Málsnúmer 2009045

Vakta málsnúmer

Bæjarráð - 556. fundur - 28.09.2020

Farið yfir vinnuskjal með tillögum Haraldar Líndal Haraldssonar úr úttekt hans á fjármálum, rekstri og stjórnsýslu Grundarfjarðarbæjar, sem hann vann að beiðni bæjarstjórnar.

Tillögurnar snúa að gagnaöflun vegna fjárhagsáætlunar 2021 og því að koma á stefnumiðaðri fjármálastjórn til næstu ára. Í því felst að setja markmið um helstu lykilvísa í rekstri.

Samþykkt að undirbúa vinnu í samræmi við þessar tillögur.
Bæjarstjóra og skrifstofustjóra falið að skoða betur þær tillögur sem bæjarráð fór yfir í vinnuskjali fundarins.

Bæjarráð mun vinna áfram að skoðun og úrvinnslu tillagnanna.

Bæjarráð - 557. fundur - 22.10.2020


Lagt fram minnisblað Sambands íslenskra sveitarfélaga dags. 8. október sl. varðandi forsendur fjárhagsáætlana 2021-2024. Jafnframt lögð fram sviðsmynd 1 að rekstrarreikningi ársins 2021 og skýrsla HLH ehf.

Umræður um komandi fjárhagsáætlunargerð og tillögur úr rekstrarúttekt HLH ehf.

Frekari vinnu vísað til næsta fundar bæjarráðs.

Bæjarráð - 558. fundur - 29.10.2020

Fyrir fundinum lágu myndir af helstu framkvæmdum ársins í viðkomandi stofnunum og tillögur um framkvæmdir og viðhald húsnæðis, tækjakaup o.fl. á komandi fjárhagsári.
Í staðinn fyrir heimsóknir bæjarráðs í stofnanir bæjarins, fékk bæjarráð forstöðumenn í heimsókn inná fjarfund og fór með þeim yfir stöðu verklegra framkvæmda og fjárfestingarverkefna ársins 2020. Sýndar voru myndir af framkvæmdum og endurbótum sem átt hafa sér staða á síðustu mánuðum, í stofnunum, auk þess sem farið var yfir þarfir stofnana fyrir komandi fjárhagsár.

Inná fundinn komu eftirtaldir gestir:

Umsjónarmaður fasteigna, Gunnar Jóhann Elísson.
Farið var yfir framkvæmdir sem snúa að íbúðum að Hrannarstíg 18 og Hrannarstíg 28-40, húsnæði að Borgarbraut 16 og Grundargötu 30.
Kristín Halla Haraldsdóttir kom einnig inn á fundinn undir yfirferð á málefnum samkomuhúss og tjaldsvæðis.

Valgeir Þór Magnússon, verkstjóri áhaldahúss og slökkviliðsstjóri.
Farið var yfir framkvæmdir við innréttingu áhaldahúss, sem flutti alfarið í húsnæði að Nesvegi 19 fyrr á árinu. Farið var yfir nauðsynlega endurnýjun tækja og verkfæra, yfir fráveitumál og þarfir slökkviliðs.

Anna Rafnsdóttir, leikskólastjóri.
Farið var yfir framkvæmdir við húsnæði leikskóla og leikskólalóð á þessu ári og yfir nauðsynlegar framkvæmdir og viðhald á komandi fjárhagsári.
Einnig rætt við Önnu um starfsemi leikskólans á Covid-tímum, reynslu og lærdóm. Bæjarráð færir Önnu og starfsfólki leikskólans þakkir fyrir starf þeirra á krefjandi tímum.

Unnið verður að því að kostnaðarmeta frekar einstaka liði. Auk þess munu forstöðumenn forgangsraða þar sem þess er þörf.

Gestum fundarins var þakkað fyrir komuna á fundinn og yfirferð undir þessum lið.


Bæjarráð - 559. fundur - 05.11.2020

Lögð fram og yfirfarin drög að launaáætlun ásamt áætluðum stöðugildum stærstu stofnana.

Undir þessum lið komu eftirtaldir gestir og sátu hluta fundarins:

Aðalsteinn Jósepsson, forstöðumaður íþróttamannvirkja.
Rætt um framkvæmdir ársins 2020 í íþróttamannvirkjum og framkvæmdaþörf ársins 2021.

Sigurður Gísli Guðjónsson, skólastjóri grunnskóla og tónlistarskóla og Gunnar Jóhann Elísson, umsjónarmaður fasteigna.
Farið yfir þörf fyrir tækjakaup og rætt um framkvæmdir ársins 2020 á grunnskóla. Skólastjóri sýndi gegnum vef þær breytingar sem framkvæmdar voru í hornstofu sem tekin var undir starfsemi heilsdagsskóla. Jafnframt farið yfir framkvæmdaþörf ársins 2021.

Bæjarráð þakkaði skólastjóra og starfsfólki grunnskólans fyrir gott starf á erfiðum tímum.

Ragnheiður D. Benidiktsdóttir, forstöðumaður félagsmiðstöðvar.
Farið yfir starf félagsmiðstöðvar, sem hefur farið fram með breyttum hætti. Starfsemin hefur farið fram úti, í stærra húsnæði eða á netinu vegna aðstæðna í samfélaginu.

Sunna Njálsdóttir, forstöðumaður bókasafns og Upplýsingamiðstöðvar.
Farið yfir starfsemi bókasafns, en minna hefur verið um heimsóknir og útlán, rætt um skönnun á myndum Bærings Cecilssonar sem hafist var handa við sl. sumar og fleira.

Gestum fundarins var þakkað fyrir komuna á fundinn og yfirferð þeirra.

Frekari vinnu við fjárhagsáætlun vísað til næsta fundar bæjarráðs.

