Málsnúmer 1803056

Vakta málsnúmer

Skipulags- og umhverfisnefnd - 188. fundur - 04.04.2018

Umsókn um leyfi til að skipuleggja jörðina Skerðingsstaði.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir að heimila gerð deiliskipulags fyrir jörðina Skerðingsstaði, jafnframt verði landnotkun svæðisins breytt í aðalskipulagsvinnu Grundarfjarðarbæjar.

Skipulags- og umhverfisnefnd - 196. fundur - 05.09.2018

Skipulagslýsing fyrir Skerðingsstaði lögð fram til kynningar.
Lagt fram.

Skipulags- og umhverfisnefnd - 197. fundur - 17.10.2018

Lögð fram til afgreiðslu skipulagslýsing vegna deiliskipulags fyrir Skerðingsstaði, unnin af Zeppelin Arkitektum að ósk landeigenda sem áður hafði verið veitt leyfi til að vinna að gerð deiliskipulags skv. 2. mgr. 38. gr skipulagslaga.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir að skipulagslýsing verði sett í kynningu skv. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Skipulags- og umhverfisnefnd - 200. fundur - 16.05.2019

Lagðar fram umsagnir sem borist hafa vegna kynningar á skipulagslýsingu vegna deiliskipulags fyrir Skerðingsstaði.

Lagt fram til kynningar.

Skipulags- og umhverfisnefnd - 202. fundur - 29.07.2019

Lagðar fram umsagnir og ábendingar sem bárust vegna skipulagslýsingar fyrir deiliskipulag á Skerðingsstöðum.

Alls bárust 10 umsagnir frá eftirtöldum aðilum;

Skipulagsstofnun
Umhverfisstofnun
Vegagerðinni
Náttúrufræðistofnun Íslands
Heilbrigðiseftirliti Vesturlands
Svæðisskipulagsnefnd sveitarfélaganna á Snæfellsnesi
Breiðafjarðarnefnd
Landeigendum Innri Látravíkur
Landeigendum Króks
Landeigendum Mýrarhúsa

Nefndin veitir landeiganda/framkvæmdaraðila tækifæri á að tjá sig um framkomnar umsagnir og athugasemdir um skipulagslýsinguna, þ.m.t. hvernig hann telur að rétt sé að bregðast við þeim við gerð deiliskipulagstillögu.
Nefndin mun í kjölfarið fara yfir athugasemdir og svör landeiganda/framkvæmdaraðila.

Í samræmi við þetta er skipulags- og byggingarfulltrúa falið að taka saman viðeigandi gögn og kynna landeigendum/framkvæmdaraðila og veita hæfilegan frest til að tjá sig um fram komin gögn.

Skipulags- og umhverfisnefnd - 206. fundur - 13.11.2019

Skipulags- og umhverfisnefnd Grundarfjarðarbæjar fjallaði um skipulagslýsingu fyrir deiliskipulag á Skerðingsstöðum, á fundi sínum 17. október 2018 og samþykkti að hún yrði kynnt skv. 40. gr. skipulagslaga. Í kjölfarið var skipulagslýsingin auglýst í Fréttablaðinu 9. janúar 2019, í Jökli, bæjarblaði, 859. tölublaði, dags. 10. janúar 2019 og á vef Grundarfjarðarbæjar þann 9. janúar 2019.
Skipulagslýsingin var jafnframt send umsagnaraðilum og landeigendum nærliggjandi jarða til umsagnar og bárust tíu umsagnir og athugasemdir sem lagðar voru fyrir 202. fund skipulags- og umhverfisnefndar þann 29. júlí 2019.
Með tölvupósti dags. 5. september 2019 var framkvæmdaraðila/skipulagshöfundum boðið að veita umsögn um framkomnar athugasemdir. Svör bárust með minnisblaði skipulagshöfunda, Zeppelin arkitekta, til Grundarfjarðarbæjar dags. 26.9.2019.
Skipulags- og umhverfisnefnd hefur yfirfarið framkomnar athugasemdir og umsagnir skipulagshöfunda og sett fram afgreiðslu sína á einstökum athugasemdum sbr. hjálagt fylgiskjal. Nefndin beinir því til framkvæmdaraðila og skipulagshöfunda að móta deiliskipulag og vinna umhverfisskýrslu á grunni þeirrar afgreiðslu sem þar kemur fram.

