589. fundur 23. júní 2022 kl. 08:30 - 11:16 í Ráðhúsi Grundarfjarðar
Nefndarmenn
  • Sigurður Gísli Guðjónsson (SGG) formaður
  • Garðar Svansson (GS)
  • Jósef Ó. Kjartansson (JÓK)
Starfsmenn
  • Björg Ágústsdóttir (BÁ) bæjarstjóri
  • Sigurlaug R. Sævarsdóttir (SRS) skrifstofustjóri
Fundargerð ritaði: Sigurlaug R. Sævarsdóttir skrifstofustjóri
Dagskrá
Formaður setti fund og gengið var til dagskrár.

1.Lausafjárstaða 2022

Málsnúmer 2202006Vakta málsnúmer

Lagt fram yfirlit yfir lausafjárstöðu.

2.Greitt útsvar 2022

Málsnúmer 2202005Vakta málsnúmer

Lagt fram yfirlit yfir greitt útsvar jan.-apríl og jan.-maí 2022.
Samkvæmt yfirlitunum hefur greitt útsvar í janúar til apríl 2022 hækkað um 2,5% og í janúar til maí 2022 hækkað um 5,8% miðað við sama tímabil í fyrra.

3.Framkvæmdir 2022

Málsnúmer 2202026Vakta málsnúmer

Kristín Þorleifsdóttir, sviðsstjóri og skipulagsfulltrúi og Fannar Þór Þorfinnsson, byggingarfulltrúi, sátu fundinn undir þessum lið, Kristín í gegnum fjarfundabúnað.

Þau fóru yfir helstu framkvæmdir og verkefni sem í gangi eru.
Kristín fór yfir þá skipulagsvinnu, einkum deiliskipulagsvinnu, sem er í gangi. Hún sagði frá því að breyting á deiliskipulagi fyrir Ölkeldudal væri nú í auglýsingaferli með athugasemdafresti til 29. júlí nk. og var opinn kynningarfundur haldinn sl. þriðjudag í Sögumiðstöð. Hún sagði einnig frá breytingu á deiliskipulagi á athafna- og iðnaðarsvæði við Kverná, sem er í undirbúningi. Kynningarfundur og fundur með hagsmunaaðilum var haldinn í gær.

Þá sagði hún frá breytingu á deiliskipulagi Framness austan Nesvegar, á hafnarsvæði, og vinnu við gerð nýs deiliskipulags á Framnesi, sem farin er af stað. Þann 7. júní sl. var kynningardagur þar sem fundað var með lóðarhöfum á báðum svæðum. Mæting var góð og margar góðar ábendingar komu fram. Deiliskipulagstillaga fyrir Skerðingsstaði er í vinnslu hjá jarðareigendum og mun að líkindum fara í auglýsingarferli í júlí nk.

Kristín fór einnig yfir landslagshönnun við Kirkjufellsfoss, sem er að mestu lokið, og til stendur að leita tilboða í einstaka áfanga á næstunni. Verkið er unnið fyrir styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða í samvinnu við landeigendur. Hún sagði einnig frá ósk Lionsklúbbs Grundarfjarðar um að fá að planta trjám í Paimpolgarði, og um skoðun á svæðinu og afmörkun gróðurreita þar fyrir Lions.

Fannar sagði frá stöðu framkvæmda og viðhalds á fasteignum bæjarins.
Farið var í frumhönnunarvinnu á samvinnurýmum í húsnæði bæjarins að Grundargötu 30 og valdi bæjarstjórn tvo samræmanlega kosti til nánari útfærslu. Kostnaðarmat er í vinnslu og fundað hefur verið með leigjendum bæjarins í húsinu og þeim kynntar hugmyndir um hönnun.
Framkvæmdir eru í undirbúningi, en ljóst er að þeim þarf að áfangaskipta. Bæjarráð mun fá tillögur til afgreiðslu, þegar sundurliðun kostnaðar og möguleg áfangaskipting er klár.

Verið er að endurnýja þakklæðningu á efra þaki samkomuhúss, en verkið var boðið út. Endurbætur hafa verið gerðar innanhúss eftir vatnstjón á liðnu ári, m.a. eru komnar nýjar innréttingar í eldhúsi og aðstöðu baka til, nýtt salerni og tæki í eldhús, sem og ræstirými. Verið er að þétta klæðingu á suðurgafli hússins.

Til stendur að endurnýja klæðningu á austurhlið íþróttahúss og verða útboðsgögn send á næstunni. Þá er nýtt anddyri sundlaugar í hönnunarferli og viðbótarhönnun fyrir vesturhlið er í undirbúningi.

Fannar sagði frá því að skipt verði um hurðir („hurðafront“) á neðri aðalinngangi grunnskólans á næstu dögum og unnið að endurbótum á anddyrinu. Tilboða var aflað í endurnýjun þaks á tengibyggingu milli skóla og íþróttahúss og fer það verk af stað fljótlega. Einnig stendur til að ljúka utanhússviðgerðum/múrviðgerðum á þeirri hlið sem snýr út í sundlaugargarð og að mála allan þann húshluta í sumar. Beðið er eftir gluggaskiptum í grunnskóla, en verkið hefur tafist hjá seljanda, sem jafnframt mun setja gluggana í.

Byggingarfulltrúi er með í vinnslu kostnaðarmat þeirra framkvæmda sem eftir eru í Sögumiðstöð þannig að unnt sé að forgangsraða verkþáttum með yfirsýn yfir heildarverkið.

Byggingarfulltrúi sagði jafnframt frá innanhússviðhaldi og stöðu framkvæmda á lóð leikskólans, en þar stendur m.a. til að girða.

