234. fundur 01. mars 2022 kl. 16:30 - 20:00 í Ráðhúsi Grundarfjarðar
Nefndarmenn
  • Bjarni Sigurbjörnsson (BS) formaður
  • Vignir Smári Maríasson (VSM)
  • Runólfur J. Kristjánsson (RJK)
  • Helena María Jónsdóttir (HMJ)
  • Eymar Eyjólfsson (EE)
Starfsmenn
  • Björg Ágústsdóttir (BÁ) bæjarstjóri
  • Kristín Þorleifsdóttir (KÞ) sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs
  • Fannar Þór Þorfinnsson (FÞÞ) byggingarfulltrúi
Fundargerð ritaði: Kristín Þorleifsdóttir skipulagsfulltrúi
Dagskrá
Formaður bauð fundarmenn velkomna og gengið var til dagskrár.
Í fjarfundi voru Runólfur Kristjánsson og Björg Ágústsdóttir bæjarstjóri.
Gestur undir dagskrárlið 3 á fundinum var Hafsteinn Garðarsson, hafnarstjóri og var hann einnig í fjarfundi.

1.Skerðingsstaðir Deiliskipulag

Málsnúmer 1803056Vakta málsnúmer

Lögð fram til afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar, tillaga að deiliskipulagi á jörðinni Skerðingsstöðum, dagsett 5. febrúar 2022, ásamt umhverfismatsskýrslu.

Í apríl 2018 óskuðu landeigendur Skerðingsstaða eftir heimild Grundarfjarðarbæjar til að vinna deiliskipulag jarðarinnar. Við þeirri ósk var orðið. Ennfremur var farið fram á að landnotkun svæðisins yrði breytt í aðalskipulagsvinnu Grundarfjarðarbæjar, sem þá stóð yfir. Sú breyting var gerð við endurskoðun aðalskipulagsins, að landnotkun jarðarinnar var breytt úr landbúnaði í verslun og þjónustu (VÞ-1).

Á 196. fundi skipulags- og umhverfisnefndar þann 5. september 2018 var lögð fram til kynningar lýsing fyrir tillögu að deiliskipulagi Skerðingsstaða og á 197. fundi nefndarinnar þann 17. september 2018 og fundi bæjarstjórnar þann 18. október 2018 var samþykkt að kynna lýsinguna opinberlega og senda hana til umsagnaraðila.

Á 200. fundi skipulags- og umhverfisnefndar þann 16. maí 2019 fór nefndin yfir framkomnar umsagnir, ábendingar og athugasemdir og á 202. fundi nefndarinnar þann 29. júlí 2019 var tekin afstaða til þeirra og skipulagshöfundi f.h. landeigenda veitt tækifæri til að koma á framfæri skriflegum viðbrögðum við þeim. Skipulags- og byggingarfulltrúa var falið að taka saman frekari gögn og kynna fyrir skipulagshöfundi og veita hæfilegan frest til þess að koma á framfæri athugasemdum.

Á 206. fundi skipulags- og umhverfisnefndar þann 13. nóvember 2019 tók nefndin fyrir minnisblað með viðbrögðum skipulagshöfundar f.h. landeigenda um framkomnar athugasemdir og ábendingar við skipulagslýsingu. Ennfremur lágu fyrir innsendar skýrslur um neysluvatn og fráveitu á svæðinu. Í bókun nefndarinnar var brugðist efnislega við hverri athugasemd og skipulagshöfundi falið að hafa þær og umsagnir nefndarinnar til hliðsjónar við áframhaldandi vinnslu deiliskipulagstillögunnar og skrif umhverfismatsskýrslu (sjá fylgiskjal nefndarinnar með athugasemdum, viðbrögðum skipulagshöfundar og svörum skipulags- og umhverfisnefndar).
Í umsögnum nefndarinnar er sérstaklega óskað eftir að sjónrænum áhrifum verði gerð skil og að í því skyni myndi skipulagshöfundur skila inn sjónlínugreiningu (ljósmyndir og myndband) þar sem deiliskipulagssvæðið og byggingin er sýnd frá mismunandi sjónarhornum; frá þjóðvegi úr báðum áttum og norðanmegin Lárvaðals. Sjónlínugreiningin var lögð fram af skipulagshöfundi í ágúst 2020 með ósk um yfirferð á þessu stigi skipulagsferlisins.

