Málsnúmer 2301007

Vakta málsnúmer

Bæjarráð - 599. fundur - 10.01.2023

Gestir fundarins undir þessum lið voru Kristín Þorleifsdóttir, sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs/skipulagsfulltrúi og Fannar Þór Þorfinnsson, byggingarfulltrúi. Ólafur Ólafsson, íþrótta- og tómstundafulltrúi, sat fundinn undir málefnum íþróttamannvirkja og tjaldsvæðis.

Farið var yfir áætlun bæjarstjórnar um fjárfestingar árið 2023 og rætt um helstu framkvæmdir og verkefni ársins.

Bæjarstjóri lagði fram yfirlit yfir framkvæmdir og fjárfestingar 2023.

Lagðar áherslur um framkvæmdir og forgangsröðun, tímasetningar, verkaðferðir, efnisval o.fl.

Samþykkt samhljóða.

Gestir

  • Ólafur Ólafsson, íþrótta- og tómstundafulltrúi - mæting: 09:14
  • Fannar Þór Þorfinnsson, byggingarfulltrúi - mæting: 08:30
  • Kristín Þorleifsdóttir, sviðsstjóri/skipulagsfulltrúi - mæting: 08:30

Hafnarstjórn - 4. fundur - 23.01.2023

Lagt fram yfirlit hafnarstjóra um helstu verkefni 2022 og 2023.
Einnig minnisblað af verkfundi hafnarstjóra og bæjarstjóra þann 18.01.2023.

Hafnarstjóri fór yfir helstu framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru á árinu, sbr. framlagt minnisblað hans og sbr. minnisblað bæjarstjóra um verkfund með hafnarstjóra þann 18. janúar sl.

Samþykkt að kanna með möguleika á reglulegum mælingum í sjó og mælingum loftgæða á hafnarsvæði. Í vinnslu.

Rætt var sérstaklega um áform um að setja upp WC-einingar fyrir gesti á hafnarsvæði fyrir komandi sumar. Hafnarstjóri hefur skoðað valkosti varðandi leigu á húseiningum með salernum, þannig að bjóða megi gestum skemmtiferðaskipa uppá slíka aðstöðu.

Hafnarstjórn felur hafnarstjóra og bæjarstjóra umboð til að undirbúa og sjá um að slíkar einingar verði settar upp fyrir komandi sumar.

Bæjarráð - 600. fundur - 01.02.2023

Nokkrar framkvæmdir skv. fjárhagsáætlun ársins 2023 teknar til umræðu.

Kristín Þorleifsdóttir sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs er áfram gestur undir þessum lið fundarins.

Ólafur Ólafsson íþrótta- og tómstundafulltrúi sat fundinn vegna umræðu um þarfagreiningu v/hönnunar sundlaugargarðs.

a) Tengigangur milli íbúðanna á Hrannarstíg 18 og Dvalar- og hjúkrunarheimilisins Fellaskjóls:

Fyrir liggur kostnaðaráætlun byggingarfulltrúa dags. 27. jan. 2023.
Áætlunin nú er hærri en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun ársins.

Í samantekt byggingarfulltrúa er gert ráð fyrir eftirfarandi verkþáttum:
a) rif klæðningar (þak og útveggir)
b) frágangur utanhúss
c) frágangur innanhúss

Áætlunin felur í sér að fjarlægja núverandi útveggjaklæðningu, þakklæðningu og klæða húsið (tengiganginn) upp á nýtt. Einnig að rífa klæðningu að innan þar sem hún er skemmd á köflum. Ekki er vitað um ástand burðarvirkis og því gert ráð fyrir ófyrirséðum kostnaði. Gert er ráð fyrir píparavinnu þar sem ofnar og ofnalagnir eru utanáliggjandi og þarf að taka niður fyrir rif klæðningar að innan og setja aftur upp. Yfirfara þarf einnig rafmagnið þegar loftaklæðning verður fjarlægð. Áætlunin gerir ráð fyrir kostnaði við að flota gólfið og kostnaði við gólfefni.