Spurt var um viðgerðir á túðum á þaki á íbúðum að Hrannarstíg 28-40. Byggingarfulltrúi kannar það mál.

Kristín sagði frá því að þau hefðu útbúið matsblað fyrir skipulags- og umhverfissvið, ætlað fyrir götur og stíga. Starfsmenn, einkum áhaldahúsa, geta fyllt inn (með spjaldtölvu) óskir/þarfir um viðhald á götum, stígum og gangstéttum og sett inn myndir, á staðnum, með einföldum hætti.

Rætt var um götumálun sem farið verður í á eigin vegum í ár, en verður ekki unnin með aðkeyptri vélaþjónustu.

Kristín og Fannar ræddu stöðu á verkefnum tengdum gangstéttum og tilvonandi blágrænum ofanvatnslausnum, annars vegar frágang vegna framkvæmda síðasta sumars við lóðir á Hrannarstíg, og hinsvegar framkvæmdir við fyrirhugaðar blágrænar lausnir í Hrannarstíg og Borgarbraut, sem verður kynnt betur fyrir bæjarráði og íbúum. Einnig sagði Kristín frá því að í LEAF styrkumsókn Umhverfisstofnunar hefðu framkvæmdir við blágrænar í Grundarfirði verið hafðar með í umsókn.

Fannar fór yfir stöðu framkvæmda í Þríhyrningi, sem gengið hafa hægar en vonir stóðu til. Ormurinn (mön) er í mótun en meira efni vantar í hann. „Haus“ á orminn er sömuleiðis í undirbúningi.

Helstu fráveitulagnir sveitarfélagins hafa verið myndaðar og komu niðurstöður heilt yfir vel út, að sögn Fannars. Ekki virðist þurfa að fóðra lagnir að svo stöddu. Rætt var um fráveitulausn sem felst í gerð dælubrunna fyrir nýtt húsnæði að Grundargötu 12-14, sem og aðra brunna.

Rætt var um framkvæmdir við lagningu ljósleiðara á vegum Mílu, einnig kom fram að sótt hefur verið um uppsetningu á 5G sendi á íþróttahúsi.

Kristín sagði frá því að fundað verði um framkvæmdir á grunnskólalóð í næstu viku.

Rætt var um breytingu á samþykktum um stjórn Grundarfjarðarbæjar, m.a. varðandi fasta afgreiðslufundi byggingarfulltrúa og embættisafgreiðslur skipulagsfulltrúa.

Rætt um námur og efnistöku á vegum bæjarins, en gerð gjaldskrár og umgengnisreglna eru í vinnslu.

Hér þurfti Kristín að fara af fundi og var henni þakkað fyrir komuna og góðar upplýsingar.

Einnig var rætt um skiltastefnu og samræmda hönnun ferðaþjónustuskilta, biðstöðuverkefni á miðbæjarreit, aflagt urðunarsvæði að Hrafnkelsstöðum og starfsleyfi fyrir efnislosunarsvæði að Hrafnkelsstöðum.

Sagt var frá samstarfi við Landbúnaðarháskóla Íslands um nemaverkefni, sem verður líklega um miðbæjarreit, um uppmælingu lóða í tengslum við gerð nýrra lóðarleigusamninga og lóðarblaða, sem er í vinnslu, um 75% tímabundinn afslátt af gatnagerðargjöldum til loka júní 2023 og auglýsingu sem sýnir lausar lóðir og lóðir sem eru í deiliskipulagsauglýsingu. Sótt hefur verið um tvær íbúðarhúsalóðir nýlega.

Rætt var um hvort samræma ætti reglur um skipulags- og byggingarmál, s.s. um lóðaúthlutanir, gjaldskrár o.fl. við önnur sveitarfélög á Snæfellsnesi, sem heyra undir sviðið. Tekið var jákvætt í það, enda er komin þörf fyrir endurskoðun og umbætur ýmissa atriða í gjaldskrám og samþykktum.

Hér vék Fannar af fundi og var honum þakkað fyrir komuna og góðar upplýsingar.

Gestir

  • Kristín Þorleifsdóttir sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs - mæting: 09:00
  • Fannar Þór Þorfinnsson byggingarfulltrúi - mæting: 09:00

4.Fjárhagsáætlun 2022

Málsnúmer 2108010Vakta málsnúmer

Lagt er til að keypt verði svokölluð "sundlaug" sem er búnaður til slökkvistarfa, einkum þar sem erfitt er að komast í nægt vatn, s.s. í dreifbýli. Kostnaður er áætlaður rétt innan við 500.000 kr. auk VSK.

Gerður verði viðauki við fjárhagsáætlun vegna kaupanna, sem skrifast á búnað slökkviliðs. Skrifstofustjóra verði falið að ganga frá honum.
Samþykkt samhljóða.

5.Starfshópur um grunnskólalóð

Málsnúmer 2112024Vakta málsnúmer

Lögð fram fundargerð 2. fundar starfshóps um grunnskólalóð, frá 19. maí 2022, til afgreiðslu, ásamt hugmyndum grunnskólabarna úr vinnu með lóðina.
Starfshópurinn mun halda áfram sinni vinnu með skipulagsfulltrúa með það í huga að forgangsraða verkefnum. Óskað er eftir tillögum fljótlega.

Samþykkt samhljóða.

6.Jeratún ehf - Fundargerð aðalfundar 19.05.2022

Málsnúmer 2206008Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð aðalfundar Jeratúns ehf. sem haldinn var 19. maí sl.
Fundargerð lesin upp og samþykkt.

Fundi slitið - kl. 11:16.