Gestir

  • Ragnheiður D. Benidiktsdóttir - mæting: 16:57
  • Sunna Njálsdóttir - mæting: 17:14
  • Gunnar Jóhann Elísson - mæting: 16:10
  • Aðalsteinn Jósepsson - mæting: 15:35
  • Sigurður Gísli Guðjónsson - mæting: 16:03

Bæjarráð - 560. fundur - 12.11.2020

Lögð fram drög að launaáætlun ásamt drögum að rekstraráætlun A- og B-hluta bæjarsjóðs vegna ársins 2021. Jafnframt lagt fram yfirlit yfir fjárfestingaóskir næsta árs.

Á þessu stigi fjárhagsáætlunarvinnunnar lítur út fyrir verulegt tekjutap, auk þess sem hækkanir vegna nýgerðra kjarasamninga eru þungar í skauti. Rekstrarniðurstaða ársins stefnir því í að vera neikvæð.

Fjárhagsáætlun 2021 vísað til fyrri umræðu í bæjarstjórn.

Samþykkt samhljóða.

Bæjarstjórn - 243. fundur - 26.11.2020

Lögð fram til fyrri umræðu fjárhagsáætlun ársins 2021 ásamt þriggja ára áætlun áranna 2022-2024, sem innifelur rekstraryfirlit, málaflokkayfirlit, efnahagsyfirlit og sjóðsstreymi. Jafnframt lagt fram yfirlit með samanburði á deildum milli áætlana 2020 og 2021 ásamt uppfærðri launaáætlun fyrir 2021.

Allir tóku til máls.

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða að vísa fjárhagsáætlun 2021 og þriggja ára áætlun áranna 2022-2024 til síðari umræðu í bæjarstjórn, og til milliumræðu í bæjarráði (aukið bæjarráð) í næstu viku. Á þeim fundi verði einnig farið yfir tillögur um fjölda stöðugilda á árinu 2021.

Samþykkt samhljóða.

Bæjarráð - 561. fundur - 03.12.2020

Farið yfir fjárfestingaáætlun ársins 2021.

Bæjarráð vísar tillögu að fjárfestingaáætlun ársins 2021 til annarrar umræðu í bæjarstjórn.

Samþykkt samhljóða.

Bæjarstjórn - 244. fundur - 10.12.2020


Lögð fram til síðari umræðu fjárhagsáætlun ársins 2021 ásamt greinargerð, samanburði milli fjárhagsáætlunar 2020 og 2021 og útlistun á breytingum sem gerðar hafa verið milli umræðna. Jafnframt lögð fram þriggja ára áætlun fyrir árin 2022-2024.

Skv. rekstraryfirliti fjárhagsáætlunar 2021 eru heildartekjur áætlaðar 1.171,9 millj. kr. Áætlaður launakostnaður er 667,8 millj. kr., önnur rekstrargjöld 388,4 millj. kr. og afskriftir 72,9 millj. kr. Fyrir fjármagnsliði er gert ráð fyrir að rekstrarafkoma verði 42,7 millj. kr. Gert er ráð fyrir 82,9 millj. kr. fjármagnsgjöldum. Áætlun 2021 gerir ráð fyrir 40,3 millj. kr. neikvæðri rekstrarniðurstöðu samstæðu.

Skv. sjóðsstreymisyfirliti áætlunarinnar er veltufé frá rekstri 83,3 millj. kr. þegar leiðrétt hefur verið fyrir afskriftum og áföllnum en ógreiddum verðbótum og gengismun, auk annarra breytinga á skuldbindingum. Þessi fjárhæð nýtist síðan til afborgana lána og nauðsynlegra fjárfestinga sem brýnt er að ráðast í á árinu 2021. Ráðgert er að fjárfestingar verði 153,5 millj. kr., afborganir lána 126,1 millj. kr. og að tekin verði ný lán að fjárhæð 190 millj. kr. Miðað við þær forsendur er gengið á handbært fé um 1,6 millj. kr., sem í upphafi árs er ráðgert að það verði 32,4 millj. kr. Handbært fé í árslok ársins 2021 er því áætlað 30,8 millj. kr. gangi fjárhagsáætlun ársins 2021 fram eins og ráðgert er.

Allir tóku til máls.

Fjárhagsáætlun 2021 og þriggja ára áætlun 2022-2024 samþykkt samhljóða.

Skólanefnd - 155. fundur - 14.12.2020

Bæjarstjóri fór yfir fjárhagsáætlun 2021, sagði frá helstu rekstrarniðurstöðum, einkum fjárfestingum við stofnanir á sviði skólanefndar.

Fyrirhugaðar eru áframhaldandi utanhússviðgerðir á grunnskóla, múrviðgerðir og gluggaskipti. Í næsta lið á undan var sagt frá fjárfestingum í leikskólanum.
Hún sagði einnig frá áformum um endurbætur á gangstéttum/gönguleiðum, sem koma til framkvæmda á næsta ári.

Bæjarstjórn - 254. fundur - 14.12.2021

Lagður fram viðauki við fjárhagsáætlun ársins 2021. Gert er ráð tekjuaukningu vegna skatttekna, framlaga Jöfnunarsjóðs og á höfn auk lækkun kostnaðar. Nettó breyting á rekstri er 54,3 millj. kr., lántaka er lækkuð um 90 millj. kr., þar af leiðir er lækkun á handbæru fé um 35,7 millj. kr. Í stað neikvæðrar rekstrarniðurstöðu upp á 40,3 millj. kr., er gert ráð fyrir 13,9 millj. kr. jákvæðri niðurstöðu.

Allir tóku til máls.

Viðauki við fjárhagsáætlun 2021 samþykktur samhljóða.