Rætt um endurbætur á tengiganginum og valkosti. Lagt til að skoðuð verði önnur úrlausn eða efnisval við tengingu milli bygginganna. Bæjarstjóra og umhverfis- og skipulagssviði falið að fá kostnaðaráætlun á þá úrlausn, í samræmi við umræður fundarins og leggja fyrir bæjarráð/bæjarstjórn til skoðunar.

Bæjarráð gerir ráð fyrir að leitað verði verðtilboða í þetta verk og að framkvæmd fari fram í vor/sumar. Til frekari umræðu og ákvörðunar síðar.

b) Þarfagreining fyrir sundlaugargarð: drög íþrótta- og tómstundafulltrúa lögð fram til umræðu, auk þess upplýsingar um ýmsar útfærslur á saunaklefum.

Farið yfir drögin og rætt um þá framkvæmdaþætti sem hafa þarf í huga þegar sundlaugargarður er skipulagður til framtíðar. Til frekari úrvinnslu og frágangs.

Rætt um framkvæmdir sem hafa staðið yfir í íþróttahúsinu. Fram kom að búið er að skipta um gólfefni, að taka niður loft og skipta um lýsingu. Jafnframt kom fram hjá Ólafi að hljóðvist hafi batnað við þessar framkvæmdir, að hans mati.

Ólafur vék af fundinum.

c) Hönnunargögn fyrir frágang malbikaðra gangstétta við Hrannarstíg og víðar. Landslag, arkitektastofa, hefur unnið að útfærslu á frágangi malbikaðra gangstétta og hefur skipulagsfulltrúi haft umsjón með verkinu.

Sviðsstjóri/skipulagsfulltrúi fór yfir glæný gögn um verkið og rætt um framkvæmdina.

Bæjarráð samþykkir að áfram verði unnið með Landslagi að hönnun blágrænna lausna við Hrannarstíg og Borgarbraut. Tillögurnar verða kynntar fyrir íbúum. Fyrirkomulag á frágangi í Sæbóli og undirbúningur framkvæmda í miðbæ eru sömuleiðis á dagskrá.

Samþykkt samhljóða.

Kristín vék af fundinum og var henni þakkað fyrir komuna og upplýsingar.

Gestir

  • Ólafur Ólafsson, íþrótta- og tómstundafulltrúi
  • Kristín Þorleifsdóttir, sviðsstjóri

Íþrótta- og tómstundanefnd - 107. fundur - 01.02.2023

Farið var yfir fyrirhugaðar framkvæmdir við íþróttamannvirki á árinu 2023.
Ólafur fór yfir framkvæmdir við íþróttamiðstöð á árinu 2023 og kynnti stöðu þeirra. Nú hefur verið skipt um gólfefni í anddyri og á gangi íþróttahúss, loft hefur verið tekið niður með loftaplötum og ný lýsing er að hluta til komin upp. Búið er að panta nýjar skóhillur og snaga. Von er á málurum mjög fljótlega og skoðað verður með viðbótarefni á veggi. Að mati Ólafs hefur hljóðvist batnað með þessum framkvæmdum.

Gluggar eru komnir í tengigang milli íþróttahúss og grunnskóla, og bíða þeir þess að veður leyfi gluggaskipti. Þak tengigangs var endurnýjað sl. sumar/haust.

Fyrir liggur nú greinargerð hljóðvistarsérfræðings frá Eflu, um hljóðvist í íþróttasal og verður unnið úr henni í framhaldinu.

Íþrótta- og tómstundafulltrúi kynnti drög að þarfagreiningu fyrir sundlaugargarð sem hann hefur unnið. Drögin voru lögð fram til umræðu, en þau voru einnig til kynningar og umræðu í bæjarráði fyrr um daginn.

Góðar umræður fóru fram.

Bæjarráð - 601. fundur - 02.03.2023

Lögð fram úttekt Eflu á hljóðvist í íþróttahúsi.
Farið yfir úttekt Eflu.

Til áframhaldandi vinnslu.

