Málsnúmer 2508010

Vakta málsnúmer

Hafnarstjórn - 20. fundur - 19.08.2025

Í framhaldi af eldra máli sem er "Hafnarsvæði suður - skipulagsforsendur og breytingar", málsnúmer 2406008, er lögð fram undir þessu máli verkefnistillaga Alta, dags. 7. ágúst 2025, um vinnu við deiliskipulag suðursvæðis hafnarinnar.



Tillagan er einnig til umræðu hjá skipulags- og umhverfisnefnd 20. ágúst 2025.



Halldóra Hreggviðsdóttir skipulagsráðgjafi hjá Alta er gestur fundarins undir þessum lið gegnum fjarfundarbúnað.

Í verkefninu felst að gera deiliskipulag fyrir nýtt þróunarsvæði Grundarfjarðarhafnar, þ.e. stækkun hafnarsvæðisins sunnan Miðgarðs yfir að Suðurgarði og að honum meðtöldum. Einnig fyrir svæði í kringum hafnarvog og hafnarhús, þar sem einnig er tekið á móti ferðafólki. Gert er ráð fyrir vegi eftir landfyllingunni, sem tengir hafnarsvæði (norður) við þjóðveginn austan við þéttbýlið. Þessi áform eru í samræmi við gildandi aðalskipulag.

Halldóra fór yfir verkefnistillöguna. Ennfremur fór hún yfir framlagða tillögu að skipulagslýsingu fyrir deiliskipulagið og gerði grein fyrir hvernig deiliskipulagstillagan, ásamt umhverfismati hennar, verður unnin. Farið var yfir fyrirkomulag á samráði og kynningu.

Fyrir liggur fohönnun Vegagerðarinnar að stækkun hafnarsvæðisins með nýjum bryggjukanti, sunnan Miðgarðs. Byggt verður m.a. á þeirri forhönnun, á fyrirliggjandi deiliskipulagsforsögn fyrir svæðið og á niðurstöðum úr vinnu sem fram hefur farið síðustu mánuði.

Samkvæmt 3. gr. hafnarreglugerðar fyrir Grundarfjarðarhöfn gerir hafnarstjórn tillögur til bæjarstjórnar um skipulagsmál á hafnarsvæðinu, enda hafi tillögurnar fengið umfjöllun skipulagsnefndar.

Hafnarstjórn samþykkir framlagða verkefnistillögu. Hafnarstjórn samþykkir einnig framlagða skipulagslýsingu deiliskipulagsins og leggur til við skipulags- og umhverfisnefnd og bæjarstjórn að hún verði samþykkt til auglýsingar skv. 40. gr. skipulagslaga.

Hafnarstjórn felur hafnarstjóra, í samvinnu við skipulagsfulltrúa, að vinna áfram að verkefninu.

Gestir

  • Halldóra Hreggviðsdóttir, Alta - mæting: 16:15

Skipulags- og umhverfisnefnd - 270. fundur - 20.08.2025

Lögð fram verkefnistillaga dags 7. ágúst 2025 um vinnu við deiliskipulag suðursvæðis hafnarinnar. Ennfremur tillaga að skipulagslýsingu fyrir deiliskipulagið.



Í verkefninu felst að gera deiliskipulag fyrir nýtt þróunarsvæði Grundarfjarðarhafnar, þ.e. stækkun hafnarsvæðisins sunnan Miðgarðs yfir að Suðurgarði og að honum meðtöldum. Einnig fyrir svæði í kringum hafnarvog og hafnarhús, þar sem einnig er tekið á móti ferðafólki. Gert er ráð fyrir vegi eftir landfyllingunni, sem tengir hafnarsvæði (norður) við þjóðveginn austan við þéttbýlið. Þetta yrði þjóðvegur niður að höfninni. Þessi áform eru í samræmi við gildandi aðalskipulag.



Hafnarstjórn er verkkaupi og fundaði í gær, 19. ágúst 2025, um tillöguna. Hafnarstjórn samþykkti verkefnistillögu og skipulagslýsingu deiliskipulagsins og leggur til við skipulags- og umhverfisnefnd og bæjarstjórn að tillagan verði samþykkt til auglýsingar skv. 40. gr. skipulagslaga.



Halldóra Hreggviðsdóttir skipulagsráðgjafi hjá Alta er gestur fundarins undir þessum lið gegnum fjarfund.