Skipulags- og umhverfisnefnd - 220. fundur - 18.08.2020

Lögð fram ósk Zeppelin arkitekta f.h. landeigenda, um viðbrögð við ásýndarstúdíu sem unnin hefur verið og er hluti af gerð deiliskipulagstillögu fyrir svæðið.
Lagt fram til kynningar.
Á fundi sínum þann 13. nóvember 2019 yfirfór skipulags- og umhverfisnefnd athugasemdir og umsagnir sem bárust við auglýsta skipulagslýsingu og beindi því til framkvæmdaraðila og skipulagshöfunda að móta deiliskipulag og vinna umhverfisskýrslu á grunni þeirrar afgreiðslu sem þar kom fram.

Skipulagsnefnd barst í lok júlí sl. og þann 11. ágúst sl. myndband frá Zeppelin arkitektum, f.h. landeigenda. Myndbandið sýnir ásýnd fyrirhugaðs hótels í nærumhverfi sínu og er óskað eftir viðbrögðum nefndarinnar við því.

Nefndin felur skipulags- og byggingarfulltrúa að yfirfara framkomin gögn með hliðsjón af þeim ábendingum sem nefndin beindi til skipulagshöfunda við afgreiðslu á umsögnum um lýsingu deiliskipulags þann 13. nóvember 2019, og því hvernig fjallað er um ásýnd Kirkjufells í nýsamþykktu aðalskipulagi sveitarfélagsins (kafli 5.1).
Nefndin felur skipulags- og byggingarfulltrúa í framhaldi af því að ræða við Zeppelin arkitekta um gögnin.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir, að ósk Zeppelin arkitekta, að boðað verði til kynningarfundar um leið og færi gefst.

Skipulags- og umhverfisnefnd - 221. fundur - 08.09.2020

Orri Árnason hjá Zeppelin arkitektum kynnir ásýndarstúdíu sem hann hefur unnið fyrir hönd landeigenda, sem vinna nú að deiliskipulagi fyrir svæðið.
Bæjarfulltrúum var boðið að sitja fundinn undir þessum lið.

Orri sýndi myndband sem gerir grein fyrir útliti fyrirhugaðrar hótelbyggingar að Skerðingsstöðum og hvernig hún fellur að landslagi og umhverfi. Myndbandið sýnir aðkomu úr þremur áttum, þannig að "ekið" er frá Búlandshöfða, frá Mýrum og svo sjónarhorn hinum megin Lárvaðals.

Einnig fór hann yfir kynningu sem hann hafði útbúið, þar sem fyrirhuguðum byggingum hefur verið skeytt inná ljósmyndir teknar frá mismunandi sjónarhornum í nágrenninu.

Fram komu spurningar um fyrirhugaða stærð (herbergisfjölda), lýsingu og ásýnd, meðal annars frá þéttbýlinu, um gróðurbelti og fleira. Einnig komu fram spurningar um minni húsin, tengsl þeirra og samræmi við hótelbyggingu.

Orra var þökkuð kynning hans og yfirferð gagna og bæjarfulltrúum þökkuð þátttaka í þessum lið.

Orri, Jósef og Rósa viku hér af fundi.

