Málsnúmer 2108010

Vakta málsnúmer

Bæjarráð - 573. fundur - 26.08.2021

Farið yfir vinnu og verklag við fjárhagsáætlunargerð komandi árs.
Nánari tímarammi verður tilbúinn i byrjun september.

Bæjarráð mun byggja vinnu sína á tillögum úr rekstrarúttekt HLH frá 2020, sbr. fund bæjarráðs nr. 557. Þar eru sett fram helstu viðmið í fjármálastjórn og rekstri.

Í samræmi við umræður fundarins mun bæjarráð rýna sérstaklega í útsvarstekjur og þróun þeirra, sem og í tekjur Jöfnunarsjóðs og þróun þeirra. Bæjarstjóra og skrifstofustjóra falið að undirbúa yfirlit/samantekt hvað þessa þætti varðar.

Hafnarstjórn - 16. fundur - 05.10.2021

Staða 2021
Hafnarstjóri kynnti fjárhagsstöðu hafnarinnar, skv. framlögðu yfirliti og útkomuspá ársins 2021.
Tekjur voru áætlaðar samtals 94 millj. kr. árið 2021 og horfur eru á að höfnin standist þá áætlun. Tekjur ársins af skemmtiferðaskipum eru þar af rúmar 13 milljónir kr. en alls voru 31 koma skemmtiferðaskipa í sumar.
Útgjöld voru áætluð 58,1 millj.kr. en reiknað er með að þau verði talsvert undir því.
Framkvæmdakostnaður var áætlaður um 125 milljónir fyrir árið 2021.

Hafnarstjórn lýsir yfir ánægju með þessa stöðu, sem verður að teljast mjög góð m.v. allar forsendur.


Áætlun 2022
Hafnarstjóri fór yfir fyrirliggjandi drög að fjárhagsáætlun 2022.
Tekjur eru áætlaðar um 118 millj. kr. Tekið er mið af þeirri forsendu, að umtalsverður kvótasamdráttur muni hafa veruleg áhrif á tekjur hafnarinnar. Á yfirstandandi kvótaári er gert ráð fyrir 13% samdrætti í þorski og 17% samdrætti í karfa, en hvorutveggja mun hafa mikil áhrif hér.
Gert er ráð fyrir að af bókuðum komum skemmtiferðaskipa ársins muni 75% þeirra tekna skila sér, m.v. núverandi forsendur vegna Covid o.fl. Bókaðar eru komur 40 skemmtiferðaskipa á næsta sumri og líklegt er að eitthvað fleiri muni bætast við. Bókuð eru stærri skip í meira mæli en áður hefur verið og tengist það beint framkvæmdum við 130 m lengingu Norðurgarðs.
Útgjöld eru áætluð um 61 millj. kr., með markaðsstarfi og án fjármagnskostnaðar.
Fyrirvari er gerður um að forsendur geti breyst vegna óvissrar stöðu á komandi ári og mun hafnarstjórn þá taka áætlunina til endurskoðunar og leggja til breytingar í viðauka.
Gert er ráð fyrir um 37 millj.kr. í rekstrarafgang, eftir afskriftir og fjármagnskostnað.

Sett er fram áætlun um framkvæmdir í nokkrum liðum, þannig að framkvæmdakostnaður ársins 2022 verði samtals allt að 68 millj. kr. sem þýðir allt að 30 millj. kr. lántöku hafnar.

Helstu framkvæmdir felast í viðgerð á eldri hluta stálþils og á þekju Norðurgarðs. Áfram er gert ráð fyrir fjármunum í deiliskipulagsvinnu á hafnarsvæði, sem er mjög brýnt að fara í.
Hafnarstjórn leggur til við bæjarstjórn að metinn verði kostnaður við gatnagerð frá Bergþórugötu/Nesvegi og yfir norðanvert hafnarsvæðið austan Nesvegar, í samræmi við skipulag svæðisins.
Hafnarstjórn mun ljúka við að fylla upp nýja svæðið og gera það akfært milli Framness og hafnarsvæðis. Hafnarstjóra og bæjarstjóra falið að vinna að framkvæmd þessa atriðis.
Hafnarstjórn samþykkir samhljóða framlagða tillögu að fjárhagsáætlun Grundarfjarðarhafnar fyrir árið 2022 og vísar henni til endanlegrar afgreiðslu í bæjarstjórn.

Jafnframt leggur hafnarstjórn til að samtals verði áætlaðar 30 m.kr. nettó í lántöku vegna hafnargerðar og annarra framkvæmda, með fyrirvara um stöðu verkframkvæmda á þessu ári, sem kynnt verður nánar í desember.

Hafnarstjórn leggur til við bæjarstjórn að gerð verði kostnaðaráætlun fyrir gerð götu í framhaldi af Bergþórugötu og yfir á hafnarsvæði, yfir nýju landfyllinguna.