Halldóra fór yfir verkefnistillöguna. Ennfremur fór hún yfir framlagða tillögu að skipulagslýsingu fyrir deiliskipulagið. Hún gerði einnig grein fyrir hvernig deiliskipulagstillaga, ásamt umhverfismati hennar, verður unnin. Farið var yfir fyrirkomulag á samráði og kynningu.

Fyrir liggur forhönnun Vegagerðarinnar að stækkun hafnarsvæðisins með nýjum bryggjukanti, sunnan Miðgarðs. Byggt verður m.a. á þeirri forhönnun, á fyrirliggjandi deiliskipulagsforsögn fyrir svæðið og á niðurstöðum úr vinnu sem fram hefur farið síðustu mánuði.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir fyrir sitt leyti framlagða verkefnistillögu. Nefndin samþykkir einnig framlagða skipulagslýsingu og leggur til við bæjarstjórn að hún verði samþykkt til auglýsingar skv. 40. grein skipulagslaga. Ennfremur er skipulagsfulltrúa falið að vinna áfram að verkefninu í samstarfi við hafnarstjóra.

Gestir

  • Halldóra Hreggviðsdóttir, skipulagsráðgjafi Alta - mæting: 16:15

Skipulags- og umhverfisnefnd - 271. fundur - 09.09.2025

Arnar Kristjánsson fulltrúi í hafnarstjórn kom inná fundinn í fjarfundi undir þessum lið og sat einnig fundinn undir dagskrárlið nr. 4.



Í aðalskipulagi hafnarsvæðis hefur í áratugi verið gert ráð fyrir nýrri vegtengingu frá þjóðvegi 54 neðan Grafarbæja og að norðurhluta hafnarsvæðis. Í yfirstandandi skipulagsvinnu hafnarinnar hefur einmitt komið fram þörf fyrir að tengja betur saman umferðarleiðir á hafnarsvæðinu við þjóðveg og horfa á aðgengi og öryggismál í víðara samhengi en upphaflega var gert ráð fyrir.



Verið er að skipuleggja nýja þjóðbraut inn á hafnarsvæðið og samhliða aukinni bílaumferð þarf að tryggja öryggi skipagesta sem fara um hafnarsvæðið á hverju sumri, iðulega samhliða löndun og annarri starfsemi.



Því er talið nauðsynlegt að skipuleggja aðgengi á hafnarsvæðinu í heild allt frá Norðurgarði að Suðurgarði, þannig að deiliskipulagsvinnan gefi færi á að ná heildarmynd af fyrirkomulagi mannvirkja, leiðakerfis og umferðarflæðis innan hafnarsvæðisins.



Af þessum sökum eru lögð til breytt mörk skipulagssvæðisins frá síðustu afgreiðslu, þar sem skipulagslýsing var samþykkt af hafnarstjórn 19. ágúst sl., skipulags- og umhverfisnefnd 20. ágúst sl. og bæjarráði 28. ágúst sl.



Lagt er til að undir deiliskipulagssvæði suður, sem nú er í vinnslu falli Norðurgarður og jafnframt hluti af lóðinni að Nesvegi 4, skv. nánari afmörkun sem fylgir. Sjá einnig mál nr. 4 á dagskrá fundarins.



Ennfremur er lögð til breyting á heiti deiliskipulagsins (og þar með málsins í One), sem verði "Deiliskipulag Grundarfjarðarhafnar".



Skipulagslýsingin, með þessum breytingum á mörkum svæðisins og heiti, er lögð fyrir nefndina til samþykktar.



Herborg Árnadóttir og Halldóra Hreggviðsdóttir, skipulagsráðgjafar frá Alta, eru í fjarfundi undir þessum lið. Herborg fór yfir tillöguna og rætt var um hana.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir að mörkum skipulagssvæðisins verði breytt í samræmi við framangreint og að hluti af „Deiliskipulagi Framness austan Nesvegar“ (mál 2301003) sameinist deiliskipulagi suðurhluta hafnarsvæðisins undir breyttu heiti, þ.e. Deiliskipulag Grundarfjarðarhafnar.

Jafnframt samþykkir nefndin fyrir sitt leyti framlagða skipulagslýsingu og leggur til við bæjarstjórn að hún verði samþykkt til auglýsingar skv. 40. gr. skipulagslaga.

Ennfremur er skipulagsfulltrúa falið að vinna áfram að verkefninu, í samstarfi við hafnarstjóra.

