Málsnúmer 1911022

Vakta málsnúmer

Hafnarstjórn - 7. fundur - 19.11.2019

Lögð fram tillaga hafnarstjóra að fjárhagsáætlun Grundarfjarðarhafnar fyrir árið 2020. Ennfremur yfirlit yfir raunstöðu 12. nóvember 2019 og raunniðurstöðu ársins 2018, til samanburðar.

Hafnarstjóri fór yfir fyrirliggjandi tillögu að fjárhagsáætlun 2020. Greinargerð hafnarstjóra fylgir áætluninni.

Hafnarstjórn samþykkir fyrirliggjandi tillögu að fjárhagsáætlun hafnarinnar fyrir árið 2020 og vísar henni til endanlegrar afgreiðslu í bæjarstjórn.

Jafnframt leggur hafnarstjórn til að samtals verði settar 125 m.kr. í fjárfestingar vegna hafnargerðar, með fyrirvara um stöðu verkframkvæmda á þessu ári, sem kynnt verður nánar í desember.

Bæjarráð - 540. fundur - 03.12.2019

Lögð fram til kynningar fjárhagsáætlun Grundarfjarðarhafnar 2020 ásamt greinargerð.

Rætt um hönnun og legu útrásar á Framnesi, með vísan í greinargerð hafnarstjóra. Í fjárhagsáætlun 2020 er gert ráð fyrir framlagi, sem tengist slíkri hönnun.

Bæjarstjórn - 233. fundur - 12.12.2019

Lögð fram fjárhagsáætlun Grundarfjarðarhafnar fyrir árið 2020.

Fjárhagsáætlun Grundarfjarðarhafnar samþykkt samhljóða.

Hafnarstjórn - 9. fundur - 06.04.2020

Farið var yfir niðurstöður rekstrar og fjárfestinga árið 2019 og rekstrartölur fyrstu þrjá mánuði ársins 2020.

Tekjur hafnarinnar árið 2019 voru rúmar 111 millj. kr., sem er vel yfir áætlun ársins. Gjöld eru rúmar 57 millj. kr., eða um 9 millj. kr. umfram áætlun og skýrist að mestu af auknum launakostnaði vegna meiri umsvifa hafnarinnar og viðhalds.
Afkoma eftir afskriftir og fjármagnsliði er 46,5 millj. kr.
Hafnarstjórn lýsir yfir ánægju með þessa niðurstöðu.

Tekjur hafnarinnar fyrstu þrjá mánuði þessa árs eru nánast þær sömu og fyrstu þrjá mánuði ársins 2019. Það er ánægjulegt, þegar haft er í huga tíðarfar síðustu mánaða og ástandið í samfélaginu.

Rætt var um stöðu og horfur, hvað varðar tekjur hafnarinnar 2020.
Búast má við lækkun tekna hafnarinnar á yfirstandandi ári, einkum þá af skemmtiferðaskipum, vegna áhrifa Covid-19. Enn er þó mikil óvissa um þróun mála.
Hafnarstjóri sagði frá því að nokkrar afbókanir hefðu þegar borist frá skipafélögum, en þær stæðu ekki í beinu sambandi við áhrif vegna Covid-19.

Hafnarstjóri kynnti yfirlit um framkvæmdir, aðrar en lengingu Norðurgarðs, og viðhaldsverkefni sem brýn eru. Ástand þekju á Norðurgarði hefur farið hratt versnandi og er nú svo komið að viðgerð verður ekki slegið mikið lengur á frest. Farið yfir tölur um áætlaðan kostnað við endurbætur á þekju og á öðrum liðum, eins og t.d. þaki hafnarhúss sem er orðið brýnt að skipta um. Til nánari skoðunar og úrvinnslu hjá hafnarstjóra, tekið fyrir á næsta fundi hafnarstjórnar.


Hafnarstjórn - 10. fundur - 23.06.2020

Horfur varðandi tekjur hafnarinnar. Framkvæmdir ársins, aðrar en lenging Norðurgarðs, sjóvörn og landfylling.
Rætt um horfur varðandi tekjur hafnarinnar á árinu.

Tekjur hafnarinnar, sem og rekstrarkostnaður, fyrstu fimm mánuði ársins eru mjög svipaðar því sem var á sama tímabili í fyrra.

Áhrif af Covid-19 valda því að af 38 bókuðum komum skemmtiferðaskipa ársins, hafa nú 26 komur verið afbókaðar, sem jafngildir um 76% af áætluðum tekjum hafnarinnar af komum skemmtiferðaskipa.

Rætt um framkvæmdir ársins, aðrar en hafnargerð, og kostnað við þær.

Á síðasta fundi hafnarstjórnar, þann 6. apríl sl., kynnti hafnarstjóri yfirlit um brýn viðhaldsverkefni og framkvæmdir, aðrar en lengingu Norðurgarðs. Rætt var um þak hafnarhúss, sem brýnt er að skipta um. Gerð var verðkönnun í nýtt þak, skv. hönnun og byggingarnefndarteikningum sem W7 slf., Sigurbjartur Loftsson, vann fyrir Grundarfjarðarhöfn. Eitt tilboð barst, frá Eyrarsveit ehf., að fjárhæð kr. 5.499.375 kr. m.vsk. Hafnarstjóri gekk til samninga við bjóðanda og er áætlað að verkið verði unnið í júlímánuði nk.

Framhald umræðna á síðasta hafnarstjórnarfundi, um bágborið ástand þekju á elsta hluta Norðurgarðs: hafnarstjóra falið að vinna áfram að úrlausn þessa verks.