Málsnúmer 2508010Vakta málsnúmer
Á fundi sínum 13. nóvember 2025 samþykkti bæjarstjórn bókun skipulags- og umhverfisnefndar frá 10. nóvember 2025, um að auglýsa tillögu um nýtt deiliskipulag Grundarfjarðarhafnar til kynningar á vinnslustigi skv. 40. gr. skipulagslaga. Einnig var samþykkt greinargerð sem lýsir helstu umhverfisáhrifum stækkunar hafnarsvæðisins, sem fylgigagn með deiliskipulaginu. Greinargerðin er fylgigagn með tilkynningu um stækkunina til Skipulagsstofnunar skv. lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana.
Deiliskipulagsvæðið er 24,9 hektarar og nær yfir Norðurgarð, Miðgarð og Suðurgarð hafnarinnar, ásamt aðliggjandi landsvæði, en auk þess er gert ráð fyrir stækkun hafnarsvæðisins með landfyllingu og nýrri vegtengingu við þjóðveg 54. Tillagan er í samræmi við gildandi Aðalskipulag Grundarfjarðarbæjar.
Vinnslutillagan var auglýst í Skipulagsgátt á tímabilinu 14. nóvember til og með 1. desember sl. Vinnslutillagan var einnig birt á heimasíðu Grundarfjarðarbæjar og í héraðsfréttablaðinu Skessuhorni, auk þess sem útprentuð gögn hennar lágu frammi til sýnis í Ráðhúsi og Sögumiðstöð/bókasafni.
Haldnir voru þrír fundir með íbúum og hagsmunaaðilum um tillöguna 17. nóvember sl. í Samkomuhúsinu, tveir fundanna voru opnir en einn var lokaður fundur með íbúum við innanverða Grundargötu og Grafarbæjum.
Lögð eru fram eftirfarandi gögn:
- Umsagnir og athugasemdir sem bárust gegnum Skipulagsgátt, og samantekt/yfirlit um helstu skilaboð þessara umsagna/athugasemda. Einnig er vísað í Skipulagsgáttina þar sem sjá má allar umsagnir og athugasemdir í heild sinni.
- Vinnuskjal, samantekt skilaboða af þremur samráðsfundum um tillögu á vinnslustigi um deiliskipulag Grundarfjarðarhafnar, sem haldnir voru 17. nóvember sl. í samkomuhúsinu.
- Vinnuskjal; minnispunktar með tillögum að áherslum og mögulegum breytingum á skipulagstillögu, tekið saman eftir samráðsfundina og við frekari skoðun og úrvinnslu á vinnslustigi. Minnispunktarnir eru nokkurs konar "gátlisti" um þau atriði sem taka þarf til umræðu, við gerð skipulagstillögu um svæðið.
- Minnispunktar af fundi með Vegagerðinni 1. des. sl. um vinnslutillöguna.
Bæjarfulltrúum og hafnarstjórn var boðið að sitja fundinn undir þessum lið og taka þátt í umræðum.
Varaformaður setti fund, gengið var til dagskrár.
Björg Ágústsdóttir er í fjarfundi.