Bæjarráð - 602. fundur - 28.03.2023

Fyrir fundinum lágu ýmis gögn tengd framkvæmdum á tjaldsvæði, sundlaugargarði, kaupum á saunabaði, gatnagerð, malbikun og gangstéttum.

Ólafur Ólafsson, íþrótta- og tómstundafulltrúi, sat fundinn undir þessum lið, að hluta. Farið yfir framkvæmdir tengdar tjaldsvæði og sundlaugargarði. Einnig rætt um saunabað. Fyrir fundinum lágu upplýsingar um það.

Á tjaldsvæðinu þarf að bæta við rafmagnstenglum og endurnýja salerni. Bæjarráð samþykkir að bæta salernismál á tjaldsvæðinu, bæði í „gryfju“ og á „ferningi“ í samræmi við umræður fundarins. Íþrótta- og tómstundafulltrúa og bæjarstjóra falið umboð til að finna úrlausn á þessu máli. Jafnframt samþykkt að þegar tillögur liggja fyrir verði gerður viðauki við fjárhagsáætlun, sem lagður verði fyrir bæjarstjórn.

Bæjarráð samþykkir val á sauna og sömuleiðis endurnýjun kalda karsins í samræmi við hugmyndir íþrótta- og tómstundafulltrúa.

Skv. upplýsingum Ólafs hefur orðið um og yfir 50% aukning á aðsókn sundlaugargesta, í janúar til mars, eftir að sundlaugin/pottar voru auglýst opin á skólatíma.

Rætt um framkvæmdir íþróttahúss utanhúss og um hljóðvist innanhúss, sbr. úttektarskýrslu Eflu. Tillaga nr. 1, skv. kostnaðaráætlun Eflu frá 21. febrúar 2023, samþykkt.

Rætt var um hraðhleðslustöðvar og mögulegar staðsetningar.

Ólafi var þakkað fyrir komuna og inn á fundinn kom Kristín Þorleifsdóttir, sviðsstjóri/skipulagsfulltrúi.

Kristín lagði til ákveðna vinnu sem rýni til undirbúnings gangstéttagerð. Farið yfir hönnunarteikningar sem Landslag hefur hannað fyrir bæinn. Gangstéttarhellur yrðu sérstaklega hannaðar.

Valgeir Magnússon, verkstjóri áhaldahúss, og Hafsteinn Garðarsson, hafnarstjóri, komu inn á fundinn.

Farið yfir þörf fyrir gatnagerð, malbikun og fleiri framkvæmdir. Kristín sýndi hönnun kantsteina m.t.t. öryggis, blágrænna lausna og veðurfars. Hönnunin byggir á grunni hönnunar VSB sem gerð var með tilliti til umferðaröryggis.

Rætt um frekari hönnun á gangstéttum og möguleika á hellulögn og malbikun. Einnig rætt um skipulag miðbæjarins og forgangsverkefni, s.s. gangstétt á Hrannarstíg við Sólvelli.

Rætt um skipulag á hafnarsvæði og mögulega salernisaðstöðu. Einnig rætt um geymslusvæðið og gámasvæðið, þar með um staðsetningu gróðurgáms. Bæjarráð samþykkir að gróðurgámur verði staðsettur á gámastöð. Bæjarstjóra/skrifstofustjóra falið að ræða við fulltrúa Íslenska gámafélagið um framkvæmdina.

Kristín fór yfir stöðu á vinnu við deiliskipulag iðnaðarsvæðis við Kvernár, og við hafnarsvæði og Framnes.

Kristínu, Valgeiri og Hafsteini var þakkað fyrir komuna á fundinn.

Bæjarráð samþykkir fyrirhugaðar gangstéttarframkvæmdir og malbikun hjá dvalarheimili, Smiðjustíg og Hrannarstíg við Sólvelli og Nesveg.