Bæjarráð - 576. fundur - 11.10.2021

Farið yfir forsendur fyrir fjárhagsáætlunargerð og fyrirkomulag fjárhagsáætlunarvinnunnar framundan.

Vísað til næsta fundar bæjarráðs.

Bæjarráð - 577. fundur - 18.10.2021

Bæjarráð fór í heimsókn í tónlistarskólann og ræddi við Lindu Maríu Nielsen aðstoðarskólastjóra.
Einnig var farið í heimsókn í íþróttahúsið í fylgd með byggingarfulltrúa.
Að því búnu var farið í fundarsal Ráðhúss og fundi haldið áfram.

Gestir

  • Linda María Nielsen aðst.skólastjóri Tónlistarskólans
  • Fannar Þór Þorfinnsson byggingarfulltrúi

Bæjarráð - 578. fundur - 01.11.2021


Lögð fram rammaáætlun 2022. Jafnframt lögð fram tekjuáætlun og drög að launaáætlun ásamt áætluðum stöðugildum stærstu stofnana.

Bæjarráð - 579. fundur - 08.11.2021

Lögð fram ýmis fjárhagsgögn, óskalistar um fjárfestingar, ásamt drögum að fjárfestingaáætlun og rekstraráætlun ársins 2022.

Fannar Þór Þorfinnsson, byggingarfulltrúi, sat fundinn undir umræðu um fjárfestingaáætlun.

Fjárhagsáætlun 2022 vísað til afgreiðslu í bæjarstjórn.

Samþykkt samhljóða.

Gestir

  • Fannar Þór Þorfinnsson - mæting: 16:30

Bæjarstjórn - 253. fundur - 18.11.2021

Lögð fram til fyrri umræðu fjárhagsáætlun ársins 2022 ásamt þriggja ára áætlun áranna 2023-2025, sem innifelur rekstraryfirlit, málaflokkayfirlit, efnahagsyfirlit og sjóðsstreymi. Jafnframt lagt fram rekstraryfirlit með samanburði á deildum milli áætlana 2021 og 2022 ásamt fjárfestingaáætlun fyrir 2022.

Allir tóku til máls.

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða að vísa fjárhagsáætlun 2022 og þriggja ára áætlun áranna 2023-2025 til síðari umræðu í bæjarstjórn.

Samþykkt samhljóða.

Bæjarráð - 580. fundur - 12.12.2021

Eftirfarandi gögn voru lögð fram:

- Minnisblað um endurskoðaða þjóðhagsspá sem felur m.a. í sér spá um hærri verðbólgu.
- Yfirlit yfir ábendingar íbúa í tengslum við fjárhagsáætlun 2022.
- Endurskoðuð drög að framkvæmdaáætlun ársins 2022
- Uppfærð yfirlit yfir áætluð stöðugildi á stofnunum
- Uppfærð launaáætlun 2022 ásamt samanburði við fyrri áætlun
- Yfirlit yfir helstu kennitölur rekstrar
- Drög að rekstraryfirliti 2022
Farið yfir fyrirliggjandi gögn.

Bæjarráð þakkar fyrir ábendingar íbúa í tengslum við fjárhagsáætlunargerðina.

Bæjarráð setur fyrirvara á fjölda stöðugilda í leikskóla. Yfirstandandi er vinna við að skilgreina betur verklag við ákvörðun sérkennslu og stuðnings, þörf fyrir afleysingu o.fl. Bæjarráð mun setja viðmið um barngildi í starfsemi leikskólans í tengslum við þá vinnu.

Fjárhagsáætlun 2022 samþykkt samhljóða.

Bæjarráð vísar fjárhagsáætlun 2022 til síðari umræðu í bæjarstjórn.

Skólanefnd - 159. fundur - 13.12.2021

Til kynningar áform í drögum að fjárhagsáætlun 2022, sem varða skóla og starfsemi á verksviði nefndarinnar.
Bæjarstjóri fór yfir helstu verkefni og framkvæmdir sem snúa að leikskóla, grunnskóla, tónlistarskóla og Eldhömrum, auk íþróttahúss, á yfirstandandi ári, sem og að áformum í fjárhagsáætlun 2022.

Rætt var um framkvæmdir og aðstöðu í skólunum.

Bæjarstjórn - 254. fundur - 14.12.2021

Lögð fram til síðari umræðu fjárhagsáætlun ársins 2022, samanburður milli fjárhagsáætlunar 2021 og 2022 og útlistun á breytingum sem gerðar hafa verið milli umræðna. Jafnframt lögð fram þriggja ára áætlun fyrir árin 2023-2025. Skv. rekstraryfirliti fjárhagsáætlunar 2022 eru heildartekjur áætlaðar 1.271,9 millj. kr. Áætlaður launakostnaður er 688,6 millj. kr., önnur rekstrargjöld 417,0 millj. kr. og afskriftir 72,3 millj. kr. Fyrir fjármagnsliði er gert ráð fyrir að rekstrarafkoma verði 93,8 millj. kr. Gert er ráð fyrir 86,2 millj. kr. fjármagnsgjöldum. Áætlun 2022 gerir ráð fyrir 7,7 millj. kr. jákvæðri rekstrarniðurstöðu samstæðu.

