249. fundur 11. maí 2021 kl. 17:30 - 20:41 í Samkomuhúsi Grundarfjarðar
Nefndarmenn
  • Jósef Ó. Kjartansson (JÓK) forseti bæjarstjórnar
  • Hinrik Konráðsson (HK)
  • Unnur Þóra Sigurðardóttir (UÞS)
  • Signý Gunnarsdóttir (SG)
    Aðalmaður: Sævör Þorvarðardóttir (SÞ)
  • Rósa Guðmundsdóttir (RG)
  • Garðar Svansson (GS)
  • Bjarni Sigurbjörnsson (BS)
Starfsmenn
  • Björg Ágústsdóttir (BÁ) bæjarstjóri
  • Sigurlaug R. Sævarsdóttir (SRS) skrifstofustjóri
Fundargerð ritaði: Sigurlaug R. Sævarsdóttir skrifstofustjóri
Dagskrá
Forseti setti fund og gengið var til dagskrár.

1.Minnispunktar bæjarstjóra

Málsnúmer 1808018Vakta málsnúmer

Bæjarstjóri fór yfir mál í vinnslu. Hún sagði ráðningarferli vegna stöðu sviðsstjóra sameiginlegs skipulags- og byggingarfulltrúaembættis fjögurra sveitarfélaga á Snæfellsnesi. Ákveðið var að auglýsa aftur og þá bæði störfin í einu, starf byggingarfulltrúa og skipulagsfulltrúa, og gefa kost á því að hvor þeirra sem væri gæti orðið sviðsstjóri. Þá ræddi hún um hönnun á gangstéttum og undirbúning annarra verklegra framkvæmda. Hún sagði frá vinnu við greiningu á ofanvatni, svokölluðum blágrænum ofanvatnslausnum, sem mun nýtast bænum til komandi ára, við hönnun og verklegar framkvæmdir, m.a. vegna fráveitu. Bæjarstjóri sagði jafnframt frá ráðningum í tímabundin störf gegnum „Hefjum störf“ átak Vinnumálastofnunar.

Allir tóku til máls.

2.Störf bæjarstjórnar á kjörtímabilinu - Umræða

Málsnúmer 1808012Vakta málsnúmer


Liðir 2 og 3 ræddir saman.

Rætt um fund bæjarstjórnar og nokkurra starfsmanna bæjarins með fulltrúum frá Veitum ohf., sem haldinn var fyrr um daginn. Rætt um vinnu við heildarstefnu fyrir Grundarfjarðarbæ, sem í gangi var 2019-2020. Vinnan var lögð til hliðar á síðasta ári vegna Covid-anna, en ljúka þarf þeirri vinnu. Jafnframt rætt um markaðsmál og mögulega aukningu stöðugilda í þeim málum.

Allir tóku til máls.

3.Atvinnumál - Umræða

Málsnúmer 1808013Vakta málsnúmer

Rætt með lið nr. 2.

4.Bæjarráð - 566

Málsnúmer 2104002FVakta málsnúmer

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða fundargerð 566. fundar bæjarráðs.
  • 4.1 2103027 Ársreikningur 2020
    Bæjarráð - 566 Lagður fram ársreikningur Grundarfjarðarbæjar fyrir árið 2020. Bæjarráð samþykkir með áritun sinni að vísa ársreikningnum til bæjarstjórnar og telst hann tilbúinn til endurskoðunar og afgreiðslu í bæjarstjórn.

    Samþykkt samhljóða.
  • 4.2 2104015 Hrannarstígur 30
    Bæjarráð - 566 Íbúð fyrir eldri borgara að Hrannarstíg 30 var auglýst laus til umsóknar. Fjórar umsóknir bárust. Við mat á umsóknum og gögnum var leitað til Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga vegna mats á umsækjendum sem hæst skor hlutu skv. matsviðmiðum, sem notast er við þegar til forgangsröðunar kemur.

    Bæjarráð samþykkir samhljóða að úthluta íbúðinni til Steinunnar Hansdóttur.

5.Bæjarráð - 567

Málsnúmer 2104004FVakta málsnúmer

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða fundargerð 567. fundar bæjarráðs.
  • 5.1 2104022 Framkvæmdir 2021
    Bæjarráð - 567 Sigurður Valur Ásbjarnarson, skipulags- og byggingarfulltrúi, sat fundinn undir þessum lið.

    Farið var yfir fyrirhugaðar framkvæmdir ársins. Einnig rædd mönnun og ráðningarmál fyrir sumarið.

