Málsnúmer 2202026

Vakta málsnúmer

Bæjarráð - 584. fundur - 03.03.2022

Fannar Þór Þorfinnsson byggingarfulltrúi kom inná fundinn undir þessum lið og var hann boðinn velkominn.

Fannar fór yfir stöðu helstu framkvæmda bæjarins.
Fannar sagði m.a. frá eftirtöldum framkvæmdum og verkefnum:

Grunnskólinn;
- endurbætur á neðra anddyri skólahúss, þar sem skipt verður um hurðir/hurðavegg og gerðar breytingar á rýminu
- þakskipti á tengibyggingu milli íþróttahúss og grunnskóla, auk breytinga vegna frágangs neyðarútgangs frá efri hæð grunnskóla út á þak tengibyggingarinnar.
- áframhaldandi utanhússviðgerðir á múrverki, t.d. á tengiganginum yfir í íþróttahúsið

Íþróttahús
- þarfagreining v. grófhönnunar nýs anddyris/móttöku
- undirbúningur útboðs á klæðningu á austurhlið hússins, gluggum o.fl. (Efla er að vinna útboðsgögn)
- viðgerðir á múrverki þeirrar hliðar íþróttahúss sem snýr út í sundlaugargarðinn

Samkomuhús
- lagfæringar innanhúss eftir vatnstjón á árinu 2021, einkum eldhús, rými baksviðs og framhlið á sviði. Sjá einnig umfjöllun undir fjárhagsáætlun 2022, hér síðar á fundinum.
- þakskipti á eldri hluta hússins, en útboð fór fram og bárust 3 tilboð sem opnuð voru þann 28. febrúar sl.

Fráveita
- myndataka og fóðrun lagna í og kringum Sæból austanvert.
- fráveitulausn fyrir nýtt hús við Grundargötu 12-14

Leikskólinn
- skipta átti um girðingu og var leitað tilboða í verðkönnun. Ekkert tilboð barst þann 24. febrúar sl., að loknum tilboðsfresti.

Grundargata 30
- lagfæring á veggjum og þaki í okkar rými
- þarfagreining sbr. fund starfshóps um samvinnurými.

Geymslusvæði í iðnaðarhverfi
- leggja á rafmagn á svæðið, þannig að hægt verði að bjóða rafmagnstengingar fyrir þá sem geyma t.d. báta á svæðinu
- bærinn hefur keypt lítinn "skúr" af höfninni, sem nýttur verður til að hýsa rafmagnstöflu og búið er að panta eftirlitsmyndavélar sem eiga að koma á svæðið. Sjá einnig umfjöllun undir fjárhagsáætlun 2022.

Umræða varð um ofangreindar framkvæmdir og fleiri.

Fannari Þór var þakkað fyrir upplýsingarnar.

Gestir

  • Fannar Þór Þorfinnsson byggingarfulltrúi - mæting: 18:00

Bæjarráð - 587. fundur - 26.04.2022

Gestir fundarins undir þessum dagskrárlið voru Kristín Þorleifsdóttir skipulagsfulltrúi, sem var í fjarfundi, og Fannar Þór Þorfinnsson byggingarfulltrúi, sem sat fundinn.

Farið var yfir stöðu verklegra framkvæmda Grundarfjarðarbæjar.


A. Gatnafrágangur, fráveitufrágangur

Skipulagsfulltrúi fór yfir hönnunardrög fyrir Hrannarstíg og Borgarbraut, ofan Grundargötu, þar sem gert er ráð fyrir blágrænum regnvatnsbeðum. Samráð verður haft við íbúa á svæðinu um útfærslur á hraðaminnkandi aðgerðum.

Bæjarráð samþykkir að áfram verði unnið á þessum grunni og felur skipulagsfulltrúa að ganga frá verkteikningum í samræmi við umræður fundarins og eftir samtal við íbúa.

Samþykkt samhljóða.

