273. fundur 08. desember 2025 kl. 14:00 - 17:00 í Ráðhúsi Grundarfjarðar
Nefndarmenn
  • Davíð Magnússon (DM) varaformaður
  • Signý Gunnarsdóttir (SG)
  • Lísa Ásgeirsdóttir (LÁ)
Starfsmenn
  • Sigurður Valur Ásbjarnarson (SVÁ) skipulagsfulltrúi
  • Guðmundur Rúnar Svansson (GRS) starfsmaður umhverfis- og skipulagssviðs
  • Nanna Vilborg Harðardóttir (NVH) starfsmaður umhverfis- og skipulagssviðs
  • Björg Ágústsdóttir (BÁ) bæjarstjóri
Fundargerð ritaði: Sigurður Valur Ásbjarnarson skipulagsfulltrúi
Dagskrá
Forföll boðuðu Bjarni Sigurbjörnsson formaður og Heiðrún Hallgrímsdóttir. Varaformaður stýrir fundi.

Varaformaður setti fund, gengið var til dagskrár.

Björg Ágústsdóttir er í fjarfundi.

1.Deiliskipulag Grundarfjarðarhafnar

Málsnúmer 2508010Vakta málsnúmer

Á fundi sínum 13. nóvember 2025 samþykkti bæjarstjórn bókun skipulags- og umhverfisnefndar frá 10. nóvember 2025, um að auglýsa tillögu um nýtt deiliskipulag Grundarfjarðarhafnar til kynningar á vinnslustigi skv. 40. gr. skipulagslaga. Einnig var samþykkt greinargerð sem lýsir helstu umhverfisáhrifum stækkunar hafnarsvæðisins, sem fylgigagn með deiliskipulaginu. Greinargerðin er fylgigagn með tilkynningu um stækkunina til Skipulagsstofnunar skv. lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana.



Deiliskipulagsvæðið er 24,9 hektarar og nær yfir Norðurgarð, Miðgarð og Suðurgarð hafnarinnar, ásamt aðliggjandi landsvæði, en auk þess er gert ráð fyrir stækkun hafnarsvæðisins með landfyllingu og nýrri vegtengingu við þjóðveg 54. Tillagan er í samræmi við gildandi Aðalskipulag Grundarfjarðarbæjar.



Vinnslutillagan var auglýst í Skipulagsgátt á tímabilinu 14. nóvember til og með 1. desember sl. Vinnslutillagan var einnig birt á heimasíðu Grundarfjarðarbæjar og í héraðsfréttablaðinu Skessuhorni, auk þess sem útprentuð gögn hennar lágu frammi til sýnis í Ráðhúsi og Sögumiðstöð/bókasafni.



Haldnir voru þrír fundir með íbúum og hagsmunaaðilum um tillöguna 17. nóvember sl. í Samkomuhúsinu, tveir fundanna voru opnir en einn var lokaður fundur með íbúum við innanverða Grundargötu og Grafarbæjum.



Lögð eru fram eftirfarandi gögn:



- Umsagnir og athugasemdir sem bárust gegnum Skipulagsgátt, og samantekt/yfirlit um helstu skilaboð þessara umsagna/athugasemda. Einnig er vísað í Skipulagsgáttina þar sem sjá má allar umsagnir og athugasemdir í heild sinni.



- Vinnuskjal, samantekt skilaboða af þremur samráðsfundum um tillögu á vinnslustigi um deiliskipulag Grundarfjarðarhafnar, sem haldnir voru 17. nóvember sl. í samkomuhúsinu.



- Vinnuskjal; minnispunktar með tillögum að áherslum og mögulegum breytingum á skipulagstillögu, tekið saman eftir samráðsfundina og við frekari skoðun og úrvinnslu á vinnslustigi. Minnispunktarnir eru nokkurs konar "gátlisti" um þau atriði sem taka þarf til umræðu, við gerð skipulagstillögu um svæðið.



- Minnispunktar af fundi með Vegagerðinni 1. des. sl. um vinnslutillöguna.



Bæjarfulltrúum og hafnarstjórn var boðið að sitja fundinn undir þessum lið og taka þátt í umræðum.

Fundinn sitja Jósef Ó. Kjartansson forseti bæjarstjórnar, Arnar Kristjánsson fulltrúi í hafnarstjórn, Garðar Svansson, fulltrúi í hafnarstjórn og bæjarfulltrúi, Hafsteinn Garðarsson hafnarstjóri og Pálmi Jóhannsson forstöðumaður menningar- og markaðsmála, sem einnig vinnur fyrir Grundarfjarðarhöfn, en hann sat í fjarfundi.