    Meðal framkvæmda sem eru í undirbúningi eru:

    Gönguvænn Grundarfjörður - endurbætur á gangstéttum og lagning hjólastíga samhliða, hönnun og annar undirbúningur, en lögð er áhersla á að koma gangstéttum á Grundargötu í útboðsferli.
    Framkvæmdir við viðgerðir á grunnskóla utanhúss, en fyrr í vikunni fór fram úttekt Eflu á stöðu viðgerða með hliðsjón af ástandsskýrslu sem unnin var 2017. Einnig var gert ástandsmat á íþróttahúsi utanhúss, til undirbúnings ákvarðana um endurbætur á komandi árum.
    Rætt var um frágang verks við Fellabrekku 21, vinnu við efnistökuáætlun vegna Hrafnsár, um holræsalagnir, um geymslusvæðið, mögulegar aðgerðir til að drena svæðið kringum ærslabelginn, fyrirhugaðar húsbyggingar og fleira.

    Sigurði var þakkað fyrir yfirferðina og fyrir komuna á fundinn.
  • Bæjarráð - 567 Hildur Sæmundsdóttir, fulltrúi Dvalar- og hjúkrunarheimilisins Fellaskjóls, sat fundinn undir þessum lið.

    Hildur sagði frá rekstrarstöðu heimilisins, en til stendur að gera við þak dvalarheimilisins, sem er upprunalegt og ráðlagt er að skipta þakinu út vegna leka. Þörf er á ýmiskonar vinnu utanhúss. Stytting vinnuvikunnar hjá starfsfólki, einkum vaktavinnufólki, hefur þau áhrif að kostnaður eykst.

    Eins og áður hefur verið rætt í bæjarráði og bæjarstjórn lagði Framkvæmdasjóður aldraðra framlag með viðbyggingu Dvalarheimilisins uppá um 40 millj. kr. eða allt að 40% af kostnaði sem var áætlaður byggingarkostnaður áður en byggingin fór af stað. Ríkið neitaði hinsvegar að leggja frekara framlag með framkvæmdinni, þó að almenna reglan sé sú að ríki greiði allt að 85% kostnaðar og sveitarfélag 15%. Fellaskjól er sjálfseignarstofnun og hafnaði heilbrigðisráðuneytið frekara framlagi á þeim grunni, þó fyrir lægi að það sé sveitarfélagið sem alla tíð hefur greitt byggingarkostnað og afborganir byggingarlána. Þetta mál hefur verið til skoðunar hjá Hildi og Björgu bæjarstjóra.

    Fram kom hjá bæjarstjóra að Samband íslenskra sveitarfélaga hefur skv. beiðni bæjarstjóra farið vel ofan í samskipti heilbrigðisráðuneytis og Fellaskjóls. Fyrir liggur bréf til bæjarstjóra þar sem fram kemur það álit sambandsins að rökstuðningur ráðuneytisins fyrir synjun á 85% hlutdeild ríkisins í stofnkostnaði við uppbyggingu Fellaskjóls standist hvorki gagnvart fyrri framkvæmd né þeim lagagrundvelli sem ákvörðun var byggð á.

    Ætlunin er að senda ráðuneytinu erindi á næstu dögum með ósk um endurupptöku framangreindrar ákvörðunar þess.


  • Bæjarráð - 567 Hildur Sæmundsdóttir, fulltrúi Fellaskjóls sat fundinn undir þessum lið.

    Farið var yfir þær framkvæmdir sem Fellaskjól óskar eftir að Grundarfjarðarbær láti vinna, sem er að útbúa aðkomuveg við neyðarútgang vestanmegin við nýja húsið, vinna við gróðurumhirðu og garðslátt.

    Að beiðni bæjarstjóra hefur skipulags- og byggingarfulltrúi áætlað kostnað við aðkomu að húsinu að vestanverðu. Til framtíðar mun þurfa að jarðvegsskipta á svæðinu, gera burðarhæfan akveg að húsinu og malbika.

    Bærinn mun aðstoða Fellaskjól með garðslátt í sumar.
  • Bæjarráð - 567 Hildur Sæmundsdóttir, fulltrúi Fellaskjóls sat fundinn undir þessum lið.

    Fyrir liggur beiðni frá stjórn Fellaskjóls um nákvæma útsetningu lóðarinnar við Hrannarstíg 20. Einnig um að lóðarmörkum verði breytt að sunnanverðu, frá því sem fram kemur í deiliskipulagi Ölkeldudals.

    Skipulags- og byggingarfulltrúi hefur að ósk bæjarstjóra látið mæla lóðina upp og liggja þær mælingar fyrir, en fullgert lóðablað mun berast næstu daga. Þá verður fulltrúi Fellaskjóls boðaður til samtals og frágangs lóðarblaðs.

    Hildi var þakkað fyrir komuna á fundinn.