B. Verklegar framkvæmdir og fasteignir bæjarins

Á síðasta ári lét bæjarstjórn vinna úttekt á ytra ástandi íþróttahúss. Bæjarstjórn ákvað að láta klæða útveggi hússins með álklæðningu og samhliða á að endurnýja alla glugga og hurðir, gera við þakkant, endurnýja skemmt þakjárn og mála þak. Auk þess á að gera við hluta veggja.
Í skýrslu Eflu er að finna viðhaldsáætlun sem unnið verður eftir, en verkinu verður áfangaskipt. Í ár verða boðnar út endurbætur á gluggum og klæðningu á austurhlið hússins (sem snýr út að íþróttavelli) og á efri hluta byggingarinnar sem snýr til vesturs. Útboðsgögn eru væntanleg frá Eflu á næstu dögum.
Byggingarfulltrúi mun auk þess láta fara fram viðgerðir á múrverki útveggja sem snúa út í sundlaugargarðinn.

Að auki ákvað bæjarstjórn að hefja hönnun á nýju anddyri (móttökurými) íþróttahússins. Núverandi rými er afar þröngt, bæði fyrir gesti hússins og aðstöðu fyrir vaktfólk þarf að bæta. Byggingarfulltrúi vann þarfagreiningu í samráði við helstu notendur hússins og arkitekt er nú að grófhanna hugmynd um rýmið og nýtt anddyri. Í bókun bæjarstjórnar 10. mars sl. var gengið út frá því að haft verði samráð við fleiri hagsmunaaðila, um þarfagreiningu fyrir anddyri íþróttahúss eftir því sem vinnunni vindur fram.

Í grunnskóla verða gerðar endurbætur á neðra anddyri, settar sjálfvirkar rennihurðir, rýmið og lýsing betrumbætt, og settir upp nýir snagar og bekkir.

Með verðkönnun var leitað tilboða í að skipta um þak á tengibyggingu milli íþróttahúss og grunnskóla. Eitt tilboð barst, frá Þ.B. Borg ehf. í Stykkishólmi og hefur því verið tekið.
Áframhald verður á utanhússviðgerðum á múrverki grunnskólahúsnæðis og von er á málara til að mála hluta hússins.

Í leikskólanum er ætlunin að endurnýja girðingu kringum suðausturhluta garðsins, sem eldri börnin nota. Engin tilboð bárust í verðkönnun í febrúar sl. og hefur byggingarfulltrúi verkið á sinni könnu til úrlausnar. Frekari endurbætur verða einnig gerðar á leiktækjum í sumar, m.a. sett upp ný jafnvægisslá, en jafnt og þétt hefur verið unnið að endurbótum leiktækja og garðsins sjálfs síðustu sumur.

Í sumar verður skipt um þakklæðningu á eldri hluta samkomuhúss, en skipt var um þak á neðri (nýrri) hluta hússins fyrir 2 árum. Í útboði verksins bárust þrjú tilboð í lok febrúar sl. og var lægsta tilboði tekið, frá Trésmiðjunni Gráborg ehf.

Í samkomuhúsinu hafa einnig staðið yfir framkvæmdir við breytingu og endurbætur á eldhúsi og rýminu baksviðs. Eftir vatnstjón í húsinu í júlí 2021 sá tryggingarfélagið VÍS um að skipta um gólfefni í neðri og efri sal, eldhúsi og baksviðs. Bærinn nýtti í leiðinni tækifærið og innréttaði uppá nýtt rýmið baksviðs og endurnýjaði alfarið innréttingar og tæki í eldhúsi.

Að Grundargötu 30 er rekið samvinnurými, þar sem hægt er að leigja skrifstofu eða opið rými. Í vikunni liggja fyrir teikningar arkitekts að nýtingu rýmisins, sem ætlunin er að byggja upp. Starfshópur um verkefnið fundar á föstudaginn kemur.

Í fráveitumálum er á dagskrá að láta mynda og fóðra lagnir í og kringum Sæból austanvert. Það er tiltölulega hagkvæm lausn og fyrirbyggjandi, að fóðra eldri lagnir að innan og koma þannig í veg fyrir að þær stíflist og rífa þurfi upp yfirborð jarðvegs (götu, gangstétta, lóða) til viðgerða. Í vinnslu er einnig fráveitulausn fyrir nýjar íbúðir við Grundargötu 12-14.

