6. fundur 08. maí 2023 kl. 17:00 - 20:05 í Ráðhúsi Grundarfjarðar
Nefndarmenn
  • Björg Ágústsdóttir (BÁ) formaður
  • Arnar Kristjánsson (AK)
  • Hinrik Konráðsson (HK)
    Aðalmaður: Garðar Svansson (GS)
Starfsmenn
  • Hafsteinn Garðarsson (HG) hafnarstjóri
Fundargerð ritaði: Björg Ágústsdóttir bæjarstjóri
Dagskrá
Formaður bauð fundarmenn velkomna.

Fundurinn hófst með því að dagskrárliður 2 var tekinn fyrir og fundarmenn fóru inná fund skipulags- og umhverfisnefndar, sem fundar samhliða, og tóku þátt í kynningu og umræðum um deiliskipulag hafnarsvæðis.

1.Framkvæmdir 2023

Málsnúmer 2301007Vakta málsnúmer

Hafnarstjóri fór yfir helstu framkvæmdir ársins og þær sem í gangi eru núna.

- Viðgerð á elsta hluta stálþils á Norðurgarði er um það bil hálfnuð. Köfunarþjónustan var lægstbjóðandi í verðkönnun sem Vegagerðin sá um fyrir Grundarfjarðarhöfn.

- Búið er að steypa 380 m2 vegna viðgerðar á þekju Norðurgarðs. Eftir er að steypa um 320 m2, frammi við ísverksmiðjuna, og verður það unnið samhliða lagnavinnu á því svæði.

- Farið var í endurnýjun á kanttré á nýju lengingunni á Norðurgarði, en galli var í timbrinu og var því þess vegna skipt út og brúnir rúnnaðar af.

- Búið er að koma upp þjónustuhúsi með salernum, sunnan við vigtarhús, sem ætluð eru fyrir gesti skemmtiferðaskipa. Um er að ræða 20 feta gámaeiningu sem leigð er yfir sumarið.

- Ný hafnarvog kemur í vikunni en fest voru kaup á henni á síðasta ári. Mun þjónustuaðili hafnarinnar skipta þeirri gömlu út fyrir nýja.

- Höfnin hefur jafnframt fest kaup á stórum fríholtabelgjum (big fenders) sem ætlaðir eru fyrir skemmtiferðaskip og eru þeir komnir.

- Verið er að mála og sinna ýmsum öðrum viðhaldsverkefnum.

2.Deiliskipulag Hafnarsvæðis 2023

Málsnúmer 2301003Vakta málsnúmer

Fundarmenn gengu nú til fundar með skipulags- og umhverfisnefnd, sem fundar samhliða, og var þessi dagskrárliður ræddur sameiginlega á þeim fundi.

Kynning frá Silju Traustadóttur skipulagsráðgjafa hjá Eflu á vinnslutillögu dags. 4. maí 2023 um deiliskipulag hafnarsvæðis og minnisblað 4. maí 2023 um umferðarmál í tengslum við tillöguna.

Garðar Svansson var gestur í fjarfundi undir hluta af kynningu Silju, en bæjarfulltrúum hafði verið boðið að tengjast fundinum vegna kynningarinnar.

Eftir umræður sem voru sameiginlegar með skipulags- og umhverfisnefnd véku nefndarmenn af fundi skipulags- og umhverfisnefndar og luku umræðu um dagskrárliðinn á fundi hafnarstjórnar.

Hafnarstjórn samþykkir fyrirliggjandi vinnslutillögu með þeirri breytingu á uppdrætti, að aðalrútustæði sunnan við vigtarhús breytist til samræmis það fyrirkomulag sem rætt var á sameiginlegum fundi og samþykkt var að stefna að fyrir komandi sumar. Þessi útfærsla er til frekari úrvinnslu hafnar með lóðarhöfum við Borgarbraut 1.

Hafnarstjórn áréttar að með deiliskipulagsbreytingunni, sem nú er samþykkt, er ekki sett fram fullunnin lausn á umferðarstýringu á hafnarsvæði og að vinna þarf nánari útfærslu við deiliskipulagsgerð á suðursvæði hafnarinnar.

Hafnarstjórn samþykkir jafnframt að fela hafnarstjóra að láta teikna upp umferðarskipulag/aðgerðaráætlun fyrir komandi sumar, sem lýsir því hvernig umferðarflæði og aðstöðu vegna móttöku skemmtiferðaskipa verður háttað.

Hér yfirgaf Arnar fundinn.

3.Ársreikningur 2022

Málsnúmer 2303020Vakta málsnúmer

Ársreikningur Grundarfjarðarhafnar 2022 lagður fram.

Samkvæmt ársreikningnum eru heildartekjur hafnarsjóðs tæpar 203,5 millj. kr. árið 2022, en voru um 141 millj. kr. árið 2021. Það er tekjuaukning um 44% milli áranna 2021 og 2022.

Árið 2022 var landað 27.112 tonnum í 1.074 löndunum í Grundarfjarðarhöfn, en 23.677 tonnum í 1.032 löndunum árið 2021.

Rekstrargjöld, þar með talin laun, voru 97,6 millj. kr., en voru tæpar 63 millj. kr. árið 2021. Þar af var viðhald fasteigna rúmar 4,7 millj. kr., þegar búið var að greiða vátryggingarfé vegna skemmda á fasteign. Sami liður var 3,9 millj. kr. árið 2021.

Afskriftir fastafjármuna voru 12,8 millj. kr., samanborið við rúmar 12 millj. kr. árið 2021. Að teknu tilliti til afskriftanna og til fjármagnsgjalda, sem voru einungis 15 þús. kr., er rekstrarniðurstaða hafnarsjóðs jákvæð um tæpar 93 millj. kr. árið 2022, en var jákvæð um 65,9 millj. kr. árið 2021.

Fjárfest var fyrir 40,6 millj. kr. árið 2022. Fjárfestingar síðustu ára voru tæpar 42 millj. kr. árið 2021, 133,5 millj. kr. árið 2020 og 121,3 millj. kr. árið 2019, eða samtals rúmar 337 millj. kr. síðustu fjögur árin.

Þrátt fyrir þessar miklu fjárfestingar varð höfnin skuldlaus í mars 2022.

Ársreikningur Grundarfjarðarhafnar 2022 samþykktur samhljóða af hafnarstjórn.

Hafnarstjórn lýsir ánægju með góða niðurstöðu ársins 2022.

Hafnarstjórn þakkar hafnarstjóra trausta og góða stjórnun og starfsfólki hafnarinnar sömuleiðis fyrir vel unnin störf.

4.Hafnasamband Íslands - Fundargerðir 2023

Málsnúmer 2301025Vakta málsnúmer

Lagðar fram til kynningar fundargerðir stjórnar Hafnasambands Íslands, af fundum nr. 449, 450, 451 og 452, sem haldnir voru, 20. janúar, 17. febrúar, 24. mars og 19. apríl 2023.

5.Hafnasamband Íslands - Ársreikningur 2022

Málsnúmer 2302029Vakta málsnúmer

Lagður fram til kynningar ársreikningur Hafnasambands Íslands fyrir árið 2022.
Lokið var við fundargerð eftir fund og rafræns samþykkis aflað frá fundarmönnum.

Fundi slitið - kl. 20:05.