Kæru íbúar! 

Á vef bæjarins í dag er að finna tilkynningu um hvernig innheimtu þjónustugjalda í skólunum verður háttað fyrir mars og apríl. Meginviðmiðið er að ekki verður innheimt fyrir þjónustu sem ekki er innt af hendi. Einhver skerðing hefur orðið á þjónustu, t.d. er heilsdagsskóli ekki starfandi. Leiðrétt verður vegna skerðingar á þjónustu á tímabilinu 16.-31. mars 2020 og inneign látin ganga upp í þjónustu á næstu mánuðum. Leik- og grunnskóla hefur tekist að bjóða þjónustu alla daga, fyrir öll börn, þó með þeim breytingum sem leiða af samkomubanninu. Skólamatur hefur áfram verið í boði fyrir alla nemendur.

Í leikskólanum býðst foreldrum að fá leikskólagjöld felld niður kjósi þeir að hafa börnin sín heima. Með því léttir á starfseminni í leikskólanum, en þar “sígur í” ef svo má segja. Starfsfólk finnur verulega fyrir því að þurfa að skipta skólanum í þrjár aðskildar einingar, bæði hvað varðar rýmið og starfsfólkið, sem ekki má fara á milli eininga. Verði forföll til dæmis í einni einingunni, þá er ekki í boði að starfsfólk úr öðrum einingum leysi af. Ég vil enn og aftur hrósa starfsfólki skólanna sem hefur lagt sig í líma við að láta skólastarfið ganga við þessar krefjandi aðstæður. Hjá skólastjórunum heyri ég líka þakklæti til foreldra, sem hafa sýnt þolinmæði og stuðning. Kærar þakkir öll, fyrir gott samstarf! 

Sóttkví og leiðbeiningar 

Í Grundarfirði eru í dag 34 í sóttkví, skv. upplýsingum á Facebook-síðu lögreglunnar á Vesturlandi. Á vefnum covid.is er sérstakur kafli um sóttkví, þar sem m.a. er vísað í leiðbeiningar landlæknisembættis um sóttkví í heimahúsi. Leiðbeiningarnar segja mjög nákvæmlega hvað má og hvað má ekki þegar við förum í sóttkví. Meginreglan er að fólk í sóttkví má ekki fara út af heimili eða þeim stað þar sem það dvelur í sóttkvínni. Það má ekki fara af dvalarstað sínum til vinnu eða í skóla þar sem aðrir eru, ekki í verslun eða á mannamót og heldur ekki taka á móti gestum á heimili sínu. Í sóttkví megum við fara í gönguferðir en þurfum þá að halda okkur í a.m.k. 2 m fjarlægð frá öðrum vegfarendum. Einnig má fara í bíltúr á einkabíl en ekki eiga samskipti við aðra í návígi s.s. út um bílrúðuna. Reglur um sóttkví gilda alveg á sama hátt á heimilum og sumarhúsum í dreifbýli. 

Á fjölmiðlafundi dagsins þakkaði landlæknir öllu því fólki sem setið hefur í sóttkví og þannig tekið þátt í að hefta útbreiðslu veirunnar. Það er ástæða til að taka undir það. Seta í sóttkví og virðing við reglurnar sem um hana gilda er merki um borgaralega ábyrgð einstaklinganna, sem er dýrmæt og þakkarverð.

Lögreglan lokar afgreiðslum vegna smitvarna

Í dag tilkynnti lögreglustjórinn á Vesturlandi að vegna aukinna smitvarna hafi afgreiðslum lögreglunnar verið lokað frá og með deginum í dag. Ef ná þarf sambandi við skrifstofu lögreglunnar á Vesturlandi má hafa samband í síma 444-0300 kl. 09-12 og 13-15 alla virka daga eða senda póst á netfangið vesturland@logreglan.is 

Þetta litla jákvæða

Í þessu óvenjulega ástandi er gott að geta notið litlu, jákvæðu hlutanna í hversdeginum. Batnandi veður og bjartviðri í dag lokkaði marga íbúa út í göngutúr. Börnin sem fóru um bæinn í dag áttu þess kost að “hitta” bangsa í gluggum hér og þar, en Grundfirðingar gripu á lofti hugmynd sem hún Linda María setti fram á Facebook um að setja bangsa út í glugga. Þar vísaði hún til fréttar á mbl.is um glugga-bangsa, sem eiga að gleðja börn í samkomubanninu. Svipaðar hugmyndir hafa verið útfærðar víða um heim, t.d. teiknuðu börn í Þýskalandi regnboga og settu út í glugga á heimilum sínum í sama skyni.

Í Skessuhorni dagsins var sagt frá framtaki þeirra Ágústu, Lilju og Rutar sem hafa tekið upp myndbönd og streymt, þar sem þær hvetja og leiðbeina fólki við hreyfingu sem hægt er að stunda heima í stofu. Yfirskriftin er viðeigandi:  #stofuleikarnir. Rut hefur einnig gert myndbönd og sett inná Facebook-síðu Heilsueflingar 60+ en Rut hafði verið að leiðbeina þeim í spinning-tímum rétt áður en tímarnir féllu niður um miðjan mars. Þau Gaui Ella og Kristín Halla hafa sömuleiðis verið dugleg að setja efni inná þann hóp og hvetja til hreyfingar. 

Loks var skemmtilegt að sjá konur í Grundarfirði bregðast við spurningu Kristínar Höllu í Facebook-hópnum Stelpó í Grundó, en hún spurði hvað þær hefðu verið að prjóna eða sauma nýlega. Hópurinn hefur gengist fyrir prjónahittingi síðasta árið eða svo, en vegna samkomubanns er að sjálfsögðu ekki verið að hittast núna. Þess vegna var kjörið að deila bara og sýna nýjasta handverkið, allskonar peysur, pils, húfur og fleira. Það þarf nefnilega ekki alltaf mikið, til að hrinda af stað góðu framtaki sem gleður.

Meira þannig takk! 

Björg