Skv. sjóðsstreymisyfirliti áætlunarinnar er veltufé frá rekstri 139,0 millj. kr. þegar leiðrétt hefur verið fyrir afskriftum og áföllnum en ógreiddum verðbótum og gengismun, auk annarra breytinga á skuldbindingum. Þessi fjárhæð nýtist síðan til afborgana lána og nauðsynlegra fjárfestinga sem brýnt er að ráðast í á árinu 2022. Ráðgert er að fjárfestingar verði 183,1 millj. kr., afborganir lána 160,5 millj. kr. og að tekin verði ný lán að fjárhæð 160 millj. kr. Miðað við þær forsendur er gengið á handbært fé um 42,6 millj. kr. Handbært fé í árslok ársins 2022 er því áætlað 63,0 millj. kr. gangi fjárhagsáætlun ársins 2022 fram eins og ráðgert er.

Allir tóku til máls.

Fjárhagsáætlun 2022 og þriggja ára áætlun 2023-2025 samþykkt samhljóða.

Bæjarráð - 584. fundur - 03.03.2022


Bæjarstjóri upplýsti bæjarráð um nokkrar fjárfestingar og framkvæmdir sem mögulega kalla á aukafjárveitingu með viðaukum, sbr. einnig umræðu hér að framan. Meðal annars er um að ræða framkvæmdir sem gert var ráð fyrir á síðasta ári, en færast yfir á þetta ár. Kaup á Avant (sbr. dagskrárlið 2) verða um 0,5 millj. yfir áætlun, vegna kaupa á stærri vél og á kerru. Auk þess viðbótarfjárveiting til Leikskólans.
Sett fram með fyrirvara um skoðun á öðrum þáttum fjárhagsáætlunar, einnig tekjum.

Bæjarstjórn - 260. fundur - 03.05.2022

Lagður fram viðauki við fjárhagsáætlun 2022, þar sem fjárfesting er aukin um 1,9 millj. kr. vegna kaupa á Avant og fylgihlutum, auk fjárveitingar í fasteignina að Nesvegi 19 (áhaldahús).


Viðauki við fjárhagsáætlun 2022 samþykktur samhljóða.

Bæjarráð - 589. fundur - 23.06.2022

Lagt er til að keypt verði svokölluð "sundlaug" sem er búnaður til slökkvistarfa, einkum þar sem erfitt er að komast í nægt vatn, s.s. í dreifbýli. Kostnaður er áætlaður rétt innan við 500.000 kr. auk VSK.

Gerður verði viðauki við fjárhagsáætlun vegna kaupanna, sem skrifast á búnað slökkviliðs. Skrifstofustjóra verði falið að ganga frá honum.
Samþykkt samhljóða.

Bæjarstjórn - 266. fundur - 15.12.2022

Lagður fram og kynntur viðauki við fjárhagsáætlun ársins 2022. Gert er ráð fyrir hækkun skatttekna og framlaga Jöfnunarsjóðs og hærri tekna Grundarfjarðarhafnar á móti auknum fjármagnsgjöldum vegna hárrar verðbólgu. Auk þess er áætlun Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga bætt við viðaukann skv. nýlegri breytingu á sveitarstjórnarlögum. Gert er ráð fyrir lægri lántöku en gert hafði verið ráð fyrir í upphaflegri áætlun, sem leiðir til þess að lækkun á handbæru fé nemur 49,9 millj. kr. Gert er ráð fyrir 5,5 millj. kr. jákvæðri rekstrarniðurstöðu.

Allir tóku til máls.

Viðauki 2 við fjárhagsáætlun 2022 samþykktur samhljóða.

Hafnarstjórn - 4. fundur - 23.01.2023

Yfirlit hafnarstjóra um landanir ársins 2022 lagt fram.
Landanir ársins 2022 voru samtals 1074 en voru 1032 árið 2021. Samtals var landaður afli 2022 27.112 tonn en var 23.676 tonn árið 2021.

Hafnarstjóri fór yfir helstu niðurstöður um tekjur og gjöld. Tekjur eru umtalsvert yfir áætlun ársins, gjöld eru yfir áætlun vegna aukinna umsvifa og aukningar á starfsfólki.

Rætt um tekjuáætlun 2023 og horfur í þeim efnum, bæði hvað varðar fiskiskip og skemmtiferðaskip. Einnig rætt um framkvæmd á móttöku skemmtiferðaskipa. Fyrirhugað er samtal við hagsmunaaðila um reynsluna sl. sumar og sumarið framundan.