Gestir

  • Rósa Guðmundsdóttir formaður bæjarráðs
  • Orri Árnason, arkitekt, Zeppelin
  • Jósef Kjartansson forseti bæjarstjórnar

Skipulags- og umhverfisnefnd - 221. fundur - 08.09.2020

Fyrir nefndinni lágu erindi Zeppelin arkitekta, frá 31. júlí og 11. ágúst sl. um ásýndarstúdíu, ásamt kynningarmyndbandi. Gögnin voru kynnt nefndinni á 220. fundi. Ennfremur gögn sem lögð voru fram í kynningu á þessum fundi, sjá dagskrárlið nr. 1.
Í fyrrgreindu erindi Zeppelin arkitekta er óskað eftir afstöðu nefndarinnar til framlagðrar ásýndarstúdíu, áður en farið er í frekari vinnu við gerð deiliskipulagstillögunnar.

Í fram komnu myndbandi er gerð grein fyrir útliti fyrirhugaðrar hótelbyggingar að Skerðingsstöðum og hvernig hún fellur að landslagi og umhverfi. Myndbandið sýnir aðkomu úr þremur áttum, þannig að "ekið" er frá Búlandshöfða, frá Mýrum og svo sjónarhorn hinum megin Lárvaðals. Einnig liggja fyrir ljósmyndir, teknar frá mismunandi sjónarhornum í nágrenninu, þar sem fyrirhuguðum byggingum hefur verið skeytt inná.

Skipulags- og umhverfisnefnd tekur jákvætt í þau gögn um ásýnd sem kynnt hafa verið, eins og þau liggja fyrir á þessu stigi, með fyrirvara um að unnið verði áfram að gerð deiliskipulagstillögu með hliðsjón af framlögðum gögnum, sem og afgreiðslu nefndarinnar á athugasemdum við skipulagslýsingu, sbr. 206. fund nefndarinnar þann 13. nóvember 2019.

Með vísan til umræðu undir dagskrárlið 1 á fundinum, hvetur skipulags- og umhverfisnefnd til þess að hugað verði betur að samræmi stakstæðra húsa við hótelbygginguna og nærumhverfi mannvirkjanna.

Skipulags- og umhverfisnefnd - 233. fundur - 24.02.2022

Tilgangur og markmið fundarins eru að rifja upp ferli málsins, fara yfir framkomin gögn og undirbúa afgreiðslu á tillögu að deiliskipulagi og umhverfismatsskýrslu.

Eftirfarandi skjöl lágu fyrir fundinum, sem aðgengileg eru í fundagátt fyrir fundarmenn:

1. Samantekt: yfirlit málsferils með tímalínu
2. Yfirlit yfir umsagnir og athugasemdir við deiliskipulagslýsinguna
i. Umsagnir um skipulagslýsingu: Breiðafjarðarnefnd, HEV, UST, NÍ, Svæðisskipulagsnefnd Snæfellsness og Vegagerðin
ii. Athugasemdir við skipulagslýsingu: Landeigendur Innri-Látravíkur, Mýrarhúsa, Króks og hluti landeigenda Neðri-Lágar
3. Deiliskipulagstillaga, dags. 5. febrúar, þ.e.:
i. Deiliskipulagsuppdráttur og greinargerð
ii. Umhverfismatsskýrsla
iii. Sjónlínustúdía
iv. Sérfræðiúttektir á gróðri og dýralífi og vatnsbúskap
4. Yfirferð skipulagsfulltrúa yfir innsend gögn, ábendingar til skipulagshöfundar

Bæjarstjóri fór yfir skjal sem lá fyrir fundinum um feril málsins og helstu aðgerðir í málsmeðferðinni fram að þessu.

Skipulagsfulltrúi fór yfir þau gögn sem bárust nú í janúar og byrjun febrúar. Öll gögn sem tilheyra afgreiðslu deiliskipulagstillögu eru nú komin inn.

Farið var yfir þau gögn sem fram eru komin, einkum deiliskipulagsuppdrátt með greinargerð og umhverfismatsskýrslu, auk sjónlínugreininga. Sjónlínugreiningar skoðaðar sérstaklega og ræddar með hliðsjón af ákvæðum aðalskipulags og fyrri bókunum/ábendingum nefndarinnar.