  • 5.5 2104025 Vinnuskóli 2021
    Bæjarráð - 567 Lögð fram gögn vegna fyrirkomulags vinnuskóla sumarið 2021 ásamt upplýsingum um laun. Vinnuskólinn er fyrir nemendur sem ljúka 8.-10. bekk grunnskólans og stendur í fimm vikur í upphafi sumars.

    Lagt til að 7. bekk standi til boða nám í vinnuskólanum í þrjár vikur sumarið 2021.

    Samþykkt samhljóða.
  • Bæjarráð - 567 Lagðar fram uppfærðar reglur um lokað geymslusvæði bæjarins við Hjallatún frá 2015.

    Lagt til að ákvæði um gjalddaga verði breytt, þannig að svigrúm sé til að greiða gjald mánaðarlega.

    Uppfærðar reglur samþykktar samhljóða.

    Bæjarráð óskar eftir því að gjaldskrá verði endurskoðuð, m.a. með hliðsjón af því að tekið verður inn rafmagn á svæðið og settar upp öryggismyndavélar. Tekin verði ákvörðun um gjaldskrá með haustinu.

    Bókun fundar Bæjarstjórn staðfestir afgreiðslu bæjarráðs.
  • Bæjarráð - 567 Lagt fram bréf lóðarhafa á Eyrarvegi 20 þar sem lóðarhafi andmælir greiðslu á hluta kostnaðar sem til féll við skráningu á bílskúr á lóð hans.

    Jafnframt lagt fram bréf sem sent var út af skipulags- og byggingarfulltrúa, auk samantekt bókana skipulags- og umhverfisnefndar um málið frá árinu 2006.

    Bæjarráð fjallaði um málið. Starfsmönnum skipulags- og byggingarfulltrúaembættis falið að svara erindinu í samræmi við umræður á fundinum.

    Samþykkt samhljóða.

  • Bæjarráð - 567 Lagt fram yfirlit yfir lausafjárstöðu.
  • 5.9 2101005 Greitt útsvar 2021
    Bæjarráð - 567 Lagt fram yfirlit yfir greitt útsvar jan.-mars 2021. Skv. yfirlitinu hefur greitt útsvar hækkað um 1% miðað við sama tímabil í fyrra. Marsmánuður er hins vegar 13% lægri en mars 2020, en hluti af skýringunni er sú að ríkið dregur frá endurgreiðslur á ofgreiddu útsvari til sveitarfélaganna í mars, apríl og maí.

  • 5.10 2103027 Ársreikningur 2020
    Bæjarráð - 567 Lagt fram yfirlit um heildarfjölda stöðugilda hjá Grundarfjarðarbæ í árslok og samkvæmt ársreikningum 2017, 2018, 2019 og 2020 eftir deildum. Sýndur er mismunur milli ára.

    Heildarfjöldi stöðugilda var þannig:

    2017: 60,8
    2018: 61,9
    2019: 61,5
    2020: 65,6

    Árið 2020 voru fjórir starfsmenn ráðnir í samtals 1,25 stöðugildi á ársgrundvelli í ráðningarátaki og námsmannastörfum sem styrkt voru af Vinnumálastofnun, með greiðslu meirihluta launa til bæjarins.

    Árin 2018-2020 voru að jafnaði einn starfsmaður hvert ár í námsleyfi grunnskólakennara sem teljast með stöðugildum, en á móti greiðir Námsleyfasjóður bænum allan launakostnað.

    Eftir standa aukin stöðugildi 2020 m.v. 2019 í grunnskóla 1,8, í leikskóla 1,4, markaðs- og menningarmál 0,7, verkamenn og verkstjórn 0,4.

    Fækkun er á bæjarskrifstofu um 0,24 stöðugildi og um 0,24 í Sögumiðstöð.


  • Bæjarráð - 567 Lagt fram til kynningar vinnuskjal Lögreglustjórans á Vesturlandi vegna áhættuskoðunar á Vesturlandi 2020.

    Bæjarstjóri leggur til að skerpt verði á ákveðnum þáttum í umfjöllun skjalsins, s.s. veikleikum í farsímasambandi á Snæfellsnesi.
  • Bæjarráð - 567 Lagt fram bréf bæjarstjóra til Rarik varðandi spennistöðvarhús og tilheyrandi lóð, efst á Borgarbraut.
  • Bæjarráð - 567 Lagðar fram til kynningar umsóknir bæjarins um styrk vegna fráveituframkvæmda Grundarfjarðarbæjar.
    Annars vegar er umsókn vegna blágrænna ofanvatnslausna, þ.e. tvöföldun fráveitukerfis í skólp- og regnvatnslagnir með blágrænum lausnum. Sótt hefur verið um styrk vegna regnvatnslagna, sem verða í formi blágrænna ofanvatnslausna.
    Hins vegar vegna útrásar á hafnarsvæðinu sem lengd var fyrr á árinu.

