Málsnúmer 2009033

Vakta málsnúmer

Hafnarstjórn - 11. fundur - 01.10.2020

Umræða um þróun hafnarsvæðis, skipulagsmál og tengingu þess við miðbæ og Framnes.

Þann 16. september sl. fór hluti hafnarstjórnar og hafnarstjóri, ásamt skipulagsráðgjöfum, í vettvangsferð um hafnarsvæðið.

Nauðsynlegt er að huga að tengingum hafnarsvæðis við nærliggjandi svæði.
Bæjarstjórn hefur samþykkt tillögu skipulags- og umhverfisnefndar um að skoða gerð deiliskipulags fyrir hluta Framness, m.a. inná hafnarsvæðið, í tengslum við gerð fjárhagsáætlunar 2021 og umræðu um aðalskipulagsmál.

Með lengdum Norðurgarði og nýrri landfyllingu á austanverðu Framnesi, auk nýrra umferðartenginga á Framnesi, Bergþórugötu og væntanlegrar áframhaldandi tengingar norður hafnarsvæðið, skapast ný tækifæri á svæðinu. Stærri skip munu geta athafnað sig í Grundarfjarðarhöfn og landsvæði skapar nýja möguleika. Eitt af því sem einnig þarf að leysa, er umferð gangandi fólks á svæðinu, m.a. gesta skemmtiferðaskipa.

Gert er ráð fyrir að gönguleið frá Torfabót og meðfram Framnesinu, liggi áfram meðfram sjóvarnargarði yfir nýja landfyllingu og út eftir Norðurgarði, bak við byggingar sem staðsettar eru á Norðurgarði. Um er að ræða ca. 800 metra strandleið, sem býður einstaka upplifun, með útsýni til hafs og strandar, til Kirkjufellsins og yfir fjallgarðinn allt í kring.

Rætt var um þær áskoranir sem huga þarf að í skipulagsmálum á svæðinu til framtíðar. Ennfremur lagðar línur um sameiginlegan skilning á verkefnislýsingu, sem send verður í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða, og nær að hluta til inná hafnarsvæðið. Skipulagsráðgjafar eru bæ og höfn til aðstoðar við skilgreiningu þess verkefnis.


Gestir

  • Halldóra Hreggviðsdóttir, Alta

Hafnarstjórn - 12. fundur - 30.10.2020

Farið var yfir skipulagsmál á hafnarsvæði, fram á Framnes, austan Nesvegar, og ennfremur til suðurs að Gilósi.

Farið var yfir ýmsa áhugaverða möguleika á tengingum og frágangi á hafnarsvæði, m.a. möguleika á öruggum leiðum fyrir gangandi.

Áður hefur hafnarstjórn farið yfir þá nýju möguleika sem opnast með tengingu með lengdum hafnargarði, nýju Bergþórugötunni og nýju landfyllingunni á hafnarsvæðinu austanvert á Framnesi.

Þörf er á því að taka upp deiliskipulag hafnarsvæðis austan Framness og ennfremur að ganga nánar frá skipulagi á Norðurgarði vegna breytinga tengdum lengingu Norðurgarðs. Hafnarstjórn leggur til að hafin verði skipulagsvinna vegna þessa á árinu 2021.
Í fjárhagsáætlun ársins 2021 gerir hafnarstjórn ráð fyrir fjármunum til skipulagsgerðar, í samráði við og eftir samþykki bæjarstjórnar.

Hafnarstjórn - 15. fundur - 22.03.2021

Rætt um skipulagsmál á hafnarsvæðinu.

Hafnarstjóri upplýsti að mikið sé spurt um framlengingu Nesvegar til austurs, sem verið hefur inná aðalskipulagi í áratugi. Hugsunin er sú að með því komi ný tenging þjóðvegar að hafnarsvæði. Með því myndi léttast á umferð á Grundargötu austanverðri, sem er tiltölulega þröng íbúðargata, en miklir þungaflutningar fara eftir götunni.
Hafnarstjórn leggur til við bæjarstjórn að hún hefji viðræður við Vegagerðina um lagningu þessa vegar, sem þjóðvegar í þéttbýli.

Einnig var rætt um að brýnt sé að koma á framtíðarumferðartengingu frá hinni nýju Bergþórugötu og yfir á nýju landfyllinguna, austan Nesvegar, yfir á Norðurgarð og hafnarsvæðið þar suðurúr. Sú tenging liggur fyrir í aðalskipulagi og í deiliskipulagi hafnarsvæðis austan Nesvegar.