Halldóra Hreggviðsdóttir og Herborg Árnadóttir skipulagsráðgjafar hjá Alta eru gestir fundarins í fjarfundi.

---

Farið var yfir umsagnir og athugasemdir sem bárust í Skipulagsgátt og einnig vísað í umræður á samráðsfundum.
Ekki er nauðsynlegt að bregðast formlega við ábendingum á þessu skipulagsstigi, þar sem tillagan var kynnt á vinnslustigi, en þær verða nýttar við áframhaldandi mótun deiliskipulagsins.

Einnig er greint frá fundi með fulltrúum Vegagerðarinnar 1. des. sl. Vegagerðin er sátt við legu vegarins og hönnun gatnamótanna við þjóðveg. Fram kom að Vegagerðin vill að beygjuhornið sé 90° eins og það er á tillögunni og telur forhönnun á uppdráttum uppfylla hönnunarskilyrði varðandi legu, breidd vegar og beygjuradíusa. Nýr þjóðvegur liggi frá Snæfellsnesvegi að Hafnartorgi.

Skipulagsfulltrúi og hafnarstjóri greindu frá fundi og samskiptum við lóðarhafa á Norðurgarði D.

Einnig er greint frá tveimur fundum hafnarstjórnar o.fl. og hver talin eru meginviðfangsefni í næstu skrefum skipulagsferlisins.

Bæjarstjóri/formaður hafnarstjórnar spurði í upphafi umræðu hvort fundarmenn teldu viðbrögð og þær athugasemdir sem borist hafa vera þess eðlis að rétt sé að stöðva eða gera hlé á þessari skipulagsvinnu. Samhljómur var meðal fundarmanna um að halda ætti skipulagsgerðinni áfram og þó bregðast þurfi við mörgum þeirra ábendinga sem borist hafa, þá séu þær ekki þess eðlis að þær eigi að stöðva skipulagsgerðina.

Ræddar voru ábendingar sem fram komu, á samráðsfundum og í athugsemdum íbúa, um að kanna ætti valkost um nýjan hafnargarð norðan við Norðurgarð, fyrir fiskiskip, frekar en þá landfyllingu og nýjan viðlegukant sem vinnslutillagan gerir ráð fyrir. Bent var á mikið dýpi á þessu svæði og að uppland fyrir slíkt mannvirki sé ekki til staðar. Aldrei hefur verið gert ráð fyrir slíku mannvirki í aðalskipulagi. Skipulagsráðgjafi leggur til að komið verði inná þetta atriði í umhverfismati tillögu.

Rætt var um skilmála lóða og einstakar lóðir. Engin teljandi gagnrýni hefur komið fram á nýjan þjóðveg eða legu hans. Vegagerðin vill skoða fækkun innakstursleiða á lóðir, frá nýja veginum.

Rætt var um lækkun hæðar húsa á hluta lóðanna. Einnig var rætt um að fækka metralóðunum og/eða breyta þeim. Hafnarstjórn hefur lagt til að á nyrsta hluta núverandi metralóða verði gerð lóð nr. 13, svipuð að stærð og lóðir nr. 15 og 17.

Einnig var rætt um að gefa Gilósnum meira rými við Grundargötu og skera af lóð nr. 6 og áfram niður að sjó. Svæðið sem núna er undir lóðir 1-5 gæti hentað vel undir ferðaþjónustu með tengingu við Suðurgarðinn og Gilósinn og rætt um fordæmi að uppbyggingu í öðrum höfnum, með mögulega minni lóðum.

Rætt um þá áherslu að verið sé að gera hafnarskipulag. Sýn um uppbyggingu á þessu svæði hafi verið í skipulagi síðan 1969. Þetta sé dýrt svæði í uppbyggingu og þessi stækkun sé nauðsynleg til að geta nýtt betur þá fjárfestingu sem lögð hefur verið í uppbyggingu hafnaraðstöðu á síðustu árum með stækkun Norðurgarðs og verði haldið áfram með uppbyggingu nýs garðs á landfyllingunni. Með þessu sé verið að styrkja atvinnustarfsemi í Grundarfirði. Tækifæri opnist til að bjóða nýjum fyrirtækjum aðstöðu á þessu mikilvæga svæði. Uppbygging íbúðarhúsnæðis á landfyllingunni henti ekki í bland við þá starfsemi sem þarna muni verða. Bærinn eigi aðrar hentugri lóðir fyrir slíkt.
Setja þurfi skýra skilmála í deiliskipulagið um leiðir til að tryggja aðlaðandi ásýnd að þessari stækkun hafnarsvæðisins, sem er um leið ásýnd að bænum.

