Málsnúmer 2311006

Vakta málsnúmer

Skipulags- og umhverfisnefnd - 254. fundur - 16.11.2023

Sveinn Ívarsson, arkitekt og Páll Harðarson koma inn á fund til kynningar á skipulagsbreytingu og framtíðaruppbyggingu.
Lögð fram til afgreiðslu skipulagslýsing vegna tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Grundarfjarðar 2019-2039 og tillögu að nýju deiliskipulagi, í samræmi við 1. mgr. 30. gr. og 1. mgr. 40 gr. skipulagslaga nr. 123/2010 vegna fyrirhugaðs gistiheimilis, tjaldsvæðis og aðstöðu fyrir ferðafólk á Grund 2 (L-196084). Breyting á aðalskipulagi og nýtt deiliskipulag verða unnin samhliða í samræmi við gr. 4.2 og 5.2 í skipulagsreglugerð nr. 90/2013.



Jafnframt lagðir fram tveir skipulagsuppdrættir (merktir 1-15 og 1-13) sem sýna fyrirhugaða breytingu á Grund 2. Skipulagssvæðið er 55.793 m2 að flatarmáli, samsett úr 17.337 m2 lóð Grundar 2 og 38.456 m2 úr landi Grundar (L-136606). Fyrir liggur vottað samþykki eigenda Grundar.



Í Aðalskipulagi Grundarfjarðar 2019-2039 eru Grund og Grund 2 skilgreind sem landbúnaðarland. Aðalskipulagsbreytingin felst í breytingu á landnotkun skipulagssvæðisins úr landbúnaðarlandi í verslun og þjónustu. Deiliskipulagstillagan er nánari útfærsla á því.



Þann 30. september 2020 samþykkti skipulags- og umhverfisnefnd að leggja til við bæjarstjórn að landeiganda yrði veitt heimild til að vinna skipulagstillögurnar. Afgreiðsla nefndarinnar var samþykkt í bæjarstjórn 8. október 2020.

Páli Harðarsyni, landeiganda, og Sveini Ívarssyni, arkitekt, þökkuð kynningin á fyrirhugaðri uppbyggingu.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir að auglýsa skipulagslýsinguna og felur skipulagsfulltrúa að uppfæra skjalið í samræmi við umræður á fundinum.

Jafnframt samþykkir nefndin að vinnslutillögur aðalskipulagsbreytingarinnar og nýs deiliskipulags sbr. framlagðan uppdrátt merktan 1-15, verði kynntar í kjölfar auglýsingar skipulagslýsingarinnar, í samræmi við 2. mgr. 30. gr. og 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, með fyrirvara um samþykki bæjarstjórnar og að því gefnu að engar athugasemdir berist á auglýsingartíma skipulagslýsingarinnar.

Berist engar athugasemdir við skipulagslýsinguna eða vinnslutillöguna, felur nefndin skipulagsfulltrúa að senda vinnslutillögu aðalskipulagsbreytingarinnar til athugunar Skipulagsstofnunar í samræmi við 3. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Skipulags- og umhverfisnefnd - 255. fundur - 29.12.2023

Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar samþykkti þann 23. nóvember sl. að auglýsa sameiginlega skipulagslýsingu vegna breytingar á aðalskipulagi og vegna nýs deiliskipulags í tengslum við frekari uppbyggingu verslunar og þjónustu á Grund 2 í samræmi við 1. mgr. 36. gr. og 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Auglýst var 29. nóvember og var athugasemdafrestur vegna skipulagslýsingarinnar til og með 27. desember 2023. Opið hús var haldið til kynningar tillögunum í Ráðhúsi Grundarfjarðar, þann 20. desember 2023.



Skipulagssvæðið tekur til um 1,7 ha úr landi Grundar 2 og um 3,8 ha úr landi Grundar eða samtals um 5,5 ha. Í Aðalskipulagi Grundarfjarðar 2019-2039 eru Grund og Grund 2 skilgreind sem landbúnaðarland. Með aðalskipulagsbreytingunni verður landnotkun breytt í verslun og þjónustu.



Ekki hefur áður verið unnið deiliskipulag fyrir svæðið og er meginmarkmið þess að útfæra nánar svæði fyrir verslun og þjónustu (VÞ) til viðbótar við núverandi ferðaþjónustu, nánar tiltekið nýtt gistiheimili, tjaldsvæði, leiksvæði og önnur aðstaða fyrir ferðafólk.



Beiðni um umsögn var send til Ferðamálastofu (barst ekki), Veðurstofu Íslands (barst ekki), RARIK (21.12.2023), Svæðisskipulagsnefndar (barst ekki), Vegagerðarinnar (06.12.2023), Heilbrigðiseftirlits Vesturlands (12.12.2023), Minjastofnunar Íslands (12.12.2023), Umhverfisstofnunar (13.12.2023), Landsnets (22.12.2023) og Skipulagsstofnunar (18.12.2023).



Lögð er nú fram til afgreiðslu samantekt umsagna sem bárust við skipulagslýsingu ásamt tillögu skipulagsfulltrúa að svörum skipulags- og umhverfisnefndar.



Skipulags- og umhverfisnefnd fjallaði um innsendar umsagnir og samþykkir tillögu skipulagsfulltrúa um viðbrögð við þeim. Nefndin beinir því til framkvæmdaraðila að hafa umsagnirnar til hliðsjónar við mótun skipulagstillagna í samræmi við gr. 4.2.4. og 5.2.4. í skipulagsreglugerð.