Geymslusvæði í iðnaðarhverfi. Þar á að leggja á rafmagn á svæðið, þannig að hægt verði að bjóða rafmagnstengingar fyrir þá sem geyma t.d. báta á svæðinu. Bærinn hefur keypt lítinn skúr af höfninni, sem nýttur verður til að hýsa rafmagnstöflu og eftirlitsmyndavélar verða settar á svæðið. Byggingarfulltrúi er með málið í vinnslu.

Umræða varð um ofangreindar framkvæmdir og fleiri.

C. Rými fyrir rafhleðslustöðvar á lóðum við fasteignir bæjarins

Bæjarráð ræddi hugmyndir um að gera ráð fyrir rafhleðslustöðvum við tilteknar stofnanir bæjarins.
Bæjarráð felur skipulags- og umhverfissviði að fara yfir lóðir við stofnanir bæjarins, einkum við sundlaug og samkomuhús, og gera tillögu til bæjarráðs um hvort og hvar á lóðum myndi henta að koma fyrir rafhleðslustöð, sem þjónustuaðili yrði fenginn til að reka.

Samþykkt samhljóða.

Jafnframt felur bæjarráð bæjarstjóra að vekja athygli fyrirtækja á nýlegri auglýsingu Orkusjóðs um styrki sem hægt er að sækja um til uppsetningar hleðslustöðva fyrir rafbíla, en umsóknarfrestur er til 7. maí nk.
Hér má finna auglýsinguna: https://orkustofnun.is/orkustofnun/rad-og-nefndir/orkusjodur/


Kristínu og Fannari var þakkað fyrir þátttöku á fundinum og fyrir upplýsingarnar. Viku þau hér af fundi.

Gestir

  • Kristín Þorleifsdóttir skipulagsfulltrúi - mæting: 16:30
  • Fannar Þór Þorfinnsson byggingarfulltrúi - mæting: 16:30

Bæjarráð - 588. fundur - 16.05.2022

Fannar Þór Þorfinnsson, byggingarfulltrúi, og Ólafur Ólafsson, íþrótta- og tómstundafulltrúi sátu fundinn undir þessum lið.
Byggingarfulltrúi kynnti gerð útboðsgagna, þar á meðal kostnaðaráætlun fyrir klæðningu íþróttahúss.

Kostnaðaráætlun verksins er yfir því sem áætlað var í verkið við gerð fjárhagsáætlunar og á þá eftir að taka tillit til undirbúningsvinnu og verkeftirlits, sem Efla sér um.

Farið yfir kostnað og umfang verks, tegund klæðningar, tengsl við orkuskipti hússins og grófhönnun á anddyri, sem hefur verið í gangi.

Lagt til að farið verði í framkvæmdir við klæðningu og gluggaskipti á austurhlið íþróttahúss, en vesturhlið látin bíða.

Byggingarfulltrúa falið að leita eftir tillögum að efnisvali og útliti vegna klæðningar á íþróttahúsi í samræmi við umræður á fundinum.

Jafnframt lagt til að fengið verði tilboð í hönnun á neðri hluta vesturhliðar íþróttahúss m.t.t. aðgengis og sundlaugargarðs m.t.t. lagna vegna orkuskiptalausna, annarra lagna og hugmynda um rennibraut.

Samþykkt samhljóða.

Gestir

  • Fannar Þór Þorfinnsson - mæting: 16:30
  • Ólafur Ólafsson - mæting: 16:30

Bæjarráð - 589. fundur - 23.06.2022

Kristín Þorleifsdóttir, sviðsstjóri og skipulagsfulltrúi og Fannar Þór Þorfinnsson, byggingarfulltrúi, sátu fundinn undir þessum lið, Kristín í gegnum fjarfundabúnað.

Þau fóru yfir helstu framkvæmdir og verkefni sem í gangi eru.
Kristín fór yfir þá skipulagsvinnu, einkum deiliskipulagsvinnu, sem er í gangi. Hún sagði frá því að breyting á deiliskipulagi fyrir Ölkeldudal væri nú í auglýsingaferli með athugasemdafresti til 29. júlí nk. og var opinn kynningarfundur haldinn sl. þriðjudag í Sögumiðstöð. Hún sagði einnig frá breytingu á deiliskipulagi á athafna- og iðnaðarsvæði við Kverná, sem er í undirbúningi. Kynningarfundur og fundur með hagsmunaaðilum var haldinn í gær.