Fulltrúar úr hafnarstjórn, Arnar og Björg, styðja þessa tillögu.

Gestir

  • Halldóra Hreggviðsdóttir, ráðgjafi Alta, í fjarfundi
  • Arnar Kristjánsson fulltrúi í hafnarstjórn, í fjarfundi - mæting: 15:40
  • Herborg Árnadóttir, Alta, í fjarfundi

Hafnarstjórn - 22. fundur - 03.11.2025

Fyrir fundinum liggja drög að vinnslutillögu deiliskipulags Grundarfjarðarhafnar, greinargerð og uppdráttur, dags. 30. október 2025.

Farið var yfir drög að deiliskipulagi á vinnslustigi til rýni.
Góðar umræður voru á fundinum.

Hafnarstjórn var almennt sátt við drögin en bað um eftirfarandi breytingar:

- Að sleppa landfyllingu austan við Suðurgarð. Sú stækkun kallaði á meiri skoðun og mögulega samþættingu við enn frekari stækkun til framtíðar. Verði landfyllingin stækkuð geti lóðin austan við Suðurgarð verið til trafala.
- Skoða þurfi vel samþættingu við aðliggjandi lóðir við Grundargötu.
- Sameina skuli 4 lóðir við Miðgarð og nýja hafnarbakkann í tvær.
- Taka skuli bílastæði við Norðurgarð.

Auk þess var farið yfir örfá atriði til viðbótar sem Alta mun lagfæra.

Niðurstaða fundar:

- Hafnarstjórn samþykkir að senda Deiliskipulag Grundarfjarðarhafnar með framangreindum lagfæringum til skipulags- og umhverfisnefndar og leggur til að nefndin taki það til kynningar á vinnslustigi skv. 40. gr. skipulagslaga, á fund nefndarinnar 10. nóvember. Í framhaldi verði vinnslutillagan lögð fyrir bæjarstjórn til samþykktar til auglýsingar.
- Haldnir verði tveir samráðsfundir 17. nóvember um vinnslutillöguna. Sá fyrri með fulltrúum úr atvinnulífinu og sá síðari með íbúum.
- Ráðgjafar taka saman hagaðilagreiningu vegna samráðsfundanna í samstarfi við hafnarstjórn, bæjarstjóra, skipulagsfulltrúa, verkefnisstjóra skipulags- og umhverfismála og forstöðumann menningar- og markaðsmála.

Gestir

  • Halldóra Hreggviðsdóttir, ráðgjafi, Alta, í fjarfundi - mæting: 15:00
  • Herborg Árnadóttir, ráðgjafi, Alta, í fjarfundi - mæting: 15:00

Skipulags- og umhverfisnefnd - 272. fundur - 10.11.2025

Skipulagslýsing fyrir nýtt Deiliskipulag Grundarfjarðarhafnar var samþykkt á 271. fundi skipulags- og umhverfisnefndar 9. sept. sl. og á 301. fundi bæjarstjórnar 11. september sl., í samræmi við 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Skipulagslýsingin var auglýst 14. til 31. október sl.



Um er að ræða 24,9 hektara svæði sem nær yfir Norðurgarð, Miðgarð og Suðurgarð hafnarinnar, auk aðliggjandi landsvæðis, en einnig er gert ráð fyrir stækkun hafnarsvæðisins og nýrri vegtengingu við þjóðveg 54.



Lögð er fram samantekt á umsögnum sem bárust á auglýsingatíma, en alls bárust níu umsagnir, allar frá opinberum umsagnaraðilum. Vakin er athygli á því að umsögn Skipulagsstofnunar hefur ekki borist og hefur stofnunin sent tilkynningu um tafir á afgreiðslu til 17. nóvember nk.

Herborg Árnadóttir og Halldóra Hreggviðsdóttir, skipulagsráðgjafar hjá Alta eru gestir fundarins í fjarfundi undir dagskrárliðum 1, 2 og 3 vegna hafnarinnar. Auk þess sitja fundinn undir sömu dagskrárliðum bæjarfulltrúarnir Sigurður Gísli Guðjónsson, í fjarfundi, og Garðar Svansson, sem jafnframt er fulltrúi í hafnarstjórn.

Skipulags- og umhverfisnefnd hefur farið yfir framkomnar umsagnir. Ekki er þörf á að svara umsögnum sem berast við skipulagslýsinguna. Umsagnir voru hins vegar nýttar við frekari mótun fyrirliggjandi tillögu að deiliskipulagi á vinnslustigi, sbr. næsta dagskrárlið.

