20. fundur 19. ágúst 2025 kl. 16:15 - 18:15 í Ráðhúsi Grundarfjarðar
Nefndarmenn
  • Björg Ágústsdóttir (BÁ) formaður
  • Arnar Kristjánsson (AK)
  • Garðar Svansson (GS)
Starfsmenn
  • Hafsteinn Garðarsson (HG) hafnarstjóri
Fundargerð ritaði: Björg Ágústsdóttir bæjarstjóri
Dagskrá
Formaður setti fund, gengið var til dagskrár.

1.Grundarfjarðarhöfn - Deiliskipulag suðurhluta hafnarsvæðis

Málsnúmer 2508010Vakta málsnúmer

Í framhaldi af eldra máli sem er "Hafnarsvæði suður - skipulagsforsendur og breytingar", málsnúmer 2406008, er lögð fram undir þessu máli verkefnistillaga Alta, dags. 7. ágúst 2025, um vinnu við deiliskipulag suðursvæðis hafnarinnar.



Tillagan er einnig til umræðu hjá skipulags- og umhverfisnefnd 20. ágúst 2025.



Halldóra Hreggviðsdóttir skipulagsráðgjafi hjá Alta er gestur fundarins undir þessum lið gegnum fjarfundarbúnað.

Í verkefninu felst að gera deiliskipulag fyrir nýtt þróunarsvæði Grundarfjarðarhafnar, þ.e. stækkun hafnarsvæðisins sunnan Miðgarðs yfir að Suðurgarði og að honum meðtöldum. Einnig fyrir svæði í kringum hafnarvog og hafnarhús, þar sem einnig er tekið á móti ferðafólki. Gert er ráð fyrir vegi eftir landfyllingunni, sem tengir hafnarsvæði (norður) við þjóðveginn austan við þéttbýlið. Þessi áform eru í samræmi við gildandi aðalskipulag.

Halldóra fór yfir verkefnistillöguna. Ennfremur fór hún yfir framlagða tillögu að skipulagslýsingu fyrir deiliskipulagið og gerði grein fyrir hvernig deiliskipulagstillagan, ásamt umhverfismati hennar, verður unnin. Farið var yfir fyrirkomulag á samráði og kynningu.

Fyrir liggur fohönnun Vegagerðarinnar að stækkun hafnarsvæðisins með nýjum bryggjukanti, sunnan Miðgarðs. Byggt verður m.a. á þeirri forhönnun, á fyrirliggjandi deiliskipulagsforsögn fyrir svæðið og á niðurstöðum úr vinnu sem fram hefur farið síðustu mánuði.

Samkvæmt 3. gr. hafnarreglugerðar fyrir Grundarfjarðarhöfn gerir hafnarstjórn tillögur til bæjarstjórnar um skipulagsmál á hafnarsvæðinu, enda hafi tillögurnar fengið umfjöllun skipulagsnefndar.

Hafnarstjórn samþykkir framlagða verkefnistillögu. Hafnarstjórn samþykkir einnig framlagða skipulagslýsingu deiliskipulagsins og leggur til við skipulags- og umhverfisnefnd og bæjarstjórn að hún verði samþykkt til auglýsingar skv. 40. gr. skipulagslaga.

Hafnarstjórn felur hafnarstjóra, í samvinnu við skipulagsfulltrúa, að vinna áfram að verkefninu.

Gestir

  • Halldóra Hreggviðsdóttir, Alta - mæting: 16:15

2.Grundarfjarðarhöfn - Framkvæmdir 2025

Málsnúmer 2411010Vakta málsnúmer

Rætt um hafnarframkvæmdir og bílamál.

Hafnarstjóri ræddi um framkvæmdir við "krikann" við Norðurgarð, sbr. bókun hafnarstjórnar á 19. fundi sínum þann 27. júní sl.
Til viðbótar við bókun þess fundar um krikann, samþykkir hafnarstjórn að í undirbúningi sé einnig höfð áætlun um flotbryggju og stöpul, eins og hugmyndir hafa gert ráð fyrir að sett yrði upp milli Norðurgarðs og Miðgarðs, til viðbótar við þá flotbryggju sem fyrir er þar.

Hafnarstjóri ræddi um þörf á endurnýjun vinnubifreiðar hafnarinnar. Kominn er tími á endurnýjun, en bíllinn hefur síðan sl. haust einnig verið notaður við saltdreifingu (hálkuvarnir) á götum bæjarins. Hafnarstjórn samþykkir að farið verði í að leita að hentugri bíl.

3.UMFG-Skíðaráð, vegna Skíðasvæði Snæfellsness - Umsókn um styrk

Málsnúmer 2508019Vakta málsnúmer

Lagt fram til afgreiðslu erindi dags. 11. ágúst 2025 frá Skíðaráði v. Skíðasvæði Snæfellsness.





Óskað er eftir fjárstyrk úr hafnarsjóði, til fjármögnunar á byggingu skíðaskála/aðstöðuhúss.

Hafnarsjóður hefur hingað til ekki veitt fjárstyrki, nema eins og nýlega með þátttöku í söfnun fyrir kaupum á nýja björgunarskipinu Björgu, fyrir Breiðafjarðarsvæðið, og var sú afgreiðsla gerð að tilhlutan bæjarstjórnar, í samstarfi við aðrar bæjarstjórnir á norðanverðu Snæfellsnesi.

Hafnarstjórn telur verkefnið jákvætt, en telur það falla utan hlutverks og heimilda hafnarsjóðs og því sé hafnarstjórn ekki fært að verða við erindinu.

Gengið frá fundargerð að loknum fundi og rafræns samþykkis aflað frá fundarmönnum.

Fundi slitið - kl. 18:15.