Hafnarstjóri vill leiðrétta rangar upplýsingar sem komu fram á íbúafundum um hæð húss að Borgarbraut 1, en þar var sagt það væri tíu metra hátt. Rétt hæð er 12 metrar.

Rætt um framsetningu gagna. Hluti af vinnu við gerð skipulagstillagnanna sjálfra (næsta stig) er að gera góðar ásýndarmyndir og tryggja einnig að byggingarreitir og nýtingarhlutfall lóða séu greinileg á uppdráttum.

Sérstaklega var rætt um þær góðu ábendingar sem fram komu á samráðsfundunum, um lóðir og hús sem ekki eru í markvissri notkun eða hafa lokið upphaflegu hlutverki sínu á og við hafnarsvæðið. Ábendingar komu þar fram um að hvetja þurfi eða ýta á lóðarhafa/húseigendur að losa um slík mannvirki og nýta þau og lóðir betur til uppbyggingar atvinnustarfsemi í Grundarfirði.

Þessum lið var lokið kl. 15:35 og gestir yfirgáfu þá fundinn.

2.Deiliskipulag Framness austan við Nesveg

Málsnúmer 2301003Vakta málsnúmer

Tillaga að deiliskipulaginu "Framnes austan við Nesveg" var auglýst í Skipulagsgátt frá 14. október til 2. desember 2025. Lagðar fram þær umsagnir sem bárust og samantekt umsagna og athugasemda og tillaga skipulagsfulltrúa að viðbrögðum við þeim.



Tillagan hafði áður fengið deiliskipulagsmeðferð en m.t.t. auglýsingafrests skv. 2. mgr. 42. gr. skipulagslaga þurfti að endurauglýsa tillöguna. Var það gert með þeirri breytingu sem samþykkt var á 271. fundi nefndarinnar, um að Norðurgarður og miðsvæði hafnar færist yfir í deiliskipulagsvinnu fyrir suðurhluta hafnarsvæðis (Deiliskipulag Grundarfjarðarhafnar, sjá mál 1 á dagskrá þessa fundar).



Nanna Vilborg Harðardóttir verkefnisstjóri skipulags- og umhverfismála fór yfir þær umsagnir sem bárust og tillögu skipulagsfulltrúa um viðbrögð við þeim. Framkomnar umsagnir eru að miklu leyti samhljóða umsögnum/athugasemdum sem bárust við fyrri auglýsingu deiliskipulagstillögunnar.

Lagt er til að gerðar verði minniháttar lagfæringar á tillögunni, þannig að bætt verði við skilmála í 4. kafla vegna athugasemda Heilbrigðiseftirlits Vesturlands, og að umfjöllun/tilvísun í Verndaráætlun Breiðafjarðar verði bætt við kafla 3 í greinargerð, um tengsl við aðrar áætlanir. Sjá nánar á samantekt umsagna.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir samhljóða að fela skipulagsfulltrúa að senda umsagnaraðilum viðbrögð nefndarinnar, í samræmi við framlagða tillögu. Að gerðum þeim lagfæringum, sem að framan er getið, samþykkir skipulags- og umhverfisnefnd deiliskipulagið á grundvelli 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og felur skipulagsfulltrúa að ganga frá því í samræmi við 42. skipulagslaga, að fengnu samþykki bæjarstjórnar, og auglýsa í B-deild Stjórnartíðinda geri Skipulagsstofnun ekki athugasemdir við deiliskipulagið.

3.Grund 2 - Breyting á Aðalskipulagi og nýtt deiliskipulag

Málsnúmer 2311006Vakta málsnúmer

Á 268. fundi skipulags- og umhverfisnefndar þann 30. apríl sl. var skipulagsfulltrúa falið að fylgja eftir viðbrögðum nefndarinnar í samvinnu við framkvæmdaraðila. Vinnslutillögur að breyttu aðal- og deiliskipulagi voru auglýstar samhliða í Skipulagsgátt 11.-25. apríl sl. og bárust alls átta athugasemdir við aðalskipulagið og átta athugasemdir við deiliskipulagið. Síðar bættust við tvær athugasemdir til viðbótar við hvora tillögu.



