er skylt að fara í hraðpróf á fyrsta og fjórða degi smitgátar. Með því að skrá sig í smitgát fær fólk sjálfkrafa skráningu í hraðpróf og strikamerki fyrir hana. Sjá nánar um smitgát hér á covid.is 

Finni fólk fyrir einkennum, t.d. um öndunarfærasýkingu, þarf að hafa samband við heilsugæslustöðina (sími 432 1350) eða panta sýnatöku í gegnum vefinn heilsuvera.is

Starfsfólk heilsugæslustöðvarinnar vill koma því á framfæri að mikið álag er á stöðinni eins og er, meðal annars í gegnum síma. Ef ekki næst samband við starfsfólk á stöðinni strax í síma, þá á fólk endilega að reyna aftur síðar. Starfsfólk þakkar fyrir sýnda þolinmæði. Varðandi upplýsingar og leiðbeiningar, t.d. um strikamerki, er bent á að inná www.covid.is (neðst í hægra horninu) er mjög gott og skilvirkt netspjall. 

--- 

Í dag er Leikskólinn Sólvellir lokaður eins og fram kom í frétt hér á bæjarvef í gærkvöldi. Þar er einnig að finna skilaboð til foreldra leikskólabarna. Grunnskólinn starfar í dag, en ljóst er að þetta hefur talsverð áhrif á starfsemina. Frekari ákvarðanir um starfsemi stofnana Grundarfjarðarbæjar verða teknar síðar í dag, þegar smitrakning er komin lengra.

Við vitum að öflugasta vörnin við veirunni er að huga að eigin smitvörnum og taka tillit til annarra. Forðumst margmenni, notum símtöl og tölvusamskipti þar sem við mögulega getum - þvoum hendur reglulega, sprittum vel, höldum eins metra fjarlægð og höldum okkur heima ef einkenni gera vart við sig. 

Gerum þetta saman!