Málsnúmer 2511004

Vakta málsnúmer

Skipulags- og umhverfisnefnd - 272. fundur - 10.11.2025

Í samræmi við ákvörðun bæjarstjórnar er nú lögð fram sameiginleg tillaga að skipulagslýsingu fyrir breytingu á Aðalskipulagi Grundarfjarðar 2019-2039 og fyrir nýtt deiliskipulag fyrir íbúðarbyggð á Háubökkum. Breyting á aðalskipulagi snýst um stækkun á reitnum ÍB-4, íbúðarsvæði, sem nær yfir Sæból og botnlanga vestast á Grundargötu, þar sem nokkrum íbúðarlóðum er bætt við vestast á reitnum, neðan Grundargötu.



Skipulagssvæðið afmarkast af strandlínunni til norðurs, lóð Grundargötu 98 til austurs og Grundargötu til suðurs. Afmörkun á mögulegri stækkun til vesturs verður skilgreind nánar á grunni ákvarðana um mótun deiliskipulagsins, eftir því hversu mörgum lóðum verður komið fyrir, að teknu tilliti til lækjar sem rennur í gegnum svæðið, mögulegrar notkunar afþreyingarsvæðis að vestanverðu o.fl. Svæðið er u.þ.b. einn hektari að stærð. Tillaga að breytingu á aðalskipulagi mun taka mið af landþörf deiliskipulagsins.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir samhljóða framlagða skipulagslýsingu (vegna aðalskipulagsbreytingar) til auglýsingar, í samræmi við 1. mgr. 30. gr. skipulagslaga, en leggur til að í skipulagsvinnunni verði sérstaklega horft til aðgengis og skoðaðar mismunandi útfærslur m.t.t. gangandi og akandi vegfarenda og tenginga við Grundargötu. Sérstaklega væri mikilvægt að tryggja öruggt aðgengi gangandi um skipulagssvæðið.

Gestir

  • Halldóra Hrólfsdóttir, skipulagsráðgjafi, Alta, í fjarfundi
  • Halldóra Hreggviðsdóttir, ráðgjafi, Alta, í fjarfundi
  • Sigurður Gísli Guðjónsson, formaður bæjarráðs, í fjarfundi
  • Garðar Svansson, bæjarfulltrúi