Fram kom hjá Valgeiri, sem jafnframt er slökkviliðsstjóri, að brýn þörf sé á að kaupa bíl fyrir slökkviliðið í staðinn fyrir Ford bifreiðina, sem tekin verður úr notkun. Samþykkt umboð til slökkviliðsstjóra og bæjarstjóra til að gera ráðstafanir um bílakaup skv. umræðum fundarins. Bæjarráð leggur til tilfærslu milli fjárfestingaliða eða gerð viðauka við fjárhagsáætlun, eftir atvikum.

Samþykkt samhljóða.

Gestir

  • Hafsteinn Garðarsson, hafnarstjóri - mæting: 10:20
  • Valgeir Magnússon, verkstjóri áhaldahúss - mæting: 10:20
  • Ólafur Ólafsson, íþrótta- og tómstundafulltrúi - mæting: 08:52
  • Kristín Þorleifsdóttir, skipulagsfulltrúi - mæting: 10:06

Bæjarráð - 604. fundur - 28.04.2023

Farið yfir framkvæmdaverkefni tengd tjaldsvæði, skólalóð, gatnagerð, sem og önnur framkvæmdaverkefni.

Bæjarstjóri og íþrótta- og tómstundafulltrúi skoðuðu nýlega salernisgám til kaups fyrir tjaldsvæðið, sbr. framlagðar ljósmyndir. Bæjarráð samþykkir kaup á gámnum skv. fyrirliggjandi tilboði.

Fyrir fundinum lágu tillögur arkitekts um lóð grunnskóla og íþróttahúss, en vinnan er byggð á framlagi starfshóps, nemenda og starfsfólks.
Starfshópur um skólalóðina mun fara yfir tillögurnar og ljúka við tillögugerð í næstu viku.

Rætt um gatnagerð og gerð gangstíga. Kristín fór yfir vinnu sem Landslag, arkitektastofa, hefur unnið varðandi gangstétt/stíg á efri hluta Hrannarstígs í samræmi við aðalskipulag og fyrri tillögur um göngustíga/stéttir. Hún fór yfir þann hluta sem mögulegt væri að framkvæma á þessu ári. Rætt sérstaklega um hönnun fyrir neðri hluta Hrannarstígs, sem er hluti af „miðbæjarsvæði“ þar sem göngusvæði og göturými munu hafa annað útlit og efnisval. Tillögur um það svæði eru væntanlegar í næstu viku og verða til umræðu síðar.
Farið yfir forgangsröðun í framkvæmdum og sett niður gróft plan, sem bæjarráð mun staðfesta á næsta fundi.

SGG vék af fundi kl. 9:55. JÓK tók við stjórn fundarins.

Gestir

  • Kristín Þorleifsdóttir, sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs - mæting: 09:38

Hafnarstjórn - 6. fundur - 08.05.2023

Hafnarstjóri fór yfir helstu framkvæmdir ársins og þær sem í gangi eru núna.

- Viðgerð á elsta hluta stálþils á Norðurgarði er um það bil hálfnuð. Köfunarþjónustan var lægstbjóðandi í verðkönnun sem Vegagerðin sá um fyrir Grundarfjarðarhöfn.

- Búið er að steypa 380 m2 vegna viðgerðar á þekju Norðurgarðs. Eftir er að steypa um 320 m2, frammi við ísverksmiðjuna, og verður það unnið samhliða lagnavinnu á því svæði.

- Farið var í endurnýjun á kanttré á nýju lengingunni á Norðurgarði, en galli var í timbrinu og var því þess vegna skipt út og brúnir rúnnaðar af.

- Búið er að koma upp þjónustuhúsi með salernum, sunnan við vigtarhús, sem ætluð eru fyrir gesti skemmtiferðaskipa. Um er að ræða 20 feta gámaeiningu sem leigð er yfir sumarið.

- Ný hafnarvog kemur í vikunni en fest voru kaup á henni á síðasta ári. Mun þjónustuaðili hafnarinnar skipta þeirri gömlu út fyrir nýja.

- Höfnin hefur jafnframt fest kaup á stórum fríholtabelgjum (big fenders) sem ætlaðir eru fyrir skemmtiferðaskip og eru þeir komnir.

- Verið er að mála og sinna ýmsum öðrum viðhaldsverkefnum.