  • Bæjarráð - 567 Lagður fram til kynningar tölvupóstur félagsmálaráðuneytisins, dags. 11. mars sl., þar sem kynnt er að sveitarfélög geti sótt um styrk til aukins félagsstarfs eldri borgara. Einnig tölvupóstur dags. 27. apríl sl., þar sem samþykkt er umsókn bæjarins um fjárframlag til félagsstarfs eldri borgara. Veittur styrkur er um 156 þús. kr. og tekur mið af íbúafjölda 67 ára og eldri.

  • Bæjarráð - 567 Lögð fram til kynningar úttektarskýrsla Earth Check vegna umhverfisvottunar Snæfellsness 2020.
  • Bæjarráð - 567 Lagður fram til kynningar samningur milli Slökkviliðs Grundarfjarðar og Grundarfjarðarhafnar um aðstoð slökkviliðs vegna mögulegra mengunaróhappa. Samningurinn var undirritaður 27. janúar sl.
  • Bæjarráð - 567 Lagður fram til kynningar samningur Slökkviliðs Grundarfjarðar og Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins um aðstoð vegna mengunaróhappa.

    Bæjarstjóri sagði frá því að slökkviliðsstjóri hafi lokið við endurskoðun brunavarnaráætlunar, sem gildir til fimm ára, og drög væru til yfirlestrar hjá henni. Áætlunin verður kynnt í bæjarráði og síðan send Húsnæðis- og mannvirkjastofnun til staðfestingar.

    Eldri brunavarnaáætlun var unnin 2015.

  • Bæjarráð - 567 Lagður fram til kynningar ársreikningur Golfklúbbsins Vestarrs vegna ársins 2020 ásamt fundargerð aðalfundar.

  • Bæjarráð - 567 Lagður fram til kynningar ársreikningur Artaks ehf. vegna ársins 2020.

6.Skólanefnd - 156

Málsnúmer 2104005FVakta málsnúmer

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða fundargerð 156. fundar skólanefndar.
  • Sigurður Gísli Guðjónsson skólastjóri og Eydís Lúðvíksdóttir fulltrúi kennara sátu fundinn undir þessum lið.
    Sigurður fór yfir starfsemi grunnskólans.
    Skólanefnd - 156 Skólastjóri sagði meðal annars frá eftirfarandi:

    * Árshátíð grunnskólans var haldin 24. mars sl., sama dag og "generalprufa". Árshátíðin var tekin upp og birt á vef skólans, þar sem ekki mátti halda hana þann dag sem til stóð, vegna samkomutakmarkana. * Grunnskólinn verður 60 ára í janúar á næsta ári. Skólinn mun minnast þeirra tímamóta og hefur hafið undirbúning að því.
    * Skólasund hefst í næstu viku.
    * Danskennsla verður í þar næstu viku, fyrir alla bekki grunnskólans og Eldhamradeildina.
    * Grænfánaverkefni grunnskólans er komið aftur í gang og byggist á þemum sem skólinn vinnur að. Í vetur hefur verið unnið með hnattrænt jafnrétti og náttúruvernd, ásamt mörgu öðru. Á döfinni eru m.a. gróðursetning og hreinsunardagur.
    * Heilsdagsskólinn er á nýju svæði, í hornstofunni nyrst á neðri hæð, sem og í náttúrufræðistofunni sem er samliggjandi. Gert var við hornstofuna, skipt um það og hún tekin í gegn á síðasta ári. Starfsemin kemur vel út á nýja staðnum.
    * Útskrift 10. bekkinga og skólalok grunnskóla verða 3. júní nk.
    * Undirbúningur er hafinn fyrir komandi skólaár. Starfsmannaviðtöl eru að klárast núna, þau eru árleg. Í framhaldi af þeim verður unnið skipulag komandi skólaárs.
    * Auglýst hefur verið eftir deildarstjóra/kennara í grunnskóla, í stað Maríu Óskar, sem hættir í vor.
    * Starfsmannakönnun Grundarfjarðarbæjar var gerð seint á síðasta ári og kom vel út. Niðurstöður lágu fyrir í janúar sl. og starfsmenn skólans hafa í framhaldi af því unnið tillögur að reglubundnum umbótaverkefnum, í nokkrum hópum.
    * Sameiginlegur starfsdagur verður fyrir kennara, stuðningsfulltrúa, skólaliða og annað starfsfólk grunnskóla á Snæfellsnesi, 18. ágúst nk. Yfirskrift dagsins er "Nám við hæfi! Getum við gert enn betur?" og er skipulagt af Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga, með sex erindum og vinnustofum.

    Rætt var um Mentor-kerfið og virkni þess.