Meðal annars var farið yfir samræmi í innsendum tillögum og fylgigögnum við þær athugasemdir, ábendingar og umsagnir sem fram komu í kynningu skipulagslýsingar og þær bókanir sem nefndin gerði við afgreiðslu skipulagslýsingar, sem og samræmi við ábendingar skipulagsfulltrúa nú í janúar/febrúar.

Allir tóku til máls.

Að lokinni yfirferð leggur nefndin til að innsend gögn - deiliskipulagstillaga, umhverfismatsskýrsla og fylgigögn - verði tekin til afgreiðslu á næsta fundi skipulags- og umhverfisnefndar.

Gestir

  • Unnur Þóra Sigurðardóttir bæjarfulltrúi - mæting: 16:30
  • Rósa Guðmundsdóttir bæjarfulltrúi - mæting: 16:30
  • Hinrik Konráðsson bæjarfulltrúi - mæting: 16:30
  • Garðar Svansson bæjarfulltrúi - mæting: 16:30
  • Jósef Ó. Kjartansson forseti bæjarstjórnar - mæting: 16:30

Skipulags- og umhverfisnefnd - 234. fundur - 01.03.2022

Lögð fram til afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar, tillaga að deiliskipulagi á jörðinni Skerðingsstöðum, dagsett 5. febrúar 2022, ásamt umhverfismatsskýrslu.

Í apríl 2018 óskuðu landeigendur Skerðingsstaða eftir heimild Grundarfjarðarbæjar til að vinna deiliskipulag jarðarinnar. Við þeirri ósk var orðið. Ennfremur var farið fram á að landnotkun svæðisins yrði breytt í aðalskipulagsvinnu Grundarfjarðarbæjar, sem þá stóð yfir. Sú breyting var gerð við endurskoðun aðalskipulagsins, að landnotkun jarðarinnar var breytt úr landbúnaði í verslun og þjónustu (VÞ-1).

Á 196. fundi skipulags- og umhverfisnefndar þann 5. september 2018 var lögð fram til kynningar lýsing fyrir tillögu að deiliskipulagi Skerðingsstaða og á 197. fundi nefndarinnar þann 17. september 2018 og fundi bæjarstjórnar þann 18. október 2018 var samþykkt að kynna lýsinguna opinberlega og senda hana til umsagnaraðila.

Á 200. fundi skipulags- og umhverfisnefndar þann 16. maí 2019 fór nefndin yfir framkomnar umsagnir, ábendingar og athugasemdir og á 202. fundi nefndarinnar þann 29. júlí 2019 var tekin afstaða til þeirra og skipulagshöfundi f.h. landeigenda veitt tækifæri til að koma á framfæri skriflegum viðbrögðum við þeim. Skipulags- og byggingarfulltrúa var falið að taka saman frekari gögn og kynna fyrir skipulagshöfundi og veita hæfilegan frest til þess að koma á framfæri athugasemdum.

Á 206. fundi skipulags- og umhverfisnefndar þann 13. nóvember 2019 tók nefndin fyrir minnisblað með viðbrögðum skipulagshöfundar f.h. landeigenda um framkomnar athugasemdir og ábendingar við skipulagslýsingu. Ennfremur lágu fyrir innsendar skýrslur um neysluvatn og fráveitu á svæðinu. Í bókun nefndarinnar var brugðist efnislega við hverri athugasemd og skipulagshöfundi falið að hafa þær og umsagnir nefndarinnar til hliðsjónar við áframhaldandi vinnslu deiliskipulagstillögunnar og skrif umhverfismatsskýrslu (sjá fylgiskjal nefndarinnar með athugasemdum, viðbrögðum skipulagshöfundar og svörum skipulags- og umhverfisnefndar).
Í umsögnum nefndarinnar er sérstaklega óskað eftir að sjónrænum áhrifum verði gerð skil og að í því skyni myndi skipulagshöfundur skila inn sjónlínugreiningu (ljósmyndir og myndband) þar sem deiliskipulagssvæðið og byggingin er sýnd frá mismunandi sjónarhornum; frá þjóðvegi úr báðum áttum og norðanmegin Lárvaðals. Sjónlínugreiningin var lögð fram af skipulagshöfundi í ágúst 2020 með ósk um yfirferð á þessu stigi skipulagsferlisins.