Umsögn Skipulagsstofnunar hefur ekki borist en það kemur þó ekki í veg fyrir afgreiðslu málsins að mati skipulags- og umhverfisnefndar, þar sem hægt verður bregðast við ábendingum Skipulagsstofnunar við gerð endanlegrar skipulagstillögu til auglýsingar skv. 41. gr. skipulagslaga.

Gestir

  • Sigurður Gísli Guðjónsson, formaður bæjarráðs, í fjarfundi - mæting: 15:00
  • Herborg Árnadóttir, ráðgjafi, Alta, í fjarfundi - mæting: 15:00
  • Garðar Svansson, bæjarfulltrúi og fulltrúi í hafnarstjórn - mæting: 15:00
  • Halldóra Hreggviðsdóttir, skipulagsráðgjafi, Alta, í fjarfundi - mæting: 15:00

Skipulags- og umhverfisnefnd - 272. fundur - 10.11.2025

Lögð er fram tillaga að Deiliskipulagi Grundarfjarðarhafnar á vinnslustigi, dags. 7. nóvember 2025, til meðferðar hjá skipulags- og umhverfisnefnd, ásamt greinargerð með tilkynningu til Skipulagsstofnunar til ákvörðunar um matsskyldu stækkunar hafnarsvæðisins, skv. lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021, sem er fylgigagn með deiliskipulaginu.



Tillagan hefur verið afgreidd af hafnarstjórn, sem hefur jafnframt tekið þátt í gerð tillögunnar.



Skipulags- og umhverfisnefnd hefur fjallað um tillöguna og leggur til við bæjarstjórn að hún samþykki að vinnslutillagan verði auglýst skv. 40. gr. skipulagslaga.

Mánudaginn 17. nóvember nk. eru fyrirhugaðir þrír kynningar- og samráðsfundir um Deiliskipulag Grundarfjarðarhafnar á vinnslustigi; opinn fundur með íbúum og öðrum áhugasömum, opinn fundur með fulltrúum fyrirtækja og atvinnulífs og auk þess sérstakur fundur með eigendum húsa sem liggja að fyrirhugaðri landfyllingu og nýrri vegtengingu innan deiliskipulagssvæðisins sunnanverðs.

Rætt var um heiti á nýrri götu, sem einnig er væntanlegur þjóðvegur sem vegtenging við hafnarsvæðið. Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til að hafnarstjórn verði falið að finna heiti á nýju götuna, enda liggur hún um hafnarsvæðið.

Gestir

  • Herborg Árnadóttir, ráðgjafi, Alta, í fjarfundi - mæting: 15:00
  • Halldóra Hreggviðsdóttir, ráðgjafi Alta, í fjarfundi - mæting: 15:00
  • Sigurður Gísli Guðjónsson, formaður bæjarráðs, í fjarfundi - mæting: 15:00
  • Garðar Svansson, bæjarfulltrúi og fulltrúi í hafnarstjórn - mæting: 15:00

Hafnarstjórn - 23. fundur - 13.11.2025

Lögð fram endurbætt gögn vinnslutillögu deiliskipulags Grundarfjarðarhafnar, sem samþykkt voru af hafnarstjórn á 22. fundi hennar 3. nóvember sl., þ.e. greinargerð og uppdráttur með smávægilegum endurbótum sem gerðar voru eftir fund hafnarstjórnar og skipulags- og umhverfisnefndar 10. nóv. sl.





Hafnarstjórn - 24. fundur - 25.11.2025

Lagt fram vinnuskjal, samantekt um efni þriggja samráðsfunda um tillögu á vinnslustigi um deiliskipulag Grundarfjarðarhafnar, sem haldnir voru 17. nóvember sl. í samkomuhúsinu.



Einnig lagðir fram minnispunktar með tillögum að áherslum og mögulegum breytingum, tekið saman eftir samráðsfundina og við frekari skoðun og úrvinnslu á vinnslustigi. Minnispunktarnir eru nokkurs konar "gátlisti" um þau atriði sem taka þarf til umræðu, við gerð skipulagstillögu um svæðið.





Hafnarstjórn fór yfir framlögð gögn með skipulagsráðgjafa og skipulagsfulltrúa.

Hafnarstjórn ræddi um útfærslur í skipulaginu og bætti við atriðum inní lista yfir "tillögur að áherslum og mögulegum breytingum".