Bæjarráð - 605. fundur - 26.05.2023

Sif Hjaltdal Pálsdóttir, landslagsarkitekt hjá Landslagi, sat fundinn undir þessum lið á fjarfundi, þ.e. vegna umræðu um endurbætur í Hrannarstíg.

Lögð fram vinnutillaga Sifjar/Landslags að útfærslu gangstíga á Hrannarstíg, frá Nesvegi og að Grundargötu. Rætt um fyrirkomulag í götu, efnisval og áfangaskiptingu verksins.

Lagt til að farið verði í áfanga 1 og 2 á árinu. Áfangi 1 felur í sér endurbætur á gangsvæði meðfram bílaþvottaplani og leikskólalóð.

Samþykkt samhljóða.

Rætt um ástand á malbiki í götunni Fagurhól, við og útfrá kirkjunni, en malbikið er farið að láta á sjá. Samþykkt að óska eftir upplýsingum frá Veitum ohf. um ástand vatnslagnar á svæðinu, þannig að endurnýjun vatnslagnar og endurbætur á yfirlögn geti farið saman, þegar að því kemur.

Bæjarráð ræddi almennt um ástand malbiks/malbiksviðgerða eftir framkvæmdir í götum á vegum ýmissa aðila. Bæjarráð vill skerpa á því verklagi að framkvæmdaaðilum sé gert að vanda frágang og viðgerðir þegar þurft hefur að framkvæma í götum.

Samþykkt samhljóða.

Einnig rætt um afmörkun malbikaða gangstígsins/stéttar í Sæbóli. Sviðsstjóra umhverfis- og skipulagssviðs falið að hrinda í framkvæmd afmörkun gangstígs/stéttar frá götu til bráðabirgða, á meðan endanlegum frágangi er ekki lokið.

Samþykkt samhljóða.

Rætt um bílakaup fyrir áhaldahús, en í fjárhagsáætlun 2023 er gert ráð fyrir endurnýjun á Toyota Hiace bifreið árgerð 2006. Bæjarstjóri gerði grein fyrir valkostum í bílakaupamálum. Bæjarráð telur í ljósi þeirra valkosta sem standa til boða, að skynsamlegt sé að bæta við fjárheimild ársins til bílakaupa.
Bæjarstjóra veitt umboð til bílakaupa í samræmi við umræður fundarins. Gerður verði viðauki við fjárhagsáætlun vegna kostnaðarauka.
Samþykkt samhljóða.

Gestir

  • Sif Hjaltdal Pálsdóttir - mæting: 09:00

Skipulags- og umhverfisnefnd - 249. fundur - 05.06.2023

Lögð fram til kynningar vinnslutillaga Landslags vegna hönnunar Hrannarstígs frá Grundargötu að Nesvegi.

Málið var tekið fyrir á fundi bæjarráðs 26. maí sl. og var m.a. rætt um fyrirkomulag í götu, efnisval og áfangaskiptingu verksins. Lagt var til að farið verði í áfanga 1 og 2 á árinu en í fyrsta áfanga verður farið í endurbætur á gangsvæði meðfram bílaþvottaplani og leikskólalóð.

Bæjarráð - 606. fundur - 28.06.2023

Sif Hjaltdal Pálsdóttir, ráðgjafi frá Landslagi, er gestur undir þessum lið í tengslum við hönnun gangstígs á neðanverðum Hrannarstíg og undirbúning verkframkvæmda.
Á síðasta fundi bæjarráðs var lögð fram vinnutillaga Sifjar/Landslags að útfærslu gangstétta á neðanverðum Hrannarstíg, þ.e. frá Grundargötu niður að Nesvegi. Samþykkt var að setja í forgang endurbætur á gangstétt meðfram bílaþvottaplani og leikskólalóð, og síðan niður að Nesvegi.

Lögð eru fram viðbótarvinnugögn frá Sif og kostnaðarútreikningar með samanburði á valkostum varðandi steypu/hellulögn og samanburð kostnaðar m.v. áfangaskiptingu verks. Rætt um tengsl blágræns svæðis og niðurfalla á framkvæmdasvæðinu.