Þá sagði hún frá breytingu á deiliskipulagi Framness austan Nesvegar, á hafnarsvæði, og vinnu við gerð nýs deiliskipulags á Framnesi, sem farin er af stað. Þann 7. júní sl. var kynningardagur þar sem fundað var með lóðarhöfum á báðum svæðum. Mæting var góð og margar góðar ábendingar komu fram. Deiliskipulagstillaga fyrir Skerðingsstaði er í vinnslu hjá jarðareigendum og mun að líkindum fara í auglýsingarferli í júlí nk.

Kristín fór einnig yfir landslagshönnun við Kirkjufellsfoss, sem er að mestu lokið, og til stendur að leita tilboða í einstaka áfanga á næstunni. Verkið er unnið fyrir styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða í samvinnu við landeigendur. Hún sagði einnig frá ósk Lionsklúbbs Grundarfjarðar um að fá að planta trjám í Paimpolgarði, og um skoðun á svæðinu og afmörkun gróðurreita þar fyrir Lions.

Fannar sagði frá stöðu framkvæmda og viðhalds á fasteignum bæjarins.
Farið var í frumhönnunarvinnu á samvinnurýmum í húsnæði bæjarins að Grundargötu 30 og valdi bæjarstjórn tvo samræmanlega kosti til nánari útfærslu. Kostnaðarmat er í vinnslu og fundað hefur verið með leigjendum bæjarins í húsinu og þeim kynntar hugmyndir um hönnun.
Framkvæmdir eru í undirbúningi, en ljóst er að þeim þarf að áfangaskipta. Bæjarráð mun fá tillögur til afgreiðslu, þegar sundurliðun kostnaðar og möguleg áfangaskipting er klár.

Verið er að endurnýja þakklæðningu á efra þaki samkomuhúss, en verkið var boðið út. Endurbætur hafa verið gerðar innanhúss eftir vatnstjón á liðnu ári, m.a. eru komnar nýjar innréttingar í eldhúsi og aðstöðu baka til, nýtt salerni og tæki í eldhús, sem og ræstirými. Verið er að þétta klæðingu á suðurgafli hússins.

Til stendur að endurnýja klæðningu á austurhlið íþróttahúss og verða útboðsgögn send á næstunni. Þá er nýtt anddyri sundlaugar í hönnunarferli og viðbótarhönnun fyrir vesturhlið er í undirbúningi.

Fannar sagði frá því að skipt verði um hurðir („hurðafront“) á neðri aðalinngangi grunnskólans á næstu dögum og unnið að endurbótum á anddyrinu. Tilboða var aflað í endurnýjun þaks á tengibyggingu milli skóla og íþróttahúss og fer það verk af stað fljótlega. Einnig stendur til að ljúka utanhússviðgerðum/múrviðgerðum á þeirri hlið sem snýr út í sundlaugargarð og að mála allan þann húshluta í sumar. Beðið er eftir gluggaskiptum í grunnskóla, en verkið hefur tafist hjá seljanda, sem jafnframt mun setja gluggana í.

Byggingarfulltrúi er með í vinnslu kostnaðarmat þeirra framkvæmda sem eftir eru í Sögumiðstöð þannig að unnt sé að forgangsraða verkþáttum með yfirsýn yfir heildarverkið.

Byggingarfulltrúi sagði jafnframt frá innanhússviðhaldi og stöðu framkvæmda á lóð leikskólans, en þar stendur m.a. til að girða.

Spurt var um viðgerðir á túðum á þaki á íbúðum að Hrannarstíg 28-40. Byggingarfulltrúi kannar það mál.

Kristín sagði frá því að þau hefðu útbúið matsblað fyrir skipulags- og umhverfissvið, ætlað fyrir götur og stíga. Starfsmenn, einkum áhaldahúsa, geta fyllt inn (með spjaldtölvu) óskir/þarfir um viðhald á götum, stígum og gangstéttum og sett inn myndir, á staðnum, með einföldum hætti.