Arkitektastofan Landlínur hefur nú tekið við vinnslu málsins fyrir landeiganda.



Lagðar fram tillögur að breytingu á aðalskipulagi til auglýsingar skv. 31. gr. skipulagslaga og breytingu á deiliskipulagi til auglýsingar skv. 41. gr. skipulagslaga, þar sem höfð hefur verið hliðsjón af þeim umsögnum/athugasemdum sem bárust við tillögur á vinnslustigi.

Nanna Vilborg Harðardóttir verkefnisstjóri skipulags- og umhverfismála fór yfir þær umsagnir/athugasemdir sem bárust við skipulagstillögu á vinnslustigi og hvernig brugðist hefur verið við þeim í bæði aðal- og deiliskipulagstillögu.

Vegna athugasemda frá Heilbrigðiseftirliti Vesturlands er m.a. fyrirhugað að bora eftir vatni innan lóðar og búið að teikna inn fráveitukerfi. Þá hefur verið gerð fornminjaskráning fyrir svæðið. Ennfremur er ítarlegri umfjöllun um margvísleg atriði í tillögunum. Sjá nánar í samantektarblaði.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir fyrir sitt leyti framlagðar tillögur. Skipulagsfulltrúa er falið að senda Skipulagsstofnun aðalskipulagstillöguna til athugunar skv. 3. mgr. 30. gr. skipulagslaga og að auglýsa hana, í framhaldi af niðurstöðu Skipulagsstofnunar, í samræmi við 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Ennfremur, í framhaldi af samþykkt bæjarstjórnar skv. 4. mgr. 40 gr. skipulagslaga, felur nefndin skipulagsfulltrúa að auglýsa deiliskipulagstillöguna í samræmi við 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga.

4.Sólbakki lóð B fyrirspurn um deiliskipulagsbreytingu

Málsnúmer 2409027Vakta málsnúmer

Á 271. fundi skipulags- og umhverfisnefndar var skipulagsfulltrúa falið að grenndarkynna breytt deiliskipulag Sólbakka í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Landeigandi skilaði uppdrætti með undirritun grenndaraðila. Auglýsa þarf deiliskipulagsbreytinguna til að hún öðlist gildi.
Skipulags- og umhverfisnefnd gerir ekki athugasemdir við uppdráttinn sem skilað var og felur skipulagsfulltrúa að auglýsa óverulegu deiliskipulagsbreytingu í B-deild Stjórnartíðinda í samræmi við 2. mgr. 43. greinar skipulagslaga nr. 123/2010.

5.Háubakkar (ÍB-4) Viðbótarlóðir, Nýtt deiliskipulag

Málsnúmer 2509002Vakta málsnúmer

Á 272. fundi skipulags- og umhverfisnefndar afgreiddi nefndin skipulagslýsingu fyrir nýtt deiliskipulag fyrir íbúðarbyggð á Háubökkum og bæjarstjórn staðfesti afgreiðsluna á 303. fundi sínum. Hún var til kynningar í Skipulagsgátt frá 14. nóvember til og með 1. desember sl. Skipulagsgögn voru einnig aðgengileg í Ráðhúsi, í Sögumiðstöð og á vef Grundarfjarðarbæjar.



Umsagnir bárust frá eftirfarandi aðilum og eru þær lagðar fram, auk samantektar á efni þessara umsagna:



Míla

Vegagerðin

Minjastofnun Íslands

Veitur

Heilbrigðiseftirlit Vesturlands

Um er að ræða umsagnir um skipulagslýsingu og er ekki þörf á að bregðast sérstaklega við þeim með svari til umsagnaraðila.

Efni umsagnanna verður haft til hliðsjónar við frekari deiliskipulagsvinnu.

6.Háubakkar (ÍB-4) - Aðalskipulagsbreyting

Málsnúmer 2511004Vakta málsnúmer

Á 272. fundi skipulags- og umhverfisnefndar samþykkti nefndin skipulagslýsingu fyrir breytingu á Aðalskipulagi Grundarfjarðar vegna stækkunar á ÍB-4 og bæjarstjórn staðfesti afgreiðsluna á 303. fundi sínum.



Lýsingin var til kynningar í Skipulagsgátt frá 14. nóvember til og með 1. desember sl. Skipulagsgögn voru einnig aðgengileg í Ráðhúsi, í Sögumiðstöð og á vef Grundarfjarðarbæjar.