Lögð var fram hugmynd í vinnuskjali, um landfyllingu austan Miðgarðs, í samræmi við aðalskipulag hafnarsvæðis. Hugmyndin er einkum sett fram í því skyni að geta áætlað efnisþörf til framtíðar.
Hafnarstjórn leggur áherslu á að þarna er um að ræða þróun svæðisins til framtíðar. Hinsvegar sé mikilvægt að huga tímanlega að þeim þáttum sem taka langan tíma, eins og t.d. málsmeðferð efnistökuleyfa. Í dag er staðan sú að magn skv. gildandi leyfi til efnistöku á hafsbotni, á Grundarfirði, er að verða uppurið. Frekari efnistaka krefst nýrra leyfa.

Hafnarstjórn samþykkir að hefja undirbúning að leyfisumsókn um efnistöku á hafsbotni, samanber áform í aðalskipulagi. Hafnarstjóri mun afla upplýsinga um næstu skref og kostnað, áður en lengra er haldið.


Hafnarstjórn - 16. fundur - 05.10.2021

Hafnarstjórn ræddi um deiliskipulagsmál á hafnarsvæði.

Brýn þörf er á að endurskoða deiliskipulag Framness austan Nesvegar og ljúka deiliskipulagi á svæðinu á og við Norðugarð.
Breyta þarf stærð og fyrirkomulagi lóða á nýju uppfyllingunni austan Nesvegar, hanna þarf framtíðarlegu vegar sem liggur yfir á hafnarsvæðið í beinu framhaldi af Bergþórugötu og ákveða legu lagna á svæðinu. Auk þess þarf að gera ráð fyrir og setja niður fyrirkomulag á um 800 metra göngustíg sem liggja mun frá enda Norðurgarðs, að Torfabót, meðfram grjótvörninni. Til að þetta sé unnt þarf að endurskoða deiliskipulag svæðisins og gera ráð fyrir breytingum.

Rætt um hvar rétt sé að mörk deiliskipulagssvæðis liggi, taka þarf Norðurgarð með í deiliskipulagið og mögulega Miðgarð og hafnarvog.

Hafnarstjórn samþykkir að fela skipulagsfulltrúa og bæjarstjóra að hefja undirbúning að gerð deiliskipulags á hafnarsvæðinu, á Framnesi austan Nesvegar, á Norðugarði og að skoða nánar stærð og útmörk deiliskipulagssvæðis.
Hafnarstjórn mun áfram gera ráð fyrir kostnaði við verkið í fjárhagsáætlunum sínum.

Hafnarstjórn samþykkir ennfremur að fela hafnarstjóra að láta ganga frá svæðinu norðanvert á nýju landfyllingunni þannig að útbúa megi bráðabirgðaakveg frá Bergþórugötu yfir á hafnarsvæðið.

Hafnarstjórn - 17. fundur - 08.03.2022

Hafnarstjóri og bæjarstjóri fóru yfir stöðu skipulagsmála á hafnarsvæðinu.

Í undirbúningi er vinna við endurskoðun deiliskipulags hafnarsvæðis austan Nesvegar. Skipulagið er frá 2008, með breytingu frá 2016 og óverulegri breytingu frá 2021. Skipulagsfulltrúi vinnur nú að því að ráða skipulagsráðgjafa í að halda utan um gerð deiliskipulagsins og vinnu við deiliskipulag Framness, sem einnig er á dagskrá. Ætlunin er að vinna deiliskipulag fyrir svæðin að hluta til samhliða.

Farið yfir stöðu málsins.

Hafnarstjórn - 9. fundur - 16.01.2024

Rætt um skipulagsmál á hafnarsvæðinu og framhald skipulagsvinnu, tengsl við aðra skipulagsvinnu sem er í gangi, um undirbúningsvinnu vegna umsóknar um leyfi til efnistöku úr sjó og fleira.Halldóra Hreggviðsdóttir, jarðfræðingur og skipulagsráðgjafi hjá Alta, aðstoðar hafnarstjórn við undirbúning leyfisumsóknar vegna efnistöku úr sjó. Halldóra og Árni Geirsson hjá Alta sátu í fjarfundi undir þessum lið.Rætt var um skipulag hafnarsvæðis og mikilvægi tenginga við önnur svæði, þannig að heildstæð hugsun verði í því hvernig dýrmætt land og aðstaða verði nýtt.