Í ágúst 2020, á 220. fundi skipulags- og umhverfisnefndar, var sjónlínugreiningin lögð fyrir nefndina. Nefndin fól skipulags- og byggingarfulltrúa að yfirfara framkomin gögn með skipulagshöfundi með áherslu á mikilvægi ásýndar Kirkjufells og umfjöllun um fjallið í nýsamþykktu aðalskipulagi. Nefndin samþykkti einnig að boða til sérstaks kynningarfundar með skipulagshöfundi. Á 221. fundi nefndarinnar þann 8. september 2020 fór skipulagshöfundur yfir sjónlínugreininguna - myndband sem sýnir bygginguna frá þremur leiðum og ljósmyndir sem sýna bygginguna frá ólíkum sjónarhornum. Nefndin tók jákvætt í áframhaldandi vinnslu tillögunnar og hvatti til þess að hugað væri sérstaklega vel að samræmi stakstæðra húsa við hótelbygginguna og nærumhverfi mannvirkjanna.

Tillaga að deiliskipulagi (uppdráttur með greinargerð) ásamt umhverfismatsskýrslu, sérfræðiskýrslu um gróðurfar og dýralíf og sjónlínugreiningu var send til skipulagsfulltrúa í janúar 2022. Eftir yfirferð skipulagsfulltrúa og ábendingar, sendi skipulagshöfundur uppfærð gögn í byrjun febrúar sl. Á 233. fundi skipulags- og umhverfisnefndar þann 24. febrúar sl. fór nefndin sérstaklega yfir öll framlögð gögn viðvíkjandi deiliskipulagstillögunni.

Í framhaldi af umræðum 233. fundar lét skipulagsfulltrúi útbúa sjónlínugreiningarkort, til frekari skýringar við framlögð gögn, og liggur það skjal fyrir á þessum fundi.


Til afgreiðslu hjá skipulags- og umhverfisnefnd nú er því fullbúin tillaga að deiliskipulagi jarðarinnar Skerðingsstaða, ásamt umhverfismatsskýrslu.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir að auglýst verði deiliskipulagstillaga dags. 5. febrúar 2022 fyrir jörðina Skerðingsstaði með umhverfismatsskýrslu og að hvoru tveggja verði sent umsagnaraðilum, sbr. 1 mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 15. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021.

Nefndin felur skipulagsfulltrúa að fara yfir minniháttar lagfæringar með skipulagshöfundi og að því búnu að auglýsa tillöguna.

Skulu eftirfarandi gögn auglýst með deiliskipulagstillögunni: deiliskipulagsuppdráttur með greinargerð (A3), greinargerð í A4 og umhverfismatsskýrsla með eftirfarandi viðhengjum: sjónlínugreining (ljósmyndir, hlekkur á myndband og sjónlínugreiningarkort), sérfræðiskýrsla um gróðurfar og dýralíf og skýrslur/minnisblöð um neysluvatn og fráveitu.

Samþykkt samhljóða.

2.Deiliskipulag Ölkeldudals, breyting

Málsnúmer 2003015Vakta málsnúmer

Á fundinum er lögð fram lokatillaga að breytingu á deiliskipulagi Ölkeldudals. Í tillögunni felast m.a. útfærslur á nýjum lóðum vestan við Dvalar- og hjúkrunarheimilið Fellaskjól, sem unnið hefur verið að með stjórn heimilisins, en um er að ræða eignarland Fellaskjóls.


Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir að auglýsa tillögu 8.2 að deiliskipulagsbreytingu fyrir Ölkeldudal ásamt nýjum lóðum vestan við Fellaskjól, skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með fyrirvara um samkomulag bæjarins og stjórnar Fellaskjóls um það sem viðkemur umræddum lóðum.

Tillagan gerir ráð fyrir akfærum göngustíg norðan við lóðirnar og tengist stígurinn plani við Hrannarstíg 18. Áréttað er að hugmyndir sem sýna byggingar norðaustan við lóð Hrannarstígs 18 og aðkomuleið að þeim, eru ekki hluti af samþykktu deiliskipulagi fyrir Ölkeldudal og eru því ekki teknar til efnislegrar umfjöllunar eða afgreiðslu nefndarinnar nú.

