Málsnúmer 2009046

Vakta málsnúmer

Bæjarráð - 556. fundur - 28.09.2020

Bæjarstjóri sagði frá því að hafin væri vinna við útfærslu á styttingu vinnuvikunnar, í samræmi við ákvæði nýrra kjarasamninga þar að lútandi.

Bæjarráð - 561. fundur - 03.12.2020

Ragnheiður Agnarsdóttir sat fundinn undir þessum lið.

Hún fór yfir stöðu vinnu við styttingu vinnuvikunnar. Bæjarráði gerð grein fyrir þeirri vinnu sem fram hefur farið í vinnutímanefndinni, en í henni sitja fulltrúar starfsfólks og vinnuveitanda.

Bæjarstjóra og skrifstofustjóra falið umboð til að vinna áfram fyrir hönd bæjarins að þessu verkefni.

Niðurstaða atkvæðagreiðslu starfsfólks um tillögurnar verður síðan lögð fyrir bæjarstjórn til samþykktar.

Samþykkt samhljóða.

Gestir

  • Ragnheiður Agnarsdóttir - mæting: 17:15

Bæjarráð - 562. fundur - 21.12.2020

Ragnheiður Agnarsdóttir, mannauðsráðgjafi, sat fundinn undir þessum lið.

Í kjarasamningum Sambands íslenskra sveitarfélaga sem gerðir voru á árinu 2020 var gert tímamótasamkomulag um styttingu vinnutíma starfsfólks. Markmið styttingar vinnutímans er að bæta lífskjör og auðvelda samræmi á milli vinnu og einkalífs. Styttingin hefur einnig það að markmiði að bæta vinnustaðamenningu og auka skilvirkni og þjónustu. Hún byggir á gagnkvæmum sveigjanleika og getur þannig stuðlað að bættum lífskjörum. Lagt var upp með að styttingin myndi hvorki skerða þjónustu né fela í sér kostnaðarauka fyrir viðkomandi sveitarfélag.

Grundarfjarðarbær kom á fót vinnutímanefnd með fulltrúum stofnana bæjarins. Í framhaldinu fór af stað vinna á stofnunum, gerðar voru tillögur að útfærslu og fyrirkomulagi, kosið um þær og þær sendar stjórnendum til umræðu.

Mikill áhugi var á því meðal starfsfólks að ná fram 36 klst. virkri vinnuviku, þ.e. að stytta vinnuvikuna um allt að 4 klst. á viku. Í þeirri útfærslu felst að starfsfólk afsali sér forræði yfir matar- og kaffitímum, en því séu eftir sem áður tryggð nauðsynleg neysluhlé. Einnig var meirihluti starfsfólks áhugasamur um að safna styttingunni upp í lengri tíma, t.d. innan mánaðar.

Bæjarráð þakkar það góða starf sem starfsfólk og stjórnendur hafa unnið á síðustu vikum, til að kanna möguleikann á því að útfæra fulla styttingu vinnuvikunnar, án þess að það leiði til kostnaðarauka eða þjónustuskerðingar.

Að teknu tilliti til þeirra fjölmörgu sjónarmiða sem komið hafa fram í samtali um styttingu vinnuvikunnar, leggur bæjarráð til að frá 1. janúar 2021 verði vinnutími starfsfólks Grundarfjarðarbæjar fyrir 100% starf styttur um 30 mínútur á dag eða 2,5 klst. á viku og að mögulegt sé að safna þeirri styttingu upp innan mánaðar. Starfsfólki sé áfram tryggt 20 mínútna kaffihlé á dag og að það sé á forræði starfsfólks. Virkur vinnutími starfsfólks í 100% starfi verður því 36 klst. á viku. Nánari útfærsla á vinnutímastyttingu sé í höndum starfsfólks og stjórnenda á hverri starfsstöð fyrir sig og taki mið af þeim tillögum sem liggja fyrir og kosið hefur verið um á flestum starfsstöðvum.

Bæjarráð telur að þessi viðmið um útfærslu séu mikilvægt fyrsta skref í þá átt að ná fram markmiðum samkomulagsins um styttingu vinnuvikunnar. Mikilvægt er að tryggja jafnræði á sama tíma og hver vinnustaður hefur frelsi til útfærslu á styttingu í nærumhverfi sínu, líkt og samkomulagið gerir ráð fyrir.

Fyrirkomulag þetta skal endurmetið í maí 2021 með tilliti til markmiða, þ.e. að fyrirkomulagið hafi jákvæð áhrif á vinnumenningu, starfsánægju starfsfólks og leiði ekki til kostnaðarauka fyrir sveitarfélagið eða þjónustuskerðingar fyrir íbúa. Verði þeim markmiðum náð á öllum vinnustöðum Grundarfjarðarbæjar, myndast forsendur til þess að ganga lengra í útfærslu á styttingu vinnudagsins, t.d. með því að gera neysluhlé að fullu sveigjanleg og að þau verði á forræði vinnuveitenda.

Samþykkt samhljóða.

Gestir

  • Ragnheiður Agnarsdóttir - mæting: 12:00

Bæjarstjórn - 245. fundur - 14.01.2021

Lagðir fram til kynningar tölvupóstar frá formanni Starfsmannafélags Dala- og Snæfellsness (SDS) vegna styttingar vinnuvikunnar.

Allir tóku til máls.