Í gangi er deiliskipulagsvinna við önnur svæði, sem mikilvægt er að horfa til í samhengi við þróun og skipulag hafnarsvæðis, eins og aðalskipulag gerir ráð fyrir. Nefna má breytingu á aðal- og deiliskipulagi iðnaðarsvæðis vestan Kvernár, sem ætlunin er að stækki umtalsvert, og rætt var á 8. fundi hafnarstjórnar þann 4. desember sl. Einnig má nefna nýtt deiliskipulag Framness, en Framnesið hefur mikilvæga tengingu við hafnarsvæðið og tengingu við miðbæ.

Rætt var um þörf fyrir og öflun á efni í landfyllingar á hafnarsvæðinu. Í samræmi við fyrri ákvörðun hafnarstjórnar/bæjarstjórnar er verið að skoða möguleika á efnisöflun af hafsbotni, gagnaöflun og leyfisveitingar sem því tengjast.

Hafnarstjóri sýndi gögn sem í vinnslu eru hjá honum og Vegagerðinni, vegna landfyllinga á hafnarsvæði.

Hafnarstjórn samþykkir að hefja undirbúning að næsta áfanga í stækkun á landsvæði Grundarfjarðarhafnar, sem er til suðurs, frá Miðgarði og að Suðurgarði.
Byrjað verði á greiningu á helstu forsendum og meginhugmyndum um fyrirkomulag sem gæti hentað þeirri fjölbreyttu og eðlisólíku starfsemi sem höfnin þjónar. Sérstaklega verði skoðað hvernig fyrirkomulag innan hafnarinnar tengist nálægum svæðum í bænum, t.d. Framnesi, miðbæ og iðnaðarsvæðinu vestan Kvernár, auk íbúðarbyggðar.

Gestir

  • Halldóra Hreggviðsdóttir, skipulagsráðgjafi, Alta
  • Árni Geirsson, skipulagsráðgjafi, Alta

Hafnarstjórn - 10. fundur - 13.02.2024

Sigurður Valur Ásbjarnarson skipulagsfulltrúi Grundarfjarðarbæjar er í fjarfundi og sömuleiðis Árni Geirsson ráðgjafi hjá Alta, sem er hafnarstjórn innan handar við rýni á helstu forsendum vegna vinnu við framtíðarsýn fyrir hafnarsvæðið.

Í framhaldi af vinnu hafnarstjórnar á síðasta fundi, þann 16. janúar sl., ræddi hafnarstjórn undirbúning að næsta áfanga í stækkun á landsvæði Grundarfjarðarhafnar.

Farið var vel yfir nýtingu hafnar og hafnarsvæða, hópa viðskiptavina á hafnarsvæðunum og annað sem skiptir máli um framtíðarnýtingu núverandi hafnarsvæða og viðbótarsvæða í framtíðinni.

Vinnan er hluti af greiningu á helstu forsendum og meginhugmyndum um fyrirkomulag sem gæti hentað fjölbreyttri hafnarstarfsemi.

Gestir

  • Sigurður Valur Ásbjarnarson skipulagsfulltrúi - mæting: 13:30
  • Árni Geirsson, ráðgjafi hjá Alta - mæting: 13:30

Hafnarstjórn - 11. fundur - 29.04.2024

Farið yfir stöðu skipulagsmála og undirbúning vegna verkefna sem eru í gangi.Halldóra Hreggviðsdóttir og Árni Geirsson frá Alta voru gestir undir þessum lið til að fara yfir stöðuna. Halldóra hefur unnið með hafnarstjóra að undirbúningi fyrir umsókn um leyfi til efnistöku af hafsbotni.

Árni hefur aðstoðað hafnarstjórn við forsendugreiningu vegna stækkunar hafnarsvæðis, sbr. umræður á síðasta fundi.Farið yfir stöðu skipulagsmála á hafnarsvæði og á aðliggjandi svæðum. Unnið er í greiningu á forsendum, einkum fyrir stækkað suðursvæði, en ekki er tekin ákvörðun að sinni um að hefja deiliskipulag á suðursvæði. Málin tengjast næsta dagskrárlið og eru rædd í samhengi.

Gestir

  • Árni Geirsson, ráðgjafi, Alta - mæting: 12:30
  • Halldóra Hreggviðsdóttir, ráðgjafi, Alta - mæting: 12:30