Í ágúst 2020, á 220. fundi skipulags- og umhverfisnefndar, var sjónlínugreiningin lögð fyrir nefndina. Nefndin fól skipulags- og byggingarfulltrúa að yfirfara framkomin gögn með skipulagshöfundi með áherslu á mikilvægi ásýndar Kirkjufells og umfjöllun um fjallið í nýsamþykktu aðalskipulagi. Nefndin samþykkti einnig að boða til sérstaks kynningarfundar með skipulagshöfundi. Á 221. fundi nefndarinnar þann 8. september 2020 fór skipulagshöfundur yfir sjónlínugreininguna - myndband sem sýnir bygginguna frá þremur leiðum og ljósmyndir sem sýna bygginguna frá ólíkum sjónarhornum. Nefndin tók jákvætt í áframhaldandi vinnslu tillögunnar og hvatti til þess að hugað væri sérstaklega vel að samræmi stakstæðra húsa við hótelbygginguna og nærumhverfi mannvirkjanna.

Tillaga að deiliskipulagi (uppdráttur með greinargerð) ásamt umhverfismatsskýrslu, sérfræðiskýrslu um gróðurfar og dýralíf og sjónlínugreiningu var send til skipulagsfulltrúa í janúar 2022. Eftir yfirferð skipulagsfulltrúa og ábendingar, sendi skipulagshöfundur uppfærð gögn í byrjun febrúar sl. Á 233. fundi skipulags- og umhverfisnefndar þann 24. febrúar sl. fór nefndin sérstaklega yfir öll framlögð gögn viðvíkjandi deiliskipulagstillögunni.

Í framhaldi af umræðum 233. fundar lét skipulagsfulltrúi útbúa sjónlínugreiningarkort, til frekari skýringar við framlögð gögn, og liggur það skjal fyrir á þessum fundi.


Til afgreiðslu hjá skipulags- og umhverfisnefnd nú er því fullbúin tillaga að deiliskipulagi jarðarinnar Skerðingsstaða, ásamt umhverfismatsskýrslu.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir að auglýst verði deiliskipulagstillaga dags. 5. febrúar 2022 fyrir jörðina Skerðingsstaði með umhverfismatsskýrslu og að hvoru tveggja verði sent umsagnaraðilum, sbr. 1 mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 15. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021.

Nefndin felur skipulagsfulltrúa að fara yfir minniháttar lagfæringar með skipulagshöfundi og að því búnu að auglýsa tillöguna.

Skulu eftirfarandi gögn auglýst með deiliskipulagstillögunni: deiliskipulagsuppdráttur með greinargerð (A3), greinargerð í A4 og umhverfismatsskýrsla með eftirfarandi viðhengjum: sjónlínugreining (ljósmyndir, hlekkur á myndband og sjónlínugreiningarkort), sérfræðiskýrsla um gróðurfar og dýralíf og skýrslur/minnisblöð um neysluvatn og fráveitu.

Samþykkt samhljóða.

Skipulags- og umhverfisnefnd - 240. fundur - 27.09.2022

Lagðar fram til kynningar umsagnir og athugasemdir sem bárust á auglýsingatíma tillögu að deiliskipulagi fyrir hótel í landi Skerðingsstaða skv. 3. mgr. 41 gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Í apríl 2018 óskuðu landeigendur Skerðingsstaða eftir heimild Grundarfjarðarbæjar til þess að vinna deiliskipulag fyrir hluta jarðarinnar. Við þeirri ósk var orðið. Á 234. fundi skipulags- og umhverfisnefndar þann 1. mars 2022, samþykkti nefndin fyrir sitt leyti að auglýsa deiliskipulagstillöguna ásamt umhverfismatsskýrslu skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 15 gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021. Bókun nefndarinnar var staðfest af bæjarstjórn á 257. fundi þann 10. mars 2022.