    Farið var yfir drög skólastjóra að skóladagatali skólaársins 2021-2022, sem lá fyrir fundinum.
    Skóladagar nemenda skulu vera 180 á tímabilinu 20. ágúst til 10. júní. Gert er ráð fyrir skólasetningu mánudaginn 23. ágúst nk. og skólaslitum fimmtudaginn 2. júní 2022.
    Gert er ráð fyrir 5 starfsdögum kennara á starfstíma nemenda og 8 starfsdögum utan starfstíma nemenda. Skólastjóri mun leggja skóladagatal undir skólaráð, lögum samkvæmt.
    Skólanefnd samþykkir tillögu skólastjóra að skóladagatali.

    Sigurður fór yfir niðurstöður úr foreldrakönnun sem gerð er annað hvert ár. Niðurstöðurnar koma mjög vel út í það heila og er það ánægjulegt. Ávallt er unnið með niðurstöðurnar og þær nýttar til reglubundinna umbóta.

    Sigurði var þökkuð yfirferðin.
    Hér vék Eydís af fundi og var henni þakkað fyrir komuna.
    Bókun fundar Til máls tóku JÓK, RG, GS, BÁ og UÞS.
  • Sigurður skólastjóri gerði grein fyrir starfsemi leikskóladeildarinnar Eldhamra.
    Skólanefnd - 156 Sigurður fór yfir starfsemi Eldhamra.

    Níu nemendur eru nú á Eldhömrum og útskrifast af henni í vor.
    Eldhamrar eru leikskóladeild 5 ára barna, undir stjórn skólastjóra grunnskólans. Skólanámskrá þeirra tekur verulega mið af námskrá og skóladagatali yngstu nemenda grunnskóla. Börnin fá að fara í sérgreinar, eins og íþróttir í íþróttahúsi, heimilisfræði í heimilisfræðistofu, handmennt, tónlistarstund í tónlistarskólanum o.fl.

    Eldhamrar og Leikskólinn Sólvellir munu gera þá breytingu á gildandi skóladagatali að sumarleyfi þeirra hefjast viku síðar en gert var ráð fyrir. Eldhamrar hefja sumarleyfi mánudaginn 28. júní og Sólvellir mánudaginn 5. júlí.
    Tíu nemendur koma inn í deildina á komandi hausti.

    Skóladagatal Eldhamra var lagt fram, tvær útgáfur sem miða við mismunandi upphaf sumarleyfis 2022.
    Gert er ráð fyrir að Eldhamrar hefji störf 11. ágúst nk. og leggur skólastjóri til að sumarleyfi Eldhamra 2022 hefjist mánudaginn 27. júní. Gert er ráð fyrir 4 starfsdögum á skólaárinu.

    Skólanefnd samþykkir skóladagatalið og tillögu skólastjóra.

  • Sigurður skólastjóri sagði frá starfsemi Tónlistarskólans.
    Skólanefnd - 156 Fram kom m.a. hjá skólastjóra að:

    * Fyrir dyrum stendur hvatningarátak til að fjölga nemendum á blásturshljóðfæri.
    * Þemavika verður fyrstu tvær vikurnar í maí, með uppbroti náms.
    * Skólaslit Tónlistarskólans verða 19. maí nk. með vortónleikum. Fyrirkomulag tónleikanna ræðst þegar líður lengra að þeim og eru með fyrirvara um samkomutakmarkanir.

    Skóladagatal tónlistarskólans 2021-2022 var lagt fram, en það gerir ráð fyrir kennslu í 35,2 vikur. Gert er ráð fyrir að kennsla hefjist 25. ágúst og að skólaslit verði 19. maí 2022.

    Skólanefnd samþykkir skóladagatalið.

  • 6.4 1809028 Skólastefna
    Skólastefna Grundarfjarðarbæjar, sett í apríl 2014.

    Skólanefnd - 156 Í 5. gr. laga um grunnskóla segir: "Sveitarfélög setja almenna stefnu um grunnskólahald í sveitarfélaginu og kynna fyrir íbúum þess."
    Sambærilegt ákvæði er í lögum um leikskóla.

    Skólastefna Grundarfjarðarbæjar var samþykkt í apríl 2014. Í henni segir að meta skuli hvernig gangi að framfylgja henni, a.m.k. á tveggja ára fresti.

    Skólanefnd hefur áður rætt um að setja þurfi nánari aðgerðaáætlun á grunni skólastefnunnar, þannig að unnt sé að leggja mat á það hvernig til tekst með að framfylgja stefnunni. Hún er almennt orðuð eins og hún var sett fram 2014 og ætlunin var þá, að fylgja henni betur eftir með nánari aðgerðum. Skólastefnan er engu að síður að nýtast í skólastarfinu.