Hafnarstjórn leggur til að fulltrúar úr skipulags- og umhverfisnefnd, bæjarfulltrúar og hafnarstjórn, hittist á vinnufundi um tillögugerðina, eftir að auglýsingatíma og umsagnarfresti um vinnslutillöguna lýkur, þ.e. eftir 1. des. nk. Tillaga um dagsetningu er mánudaginn 8. desember nk., fyrir fund skipulags- og umhverfisnefndar sem haldinn verður þann dag.

Ennfremur stefnir hafnarstjórn að því að hittast á fundi 2. desember nk. til undirbúnings og rýna þarfir á hafnarsvæði og útfærslur í skipulagstillögu. Þá munu einnig liggja fyrir allar umsagnir/athugasemdir um vinnslutillöguna.

Gestir

  • Sigurður Valur Ásbjarnarson skipulagsfulltrúi, í fjarfundi
  • Halldóra Hreggviðsdóttir, ráðgjafi Alta, í fjarfundi

Bæjarráð - 648. fundur - 28.11.2025

Lagðir fram til kynningar minnispunktar (vinnuskjal) úr umræðum á samráðsfundum sem haldnir voru 17. nóv. sl. um vinnslutillögu fyrir deiliskipulag hafnarsvæðis Grundarfjarðarhafnar. Einnig minnispunktar um atriði sem lagt er til að verði skoðuð nánar, í tengslum við gerð deiliskipulags hafnarsvæðis (vinnuskjal).



Hafnarstjórn hefur lagt til að mánudag 8. des. nk. verði sameiginlegur vinnufundur hafnarstjórnar, skipulags- og umhverfisnefndar og bæjarfulltrúa - um deiliskipulagstillögu hafnarsvæðis. Áður en að þeim fundi komi, verði framangreindir minnispunktar sendir fulltrúum í skipulags- og umhverfisnefnd og bæjarstjórn.



Bæjarráð tekur undir tillögu hafnarstjórnar um að koma á sameiginlegum fundi skipulags- og umhverfisnefndar, hafnarstjórnar og bæjarfulltrúa þann 8. desember nk.

Hafnarstjórn - 25. fundur - 04.12.2025

Lögð fram eftirfarandi vinnugögn:



- Minnispunktar vinnufundar með Vegagerðinni Vestursvæði sem fram fór 1. desember sl. Þar var farið yfir ýmis atriði tengd þjóðvegi og umferð í skipulagstillögu, eins og hún var lögð fram á vinnslustigi.



- Samantekt skilaboða af samráðsfundum um vinnslutillögu 17. nóv. sl., en þetta skjal var einnig lagt fram á síðasta fundi hafnarstjórnar.



- Vinnuskjal með tillögum að áherslum og breytingum eftir samráðsfundi, fundi hafnarstjórnar og aðra vinnu að tillögunni.



- Auk þess birt gögn á Skipulagsgátt, umsagnir og athugasemdir sem bárust á kynningartíma vinnslutillögu.



Hafnarstjórn fór yfir framlögð gögn með skipulagsráðgjafa.

Farið lauslega yfir þær umsagnir og athugasemdir sem bárust, en helstu skilaboðin verða tekin saman í yfirlit fyrir fund skipulags- og umhverfisnefndar 8. des. nk.

Hafnarstjórn ræddi um helstu efnisatriði í skipulagstillögu, s.s. um fjölda og stærð lóða, fyrirkomulag þeirra og skilmála, um þarfir á hafnarsvæði, um tilhögun vegar og fleira.

Vinna þessa fundar verður nýtt til frekari útfærslu skipulagstillögu.

Mánudaginn 8. desember nk. er stefnt að sameiginlegri umræðu hafnarstjórnar, bæjarfulltrúa og skipulags- og umhverfisnefndar um þetta mál, og verður það hluti af dagskrá fundar skipulags- og umhverfisnefndar.

Gestir

  • Halldóra Hreggviðsdóttir, ráðgjafi Alta, í fjarfundi - mæting: 16:30

Skipulags- og umhverfisnefnd - 273. fundur - 08.12.2025

Á fundi sínum 13. nóvember 2025 samþykkti bæjarstjórn bókun skipulags- og umhverfisnefndar frá 10. nóvember 2025, um að auglýsa tillögu um nýtt deiliskipulag Grundarfjarðarhafnar til kynningar á vinnslustigi skv. 40. gr. skipulagslaga. Einnig var samþykkt greinargerð sem lýsir helstu umhverfisáhrifum stækkunar hafnarsvæðisins, sem fylgigagn með deiliskipulaginu. Greinargerðin er fylgigagn með tilkynningu um stækkunina til Skipulagsstofnunar skv. lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana.