Tillagan var auglýst 20. júlí með athugasemdafrest til og með 14. september.
Auglýsingin var send til aðila sem gert höfðu athugasemdir á kynningartíma skipulagslýsingar árið 2018 og opinn kynningarfundur haldinn 23. ágúst sl. Samtals bárust athugasemdir frá 30 aðilum.

Beiðni um umsögn var send til umsagnaraðila og bárust umsagnir frá Umhverfisstofnun, Heilbrigðiseftirliti Vesturlands, Slökkviliði Grundarfjarðarbæjar, Vegagerðinni, Skipulagsstofnun, Minjastofnun Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands, Breiðafjarðarnefnd og Fiskistofu.
Skipulags- og umhverfisnefnd þakkar umhverfis- og skipulagssviði fyrir samantekt umsagna og athugasemda og felur skipulagsfulltrúa að vinna tillögu að svörum við þeim og leggja fyrir fund nefndarinnar, sbr. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Auk þess felur nefndin skipulagsfulltrúa að senda þeim sem gerðu athugasemdir tölvupóst þar sem upplýst er um næstu skref og framgang málsins.

Skipulags- og umhverfisnefnd - 243. fundur - 06.12.2022

Markmið vinnufundarins er að rifja upp ferli málsins, fara yfir framkomin gögn og undirbúa afgreiðslu á svörum við umsögnum og athugasemdum sem bárust á auglýsingatíma deiliskipulagstillögunnar skv. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Eftirfarandi gögn voru lögð fyrir fundinn, alls 55 skjöl:

-Deiliskipulagstillaga fyrir hótel í landi Skerðingstaða (dags. 2. júní 2022) ásamt eftirfarandi fylgskjölum:
-Greinargerð með deiliskipulagi
-Umhverfis og framkvæmdarskýrsla
-Skýrsla um neysluvatn og fráveitulausnir
-Rannsóknir á Lárvaðli
-Ásýndarstúdía
-Fornleifaskráning
-Skýrsla um gróður og fuglalíf

Eftirfarandi gögn voru einnig lögð fram:
-Svör landeigenda við athugasemdum vegna skipulagslýsingar 2019.
-Allar umsagnir og athugasemdir sem bárust á auglýsingatíma tillögunnar 20.07.-15.09.2022 og samantekt skipulagsfulltrúa um þær.
-Tillaga skipulagsfulltrúa að svörum við umsögnum og athugasemdum vegna auglýsingar tillögunnar 2022 (drög, vinnuskjal).
Farið var yfir allar athugasemdir, með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum deiliskipulagstillögunnar, sbr. framlagða samantekt skipulagsfulltrúa. Drög að svörum við hverja athugasemd rædd.

Skipulags- og umhverfisnefnd þakkar bæjarfulltrúum og Ívari Pálssyni hrl. fyrir komuna á vinnufundinn.

Skipulags- og umhverfisnefnd felur skipulagsfulltrúa að vinna áfram drög að svörum við athugasemdum í samræmi við umræður og tillögur fundarins og leggja fullmótuð drög fyrir fund nefndarinnar.

Gestir

  • Sigurður Gísli Guðjónsson - mæting: 16:30
  • Björg Ágústsdóttir, bæjarstjóri - mæting: 16:30
  • Ívar Pálsson hrl. (í fjarfundi) - mæting: 16:30
  • Jósef Ó. Kjartansson, forseti bæjarstjórnar - mæting: 16:30

Skipulags- og umhverfisnefnd - 246. fundur - 20.02.2023

Bæjarfulltrúum var boðið að sitja þennan dagskrárlið, auk þess sem Halldór Jónsson hrl. situr fundinn undir þessum lið.
Lögð fram til afgreiðslu tillaga landeigenda Skerðingsstaða að deiliskipulagi vegna hótels í landi Skerðingsstaða ásamt samantekt athugasemda og umsagna sem bárust á auglýsingartíma tillögunnar og tillögu skipulagsfulltrúa að svörum skipulags- og umhverfisnefndar skv. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 m.s.br. sem byggir á niðurstöðum umræðna á 243. fundar skipulags- og umhverfisnefndar 6. desember sl. en þá fól nefndin skipulagsfulltrúa að vinna áfram drög að svörum við athugasemdum í samræmi við umræður og tillögur fundarins og leggja fullmótuð drög fyrir fund nefndarinnar.