    Rætt var um heildarstefnumótun þá sem í gangi var hjá Grundarfjarðarbæ 2019-2020. Vinnan var lögð til hliðar tímabundið þegar samkomutakmarkanir stóðu sem hæst á síðasta ári, en verður lokið á næstu vikum. Bæjarstjóri sýndi og fór lauslega yfir efni og uppsetningu þeirrar vinnu. Út frá efnivið þeirrar stefnu, um skólahald og aðstöðu, er ætlunin að vinna nánar með atriði sem snúa að skólastarfsemi og menntun.

    Skólanefnd telur í ljósi þessarar stefnumótunar, þeirra verkefna sem unnið hefur verið að og stöðu skólamálanna, að ekki sé þörf á heildarendurskoðun skólastefnunnar á komandi ári í það minnsta. Hvað varðar skilgreiningu aðgerða/verkefna á grunni skólastefnu, þá verði til að byrja með unnið með það sem kemur út úr heildarstefnumótuninni, sem og þau umbótaverkefni sem skólarnir eru sjálfir með í vinnslu og/eða undirbúningi.

    Kl. 17:55 vék Sigurður Gísli af fundi og var honum þakkað fyrir komuna og góðar upplýsingar.

    Björg sagði frá helstu framkvæmdum sumarsins við húsnæði leik- og grunnskóla.
    Skipt verður um glugga í húsnæði grunnskólans, múrviðgerðir halda áfram og innanhússviðhald í framhaldinu. Árið 2017 var gerð úttekt á ástandi skólahúsnæðis (hluta) utanhúss og í framhaldinu ákvað bæjarstjórn utanhússframkvæmdir sem unnar hafa verið síðan. Í næstu viku verður ástandsúttektin endurmetin, af Eflu sem vann hana á sínum tíma, og staðan tekin á framkvæmdum.
    Sömuleiðis verður unnið mat á þörf fyrir endurbætur á húsnæði íþróttahúss, utanhúss.

    Björg sagði einnig frá því að Heilbrigðiseftirlit Vesturlands hefði komið í eftirlitsskoðun í leikskólann um miðjan febrúar. Eftirlitsskýrsla barst í mars. Þrjú minniháttar atriði voru til lagfæringa innanhúss og er þeim að hluta til lokið. Auk þess var lagt fyrir að gera við rennibraut í litla garðinum, en búið var að panta hluta rennibrautarinnar hjá söluaðila fyrir allnokkru. Rennibrautin var í framhaldinu tekin niður, til viðgerða.
    Fyrir dyrum stendur verðkönnun vegna endurbóta á girðingarneti og frekara viðhald á lóð er sumarverkefni. Í sumar verður nýi áhaldakofinn einnig málaður.

    Björg sagði frá því að bréf hefði borist frá foreldri, í lok mars, sem gerði athugasemdir við ástand leiktækja og lóðar leikskólans. Um er að ræða atriði sem þegar eru á framkvæmdalista sumarsins að mestu leyti.

  • Lagðar fram til kynningar upplýsingar um rannsóknir á kennaramenntun sem gerðar hafa verið, einkum í ljósi þeirra breytinga sem urðu þegar nám bæði grunnskólakennara og leikskólakennara var gert að 5 ára meistaranámi með lögum frá 2008.

    Skólanefnd - 156
  • Íslensku menntaverðlaunin er viðurkenning fyrir framúrskarandi skólastarf, menntaumbætur og þróunarverkefni. Markmið verðlaunanna er að auka veg menntaumbótastarfs og vekja athygli samfélagsins á metnaðarfullu og vönduðu skóla- og frístundastarfi með börnum og unglingum. Verðlaunin eru veitt í þremur aðalflokkum:

    1. Framúrskarandi skólastarf eða menntaumbætur
    2. Framúrskarandi kennari
    3. Framúrskarandi þróunarverkefni

    Að auki er veitt hvatning til einstaklings, hóps eða samtaka sem stuðlað hafa að menntaumbótum er þykja skara fram úr.
    Tilnefningar skulu hafa borist fyrir 1. júní ár hvert.

    Skólanefnd óskar eftir því að erindið verði sent skólastjórum til skoðunar með það í huga að tilnefningu verði skilað í ár.
    Jafnframt hvetur nefndin skólana til að hugsa um þróunarverkefni komandi skólaárs með þetta í huga.

    Skólanefnd - 156

7.Ársreikningur 2020 - síðari umræða

Málsnúmer 2103027Vakta málsnúmer

Jónas Gestur Jónasson lögg. endurskoðandi og Marinó Mortensen frá Deloitte sátu fundinn undir þessum lið.

Þeir kynntu ársreikning 2020, sem tekinn er til síðari umræðu, endurskoðunarskýrslu og samanburð á ársreikningum sveitarfélaga á Snæfellsnesi fyrir árið 2020.

