Aðgengisfulltrúi Grundarfjarðarbæjar, Nanna Vilborg, hefur í samstarfi við íþrótta- og tómstundafulltrúa, Hinrik, og Berg Þorra Benjamínsson Verkefnastjóra hjá ÖBÍ-Réttindasamtökum, gert létta úttekt á íþróttahúsinu og sundlauginni með það í huga að aðili á hjólastól gæti komist klakklaust í sund eða á íþróttaviðburð í húsinu.
Gerð var samantekt (sjá fylgiskjal) og hún send á ÖBÍ til skoðunar. Mun ÖBÍ síðan koma með ráðleggingar. ÖBÍ setur fyrirvara á þetta verkefni sem er ákveðin tilraun á landsvísu og segir:
"Verkefnastjóri byggir sínar niðurstöður og ráðleggingar á skoðun teikninga og mynda auk þess að vera notandi hjálpartækja í meira en 25 ár. Niðurstöður og álit sem fram koma í kynningu verkefnastjóra skulu því ekki túlkuð sem fagleg greining í samræmi við íslenska löggjöf. Það er á ábyrgð þess aðila sem óskaði eftir áliti verkefnastjóra að leita til viðurkenndra fagaðila til að framkvæma nauðsynlegar mælingar og greiningar sem uppfyllir kröfur laga og reglugerða."