Bæjarráð samþykkir að gera ráð fyrir steyptri, bogadreginni gangstétt og aðliggjandi gróðursvæði í samræmi við hönnun Landslags. Ennfremur, að framkvæmd kaflans meðfram bílaþvottaplani og að horni leikskóla við Sólvelli verði unnin sem heild.
Samhliða verði undirbúin endurnýjun götulýsingar og þá skoðað með staðsetningu staura.

Bæjarstjóra og sviðsstjóra umhverfis- og skipulagssviðs falinn áframhaldandi undirbúningur.

--

Malbikun Akureyrar verður með malbikunarframkvæmdir/stöð á Snæfellsnesi frá 23. júlí og fram að verslunarmannahelgi. Fyrirhugaðar framkvæmdir hafa þegar verið ræddar í bæjarráði.

Gestir

  • Sif Hjaltdal Pálsdóttir frá Landslagi - mæting: 10:10

Hafnarstjórn - 7. fundur - 18.07.2023

Hafnarstjóri fór yfir helstu framkvæmdir ársins og þær sem í gangi eru núna.

- Viðgerð á elsta hluta stálþils á Norðurgarði er lokið, en Köfunarþjónustan vann verkið, í samræmi við boð skv. verðkönnun sem fram fór.

- Búið er að steypa um 1000 m2 vegna viðgerðar á þekju Norðurgarðs. Eftir er að steypa um 320 m2, frammi við ísverksmiðjuna, og verður það unnið samhliða lagnavinnu á því svæði.

- Áður var lokið við endurnýjun á kanttré á nýju lengingunni á Norðurgarði, en galli var í timbrinu og var því þess vegna skipt út og brúnir rúnnaðar af, sbr. umræður á síðasta fundi hafnarstjórnar.

- Í vor var komið upp þjónustuhúsi með salernum, sunnan við vigtarhús, fyrir gesti skemmtiferðaskipa. Um er að ræða 20 feta gámaeiningu sem leigð er yfir sumarið.

- Ný hafnarvog var sett upp í júní.

- Höfnin keypti og hefur tekið í notkun (maí sl.) stóra fríholtabelgi (big fenders), notaðir sem fríholt fyrir skemmtiferðaskip.

- Verið er að skipta út öllum eldri bryggjuljósum (lömpum) og setja Led-lýsingu í staðinn, alls 12 lampa. Í nýju ljósin/lampana á Norðurgarði var áður búið að setja upp Led-lýsingu.

- Fyrr á árinu var unnið að endurbótum á aðstöðu starfsmanna (skrifstofa) í hafnarhúsi.

- Unnið hefur verið að því að mála og sinna ýmsum öðrum viðhaldsverkefnum.

Bæjarráð - 607. fundur - 19.07.2023

Farið yfir helstu framkvæmdaverkefni bæjarins sem í gangi eru eða eru fyrirhuguð:

- Malbikun 2023:

Malbikun Akureyrar verður með malbikunarstöð á Snæfellsnesi frá 23. júlí og fram að verslunarmannahelgi, og síðan aftur um miðjan ágúst.

Lögð fram samantekt bæjarstjóra á fyrirhuguðum malbikunarframkvæmdum, sem hafa nú þegar verið ræddar í bæjarráði.

Bæjarráð óskar eftir að bætt verði við malbikunarframkvæmdirnar gangstétt efst á Hrannarstíg, vestan megin í götunni. Með því næðist að ljúka tengingu gangstétta eftir öllum Hrannarstíg, sem skilgreindur er sem ein megingöngugata bæjarins og er í forgangi varðandi gangstéttarframkvæmdir.
Um er að ræða gangstétt frá aðkomu inná lóð Fellaskjóls og að botnlanga að Hrannarstíg 28-40 og tengingu þaðan og að gangbraut við Ölkelduveg.
Bæjarstjóra falið að kanna möguleika á að hrinda þessu í framkvæmd, með undirvinnu og tilheyrandi frágangi.