Allir tóku til máls.

Ársreikningur Grundarfjarðarbæjar fyrir árið 2020 samþykktur samhljóða.

Gestir

  • Marinó Mortensen - mæting: 17:30
  • Jónas Gestur Jónasson - mæting: 17:30

8.Kosning í nefndir skv. B lið 47. gr. samþykktar um stjórn Grundarfjarðarbæjar

Málsnúmer 1806014Vakta málsnúmer


Kosning aðalmanns í menningarnefnd í stað Tómasar Loga Hallgrímssonar, sem beðist hefur lausnar frá nefndarstörfum.

Lagt til að í hans stað verði kjörinn Guðmundur Pálsson sem aðalmaður í menningarnefnd.

Samþykkt samhljóða.

9.Umhverfis- og auðlindaráðuneytið - Beiðni um tilnefningu fulltrúa í Breiðafjarðarnefnd

Málsnúmer 2105006Vakta málsnúmer


Lagt fram bréf umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, dags. 28. apríl sl., þar sem óskað er eftir tilnefningu eins fulltrúa fjögurra sveitarfélaga á Snæfellsnesi í Breiðafjarðarnefnd.

Samkvæmt lögum um vernd Breiðafjarðar nr. 54/1995 er Breiðafjarðarnefnd ráðherra til ráðgjafar um allt það er lýtur að framkvæmd laganna. Í nefndinni eiga sæti sjö menn, sem ráðherra skipar til fjögurra ára í senn. Í lögunum segir að sveitarfélög sem liggja að Breiðafirði tilnefni fjóra fulltrúa á þann hátt sem ráðherra ákveður í reglugerð. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Reglugerð hefur ekki verið sett, en sveitarfélögin fjögur á norðanverðu Snæfellsnesi hafa sameinast um einn fulltrúa og annan til vara.

Allir tóku til máls.

Lagt til að forseta og bæjarstjóra verði veitt umboð til að ganga frá tilnefningu sameiginlegs fulltrúa í samráði við fulltrúa annarra sveitarfélaga á norðanverðu Snæfellsnesi, sem og í samráði við önnur sveitarfélög við Breiðafjörð.

Samþykkt samhljóða.

10.Grundarfjarðarbær - Endurskoðuð brunavarnaáætlun

Málsnúmer 2105010Vakta málsnúmer

Slökkviliðsstjóri skal vinna brunavarnaáætlun á starfssvæði sínu og leggja fyrir sveitarstjórn, sbr. 13. gr. laga um brunavarnir nr. 75/2000, með síðari breytingum.

Lögð fram drög sem slökkviliðsstjóri hefur unnið að endurskoðaðri brunavarnaáætlun Slökkviliðs Grundarfjarðar sem gilda á fyrir árin 2021-2026.

Í 13. gr. laga um brunavarnir nr. 75/2000 með síðari breytingum segir:

Á hverju starfssvæði slökkviliðs skal liggja fyrir brunavarnaáætlun sem fengið hefur samþykki Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og viðkomandi sveitarstjórnar.
Brunavarnaáætlun skal endurskoða eigi síðar en að fimm árum liðnum frá því að hún hlaut samþykki. Markmið brunavarnaáætlunar er að tryggja að slökkvilið sé þannig mannað, skipulagt, útbúið tækjum, menntað og þjálfað að það ráði við þau verkefni sem því eru falin með lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim.

Brunavarnaáætlun Slökkviliðs Grundarfjarðar var upphaflega gefin út árið 2015 og liggja nú fyrir drög að endurskoðaðri áætlun. Hún er unnin í samræmi við leiðbeiningar sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) gefur út, um efni og gerð brunavarnaáætlana. Auk þess hafði slökkviliðsstjóri hliðsjón af nýlega samþykktum brunavarnaáætlunum annarra sveitarfélaga.

- Í endurskoðuðu útgáfunni hefur umfjöllun um fyrirtæki og stofnanir verið uppfærð, nokkur tekin út og ný sett inn. Miðað var við þau fyrirtæki sem voru með starfsleyfi í mars/apríl sl.
- Ítarlegra áhættumat er nú gert, en áhættumat er hluti af áætluninni og byggir á ramma sem HMS útvegar til útreiknings áhættu.
- Lagatilvísanir og ýmsar staðreyndir hafa verið uppfærðar.
- Sem dæmi um breytingar á umfjöllun um stofnanir Grundarfjarðarbæjar má nefna, að í áætluninni 2015 var athugasemd um að sjálfvirk brunaviðvörunarkerfi vantaði. Slík kerfi eru nú komin í allar helstu stofnanir/byggingar á vegum bæjarins, þ.e. grunnskóla/íþróttahús/tónlistarskóla, leikskóla, samkomuhús, Sögumiðstöð, Ráðhús og íbúðaklasa að Hrannarstíg 18.