Nefndin veitir skipulagsfulltrúa umboð sitt til þess að vinna með skipulagsráðgjafa að minniháttar breytingum samkvæmt ábendingum sem fram komu á fundinum, áður en tillagan verður tekin til afgreiðslu á fundi bæjarstjórnar.

3.Breyting á deiliskipulagi Framness austan Nesvegar

Málsnúmer 2104003Vakta málsnúmer

Hafsteinn Garðarsson hafnarstjóri var gestur á fundinum undir þessum lið og var hann boðinn velkominn.

Til stendur að endurnýja eldri hluta þekju á Norðugarði á um 1200 m2 svæði um miðbik Norðurgarðs. Framkvæmdin verður að líkindum unnin í vor og haust.

Í tengslum við þessa framkvæmd skapast möguleiki á að endurleggja olíu- og vatnslagnir undir þekjunni.

Olíudreifing hyggst endurnýja olíulögn frá olíutönkum á Nesvegi 4b og Nesvegi 10 að olíubrunni á Norðurgarði.

Samhliða verða eldri olíulagnir aflagðar en þær liggja annars vegar frá tanki á lóð 4b yfir lóðir 4a og 4 og austur eftir Norðurgarði, og hinsvegar úr tanki á lóð 10 suður eftir Nesvegi og fyrir húshorn gamla hraðfrystihússins við Nesveg 4 og sömuleiðis austur eftir Norðurgarðinum.

Sömuleiðis hyggjast Veitur ohf. endurnýja vatnslögn/lagnir fram á Norðurgarð og breyta legu þeirra.

Fyrirhugaðar lagnaframkvæmdir kalla á breytingu á gildandi deiliskipulagi þar sem að breyting á legu lagnanna kallar á nýjar kvaðir sem verða að mestu um Norðurgarð, hafnarsvæði og götu, en liggja að hluta til yfir lóðir.
Skipulagsfulltrúi, hafnarstjóri, byggingarfulltrúi og bæjarstjóri fóru yfir aðdraganda og stöðu málsins og skipulagsfulltrúi gerði grein fyrir undirbúningi og skoðun á þörf fyrir deiliskipulagsbreytingu.

Skipulags- og umhverfisnefnd telur, með hliðsjón af framkomnum upplýsingum, að hér sé um að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi fyrir Framnes austan Nesvegar, skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og felur skipulagsfulltrúa að halda áfram vinnu við undirbúning tillögu um málið.

Hafsteinn vék af fundi kl. 18:11 og var honum þakkað fyrir komuna og veittar upplýsingar.

Gestir

  • Hafsteinn Garðarsson, hafnarstjóri - mæting: 17:23

4.Umsókn um lóð - Ölkelduvegur 29-37

Málsnúmer 2003009Vakta málsnúmer

Fastafl Þróunarfélag ehf. óskar eftir áframhaldandi úthlutun lóða við Ölkelduveg 29-37. Í framlögðu erindi fyrirtækisins kemur fram að verkframkvæmdir hafa tafist vegna ástands í samfélaginu og annars verkefnaálags, en áfram standi til að hefja framkvæmdir á lóðunum.

Gerð var óveruleg breyting deiliskipulags á lóðunum, að beiðni lóðarhafa, þannig að byggja megi 5 raðhús á 2 samliggjandi lóðum, sbr. grunnmynd með hugmyndum um nýtingu og húsagerð sem lóðarhafi lagði fram. Af hálfu Grundarfjarðarbæjar var samhliða gerð breyting á legu göngustígs, stærðum lóða nr. 21 og 23 og lóðarnúmerum hinna úthlutuðu lóða. Breytingin var staðfest af bæjarstjórn í apríl 2021. Á svipuðum tíma var skipulags- og byggingarfulltrúa falið að gefa út byggingarleyfi að uppfylltum skilyrðum sbr. gr. 2.4.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 með síðari breytingum.

Skipulagsfulltrúi, byggingarfulltrúi og bæjarstjóri reifuðu málið.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir beiðni Fastafls Þróunarfélags ehf. um framlengingu á úthlutun lóða við Ölkelduveg 29-37 til og með 30. júní 2022 með vísan í röksemdafærslu lóðarhafa fyrir töfum á framkvæmdum, í samræmi við grein 3.5 í samþykkt bæjarins um úthlutun lóða í Grundarfirði og með hliðsjón af því að engin fyrirspurn hefur borist um þessar lóðir.