- Hrannarstígur; endurnýjuð/steypt gangstétt og tilheyrandi svæði:

Lögð fram ný gögn frá Sif Hjaltdal Pálsdóttur hjá Landslagi, en bæjarráð hafði áður samþykkt að gera ráð fyrir steyptri, bogadreginni gangstétt og aðliggjandi gróðursvæði í samræmi við hönnun Landslags.
Um er að ræða framkvæmd við kafla frá aðkomu að Kjörbúðinni, meðfram bílaþvottaplani og að horni leikskóla við Sólvelli, sem verði unnin sem heild. Bæjarstjóra og skipulagsfulltrúa/sviðsstjóra falið að vinna áfram að undirbúningi.

- Skiltamál innanbæjar, áfangi 1 af fleirum:

Uppsetning leiðbeinandi merkinga innanbæjar er á döfinni. Settir verða upp vegprestar með skiltum og vegvitar með merkingum, sem vísa á helstu þjónustu og áningarstaði. Unnið hefur verið að undirbúningi í sumar og hefur Ríkey Konráðsdóttir, verkefnisstjóri/sumarstarfsmaður, haft umsjón með verkinu. Haft hefur verið samband við þjónustufyrirtæki í bænum, sem taka þátt í merkingunum. Stuðst er við handbók um skilti í náttúru Íslands, Vegrún - eða godarleidir.is, og útfært innanbæjar með bláa lógó-lit Grundarfjarðarbæjar sem grunnlit á skiltum. Uppsetning skiltanna fer fram í haust.

Annar áfangi er endurnýjun skiltanna tveggja við bæjarmörkin, þar sem sett verða tví- eða þrískipt þjónustu- og upplýsingaskilti, en einnig varúðarskilti (Kirkjufell). Verður það einnig gert í samræmi við skiltahandbókina Vegrún.

Endurnýjun fleiri skilta og merkinga verður skoðuð í framhaldi af fyrstu tveimur áföngunum.

- Leiksvæði innanbæjar:

Komið hafa fram óskir um að bæta úr aðstöðu fyrir mjög ung börn á leiksvæðum bæjarins, þ.e. að kallað er eftir fleiri leiktækjum fyrir yngstu börnin á leiksvæðum utan Leikskólans. Bæjarstjóri hefur m.a. átt fund og verið í sambandi við foreldra um þetta.
Æskilegt er að bæta við leiktækjum fyrir ung börn, einkum á Hjaltalínsholti og í Þríhyrningi. Á leiksvæði á Hjaltalínsholti þarf einnig að skipta út og/eða endurbæta hluta leiktækja. Bæjarstjóra falið að skoða valkosti.

Bæjarráð - 609. fundur - 06.09.2023

Lagðar fram teikningar sem sýna breytta legu götunnar Hjallatúns, unnar af Eflu, sbr. umræður í bæjarráði sl. vor.

Kristín Þorleifsdóttir, skipulagsfulltrúi, kom inn á fundinn gegnum síma undir þessum lið.

Hún fór yfir stöðu deiliskipulagsverkefna sem eru í gangi. Deiliskipulagsbreyting iðnaðarsvæðis við Kverná er í lokameðferð hjá Skipulagsstofnun, komin er tillaga að breyttri hæð í götunni Hjallatúni, deiliskipulag hafnarsvæðis er langt komið og deiliskipulag Framness er áfram í vinnslu.

Gestir

  • Kristín Þorleifsdóttir, skipulagsfulltrúi - mæting: 10:41

Skipulags- og umhverfisnefnd - 251. fundur - 19.09.2023

Lagt fram til kynningar hönnun á neðri hluta Hrannarstígs sem gönguvænni miðbæjargötu, sbr. afgreiðslu bæjarráðs á fundum í sumar.
Lagt fram til kynningar.

Bæjarráð - 614. fundur - 16.11.2023

Farið yfir stöðu helstu framkvæmdaverkefna.

Bæjarstjóri sagði frá verkefnastöðu helstu framkvæmdaverkefna.