Málsnúmer 2104003

Vakta málsnúmer

Skipulags- og umhverfisnefnd - 234. fundur - 01.03.2022

Hafsteinn Garðarsson hafnarstjóri var gestur á fundinum undir þessum lið og var hann boðinn velkominn.

Til stendur að endurnýja eldri hluta þekju á Norðugarði á um 1200 m2 svæði um miðbik Norðurgarðs. Framkvæmdin verður að líkindum unnin í vor og haust.

Í tengslum við þessa framkvæmd skapast möguleiki á að endurleggja olíu- og vatnslagnir undir þekjunni.

Olíudreifing hyggst endurnýja olíulögn frá olíutönkum á Nesvegi 4b og Nesvegi 10 að olíubrunni á Norðurgarði.

Samhliða verða eldri olíulagnir aflagðar en þær liggja annars vegar frá tanki á lóð 4b yfir lóðir 4a og 4 og austur eftir Norðurgarði, og hinsvegar úr tanki á lóð 10 suður eftir Nesvegi og fyrir húshorn gamla hraðfrystihússins við Nesveg 4 og sömuleiðis austur eftir Norðurgarðinum.

Sömuleiðis hyggjast Veitur ohf. endurnýja vatnslögn/lagnir fram á Norðurgarð og breyta legu þeirra.

Fyrirhugaðar lagnaframkvæmdir kalla á breytingu á gildandi deiliskipulagi þar sem að breyting á legu lagnanna kallar á nýjar kvaðir sem verða að mestu um Norðurgarð, hafnarsvæði og götu, en liggja að hluta til yfir lóðir.
Skipulagsfulltrúi, hafnarstjóri, byggingarfulltrúi og bæjarstjóri fóru yfir aðdraganda og stöðu málsins og skipulagsfulltrúi gerði grein fyrir undirbúningi og skoðun á þörf fyrir deiliskipulagsbreytingu.

Skipulags- og umhverfisnefnd telur, með hliðsjón af framkomnum upplýsingum, að hér sé um að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi fyrir Framnes austan Nesvegar, skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og felur skipulagsfulltrúa að halda áfram vinnu við undirbúning tillögu um málið.

Hafsteinn vék af fundi kl. 18:11 og var honum þakkað fyrir komuna og veittar upplýsingar.

Gestir

  • Hafsteinn Garðarsson, hafnarstjóri - mæting: 17:23

Hafnarstjórn - 17. fundur - 08.03.2022

Í framhaldi af næsta dagskrárlið á undan var ennfremur farið yfir undirbúning óverulegra deiliskipulagsbreytinga á hafnarsvæði, Framnes austan Nesvegar.

Hafnarstjóri var gestur á fundi skipulags- og umhverfisnefndar um málið þann 1. mars sl.
Sjá dagskrárlið 3 í fundargerð nefndarinnar:
https://www.grundarfjordur.is/is/stjornsysla/baejarstjorn/fundargerdir/allar-fundargerdir/skipulags-og-umhverfisnefnd/418

Hafnarstjórn - 18. fundur - 28.04.2022

Formaður kynnti að búið er að semja við Eflu um að annast endurskoðun deiliskipulags hafnarsvæðis á Framnesi austan Nesvegar og er sú vinna hafin.
Auk þess er í undirbúningi vinna við deiliskipulag Framness og annast Efla ennfremur skipulagsráðgjöf þar.
Skipulagsfulltrúi hefur umsjón með verkefninu og mun hafnarstjórn hafa aðkomu að því vegna hafnarsvæðisins.

Hafnarstjórn - 1. fundur - 05.07.2022

Kristín Þorleifsdóttir skipulagsfulltrúi er gestur fundarins undir þessum lið og var í fjarfundi. Var hún boðin velkomin.

Kristín sagði frá vinnu sem í gangi er við endurskoðun deiliskipulags á hafnarsvæði, Framnesi austan Nesvegar. Gera þarf breytingar á gildandi deiliskipulagi og auka við svæðið, m.a. færa Norðurgarð þar undir.

Farið var yfir vinnuna og helstu viðfangsefni hennar, þróun og starfsemi á höfninni. Þann 6. júní sl. var fundur með hagsmunaaðilum á hafnarsvæði og Framnesi, en ennfremur er hafin vinna við gerð deiliskipulags á Framnesi.

Varðandi mörk skipulagssvæðisins þá leggur hafnarstjórn til að þau verði dregin sunnan við hafnarhús og Miðgarð, þannig að deiliskipulagið taki heildstætt á komum skemmtiferðaskipa, umferðarflæði sem þeim fylgir, sem og samspili við umsvif vegna fiskiskipa, bæði við Norðurgarð og Miðgarð.

Nefndin telur mikilvægt að deiliskipulagið taki vel á flæði umferðar á hafnarsvæðinu, þannig að umsvif og þjónusta við fiskiskip og skemmtiferðaskip geti farið saman á farsælan hátt.

Ennfremur telur hafnarstjórn mikilvægt að fylgja áherslum aðalskipulags um að huga vel að nýtingu lóða/lands á hafnarsvæðinu.

Hér vék Kristín af fundi og var henni þakkað fyrir komuna.

Hafnarstjórn - 2. fundur - 25.10.2022

Sl. vor fór af stað vinna við endurskoðun deiliskipulags hafnarsvæðis austan Nesvegar, sem er innan hafnarsvæðis Grundarfjarðarhafnar. Samhliða er unnið að nýju deiliskipulagi fyrir Framnes, en það svæði hefur ekki verið deiliskipulagt áður. Efla sér um skipulagsráðgjöf og vinnur að tillögugerð fyrir Grundarfjarðarbæ og Grundarfjarðarhöfn, skv. samþykktri verk- og tímaáætlun.

Í júní á þessu ári fóru fram samtöl við lóðarhafa á hafnarsvæði austan Nesvegar og á Framnesi, þar sem leitað var eftir óskum lóðarhafa um landnýtingu og uppbyggingu til framtíðar.

Í næstu viku er fyrirhugaður vinnufundur fulltrúa hafnarinnar með Eflu til að fara yfir tillögur sem eru í vinnslu. Ætlunin er að deiliskipulagstillögur verði tilbúnar til auglýsingar í upphafi nýs árs.