221. fundur 08. september 2020 kl. 15:30 - 19:42 í Samkomuhúsi Grundarfjarðar
Nefndarmenn
 • Unnur Þóra Sigurðardóttir (UÞS) formaður
 • Vignir Smári Maríasson (VSM)
 • Bjarni Sigurbjörnsson (BS)
 • Signý Gunnarsdóttir (SG) varamaður
 • Runólfur J. Kristjánsson (RJK)
 • Sigurður Valur Ásbjarnarson (SVÁ) skipulags- og byggingafulltrúi
Starfsmenn
 • Björg Ágústsdóttir (BÁ) bæjarstjóri
 • Þuríður Gía Jóhannesdóttir (ÞGJ) aðstoðarmaður skipulags- og byggingarfulltrúa
Fundargerð ritaði: Þuríður Gía Jóhannesdóttir starfsmaður embættis skipulags- og byggingarfulltrúa
Dagskrá
Formaður setti fund og gengið var til dagskrár.

Runólfur J. Kristjánsson og Jósef Kjartansson tóku þátt í fundinum með fjarfundarformi.

1.Skerðingsstaðir Deiliskipulag

Málsnúmer 1803056Vakta málsnúmer

Orri Árnason hjá Zeppelin arkitektum kynnir ásýndarstúdíu sem hann hefur unnið fyrir hönd landeigenda, sem vinna nú að deiliskipulagi fyrir svæðið.
Bæjarfulltrúum var boðið að sitja fundinn undir þessum lið.

Orri sýndi myndband sem gerir grein fyrir útliti fyrirhugaðrar hótelbyggingar að Skerðingsstöðum og hvernig hún fellur að landslagi og umhverfi. Myndbandið sýnir aðkomu úr þremur áttum, þannig að "ekið" er frá Búlandshöfða, frá Mýrum og svo sjónarhorn hinum megin Lárvaðals.

Einnig fór hann yfir kynningu sem hann hafði útbúið, þar sem fyrirhuguðum byggingum hefur verið skeytt inná ljósmyndir teknar frá mismunandi sjónarhornum í nágrenninu.

Fram komu spurningar um fyrirhugaða stærð (herbergisfjölda), lýsingu og ásýnd, meðal annars frá þéttbýlinu, um gróðurbelti og fleira. Einnig komu fram spurningar um minni húsin, tengsl þeirra og samræmi við hótelbyggingu.

Orra var þökkuð kynning hans og yfirferð gagna og bæjarfulltrúum þökkuð þátttaka í þessum lið.

Orri, Jósef og Rósa viku hér af fundi.

Gestir

 • Rósa Guðmundsdóttir formaður bæjarráðs
 • Orri Árnason, arkitekt, Zeppelin
 • Jósef Kjartansson forseti bæjarstjórnar

2.Skerðingsstaðir Deiliskipulag

Málsnúmer 1803056Vakta málsnúmer

Fyrir nefndinni lágu erindi Zeppelin arkitekta, frá 31. júlí og 11. ágúst sl. um ásýndarstúdíu, ásamt kynningarmyndbandi. Gögnin voru kynnt nefndinni á 220. fundi. Ennfremur gögn sem lögð voru fram í kynningu á þessum fundi, sjá dagskrárlið nr. 1.
Í fyrrgreindu erindi Zeppelin arkitekta er óskað eftir afstöðu nefndarinnar til framlagðrar ásýndarstúdíu, áður en farið er í frekari vinnu við gerð deiliskipulagstillögunnar.

Í fram komnu myndbandi er gerð grein fyrir útliti fyrirhugaðrar hótelbyggingar að Skerðingsstöðum og hvernig hún fellur að landslagi og umhverfi. Myndbandið sýnir aðkomu úr þremur áttum, þannig að "ekið" er frá Búlandshöfða, frá Mýrum og svo sjónarhorn hinum megin Lárvaðals. Einnig liggja fyrir ljósmyndir, teknar frá mismunandi sjónarhornum í nágrenninu, þar sem fyrirhuguðum byggingum hefur verið skeytt inná.

Skipulags- og umhverfisnefnd tekur jákvætt í þau gögn um ásýnd sem kynnt hafa verið, eins og þau liggja fyrir á þessu stigi, með fyrirvara um að unnið verði áfram að gerð deiliskipulagstillögu með hliðsjón af framlögðum gögnum, sem og afgreiðslu nefndarinnar á athugasemdum við skipulagslýsingu, sbr. 206. fund nefndarinnar þann 13. nóvember 2019.

Með vísan til umræðu undir dagskrárlið 1 á fundinum, hvetur skipulags- og umhverfisnefnd til þess að hugað verði betur að samræmi stakstæðra húsa við hótelbygginguna og nærumhverfi mannvirkjanna.

3.Skíðadeild UMFG

Málsnúmer 2008019Vakta málsnúmer

Skíðadeild Ungmennafélags Grundarfjarðar óskar eftir leyfi til þess að setja upp þrjár snjósöfnunargrindur meðfram skíðabrekku Skíðadeildar UMFG.
Skipulags- og umhverfisnefnd tekur vel í ósk Skíðadeildarinnar um að setja upp þrjár snjósöfnunargrindur. Nefndin felur skipulags- og byggingarfulltrúa að fara yfir staðsetningu grindanna með fulltrúum Skíðadeildarinnar og að því loknu gefa út framkvæmdarleyfi til Skíðadeildar UMFG að uppfylltum skilyrðum sbr. gr. 2.4.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, með síðari breytingum.

4.Fjallskilaboð 2020 og fundargerð

Málsnúmer 2008032Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar Fjallskil 2020.

5.Mál frá skipulags- og byggingarfulltrúa

Málsnúmer 2009012Vakta málsnúmer

Mál sem eru í vinnslu hjá skipulags- og byggingarfulltrúa, til kynningar.
Skipulags- og byggingarfulltrúi sagði frá málum sem hann hefur í vinnslu.
Hann sagði einnig frá fundi sem skipulags- og byggingarfulltrúaembættið gekkst fyrir í síðustu viku, í samvinnu við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Iðnmeisturum og byggingarstjórum með löggildingu frá Mannvirkjastofnun var boðið á fundinn.
Farið var yfir verklag við leyfisveitingar og eftirlit með byggingarframkvæmdum, ábyrgðir og fleira. Gerð var grein fyrir nýjungum og breytingum sem eru að verða á fyrirkomulagi byggingarmála. Nýtt fyrirkomulag mun auka skilvirkni og yfirsýn þessara mála.

Fundarmenn færðu Unni Þóru þakkir fyrir gott samstarf í nefndinni, en hún sagði frá því að hún muni hætta í nefndinni.

Fundargerð var lesin upp og samþykkt.

Fundi slitið - kl. 19:42.