Samþykkt með fjórum atkvæðum af fimm. RJK sat hjá.

5.Ártún 4 - Umsókn um lóð

Málsnúmer 2202028Vakta málsnúmer

Vélsmiðja Grundarfjarðar ehf. sækir um lóðina við Ártún 4 til byggingar iðnaðarhúsnæðis.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir samhljóða að úthluta Vélsmiðju Grundarfjarðar ehf. lóðinni við Ártún 4 til byggingar iðnaðarhúsnæðis í samræmi við skipulag svæðisins og Samþykkt um úthlutun lóða í Grundarfirði.

Lóðarhafi leggi fram byggingarnefndarteikningar innan árs frá lóðarúthlutun, sem telst frá þeim degi er bæjarstjórn staðfestir þessa afgreiðslu nefndarinnar.

6.Grundargata 7 - Fyrirspurn um stækkun á húsi

Málsnúmer 2201026Vakta málsnúmer

Lóðarhafi að Grundargötu 7 leggur fram fyrirspurn til byggingarfulltrúa vegna 13 m2 stækkunar á suðurhluta hússins.

Þar sem ekki er til deiliskipulag fyrir bæjarhlutann vísar byggingarfulltrúi málinu til afgreiðslu í skipulags- og umhverfisnefnd.
Skipulags- og umhverfisnefnd tekur jákvætt í fyrirspurn lóðarhafa við Grundargötu 7 um stækkun hússins og telur áformin falla að byggðarmynstri í bæjarhlutanum (ÍB-1 í Aðalskipulagi Grundarfjarðar 2019-2039).

Berist umsókn um byggingarleyfi skal grenndarkynna byggingaráformin fyrir lóðarhöfum við Hlíðarveg 1, 3 og 5 og Grundargötu 5 þar sem ekki er til deiliskipulag fyrir bæjarhlutann, sbr. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

7.Hlíðarvegur 19 - Fyrirspurn um hús á lóð

Málsnúmer 2202019Vakta málsnúmer

Lóðarhafi að Hlíðarvegi 19 leggur fram fyrirspurn um byggingu 36 m2 húss í bakgarðinum. Húsið yrði smíðað á uppsteypt undirlag.

Þar sem húsið er ekki á deiliskipulögðu svæði vísar byggingarfulltrúi fyrirspurninni til afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar.

Samkvæmt skilmálum í Aðalskipulagi Grundarfjarðar fyrir ÍB-2, er heimilt að leyfa breytingar á núverandi húsnæði og nýbyggingar (endurbyggingar) sem falla vel að einkennum og yfirbragði þeirrar byggðar sem fyrir er.

Skipulags- og umhverfisnefnd telur að fyrirhuguð áform falli ekki að almennu byggðarmynstri í bæjarhlutanum sbr. skilmála fyrir ÍB-2 í Aðalskipulagi Grundarfjarðar 2019-2039. Er hér sérstaklega vísað til stærðar umrædds húss/kofa og nýtingarhlutfalls á lóðinni.

Byggingarfulltrúa er falið að leiðbeina fyrirspyrjanda um möguleika í stöðunni.

8.Heildarstefna fyrir Grundarfjarðarbæ

Málsnúmer 1903009Vakta málsnúmer

Heildarstefna Grundarfjarðarbæjar, vinnuskjöl, voru lögð fram til umsagnar hjá nefndinni en hún hafði á síðasta fundi óskað eftir frekari fresti til þess að fara yfir hana.

Bæjarstjóri fór yfir helstu þætti stefnunnar, einkum kafla um "Heilnæmt umhverfi" sem er á málefnasviði nefndarinnar. Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir fyrir sitt leyti Heildarstefnu fyrir Grundarfjarðarbæ. Nefndin lagði fram ábendingar og fór þess á leit við bæjarstjóra að fylgja þeim eftir inn í heildarstefnuna.

9.Mál frá skipulags- og byggingarfulltrúa

Málsnúmer 2009012Vakta málsnúmer


Engin sérstök mál eru til yfirferðar að þessu sinni umfram þau sem þegar hafa verið lögð fyrir á fundinum og unnið hefur verið í að undanförnu.


Lokið var við fundargerð eftir fund og rafræns samþykkis aflað frá nefndarmönnum.

Fundi slitið - kl. 20:00.