Deiliskipulagsvæðið er 24,9 hektarar og nær yfir Norðurgarð, Miðgarð og Suðurgarð hafnarinnar, ásamt aðliggjandi landsvæði, en auk þess er gert ráð fyrir stækkun hafnarsvæðisins með landfyllingu og nýrri vegtengingu við þjóðveg 54. Tillagan er í samræmi við gildandi Aðalskipulag Grundarfjarðarbæjar.



Vinnslutillagan var auglýst í Skipulagsgátt á tímabilinu 14. nóvember til og með 1. desember sl. Vinnslutillagan var einnig birt á heimasíðu Grundarfjarðarbæjar og í héraðsfréttablaðinu Skessuhorni, auk þess sem útprentuð gögn hennar lágu frammi til sýnis í Ráðhúsi og Sögumiðstöð/bókasafni.



Haldnir voru þrír fundir með íbúum og hagsmunaaðilum um tillöguna 17. nóvember sl. í Samkomuhúsinu, tveir fundanna voru opnir en einn var lokaður fundur með íbúum við innanverða Grundargötu og Grafarbæjum.



Lögð eru fram eftirfarandi gögn:



- Umsagnir og athugasemdir sem bárust gegnum Skipulagsgátt, og samantekt/yfirlit um helstu skilaboð þessara umsagna/athugasemda. Einnig er vísað í Skipulagsgáttina þar sem sjá má allar umsagnir og athugasemdir í heild sinni.



- Vinnuskjal, samantekt skilaboða af þremur samráðsfundum um tillögu á vinnslustigi um deiliskipulag Grundarfjarðarhafnar, sem haldnir voru 17. nóvember sl. í samkomuhúsinu.



- Vinnuskjal; minnispunktar með tillögum að áherslum og mögulegum breytingum á skipulagstillögu, tekið saman eftir samráðsfundina og við frekari skoðun og úrvinnslu á vinnslustigi. Minnispunktarnir eru nokkurs konar "gátlisti" um þau atriði sem taka þarf til umræðu, við gerð skipulagstillögu um svæðið.



- Minnispunktar af fundi með Vegagerðinni 1. des. sl. um vinnslutillöguna.



Bæjarfulltrúum og hafnarstjórn var boðið að sitja fundinn undir þessum lið og taka þátt í umræðum.

Fundinn sitja Jósef Ó. Kjartansson forseti bæjarstjórnar, Arnar Kristjánsson fulltrúi í hafnarstjórn, Garðar Svansson, fulltrúi í hafnarstjórn og bæjarfulltrúi, Hafsteinn Garðarsson hafnarstjóri og Pálmi Jóhannsson forstöðumaður menningar- og markaðsmála, sem einnig vinnur fyrir Grundarfjarðarhöfn, en hann sat í fjarfundi.

Halldóra Hreggviðsdóttir og Herborg Árnadóttir skipulagsráðgjafar hjá Alta eru gestir fundarins í fjarfundi.

---

Farið var yfir umsagnir og athugasemdir sem bárust í Skipulagsgátt og einnig vísað í umræður á samráðsfundum.
Ekki er nauðsynlegt að bregðast formlega við ábendingum á þessu skipulagsstigi, þar sem tillagan var kynnt á vinnslustigi, en þær verða nýttar við áframhaldandi mótun deiliskipulagsins.

Einnig er greint frá fundi með fulltrúum Vegagerðarinnar 1. des. sl. Vegagerðin er sátt við legu vegarins og hönnun gatnamótanna við þjóðveg. Fram kom að Vegagerðin vill að beygjuhornið sé 90° eins og það er á tillögunni og telur forhönnun á uppdráttum uppfylla hönnunarskilyrði varðandi legu, breidd vegar og beygjuradíusa. Nýr þjóðvegur liggi frá Snæfellsnesvegi að Hafnartorgi.

Skipulagsfulltrúi og hafnarstjóri greindu frá fundi og samskiptum við lóðarhafa á Norðurgarði D.

Einnig er greint frá tveimur fundum hafnarstjórnar o.fl. og hver talin eru meginviðfangsefni í næstu skrefum skipulagsferlisins.