Bæjarfulltrúar voru boðnir velkomnir inn á fundinn undir þessum lið og er þeim þakkað fyrir þátttöku í umræðum. Halldór Jónsson hrl. sat einnig fundinn undir þessum lið en auk hans hefur Ívars Pálssonar lögmaður aðstoðað nefndina við mótun umsagna vegna athugasemda sem bárust á auglýsingartíma tillögunnar. Bæjarfulltrúar og Halldór yfirgáfu fundinn áður en nefndin tók málið til afgreiðslu.
Skipulags- og umhverfisnefnd telur framlagða tillögu landeigenda Skerðingsstaða að deiliskipulagi fyrir hótel í grundvallaratriðum vera í samræmi við Aðalskipulag Grundarfjarðar 2019-2039. Nefndin telur að tillagan og umhverfisskýrslan ásamt viðaukum gefi í meginatriðum greinargóða mynd af fyrirhuguðum framkvæmdum, starfsemi og mögulegum umhverfisáhrifum. Nefndin samþykkir fyrir sitt leyti framlagða tillögu með eftirfarandi skilyrðum:

1. Að meginhugmynd sú að hótelbyggingu sem kynnt hefur verið með deiliskipulagstillögunni verði áfram ráðandi í hönnun hennar, enda hefur landeigandi að mati nefndarinnar brugðist við sjónarmiðum umsagnaraðila á margvíslegan hátt, t.d. með formun ráðgerðrar byggingar, vali á yfirborðsefnum, lágmörkun lýsingar o.fl. Verði gerðar umtalsverðar breytingar á útlitshönnun byggingarinnar eða ásýnd, þá geti það kallað á breytingu á deiliskipulagi. Mat á því hvort slíkar breytingar kalli á breytingu á deiliskipulagi er hjá sveitarfélaginu.

2. Að fornminjar á skipulagssvæðinu, nánar tiltekið gamli bæjarhóllinn, verði verndaður á framkvæmdatíma og að landeigandi geri grein fyrir verndunaráformum í umsókn um byggingar- og/eða framkvæmdaleyfi.

3. Að fjöldi, gerð, fyrirkomulag og frágangur bílastæða verði bundinn í deiliskipulaginu (þ.e. 0.5 stæði fyrir hvert hótelherbergi og 1 stæði fyrir 60-manna rútu fyrir hver 25 herbergi auk stæða fyrir fatlaða) sbr. gr. 5.3.2.5 í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Upplýsingar um bílastæði skuli koma fram á uppdrætti og í greinargerð. Breytingar á skilmálum um bílastæði kalla á breytingu á deiliskipulagi.

4. Að uppfylltar verði ítrustu kröfur um fráveitu- og hreinsibúnað (ítarlegri en tveggja þrepa skv. umsögn Heilbrigðiseftirlits Vesturlands), vöktun og mótvægisaðgerðir komi til bilana og/eða skyndimengunar í fráveitukerfi bygginga og/eða svæða utanhúss. Þar sem um er að ræða sérstaklega viðkvæman stað við Lárvaðal, sem er á verndarsvæði Breiðafjarðar, skal við veitingu byggingar- og/eða framkvæmdaleyfis leggja sérstaka áherslu á að fráveitu- og heilbrigðismál séu með þeim hætti að ekki stafi af þeim hætta á mengun.

5. Að gerðar verði ítrustu kröfur um frágang vegna framkvæmda sem tengjast vatnsöflun. Bæta skal við í greinargerð að vatnsból og lagnir frá því skuli uppfylla ákvæði reglugerðar nr. 536/2001 og að slík vatnsból séu háð starfsleyfi.

