Kæru íbúar!

Á Vesturlandi eru nú 299 manns í sóttkví, þar af 39 manns hér hjá okkur. Greind COVID-19 smit eru 12 og þar af er eitt hjá okkur, skv. upplýsingum gefnum út í dag. Það er ný staða, en jafnframt eitthvað sem við höfum búið okkur undir. 

Þegar smit greinist fer af stað markvisst ferli. Þar leggjum við allt okkar traust á sérfræðingana sem til aðstoðar koma. Smitaður einstaklingur fer strax í einangrun, en um einangrun í heimahúsi gilda sérstakar leiðbeiningar sem landlæknisembættið hefur gefið út. Sömuleiðis fer öflug smitrakning af stað. Um það sér teymi á vegum almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og sóttvarnalæknis. Rætt er við þann sem greinst hefur með smit og ferðir viðkomandi eru raktar. Haft er samband við þá sem hann hefur verið í nánum samskiptum við og metið hvort þeir þurfi að fara í sóttkví. Unnið er eftir hlutlægum viðmiðum um slíkt. 

Á meðan einangrun stendur, hefur starfsfólk heilsugæslustöðvar daglegt samband við viðkomandi. Einangrun lýkur þegar læknir ákveður að það sé óhætt, þegar 14 dagar eru liðnir frá greiningu og þegar sjúklingur hefur verið einkennalaus í a.m.k 7 daga, en hvorutveggja þarf að vera uppfyllt. Ef vafi leikur á að þetta eigi við, getur þurft að endurtaka sýnatöku til veirugreiningar til að skera úr um það.

Við búum við þann munað á Íslandi að lögð er mikil vinna í að rekja hvert einasta smit sem greinist, en tekist hefur að rekja meirihluta smita hérlendis. Þetta er hægt hjá fámennri þjóð og skiptir gríðarlega miklu máli til að verjast frekari smitum. Talið er að öflug smitrakning sé aðalvopnið og ástæða fyrir því að tekist hefur að hægja meira á útbreiðslu kórónaveirunnar hérlendis en hjá flestum öðrum þjóðum. Það viljum við gera til að heilbrigðiskerfið geti ráðið við að þjónusta sjúka og smitaða, svo vel sé.  

Annað lykilatriði til að hægja á útbreiðslu eru þau úrræði sem felast í að forðast náin samskipti við aðra; þ.e. reglur um einangrun og sóttkví, sem og samkomubannið. Þar er það undir okkur sjálfum komið hvernig til tekst. Eins og sérfræðingar hafa hvatt okkur til, og ég hef áður skrifað um, sjá hér, og hér, þá gilda nákvæmar reglur um sóttkví og einangrun. Að virða þessar reglur er hluti af því að “standa saman” - að skorast ekki undan því að auka öryggi annarra og sitt eigið, þar með. 

Að lokum má svo ekki gleyma hinum margnefnda handþvotti, sprittun og að forðast snertingu í andlit. 

Nú höldum við einfaldlega áfram að gera það sem við höfum verið að gera; að fylgja þessum leiðbeiningum.

Munum einnig það sem Alma Möller landlæknir sagði um að henda orðinu “smitskömm” út úr tungumálinu. “Það getur auðvitað enginn gert að því að hann smitast eða smitar aðra, að því gefnu auðvitað að fólk hafi sinnt reglum varðandi einangrun og sóttkví." 

Smit er ekki feimnismál. 

Hjálparsími Rauða krossins

Ég vek athygli á auglýsingu um hjálparsíma Rauða krossins 1717 á vef RKÍ. Rauði krossinn heldur úti hjálparsíma og netspjalli á www.1717.is og er hægt að leita þangað eftir ráðgjöf, sálrænum stuðningi, hlustun og upplýsingum um þau úrræði sem í boði eru í íslensku samfélagi.