Bæjarráð - 563. fundur - 27.01.2021

Ragnheiður Agnarsdóttir ráðgjafi sat fundinn undir þessum lið.

Lagðir fram tölvupóstar frá Starfsmannafélagi Dala- og Snæfellsness (SDS) ásamt bréfi frá fulltrúum í starfshópi grunnskólans um styttingu vinnuvikunnar.

Í erindunum er lýst vonbrigðum með að ekki hafi verið samþykkt að fara í fulla styttingu vinnuvikunnar, þ.e. í 36 klst. á viku fyrir fullt starf. Jafnframt kemur fram að bæjarráð hefði átt að hafna tillögum vinnutímanefnda stofnana, fyrst ekki var samþykkt að ganga alla leið og fara í fulla styttingu.

Bæjarráð samþykkti styttingu vinnuvikunnar um 30 mínútur á dag, eða 2 ½ klst. á viku sem þýðir að virkur vinnutími starfsfólks í 100% starfi sé 36 klst. á viku, auk 20 mínútna neysluhlés á dag, eða samtals 37,5 klst. vinnuvika.

Því getur bæjarráð ekki fallist á að tillögum starfsmanna hafi verið hafnað. Þvert á móti var fallist á meginhluta tillagna sem vörðuðu útfærslur á styttingu sem bárust bæjarráði og kosið hafði verið um á hverjum vinnustað. Með höfnun á tillögum starfsmanna myndi 13 mínútna stytting á dag skv. kjarasamningum taka gildi, sem er 65 mínútna stytting á viku fyrir fullt starf, eða 38,9 klst. vinnuvika.

Bæjarráð vill árétta að faglega var staðið að vinnu við styttingu vinnuvikunnar af hálfu Grundarfjarðarbæjar. Ekki verður annað séð en að almenn ánægja ríki meðal starfsfólks um styttinguna. Í upphafi vinnunnar var gerð könnun meðal þeirra starfsmanna sem stytting nær til. Af 50 starfsmönnum svöruðu 34, sem er 68% svarhlutfall.

Niðurstöður könnunarinnar leiddu m.a. í ljós eftirfarandi:
-
að flestir telja heppilegast að safna styttingu upp innan mánaðar
-
að meirihluti þeirra sem hafa fastan kaffitíma innan vinnudagsins eru ekki reiðubúin til að stytta kaffitíma til þess að ná fram meiri styttingu, eða 67% svarenda
-
að mikill meirihluti þeirra sem eru með fastan matartíma innan vinnudagsins eru ekki reiðubúin að stytta matatíma með það að markmiði að ná fram meiri styttingu, eða 84% svarenda
-
að meirihluti starfsfólks er tilbúinn að vinna sveigjanlegan vinnutíma til að tryggja óbreytta þjónustu eftir að stytting tekur gildi

Bæjarráði þótti því ljóst að það væri ekki í hag starfsfólks að afsala sér með öllu forræði yfir matar- og/eða kaffitímum innan dagsins, enda eru hvíldarhlé innan dagsins nauðsynleg. Því var lögð áhersla á að starfsfólk héldi forræði sínu yfir 20 mínútna daglegu neysluhléi. Með því væri betur hlúð að velferð og heilsu starfsfólks og góðri vinnustaðamenningu. Eins og fram kom í fyrri bókun bæjarráðs, sem og í vinnu vinnutímanefndarinnar, er hér um mikilvægt skref að ræða og því er brýnt að vel takist til. Þá er lögð áhersla á að tryggt sé jafnræði milli stofnana en að hver stofnun útfæri sína styttingu í sínu nærumhverfi.

Bæjarráð bendir á að í fylgiskjali 2 með kjarasamningi aðila segir:
„Breyting á skipulagi vinnutíma á að öðru óbreyttu ekki að leiða til breytinga á launum eða launakostnaði sveitarfélaga. Jafnframt er forsenda breytinganna að starfsemi vinnustaðarins raskist ekki og að opinber þjónusta sé að sömu gæðum og áður.“

Bæjarráð telur að full stytting vinnuvikunnar í 36 klst. á viku fyrir fullt starf muni leiða af sér aukinn rekstrarkostnað og/eða þjónustuskerðingu. Ef ráða þarf inn starfsmenn til afleysinga er ljóst að um kostnaðarauka er að ræða. Ef það er ekki gert er ljóst að um þjónustuskerðingu er að ræða.

Eins og fram kom í bókun bæjarráðs þann 21. desember sl. verður fyrirkomulag þetta endurmetið í maí 2021 með tilliti til markmiða þeirra sem sett voru með breytingunni.

Samþykkt samhljóða.

Gestir

  • Ragnheiður Agnarsdóttir - mæting: 17:45

Bæjarráð - 583. fundur - 02.02.2022

Lagðar fram til kynningar niðurstöður könnunar vegna styttingar vinnuvikunnar sem gerð var á haustmánuðum.

Könnunin var lögð fyrir um miðjan september og var opin fram í miðjan október. Alls 44 starfsmenn fengu senda könnunina og tóku 33 þátt, sem er 75% svarhlutfall. Af þeim sem tóku afstöðu taldi meirihluti styttingu vinnutíma hafa aukið starfsánægju sína og lífsgæði. Þá kom fram að meiri hluti starfsmanna taldi hafa tekist vel til um styttingu vinnutíma á sínum vinnustað.