Farið var yfir umsagnir sem bárust á auglýsingatíma, en þær voru frá eftirfarandi aðilum og samhliða umsögnum (dagskrárliður 5) sem bárust um deiliskipulagið:



Míla

Vegagerðin

Slökkvilið Grundarfjarðar

Minjastofnun Íslands

Veitur

Heilbrigðiseftirlit Vesturlands



Um er að ræða umsagnir um skipulagslýsingu og er ekki þörf á að bregðast sérstaklega við þeim með svari til umsagnaraðila.

Efni umsagnanna verður haft til hliðsjónar við frekari skipulagsvinnu v. breytinga á aðalskipulaginu.

7.Hamrar - fyrirspurn um gistirými

Málsnúmer 2511031Vakta málsnúmer

Landeigandi Hamra spyrst fyrir um það hvort það rúmist innan almennra heimilda í aðalskipulagi Grundarfjarðarbæjar að breyta núverandi húsum í gistirými. Hann hefur látið útbúa kynningargögn með hugmyndum að breytingum og vonast til að geta hafið framkvæmdir við breytingu húsa sem þegar eru til staðar.



Taka þarf afstöðu til þess hvort þær framkvæmdir/breytingar sem kynntar eru rúmist innan almennra heimilda í aðalskipulagi og jafnframt hvort óska eigi eftir gerð deiliskipulags eða grenndarkynningu.
Samkvæmt Aðalskipulagi Grundarfjarðarbæjar 2019-2039 (sjá bls. 128) er heimilt að reka gististað fyrir allt að 20 gesti á hverju lögbýli sem í aðalskipulagi sé skilgreint sem landbúnaðarsvæði. Fari gestafjöldi umfram það kallar það á aðalskipulagsbreytingu. Sé einungis um að ræða notkun núverandi bygginga og gestafjöldinn sé undir 20 þurfi ekki aðalskipulagsbreytingu. Áður en leyfi er veitt þarf, eftir umfangi og eðli framkvæmda, að vinna deiliskipulag eða grenndarkynna framkvæmdirnar fyrir eigendum lóða/fasteigna í upprunalandi Hamra.

Skipulags- og umhverfisnefnd felur skipulagsfulltrúa að ræða við landeiganda/framkvæmdaraðila um umfang fyrirhugaðrar starfsemi og leiðbeina honum um næstu skref. Jafnframt felur nefndin skipulagsfulltrúa umboð til að setja málið í þann farveg sem við á, byggt á niðurstöðum úr samtali við eiganda/framkvæmdaraðila.

8.Fagurhólstún 2 - Umsókn um byggingarheimild eða -leyfi, Flokkur 2

Málsnúmer 2506012Vakta málsnúmer

Eigandi fasteignar að Fagurhólstúni 2 fyrirhugar að hækka bílskúr, sbr. aðaluppdrátt.

Ekki er til deiliskipulag fyrir svæðið. Taka þarf afstöðu til grenndarkynningar.



Málinu var vísað til skipulags- og umhverfisnefndar af byggingarfulltrúa þar sem ekki er til deiliskipulag fyrir svæðið.



Skipulags- og umhverfisnefnd felur skipulagsfulltrúa að grenndarkynna fyrirhugaðar framkvæmdir í samræmi við 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 fyrir eigendum húsa við Fagurhólstún 4, Grundargötu 37 og 41, og Eyrarveg 17 og 20. Komi ekki fram athugasemdir í grenndarkynningu teljast áformin samþykkt.

9.Nesvegur 5 - lóðamál

Málsnúmer 2510015Vakta málsnúmer

Eigendur að Nesvegi 5 óska eftir að fá að setja hitalagnir í gangstétt við Nesveg 5, framan við aðalinngang, þegar gangstétt verður endurnýjuð. Engin lóð fylgir húsinu þeim megin sem það snýr út í Nesveg.

Skipulags- og umhverfisnefnd gerir ekki athugasemd við ósk lóðarhafa, enda greiði þeir kostnað við verkið.

Verkefnisstjóra skipulags- og umhverfismála er falið að vinna málið áfram í samstarfi við hlutaðeigandi aðila.

10.Grundarfjarðarbær - leiðbeinandi hönnun við frágang í götum ofl.

Málsnúmer 2512003Vakta málsnúmer

Útbúin hefur verið stöðluð hönnun fyrir niðurtektir og gönguþveranir í götum, þar sem endurnýja á gangstéttir. Um er að ræða leiðbeiningar fyrir verktaka sem sjá um framkvæmdir fyrir Grundarfjarðarbæ.