6. Að landeigandi leitist sérstaklega við að lágmarka hverskyns truflun eða neikvæð áhrif sem starfsemi hótelsins kann að hafa á fugla, fiska og annað lífríki í, á og við Lárvaðal, sem tilheyrir verndarsvæði Breiðafjarðar. Lögbundnir umsagnaraðilar skulu leggja mat á þennan þátt við meðferð starfsleyfisumsóknar.

7. Að landeigandi hefti ekki aðgengi almennings að Lárvaðli sbr. gr. 5.3.2.14 í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 en þar segir: "... Við afmörkun lóða á svæðum utan þéttbýlis skal þess gætt að rými sé fyrir aðkomu að og meðfram vötnum, ám og sjó".

8. Að engar framkvæmdir verði innan 50 m frá Lárvaðli og að framkvæmdasvæðið fari ekki inn fyrir þau fjarlægðarmörk sbr. gr. 5.3.2.14 í skipulagsreglugerð nr. 90/2013: "Utan þéttbýlis skal ekki reisa mannvirki nær vötnum, ám eða sjó en 50 m“.

9. Að bæta skuli við örnefnunum „Breiðafjörður“ og "Lárvaðall-sjávarlón" á skipulagsuppdráttinn og sýna afmörkun verndarsvæðis Breiðafjarðar. Jafnframt skal í greinargerðinni árétta að Lárvaðall sé á verndarsvæði Breiðafjarðar, að þar sé mikilvægt vistkerfi með fjölbreyttu lífríki og að hönnun hótelsins og starfsemi þess taki mið af því.

10. Að bæta skuli við greinargerðina að vegtenging við þjóðveginn verði útfærð nánar í hönnun svæðisins og skuli það gert í fullu samráði við Vegagerðina eins og gildir um allar framkvæmdir innan 50 m veghelgunarsvæðis. Kalli hönnun vegstæðis á verulega breytingu, skal það gert á grundvelli breytingar á deiliskipulagi.

11. Að leitað verði leiða til þess að lágmarka ljós- og hávaðamengun sem starfsemin kann að valda utan svæðisins. Lögbundnir umsagnaraðilar skulu leggja mat á þennan þátt við meðferð starfsleyfisumsóknar.

12. Að brunahönnun hótelsins taki mið af hæð og umfangi byggingarinnar með tilliti til aðgengis að slökkvivatni í samræmi við gildandi reglugerðir og þess búnaðar sem tiltækur er hjá slökkviliði sveitarfélagsins og áætlaðs viðbragðstíma. Staðsetja skal brunahana á uppdrætti.

13. Að eftirfarandi upplýsingar verði færðar inn á skipulagsuppdrátt: 1 m hæðarlínur, leiðbeinandi staðsetning rotþróar, leiðbeinandi staðsetning hreinsibúnaðar fráveitukerfis. Að öðru leyti er vísað til 7. kafla skipulagsreglugerðar nr 90/2013.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir framlagða tillögu skipulagsfulltrúa dags. 16. febrúar 2023 að umsögn skipulags- og umhverfisnefndar vegna athugasemda sem bárust á auglýsingatíma tillögunnar, með þeim ábendingum sem fram hafa komið á fundinum.

Gestir

  • Björg Ágústsdóttir, bæjarstjóri - mæting: 16:45
  • Halldór Jónsson hrl. - mæting: 16:50
  • Garðar Svansson bæjarfulltrúi - mæting: 16:45
  • Sigurður Gísli Guðjónsson, bæjarfulltrúi - mæting: 16:45

Skipulags- og umhverfisnefnd - 252. fundur - 05.10.2023

Lögð fram til kynningar kæra til Úrskurðarnefndar umhverfi og auðlindamála (ÚUA) frá landeigendum Mýrarhúsa vegna deiliskipulags Skerðingsstaða.
Lagt fram til kynningar