Eftir yfirferð bæjarstjórnar mun slökkviliðsstjóri senda áætlunina til yfirlestrar og staðfestingar hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, í samræmi við lög um brunavarnir.

Bæjarstjórn þakkar fyrir vel unnin drög að endurskoðaðri brunavarnaáætlun.

Til máls tóku: JÓK og BÁ.

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða, fyrir sitt leyti, endurskoðaða brunavarnaáætlun Slökkviliðs Grundarfjarðar fyrir árin 2021-2026.

11.HMS Brunavarnarsvið - Samstarf á sviði brunavarna á Snæfellsnesi

Málsnúmer 2101025Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar gögn um úttekt á Slökkviliði Grundarfjarðar sem fram fór árið 2019, ásamt erindi um samstarf á sviði brunavarna.

12.Aðalskipulag Grundarfjarðar 2019 - 2039

Málsnúmer 1805034Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar staðfesting á Aðalskipulagi Grundarfjarðarbæjar 2019-2039, sem hefur tekið gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda.

Bæjarstjórn fagnar þessum áfanga.

Aðalskipulag Grundarfjarðar 2019-2039, uppdrætti, greinargerð og umhverfisskýrslu, er að finna hér á vef Grundarfjarðarbæjar:
https://www.grundarfjordur.is/is/thjonusta/skipulags-og-byggingamal/adalskipulag-grundarfjardarbaejar

13.Heilbrigðiseftirlit Vesturlands - endurskoðuð samþykkt

Málsnúmer 2103037Vakta málsnúmer


Lögð fram til kynningar endurskoðuð samþykkt Heilbrigðiseftirlits Vesturlands. Framhaldsaðalfundur verður haldinn fimmtudaginn 20. maí nk., kl. 14-16.

14.Eignarhaldsfélag Brunabótafél. Íslands - Styrktarsjóður 2021

Málsnúmer 2103048Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar umsókn bæjarins um styrk úr Styrktarsjóði EBÍ.

15.Umhverfisvottun Snæfellsness - Niðurstaða skoðanakönnunar, Mars 2021

Málsnúmer 2105001Vakta málsnúmer


Lagðar fram til kynningar niðurstöður úr rafrænni skoðanakönnun Umhverfisvottunar Snæfellsness frá desember sl. Könnun var síðast gerð árið 2012.

16.Skógræktin - Landsáætlun um skógrækt

Málsnúmer 2105007Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar drög að Landsáætlun um skógrækt 2021-2031 og umhverfismati hennar. Óskað er eftir umsögnum um drögin.

17.Landgræðslan - Landgræðsluáætlun 2021-2031, beiðni um umsögn

Málsnúmer 2105008Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar drög að Landgræðsluáætlun 2021-2031. Óskað er eftir umsögnum um drögin.

18.Náttúruhamfaratrygging Íslands - Boð á ársfund 20. maí 2021

Málsnúmer 2105009Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar boð á rafrænan ársfund Náttúruhamfaratryggingar Íslands sem haldinn verður 20. maí nk., kl. 12-13.

19.Breiðafjarðarnefnd - Fundargerðir 189. og 190. fundar

Málsnúmer 2101034Vakta málsnúmer

Lagðar fram til kynningar tvær fundargerðir Breiðafjarðarnefndar, fundargerð 189. fundar sem haldinn var 7. apríl sl. og fundargerð 190. fundar sem haldinn var 12. apríl sl.

20.Félagsmálanefnd Snæfellinga - Fundargerð 193. fundar

Málsnúmer 2105004Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 193. fundar félagsmálanefndar Snæfellinga sem haldinn var 4. maí sl.

21.Heilbrigðisnefnd Vesturlands - Fundargerð 167. fundar

Málsnúmer 2105005Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 167. fundar heilbrigðisnefndar Vesturlands, frá 5. maí sl.

22.Samband íslenskra sveitarfélaga - Fundargerð 897. fundar stjórnar

Málsnúmer 2105002Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 897. stjórnarfundar Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem haldinn var 30. apríl sl.

23.Hafnasamband Íslands - Fundargerð 434. fundar stjórnar

Málsnúmer 2105003Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 434. fundar Hafnasambands Íslands, sem haldinn var 30. apríl sl.

24.Samtök sjávarútvegssveitarfélaga - 63. fundargerð stjórnar og ársreikningur 2020

Málsnúmer 2105011Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 63. fundar stjórnar Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga, sem haldinn var 26. apríl sl., ásamt ársreikningi vegna ársins 2020.
Fundargerð lesin upp og samþykkt.

Fundi slitið - kl. 20:41.