Rætt var um götumálun sem farið verður í á eigin vegum í ár, en verður ekki unnin með aðkeyptri vélaþjónustu.

Kristín og Fannar ræddu stöðu á verkefnum tengdum gangstéttum og tilvonandi blágrænum ofanvatnslausnum, annars vegar frágang vegna framkvæmda síðasta sumars við lóðir á Hrannarstíg, og hinsvegar framkvæmdir við fyrirhugaðar blágrænar lausnir í Hrannarstíg og Borgarbraut, sem verður kynnt betur fyrir bæjarráði og íbúum. Einnig sagði Kristín frá því að í LEAF styrkumsókn Umhverfisstofnunar hefðu framkvæmdir við blágrænar í Grundarfirði verið hafðar með í umsókn.

Fannar fór yfir stöðu framkvæmda í Þríhyrningi, sem gengið hafa hægar en vonir stóðu til. Ormurinn (mön) er í mótun en meira efni vantar í hann. „Haus“ á orminn er sömuleiðis í undirbúningi.

Helstu fráveitulagnir sveitarfélagins hafa verið myndaðar og komu niðurstöður heilt yfir vel út, að sögn Fannars. Ekki virðist þurfa að fóðra lagnir að svo stöddu. Rætt var um fráveitulausn sem felst í gerð dælubrunna fyrir nýtt húsnæði að Grundargötu 12-14, sem og aðra brunna.

Rætt var um framkvæmdir við lagningu ljósleiðara á vegum Mílu, einnig kom fram að sótt hefur verið um uppsetningu á 5G sendi á íþróttahúsi.

Kristín sagði frá því að fundað verði um framkvæmdir á grunnskólalóð í næstu viku.

Rætt var um breytingu á samþykktum um stjórn Grundarfjarðarbæjar, m.a. varðandi fasta afgreiðslufundi byggingarfulltrúa og embættisafgreiðslur skipulagsfulltrúa.

Rætt um námur og efnistöku á vegum bæjarins, en gerð gjaldskrár og umgengnisreglna eru í vinnslu.

Hér þurfti Kristín að fara af fundi og var henni þakkað fyrir komuna og góðar upplýsingar.

Einnig var rætt um skiltastefnu og samræmda hönnun ferðaþjónustuskilta, biðstöðuverkefni á miðbæjarreit, aflagt urðunarsvæði að Hrafnkelsstöðum og starfsleyfi fyrir efnislosunarsvæði að Hrafnkelsstöðum.

Sagt var frá samstarfi við Landbúnaðarháskóla Íslands um nemaverkefni, sem verður líklega um miðbæjarreit, um uppmælingu lóða í tengslum við gerð nýrra lóðarleigusamninga og lóðarblaða, sem er í vinnslu, um 75% tímabundinn afslátt af gatnagerðargjöldum til loka júní 2023 og auglýsingu sem sýnir lausar lóðir og lóðir sem eru í deiliskipulagsauglýsingu. Sótt hefur verið um tvær íbúðarhúsalóðir nýlega.

Rætt var um hvort samræma ætti reglur um skipulags- og byggingarmál, s.s. um lóðaúthlutanir, gjaldskrár o.fl. við önnur sveitarfélög á Snæfellsnesi, sem heyra undir sviðið. Tekið var jákvætt í það, enda er komin þörf fyrir endurskoðun og umbætur ýmissa atriða í gjaldskrám og samþykktum.

Hér vék Fannar af fundi og var honum þakkað fyrir komuna og góðar upplýsingar.

Gestir

  • Kristín Þorleifsdóttir sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs - mæting: 09:00
  • Fannar Þór Þorfinnsson byggingarfulltrúi - mæting: 09:00

Bæjarráð - 591. fundur - 25.08.2022

Kristín Þorleifsdóttir, skipulagsfulltrúi, Fannar Þór Þorfinnsson, byggingarfulltrúi, og Ólafur Ólafsson, íþrótta- og tómstundafulltrúi, sátu fundinn undir þessum lið.

Fundurinn hófst með því að skoðaðar voru framkvæmdir sem farið hafa fram við húsnæði grunnskóla og íþróttahúss.