Á vef bæjarins er sömuleiðis að finna auglýsingu frá Rauðakrossdeildinni okkar í Grundarfirði. Minnt er á að þau sem eru í sóttkví, einangrun eða varnarsóttkví geta notfært sér hjálparsíma Rauða krossins 1717, ef þau þurfa aðstoð við að fá aðföng úr verslunum, lyf eða aðrar nauðsynjar. Þetta gildir einnig í Grundarfirði og er þá hringt í 1717. 

Þetta er dýrmætt framlag og ég vil þakka Sævöru formanni fyrir samvinnu síðustu daga og deildinni fyrir þeirra mikilvæga starf við að vera til staðar fyrir okkur öll. Takk!

Upplýsingar á bæjarvef um þjónustu fyrirtækja í Grundarfirði 

Ég vek athygli á því að á nýja bæjarvefnum höfum við tekið saman upplýsingar um þjónustu og opnunartíma fyrirtækja í bænum. Við fengum ábendingu um að það gæti verið gott að hafa slíkar upplýsingar aðgengilegar á einum stað, ekki síst núna þegar breytingar eru örar. 

Hún Christina Degener, sem vinnur hjá okkur í markaðsmálum og vefsíðugerðinni, setti sig í samband við fyrirtækin og leitaði eftir upplýsingum um opnunartíma og fleira. 

Við biðjum fulltrúa fyrirtækja og þjónustu um að láta vita af breytingum og eins ef það eru fleiri sem vilja vera á þessum lista, sem fyrst og fremst er ætlað að ná til bæjarbúa. 

Til stendur að setja upp lista fyrirtækja á varanlegri hátt á öðrum stað á nýja vefnum. 

Meira af þessu jákvæða 

Það er virkilega gaman að þessu litla jákvæða sem víða má sjá - og er ekkert svo lítið, ef við spáum í það.

Hún Lilja Magnúsdóttir sem stýrir skólabókasafninu byrjaði í morgun að lesa upp úr uppáhaldsbarnabókinni sinni, Kattasamsærinu, eftir Guðmund Brynjólfsson. Skemmtilegt framtak og ég hvet börn og fullorðna til að njóta sögunnar og upplestursins. 

Mæðgurnar Helga Sjöfn og Bibba í Blossa/Þvottahúsinu lífguðu uppá þennan föstudag með fígúrum í gluggunum á þvottahúsinu. Ef þið fylgið þeim á Instagram má sjá fjöldann allan af skemmtilegu dóti til að dunda við í inniverunni þessa dagana @blossi_grundarfirdi 

Ingi Hans hélt áfram að segja sögur og hér má njóta frásagnar hans af dularfulla kettinum Sterling (sem hét eftir hnífaparasetti) og næturævintýri hans. Sögusviðið er blokkin á Grundargötu 26, fyrir örfáum árum, og við sögu koma hænur og minkur sem leiðist að vera sá sem öllum er illa við. Hlustið hér!    

Sagnamaðurinn Ingi var líka á Rás 1 á RÚV í dag, í þættinum Glans, sem fjallar um það sem við gerum okkur til dægrastyttingar. Þáttur dagsins fjallaði um sögur og rætt var við Inga Hans um hvað einkenni góða sögu. "Allar þær sögur sem ég segi eru sannar og rúmlega það", sagði Ingi. Hér má hlusta, frá mínútu 26:20 - 36:50. Ingi fjallar líka um það hvaða máli það skipti núna að létta lundina.

Nú í kvöld birtist svo spennandi auglýsing um Útvarp Klifurfell. Í auglýsingunni segir orðrétt: 

“Skemmtu sjálfum þér og öðrum og vertu með útvarpsþátt!  Vegna aðstæðna mætið þið ekki í stúdíóið heldur takið efnið upp þar sem ykkur hentar best. Dagskrá verður birt daglega hér á Facebook síðu Klifurfells.” 

Nú er um að gera að henda í eins og einn útvarpsþátt! Hér er slóð á útsendingu Útvarps Klifurfells.

Við bíðum spennt og látum okkur hlakka til! 

 

Björg