18. fundur 03. febrúar 2025 kl. 10:00 - 11:45 í Ráðhúsi Grundarfjarðar
Nefndarmenn
  • Björg Ágústsdóttir (BÁ) formaður
  • Arnar Kristjánsson (AK)
  • Garðar Svansson (GS)
Starfsmenn
  • Hafsteinn Garðarsson (HG) hafnarstjóri
Fundargerð ritaði: Björg Ágústsdóttir bæjarstjóri
Dagskrá
Formaður setti fund og gengið var til dagskrár.

1.Grundarfjarðarhöfn - Framkvæmdir 2025

Málsnúmer 2411010Vakta málsnúmer

Farið var yfir stöðu byggingarframkvæmdar - bygging þjónustuhúss, sem er viðbygging við núverandi hafnarhús.



Lagðir fram endurbættir aðaluppdrættir og gluggateikningar.

Lagðir fram minnispunktar hafnarstjóra, með upplýsingum um hönnuði, byggingarstjóra, meistara, byggingarefni o.fl.

Einnig lögð fram tvö tilboð í smíði húseininga (sökklar, veggeiningar og tilheyrandi).



Skipulag og leyfismál:

Fyrir liggur heimild skipulagsfulltrúa til byggingaráforma, en áformin voru kynnt eigendum nærliggjandi húsa í desember sl.

Teikningar:

Farið yfir framlagðar teikningar að viðbyggingu, sem eru nánari útfærsla af teikningum sem lagðar voru fram á síðasta fundi í desember. Frágangi annarra teikninga er að mestu lokið.

Byggingateikningar eru unnar af W7 ehf., hönnunarstjóri er Sigurbjartur Loftsson.

Burðarþolsteikningar og neysluvatns-, loftræsiteikningar, hita- og fráveitulagnateikningar eru unnar af Verkfræðistofu Þráins og Benedikts (Hjörleifur Sigurþórsson), rafmagnsteikningar eru unnar af Rafmagnsverkfræðistofunni Tera slf. Brunahönnun er í vinnslu hjá Gunnari Kristjánssyni hjá Brunahönnun slf.

Hafnarstjórn gerir ekki athugasemdir við framlagða aðaluppdrætti, aðra en eina tillögu um smávægilega breytingu/viðbót á þaki yfir inngangi á vesturhlið (salernishluti). Hafnarstjóri fylgir því atriði eftir.

Teikningar voru sendar til yfirferðar hjá Heilbrigðiseftirliti Vesturlands, á undirbúningsstigi, og komu þaðan gagnlegar ábendingar sem hafðar eru til hliðsjónar við hönnun.

Byggingarstjórnun og eftirlit:

Byggingarstjóri var ráðinn frá Eflu, Fannar Þór Þorfinnsson. Meistarar að verkinu eru, sem búið er að semja við, Eiður Björnsson byggingarmeistari, Guðni Guðnason pípulagningarmeistari, Sigurður Þorkelsson rafvirkjameistari og Eymar Eyjólfsson múrarameistari.

Steinar Þór Alfreðsson, starfsmaður hafnar, verður með daglegt eftirlit á byggingarstigi.

Byggingarefni, framkvæmd, tilboð o.fl.:

Leitað var tilboða í forsteypta sökkla, veggeiningar og tilheyrandi, frá BM Vallá og Steypustöðinni.

Vegna breytinga er veðurkápa á austurhlið tekin niður að gangbraut og á veggjum anddyris á suðurhlið.

Hafnarstjórn samþykkir að taka hagstæðara tilboðinu í húseiningar með veðurkápu, sem er frá BM Vallá. Hafnarstjórn felur hafnarstjóra umboð til að undirrita samning við bjóðanda, BM Vallá, um verkið.

Gerð var verðkönnun um jarðvinnu, sem farin er af stað og langt komin. Tilboði var tekið frá Almennu umhverfisþjónustunni ehf.

Fyrir liggur tilboð í gluggasmíði, frá Gráborg ehf. (Eiður Björnsson), en gluggar verða smíðaðir í Grundarfirði og settir í húseiningar þegar þær hafa verið reistar.

Hafnarstjóri lætur vinna hugmyndir um frágang útisvæða.

Framkvæmdatími:

Jarðvinna er langt komin, púði undir sökkla er tilbúinn.
Uppsetning sökkla er áætluð að geti orðið fyrir miðjan febrúar, fer eftir veðri, en "púði" er tilbúinn.
Uppsetning húseininga er áætluð í fyrri hluta marsmánaðar.

Gert er ráð fyrir að húsið verði tilbúið til notkunar, a.m.k. salernishlutinn, í byrjun komandi sumars.

Umboð:

Með hliðsjón af framangreindu og í samræmi við fjárhagsáætlun ársins, felur hafnarstjórn hafnarstjóra umboð til að ganga til samninga um smíði húseininga, gluggasmíði, hönnun og aðra verkþætti sem tilheyra byggingunni. Samþykkt samhljóða.

2.Hafnarsvæði suður - skipulagsforsendur og breytingar

Málsnúmer 2406008Vakta málsnúmer

Deiliskipulagsvinna fyrir suðurhluta hafnarsvæðis er í vinnslu. Gert er ráð fyrir landfyllingu, ca. 5 hektara svæði, í samræmi við gildandi aðalskipulag.



Í þessari vinnu er gert ráð fyrir 100 metra viðlegukanti nyrst á svæðinu, en með þeim áformum er jafnframt gert ráð fyrir að falla frá lengingu Miðgarðs. Ennfremur gert ráð fyrir vegi eftir landfyllingunni, sem tengir hafnarsvæði (norður) við þjóðveginn austan við þéttbýlið.



Samhliða fer fram undirbúningsvinna vegna leyfisumsóknar um efnistöku af hafsbotni.

3.Grundarfjarðarhöfn - Komur skemmtiferðaskipa

Málsnúmer 2110004Vakta málsnúmer

Farið yfir stöðuna.

Í dag liggja fyrir 75 bókaðar komur skemmtiferðaskipa sumarið 2025, þar af 30 komur á ankeri.

Einnig hafa verið afbókanir, sem eiga sér skýringu í breytingum á álagningu innviðagjalds 2025, t.d. er einn aðili alveg farinn út, sem hefur verið með leiðangursskip í hringsiglingum um Ísland, og hefur hann afbókað 8 komur hjá okkur 2025 og 6 komur 2026.

Fyrir árið 2026 eru komnar yfir 80 bókanir, eftir 10 afbókanir.
Fyrir árið 2027 liggja fyrir 22 bókanir og 7 bókanir fyrir 2028.

Rætt um þjónustu á svæðinu og samtal við þjónustuaðila og aðra hagsmunaaðila.

Hafnarstjórn ræddi einnig um umferð um göngustíga í nágrenni bæjarins, sem gestir skemmtiferðaskipa nota mikið - um framkvæmdir og leiðir til úrbóta.

4.Ferðamálastofa - Jafnvægi í umferð skemmtiferðaskipa eftir mikið vaxtarskeið

Málsnúmer 2501022Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar samantekt Ferðamálastofu, frá nóvember 2024.
Lokið við fundargerð að loknum fundi og rafræns samþykkis aflað hjá fundarmönnum.

Fundi slitið - kl. 11:45.