Þetta á að vera okkar staðlaða útlit/útfærsla til þess að fá samræmt útlit og fylgja helstu reglum og stöðlum í þessum málaflokki.



Leiðbeiningarnar munu héðan í frá verða hið almenna viðmið. Verkefni eru þó mismunandi og þarf þá að vera hægt að taka tillit til þess með viðeigandi breytingum í samráði við fulltrúa bæjarins.

Skipulags- og umhverfisnefnd lýsir yfir ánægju með framkomna hönnun og felur verkefnisstjóra að vinna að samræmingu í samstarfi við þjónustumiðstöð og verktaka.

11.Borgarbraut - hönnun Blágrænar ofanvatnslausnir

Málsnúmer 2512001Vakta málsnúmer

Unnið er að frágangi ýmissa atriða í hönnun á næsta áfanga í ICEWATER verkefni bæjarins (blágrænar ofanvatnslausnir). Um er að ræða kafla á Borgarbraut, frá Grundargötu að Hlíðarvegi. Áður var búið að malbika gangstéttar báðum megin í götunni og gróf hönnun liggur fyrir.



Hönnuður bendir á ákveðin atriði sem útfæra þarf lausnir á.

Almennar umræður um ákveðin atriði við hönnun Borgarbrautar hvað varðar blágrænar ofanvatnslausnir.

Verkefnastjóra falið að vinna áfram að lausn með hönnuðum.

12.Lóð undir spennistöð á iðnaðarsvæði við Kverná við Hjallatún

Málsnúmer 2511032Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi frá RARIK þar sem óskað er eftir lóð fyrir spennistöð á iðnaðarsvæðinu vestan við Kverná.



Skipulagsfulltrúa falið að finna hentuga staðsetningu undir lóð í samstarfi við RARIK og vinna að málinu.

13.Öryrkjabandalag Íslands, réttindasamtök - Aðgengisfulltrúi

Málsnúmer 2510009Vakta málsnúmer

Aðgengisfulltrúi Grundarfjarðarbæjar, Nanna Vilborg, hefur í samstarfi við íþrótta- og tómstundafulltrúa, Hinrik, og Berg Þorra Benjamínsson Verkefnastjóra hjá ÖBÍ-Réttindasamtökum, gert létta úttekt á íþróttahúsinu og sundlauginni með það í huga að aðili á hjólastól gæti komist klakklaust í sund eða á íþróttaviðburð í húsinu.



Gerð var samantekt (sjá fylgiskjal) og hún send á ÖBÍ til skoðunar. Mun ÖBÍ síðan koma með ráðleggingar. ÖBÍ setur fyrirvara á þetta verkefni sem er ákveðin tilraun á landsvísu og segir:



"Verkefnastjóri byggir sínar niðurstöður og ráðleggingar á skoðun teikninga og mynda auk þess að vera notandi hjálpartækja í meira en 25 ár. Niðurstöður og álit sem fram koma í kynningu verkefnastjóra skulu því ekki túlkuð sem fagleg greining í samræmi við íslenska löggjöf. Það er á ábyrgð þess aðila sem óskaði eftir áliti verkefnastjóra að leita til viðurkenndra fagaðila til að framkvæma nauðsynlegar mælingar og greiningar sem uppfyllir kröfur laga og reglugerða."

Lagt fram til kynningar.

14.Björgunarsveitin Klakkur - Leyfi til lóðareiganda til flugeldasölu

Málsnúmer 2511015Vakta málsnúmer

Til að fá leyfi til flugeldasölu þarf Björgunarsveitin leyfi lóðareiganda, sem er Grundarfjarðarbær.



Byggingarfulltrúi skrifaði uppá f.h. bæjarins. Um er að ræða árlegt erindi.



Lagt fram til kynningar.

15.Önnur mál umhverfis- og skipulagssviðs

Málsnúmer 2201020Vakta málsnúmer

Verkefnisstjóri skipulags- og umhverfismála ræðir tvö mál.



Verið er að taka saman skýrslu um frætilraunir með Fóðurblöndunni, á grunni samnings aðila, og verður hún kynnt nefndinni.



Einnig hefur verið send skýrsla á Vegagerðina vegna hraðahindrana sem settar voru upp í sitt hvorum enda bæjarins síðla sumars/í haust.

Gengið frá fundargerð að loknum fundi og rafræns samþykkis aflað frá fundarmönnum.

Fundi slitið - kl. 17:00.