155. fundur 14. desember 2020 kl. 16:15 - 17:40 á fjarfundi
Nefndarmenn
  • Garðar Svansson (GS) formaður
  • Ragnar Smári Guðmundsson (RSG)
  • Valdís Ásgeirsdóttir (VÁ)
  • Ásthildur E. Erlingsdóttir (ÁEE)
  • Freydís Bjarnadóttir (FB)
Starfsmenn
  • Björg Ágústsdóttir (BÁ) bæjarstjóri
Fundargerð ritaði: Björg Ágústsdóttir bæjarstjóri
Dagskrá
Formaður setti fund.
Gengið var til dagskrár.

1.Málefni leikskólans

Málsnúmer 1808033Vakta málsnúmer

Fyrir liggur samantekt leikskólastjóra um starfið.

Gestir fjarfundar undir þessum lið eru:

Anna Rafnsdóttir leikskólastjóri
María Rún Eyþórsdóttir fulltrúi starfsmanna
Rut Rúnarsdóttir fulltrúi foreldra

Formaður bauð gesti velkomna á fundinn.

Eftirfarandi atriði er að finna í samantekt leikskólastjóra, sem lá fyrir fundinum:

Það sem af er skólaári hefur starfið gengið vel. Aðlögun nýrra nemenda hefur verið í fullum gangi í haust, síðustu aðlaganir verða eftir áramótin, alla vega ein er skipulögð í janúar.

Skólaárið hefur verið litað af Covid takmörkunum eins allt samfélagið og er það farið að taka verulega á starfsfólk. Það þarf aukinn mannskap til að opna og loka því nú mega foreldrar ekki koma inn í leikskólann. Mikil áhersla er á sótthreinsun á snertiflötum og persónulegt hreinlæti. Foreldrar eru með grímur þegar þeir koma með börnin og sækja þau, en eins og áður sagði þá er tekið á móti börnunum við útidyrnar. Starfsfólk notar einnig grímur, á morgnana þegar verið er að taka á móti og þegar það fer út af sínum deildum. Ein deild getur farið í fataherbergið í einu. Drekadeild og Ugludeild sem nota sama salerni þurfa að vera ein deild í einu. Starfsfólk er stanslaust á tánum, um hvort verið sé að gera „rétt“ eða „nóg“. Takmarkanir eru á fjölda starfsfólks á kaffistofu og nýta þarf önnur herbergi ef kaffistofan er fullsetin. Við erum stanslaust með hugann við Covid og sóttvarnir,
sem hafa aukið álag á starfsfólk mjög mikið.

Nemendur skólans eru nú 46, á Drekadeild eru 16 nemendur (3 og 4 ára), á Ugludeild eru 16 nemendur (18 mán til 2 ára) og á Músadeild eru 14 nemendur (1 árs).
Starfsmenn eru 22 í 18,03 stöðugildum. Af þeim eru 2 starfsmenn í grunnnámi í leikskólakennarafræðum, 1 starfsmaður í framhaldsnámi í menntunarfræði leikskóla (sem gefur leikskólakennaratitil að námi loknu) og 1 starfsmaður í uppeldis ? og menntunarfræðum. Leikskólastjóri stefnir að því að skrifa lokaritgerð til M.Ed gráðu í námi sem hún hefur stundað í stjórnun menntastofnana. Leikskólastjóri telur mikilvægt að fjölga leikskólakennurum, því lögum samkvæmt eigi leikskólakennarar að vera að lágmarki 2/3 af fjölda starfsmanna, en séu í dag eingöngu leikskólastjóri og aðstoðarleikskólastjóri.

Föstudaginn 18. september sl. var sameiginlegur starfsdagur hjá leik- og grunnskóla og Eldhömrum. Uppeldi til ábyrgðarnámskeið, sem vera átti á síðustu vorönn, var haldið í haust og tókst vel. Nokkur teymi eru í leikskólanum sem hafa það hlutverk að halda utan um og leiða starfið í því sem við viljum leggja áherslu á, annað er uppeldi til ábyrgðarteymi sem mun vinna að því að innleiða stefnuna inn í daglegt skólastarf. Hitt teymið er heilsueflandi teymi sem ákveður hvaða efnisþætti er unnið með í innleiðingu á því efni.

Kerfisveggur var settur upp sl. sumar sem aðskilur deildir í nýrri hluta leikskólans. Mikill munur er á hljóðvist og starfsaðstæðum, að sögn leikskólastjóra, og engin truflun á milli deilda. Starfsfólk talar um að því finnist minni glymjandi í rýmunum því veggurinn dempar það vel. Einnig var settur upp nýr dótaskúr á lóð leikskólans í sumar og sá gamli var fjarlægður. Það er mikill munur að geta nýtt þennan skúr fyrir báða garðana, yngri og eldri deild, og er ánægja með hann.

Stjórnendur voru á góðu stjórnendanámskeiði í lok ágúst sl., sem er einn liður í umbótaáætlun, sbr. vinnustaðagreiningu frá 2018, til að efla stjórnendur í starfi.