Bæjarstjóri/formaður hafnarstjórnar spurði í upphafi umræðu hvort fundarmenn teldu viðbrögð og þær athugasemdir sem borist hafa vera þess eðlis að rétt sé að stöðva eða gera hlé á þessari skipulagsvinnu. Samhljómur var meðal fundarmanna um að halda ætti skipulagsgerðinni áfram og þó bregðast þurfi við mörgum þeirra ábendinga sem borist hafa, þá séu þær ekki þess eðlis að þær eigi að stöðva skipulagsgerðina.

Ræddar voru ábendingar sem fram komu, á samráðsfundum og í athugsemdum íbúa, um að kanna ætti valkost um nýjan hafnargarð norðan við Norðurgarð, fyrir fiskiskip, frekar en þá landfyllingu og nýjan viðlegukant sem vinnslutillagan gerir ráð fyrir. Bent var á mikið dýpi á þessu svæði og að uppland fyrir slíkt mannvirki sé ekki til staðar. Aldrei hefur verið gert ráð fyrir slíku mannvirki í aðalskipulagi. Skipulagsráðgjafi leggur til að komið verði inná þetta atriði í umhverfismati tillögu.

Rætt var um skilmála lóða og einstakar lóðir. Engin teljandi gagnrýni hefur komið fram á nýjan þjóðveg eða legu hans. Vegagerðin vill skoða fækkun innakstursleiða á lóðir, frá nýja veginum.

Rætt var um lækkun hæðar húsa á hluta lóðanna. Einnig var rætt um að fækka metralóðunum og/eða breyta þeim. Hafnarstjórn hefur lagt til að á nyrsta hluta núverandi metralóða verði gerð lóð nr. 13, svipuð að stærð og lóðir nr. 15 og 17.

Einnig var rætt um að gefa Gilósnum meira rými við Grundargötu og skera af lóð nr. 6 og áfram niður að sjó. Svæðið sem núna er undir lóðir 1-5 gæti hentað vel undir ferðaþjónustu með tengingu við Suðurgarðinn og Gilósinn og rætt um fordæmi að uppbyggingu í öðrum höfnum, með mögulega minni lóðum.

Rætt um þá áherslu að verið sé að gera hafnarskipulag. Sýn um uppbyggingu á þessu svæði hafi verið í skipulagi síðan 1969. Þetta sé dýrt svæði í uppbyggingu og þessi stækkun sé nauðsynleg til að geta nýtt betur þá fjárfestingu sem lögð hefur verið í uppbyggingu hafnaraðstöðu á síðustu árum með stækkun Norðurgarðs og verði haldið áfram með uppbyggingu nýs garðs á landfyllingunni. Með þessu sé verið að styrkja atvinnustarfsemi í Grundarfirði. Tækifæri opnist til að bjóða nýjum fyrirtækjum aðstöðu á þessu mikilvæga svæði. Uppbygging íbúðarhúsnæðis á landfyllingunni henti ekki í bland við þá starfsemi sem þarna muni verða. Bærinn eigi aðrar hentugri lóðir fyrir slíkt.
Setja þurfi skýra skilmála í deiliskipulagið um leiðir til að tryggja aðlaðandi ásýnd að þessari stækkun hafnarsvæðisins, sem er um leið ásýnd að bænum.

Hafnarstjóri vill leiðrétta rangar upplýsingar sem komu fram á íbúafundum um hæð húss að Borgarbraut 1, en þar var sagt það væri tíu metra hátt. Rétt hæð er 12 metrar.

Rætt um framsetningu gagna. Hluti af vinnu við gerð skipulagstillagnanna sjálfra (næsta stig) er að gera góðar ásýndarmyndir og tryggja einnig að byggingarreitir og nýtingarhlutfall lóða séu greinileg á uppdráttum.

Sérstaklega var rætt um þær góðu ábendingar sem fram komu á samráðsfundunum, um lóðir og hús sem ekki eru í markvissri notkun eða hafa lokið upphaflegu hlutverki sínu á og við hafnarsvæðið. Ábendingar komu þar fram um að hvetja þurfi eða ýta á lóðarhafa/húseigendur að losa um slík mannvirki og nýta þau og lóðir betur til uppbyggingar atvinnustarfsemi í Grundarfirði.

Þessum lið var lokið kl. 15:35 og gestir yfirgáfu þá fundinn.