Búið er að breyta neðra anddyri grunnskóla, gera það bjartara og rúmbetra, og setja sjálfvirka rennihurð í stað tveggja þungra, eldri hurða. Verið er að gera við þak á tengibyggingu milli íþróttahúss og grunnskóla, en eitt tilboð barst í það verk. Skoðað var ástand á útveggjum íþróttahúss, hliðinni sem snýr út í sundlaugargarð.

Fundarfólk fór síðan aftur yfir í Ráðhús Grundarfjarðar. Eftirfarandi var rætt:

Ekkert tilboð barst í opnu útboði á utanhússviðgerð á íþróttahúsi. Fyrirséð er því að ekki verður farið í þá framkvæmd á árinu. Lagt til að verkið verði boðið út að nýju síðar í haust eða vetur, verktími verður þá á næsta ári og að verklok verði 31. ágúst 2023.

Umræður um aðrar viðgerðir. Í samræmi við umræður á fundinum er byggingarfulltrúa falið að gera tillögu til bæjarráðs um kostnað við nauðsynlegar viðgerðir á húsnæði íþróttahúss og grunnskóla, sem svigrúm skapast til að fara í.

Samþykkt samhljóða.

Jafnframt rætt um orkuskipti vegna sundlaugar og húsnæðis grunnskóla og íþróttahúss, sem eru í undirbúningi en bærinn hefur fengið styrki úr Orkusjóði til verksins. Hönnunarvinna er í gangi vegna nýs anddyris við íþróttahúsið, en hún mun einnig taka mið af því að orkuskipti eru framundan.

Aðrar framkvæmdir í gangi eru þakskipti á eldri hluta Samkomuhúss, búið er að mynda fráveitulagnir í stórum hluta bæjarins og unnið er að frágangi brunna/fráveitu við nýbyggingu á Grundargötu 12-14. Endurnýjaður var hluti girðingar við leikskóla, nýr háfur settur upp í eldhús leikskólans og ýmsar endurbætur gerðar á húsnæði skólans.

Að Grundargötu 30 er viðgerð lokið á skrifstofu og unnin voru frumdrög að skrifstofurými/samvinnurými sem bæjarstjórn tók afstöðu til sl. vor. Einnig voru keypt skrifborð og skilrúm til að geta boðið uppá betri aðstöðu í rýminu.

Í Sögumiðstöð vinnur byggingarfulltrúi að grófri kostnaðaráætlun fyrir þau verkefni sem eftir eru.

Í ár er skipt um led-perur í hluta af ljósastaurum í þéttbýli.

Gestir

  • Ólafur Ólafsson - mæting: 08:30
  • Kristín Þorleifsdóttir - mæting: 08:30
  • Fannar Þór Þorfinnsson - mæting: 08:30

Bæjarráð - 592. fundur - 28.09.2022

Lögð fram tillaga byggingarfulltrúa, skv. beiðni bæjarráðs.

Á 591. fundi bæjarráðs þann 25. ágúst sl. var farið í vettvangsferð í grunnskóla og íþróttahús og framkvæmdir skoðaðar. Á fundinum var tekin ákvörðun um að fresta áætluðum utanhússframkvæmdum (klæðning og fleira) við íþróttahús í ár og lengja framkvæmdatíma útboðs þar að lútandi. Var byggingarfulltrúa í framhaldinu falið að gera tillögu til bæjarráðs um kostnað við aðrar minni en nauðsynlegar viðgerðir á húsnæði íþróttahúss og grunnskóla, sem svigrúm skapaðist þar með til að fara í.

Fyrir liggur tillaga frá byggingarfulltrúa um endurbætur innanhúss í anddyri og gangi íþróttahúss, sem og innanhúss á tengigangi milli íþróttahúss og grunnskóla, þ.á m. að fara í gluggaskipti á ganginum. Nýttur verður hluti þeirrar fjárveitingar sem ætlaður var í utanhússklæðningu íþróttahússins.

Tillagan samþykkt samhljóða. Bæjarráð leggur áherslu á að vel sé hugað að efnisvali í anddyri og gangi íþróttahúss, m.a. með tilliti til hljóðvistar og hlýleika.