Starfshópur leikskólans um styttingu vinnuvikunnar hefur skilað frá sér sínum tillögum, einn starfsmaður á leikskólanum er líka í vinnuhópi á vegum bæjarins. Stytting vinnuvikunnar á að hefjast 1. janúar 2021.

Sumarfrí 2021: Í haust kom fyrirspurn frá Rósu Guðmundsdóttur hjá G.Run. hf. sem hún sendi á skólastjóra leik- og grunnskóla (vegna Eldhamra), bæjarstjóra og formann skólanefndar. Spurt er hvort athuga megi hvort hægt sé að hefja sumarfrí leikskólans einni viku síðar en skóladagatal segir. Leikskólastjóri segist jákvæð fyrir því að seinka sumarleyfislokun um eina viku og að sumarfrí leikskólans verði frá 5. júlí til 10. ágúst 2021, starfsfólk mæti þá til vinnu mánudaginn 9. ágúst á starfsdag og leikskólinn opni þá 10. ágúst kl. 8:00. Ef lokun væri á þennan hátt þá væru búnir 24 dagar af sumarfríi starfsmanna en allir starfsmenn eiga 30 daga sumarfrí frá og með árinu 2021. Ef lokað væri frá föstudeginum 2. júlí og opnað aftur 10. ágúst þá væri lokað í 25 daga. Leikskólastjóri segir að hún og skólastjóri grunnskóla þurfi að komast að niðurstöðu með dagsetningar, en að þau séu jákvæð fyrir því.

Leikskólastjóri fór yfir helstu áherslur skólans í starfsáætlun fyrir skólaárið 2020-2021. Þær eru settar niður til að gera starfið markvissara og sýnilegra.

Bæjarstjóri og leikskólastjóri fóru yfir framkvæmdir ársins. Þær helstu voru uppsetning kerfisveggs auk þess sem unnar voru reyndarteikningar af húsnæði leikskólans, nýr dótaskúr á lóð, nýr gufuofn í eldhúsið og nýjar ofnalagnir í eldri hluta húsnæðisins.

Á næsta ári eru áætlaðar 2 milljónir kr. í fjárfestingu í leikskólanum, m.a. í nýjan háf í eldhúsið, viðgerð á grindverki, auk þess sem eðlilegu viðhaldi verði sinnt.

--

Formaður þakkaði leikskólastjóra fyrir góða yfirferð. Hann færði sömuleiðis þakkir til starfsfólks og foreldra fyrir sitt framlag og gott samstarf á tímum Covid.

Formaður lagði til að skólanefnd samþykki breytingu á starfsáætlun (skóladagatali) og að leikskólastjóra og grunnskólastjóra verði falið að útfæra sumarlokun leikskóla og Eldhamra, í samræmi við erindi G.Run.

Samþykkt samhljóða.

Önnu, Maríu Rún og Rut var þakkað fyrir komuna og þátttöku í fundinum.

2.Fjárhagsáætlun 2021

Málsnúmer 2009045Vakta málsnúmer

Bæjarstjóri fór yfir fjárhagsáætlun 2021, sagði frá helstu rekstrarniðurstöðum, einkum fjárfestingum við stofnanir á sviði skólanefndar.

Fyrirhugaðar eru áframhaldandi utanhússviðgerðir á grunnskóla, múrviðgerðir og gluggaskipti. Í næsta lið á undan var sagt frá fjárfestingum í leikskólanum.
Hún sagði einnig frá áformum um endurbætur á gangstéttum/gönguleiðum, sem koma til framkvæmda á næsta ári.

3.Samband íslenskra sveitarfélaga - Íslensku menntaverðlaunin 2020

Málsnúmer 2005025Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar.

4.SSV - Fjórða iðnbyltingin - styrkir til framhaldsskóla á Vesturlandi

Málsnúmer 2010022Vakta málsnúmer

Eitt af áhersluverkefnum Sóknaráætlunar Vesturlands snýst um Fjórðu iðnbyltinguna. Meginmarkmiðið með verkefninu er að framhaldsskólar á Vesturlandi geti aðlagað námsframboð sitt að þeim þáttum sem einkenna Fjórðu iðnbyltinguna. Verkefnið hefur m.a. styrkt alla framhaldsskólanna á Vesturlandi vegna verkefna sem þau hafa ráðist í til að efla námsframboð sitt.

Í framlögðu erindi SSV kemur fram að Fjölbrautaskóli Snæfellinga hefur verið að undirbúa stofnun nýsköpunarbrautar og mun nýta þann styrk sem fæst úr verkefninu til kaupa á búnaði og endurmenntunar kennara þannig að hægt verði að bjóða upp á kennslu á nýrri námsbraut sem fyrst.

Lagt fram til kynningar.


5.Samband íslenskra sveitarfélaga - Uppfærðar leiðbeiningar vegna smitrakninga í skólum

Málsnúmer 2012011Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar.
Fundargerð lesin upp og samþykkt.

Fundi slitið - kl. 17:40.